25.02.1975
Neðri deild: 46. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1878 í B-deild Alþingistíðinda. (1508)

168. mál, ráðstafanir vegna snjóflóða í Norðfirði

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Þegar fyrrv. hæstv. ríkisstj. tók við völdum sumarið 1971 urðu mikil tímamót í sögu íslenskra efnahagsmála og íslenskra stjórnmála. Þá tóku við stjórnartaumum á Íslandi valdaþyrstir menn eftir 12–13 ára stjórnarandstöðu, og þess sáust brátt greinileg merki.

Sumarið 1971 hafði þeirri ríkisstj., sem áður hafði setið að völdum í meira en áratug, tekist að sigrast á einhverjum mestu efnahagsörðugleikum sem til þess tíma höfðu dunið yfir íslensku þjóðina, þ.e.a.s. þegar það gerðist í senn að síldin hvarf af Íslandsmiðum algerlega á tveimur árum og meiri verðlækkun varð á aðalmarkaði íslendinga fyrir útfluttar sjávarafurðir, Bandaríkjamarkaði, en nokkurn tíma hafði orðið áður. Þetta tvennt: hvarf síldarinnar og verðlækkunin á Bandaríkjamarkaði, skerti útflutningstekjur þjóðarinnar á tveim árum um milli 45 og 50%. Annað eins hafði aldrei áður gerst í efnahagssögu þjóðarinnar, ekki einu sinni á árum heimskreppunnar miklu eftir 1930.

Þessi skyndibreyting á efnahagsstöðu þjóðarinnmar olli miklum erfiðleikum, atvinnuleysi og kjararýrnun. En við þeim var snúist með skynsamlegum og róttækum, en að vísu harðhentum ráðstöfunum, sem voru óhjákvæmilegar og játað var hreinskilningslega að væru nauðsynlegar. Það tókst að sigrast á erfiðleikunum á tveimur árum, þannig að þegar leið á árið 1970 var augljóst að erfiðleikatímabili var lokið, atvinnuleysið var horfið og kjör þjóðarinnar voru aftur farin að batna. En almenningi var það e.t.v. ekki jafnljóst og þeim, sem fylgdust náið með æðaslögum íslensks efnahagslífs.

Þegar fyrrv. ríkisstj. settist að völdum var góðæri þegar fyrir nokkru greinilega hafið, þannig að öllum mátti vera ljóst að svo var. Þess vegna var eðlilega ríkjandi mikill fögnuður í herbúðum þeirra manna og þeirra flokka sem þá tóku við völdum. Þá hófst hin mikla og fræga veisla, sem mikið og rækilega var lýst á sínum tíma og mikið var um rætt meðan á valdatíma þessarar ríkisstj. stóð. En engin veisla í íslenskri efnahagssögu né íslenskri stjórnmálasögu hefur endað með öðrum eins ósköpum og þessi veisla. Og eftir enga aðra veislu hefur þjóðin fengið annan eins höfuðverk og þá veislu sem efnt var til sumarið 1971.

Á stjórnmálasviðinu voru afleiðingar þess, sem gerðist á stjórnarferli fyrrv. ríkisstj., þær að aðalsigurvegari kosninganna 1971, sá flokkurinn sem raunverulega hafði gert myndun þessarar ríkisstj. mögulega, SF, klofnaði í rætur, klofnaði algerlega, leystist svo að segja upp, enda galt hann mikið afhroð í síðustu kosningum, missti 3 af 5 þm. sínum, meira en helming þingliðs síns.

Það gerðist jafnframt í lok veislunnar, að hluti af Framsfl. klauf sig frá honum, hreyfing, sem kennt hafði sig við Möðruvelli, lýsti opinberri andstöðu við forustu Framsfl. Í þessum hópi voru ýmsir af hinum yngri forustumönnum framsóknarmanna, jafnvel heil samtök úr röðum Framsfl. Þeir reyndust að vísu ekki hafa það fylgi sem þeir sjálfir héldu að þeir hefðu þannig að hreyfingin misheppnaðist algerlega, en engu að síður, hún var liður í lokum veislunnar miklu, sem stóð frá 1971–1974.

Og í veisluglaumnum, í veislufagnaðinum kom upp mikið sundurlyndi innan Alþb. Alþb. stóð nú að því í fyrsta skipti í sögu sinni að breyta gengi oftar en einu sinni og horfa á gengissig — stöðugt gengissig — á öllum síðari hluta valdaferils síns. Alþb. stóð að kaupbindingu í fyrsta skipti í sögu sinni. Og það kom í ljós að Alþb. var klofið í rót í afstöðu sinni til grundvallaratriða varðandi utanríkisviðskipti að því er snertir afstöðu til Efnahagsbandalagsins annars vegar og þó engu síður að því er varðar samstarfið við erlent fjármagn hins vegar, sbr. hina frægu deilu um málmblendiverksmiðjuna. M.ö.o.: Alþb. hafði það líka upp úr þátttöku í þessum veislufagnaði, að innviðir þess riðuðu. Það kom í ljós sundurlyndi, það kom í ljós ólík afstaða til grundvallaratriða stjórnmála og efnahagsmála í Alþb. Og sá ágreiningur helst enn, þótt nú sé hægt að breiða yfir hann, af því að Alþb. er í stjórnarandstöðu. Það var ekki hægt meðan Alþb. var innan ríkisstj., enda þýðir ekkert að þræta fyrir þennan ágreining núna, þótt flokkurinn sé í stjórnarandstöðu, hann kom svo skýrt í ljós og er svo vel staðfestur frá stjórnarárum flokksins.

En niðurstaðan af þriggja ára stjórnarferli þessara þriggja flokka var sú á efnahagssviðinu í fyrsta lagi, að það tókst að setja Evrópumet í verðbólgu. Hún var 1974, þegar stjórnin gafst upp, 43%, - Evrópumet í verðbólgu fyrsta niðurstaðan. Önnur niðurstaðan varð sú, að á þessu ári, þegar stjórnin fór frá nam viðskiptahalli 16 milljörðum kr. eða hvorki meira né minna en 12% af þjóðarframleiðslunni. Ringulreiðin og stjórnleysið í peningamálum var slíkt, að útlán banka jukust um 48%, samtímis því sem aukning spariinnlána nam 26% og útlán fjárfestingarsjóða jukust um 53%, — algert stjórnleysi í peningamálum. Og ekki var það betra í ríkisfjármálunum. Á þessu viðskilnaðarári fyrrv. ríkisstj. versnaði staða ríkissjóðs gagnvart Seðlabankanum um hvorki meira né minna en 3 700 millj. kr. Það var 3 700 millj. kr. raunverulegur greiðsluhalli hjá ríkinu, þegar fyrrv. ríkisstj. gafst upp. Viðskilnaðurinn var m.ö.o, þannig, að hann verður ekki nefndur öðrum nöfnum en upplausn, ringulreið, sukk.(Gripið fram í: Þm. gleymdi einu. Alþfl. rýrnaði um þriðjung.) Ég skal gjarnan koma að því á eftir. Ég á mikið ósagt við flokk hv. þm. í framhaldi að ræðu hv. 2, þm. Austf., sem er búinn að afhjúpa flokk sinn með svo furðulegum hætti að því mun ekki verða gleymt. Og þá skal koma svarið til þess hv. þm., sem kallaði núna fram í, og hann skal bara bíða rólegur. Það skal ekki verða skorið utan af því.

Fyrrv. ríkisstj. var byrjuð að káka við ráðstafanir í efnahagsmálum. Hún lækkaði gengið, bæði beint og óbeint, hún bannaði kauphækkanir o.s.frv. En — og það er mergurinn málsins, — hún tók ekki á grundvallarvandamálinu. Hún tók ekki á eyðslunni, hún stöðvaði ekki eyðsluna, hún stöðvaði ekki sukkið. Hún tók ekki fyrir rætur verðbólgunnar. Hún reyndi ekki að stöðva fjárfestingaræðið, sem jafnan fylgir svo geigvænlegri verðbólgu sem hún hafði efnt til. M.a. þess vegna missti fyrrv. ríkisstj. meiri hl. sinn.

Af þessu er auðvitað ljóst, að núv. ríkisstj. tók ekki við blómlegu búi eins og fyrrv. ríkisstj. En hvað gerir hún? Hún heldur áfram sömu stefnu og fyrrv. ríkisstj. Það sést engin stefnubreyting, ekki á neinu sviði. Hún kákar við gengisbreytingar og aukaráðstafanir og heldur kaupgjaldinu föstu, en hún tekst ekki á við grundvallarvandann. Hún ræðst ekki gegn eyðslunni og sukkinu. Hún stöðvar ekki fjárfestingaræðið. Hún ræður ekki við verðbólguna. Þess vegna er allt í áframhaldandi sama öngþveiti og það var á síðustu árunum sem fyrrv. ríkisstj. var við völd. Það hefur engin raunveruleg breyting orðið. Það virðist vera Framsfl., sem ræður ferðinni enn, en hann réð ferðinni í samráði við Alþb. í fyrrv. ríkisstj. — Ég skal ekki segja raunar, að annar beri meiri ábyrgð á ófremdarástandinu heldur en hinn, auðvitað gena þeir það báðir, en stefnubreyting hefur engin orðið. Það er mergurinn málsins, og það er það sem ber að harma.

Greinilegasta dæmið um að ekki hefur orðið stefnubreyting er það, að ekki örlar á viðleitni til sparnaðar. Það örlar ekki á viðleitni til sparnaðar á einu eða neinu sviði, þó að ástandið sé eins og það hefur verið, þó að ríkissjóður hafi verið rekinn með upp undir 4000 millj. kr. raunverulegum halla á s.l. ári. Sem dæmi um þetta dettur mér í hug að nefna, að í þessu húsi sitja 60 alþm. á launum sem ýmsum þykja alveg nógu há, og skal ég ekki ræða það mál að þessu sinni. En í öðru húsi hér í miðbænum sitja 25 menn á búnaðarþingi. Þessir 25 þm., sem á búnaðarþingi sitja, fá laun úr ríkissjóði meðan á búnaðarþinginu stendur, sömu laun og þm., og fá greiddan ferðakostnað á þingið eins og þm. M.ö.o.: nú sitja hér á Alþ. tveir hópar manna, 60 manna raunverulegir þm. á þingmannslaunum og 25 búnaðarþingsmenn á þingmannslaunum og ferðakostnaði þm. Þessi siður mun hafa tíðkast um mörg undanfarin ár að því er snertir búnaðarþing og fiskiþing, þessi tvö þing. Hins vegar er ekki svo um þing iðnaðarmanna, Alþýðusambandsins eða versdunarmanna eða nein önnur slík þing. Þessi tvö þing hafa með einhverjum hætti fengið að njóta algerrar sérstöðu meðal stéttarþinga þjóðarinnar. Ég hef áður vakið athygli á þessu opinberlega og lýst óánægju og gagnrýni minni á þessu fyrirkomulagi, en á það hefur ekki verið hlustað, þegar ég hef vakið máls á því, og því hygg ég að sami háttur gildi um þetta enn. En hér er auðvitað eitt dæmi af ótalmörgum sem hægt væri að nefna, þar sem hægt væri að spara og auðvitað ætti að spara. Þetta er ósiður sem aldrei hefði átt að komast á. En fyrst hann komst á, þá á að nota fyrsta tækifærið til þess að afnema hann. Nú var tækifærið til að afnema annað eins og þetta. Mörg fleiri dæmi eins og þetta væri hægt að nefna ef tími væri talinn til í þessum umr. En það getur beðið til annars og betri tíma. Dæmi er þetta og annað ekki.

En samtímis því sem ríkisstj. hefst ekkert að til þess að veita gott fordæmi að því er varðar sparnað, þá er þróun kjaramála uggvænleg, hún er beinlínis uggvænleg. Á tímabilinu frá því að kjarasamningar voru gerðir í febrúarlok 1974 til loka þess árs var raunveruleg kjararýrnun hjá þeim launþegum, sem fengu fyllstu láglaunabætur, 13%, en hinum, sem engar láglaunabætur fengu, um 23%. Á þessu ári hefur verðhækkun orðið sem svarar til þess að kjararýrnun hafi enn orðið á bilinu 4–5%. Nýlega hefur gengið verið lækkað, stjórnvöld viðurkenna sjálf að það jafngildi um 6–8% kjararýrnun. M.ö.o.: frá því kjarasamningar voru síðast gerðir hefur orðið raunveruleg kjararýrnun um 25% hjá þeim, sem hafa fengið láglaunabætur. Hún hefur orðið um þriðjungur hjá þeim, sem engar láglaunabætur hafa fengið. Nú skal ég að vísu fúslega viðurkenna að reikningslegi kaupmátturinn, sem útreikningar sýndu eftir kauphækkunina í febrúarlok 1974, var ekki raunverulegur. Það var ekki raunverulegur kaupmáttur og ekki raunveruleg kauphækkun sem þá var samið um. Tölurnar um reikningslegan kaupmátt voru rangar og eru rangar, og að því leyti má segja að þegar reiknuð er út kjararýrnun sem miðuð er við það að sá kaupmáttur hafi verið raunverulegur, þá séu tölurnar ýktar, þær séu of háar. Þetta ber fúslega að játa. En það er erfitt og ég skal enga tilraun gera til að slá neinu á það hvaða tala sé nákvæmlega rétt í þessum efnum. Mér er ljóst að þessar tölur, 25–33%, eru ýktar eða of háar, en hitt er jafnaugljóst, jafnrétt, að það hefur orðið mjög veruleg raunveruleg kjaraskerðing síðan kjarasamningarnir síðustu voru gerðir. Jafnframt hefur orðið mikil skerðing á viðskiptakjörum, hækkun á verðlagi innfluttrar vöru og lækkun á verðlagi útfluttrar vöru. Það hvarflar ekki að mér að andæfa því, að við horfum fram á versnandi kjör fyrir þjóðarheildina 1975, á þessu ári. Þjóðarheildin verður að sætta síg við það að hafa úr minna að spila á þessu ári en hún hafði í fyrra. Það væri að loka augunum fyrir staðreyndum að bera á móti slíku. Það hlýtur að' verða kjararýrnun í ár fyrir heildina að ræða, en spurningin er: Hversu mikil þarf hún að vera?

10. febr., þ.e.a..s. fyrir hálfum mánuði, sendi Þjóðhagsstofnunin frá sér merka skýrslu og það er nýjasta skýrslan sem um ástand þjóðarbúsins hefur verið gefin út af hálfu þeirra aðila sem að þeirri stofnun standa. Niðurstaða Þjóðhagsstofnunarinnar um horfur á árinu 1975 eru á næstsíðustu síðu skýrslunnar, þar sem niðurstöðurnar eru dregnar saman. Það er merkileg niðurstaða, sögð í skýru og ljósi máli, auðskildu hverju mannsbarni, og mig langar til — með leyfi forseta — að lesa þær setningar, þar sem Þjóðhagsstofnunin dregur saman spá sína um árið 1975. Helstu niðurstöðurnar verða þessar, segir í skýrslunni, að aukning þjóðarframleiðslu verði lítil sem engin (Forsrh.: Má ég vekja athygli hv. þm. á því, að ég las þessar niðurstöður upp í framsöguræðu varðandi efnahagsráðstafanir fyrir viku?) Já, já, ég bið afsökunar, það er alveg rétt. Ég þakka fyrir ábendinguna. Ég held samt sem áður að þm. hafi gott af að heyra þetta aftur því að svo merkileg er niðurstaðan, enda tekur ekki nema eina mínútu að lesa þessar fáu setningar. Mér þykir vænt um að hæstv. forsrh. hefur áður vakið athygli á þeim grundvallarniðurstöðum sem hér er um að ræða.

Vegna versnandi viðskiptakjara munu raunverulegar þjóðartekjur minnka um 3–5% í heild eða um 5–7% á mann. Það er þetta sem ég vil sérstaklega koma að á eftir og þess vegna er nauðsynlegt að minna á þær staðreyndir aftur. Við blasir að öllu óbreyttu mikill halli í viðskiptum við útlönd, 14–17 milljarðar kr. Jafnvel þótt reiknað sé með ítrustu lántökum erlendis virðist ókleift að jafna viðskiptahallann með þeim hætti. Í frumdrögum Seðlabankans að spá um fjármagnshreyfingar til og frá útlöndum er gert ráð fyrir að unnt verði að afla erlendra lána í þeim mæli að fjármagnsjöfnuðurinn skili í mesta lagi 91/2 milljarði kr. til að mæta viðskiptahallanum. Þar með væri stefnt í versnun gjaldeyrisstöðunnar um 5–8 milljarða á árinu. Um þessar mundir, í febrúarbyrjun, er gjaldeyriseignin þegar þorrin. Og að síðustu, grundvallarmisvægið milli heildarframboðs og eftirspurnar í hagkerfinu birtist inn á við í ýmsum myndum, í rekstrarhalla sjávarútvegs, fjármagnshalla hins opinbera og fjárvöntun til fyrirhugaðra framkvæmda og útlána.

Svo mörg voru þau orð. Það, sem ég vildi sérstaklega vekja athygli á í þessu sambandi, var einn liður þessarar niðurstöðu. Ég vil ekki taka hann út úr niðurstöðunni og láta segja á eftir: „Niðurstaðan, ekki í heild, heldur aðeins einn liður hennar.“ Þess vegna leyfði ég mér að endurtaka þetta. Það er annar liðurinn, að vegna versnandi viðskiptakjara muni raunverulegar þjóðartekjur minnka um 3–6% í heild eða um 5–7% á mann. Hvað felst í þessu? Þjóðhagsstofnunin segir: Það sem þarf að gerast á árinu, það sem mun gerast á árinu er það, að raunveruleg kjör versni um 5–7% á mann. Hvað vorum við að sjá áðan með því að bera saman kaupgjald og framfærsluvísitölu? Hvað hafa kjör rýrnað mikið undanfarið gagnvart því fólki sem er í Alþýðusambandinu og Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja? Skv. tölunum, eins og þær liggja fyrir, er kjararýrnunin hjá láglaunafólkinu 25%, hjá öðrum allt að 33%. Ég segi: þessar tölur eru auðvitað of háar. Ég skal ekki nefna neina aðra tölu sem ég tel vera réttari, en þetta eru margfaldar tölur. Í áætlun Þjóðhagsstofnunar segir að kjararýrnun þurfi að verða, og ég skal ekki bera á móti að hún þurfi að verða. Þetta er mergurinn málsins. Þessi niðurstaða kjararannsóknarstofnunarinnar þýðir m.ö.o., að það er hægt, ef vilji er fyrir hendi, að vernda hina lægst launuðu frá þeirri 5–7% meðaltalslækkun á kjörum, sem Þjóðhagsstofnunin segir að sé nauðsynleg. Það er hægt með því að láta þá, sem hafa háar tekjur — og þeir eru margir í íslensku þjóðfélagi — bera t.d. 7-10% kjaraskerðingu. Þá er jöfnuður fenginn. Það er hægt að vernda láglaumafólkið frá nauðsynlegri 5–7% meðaltalsskerðingu á kjörum með því að láta hálaunafólk bera t.d. 7–10 % skerðingu á kjörum. Það er þetta, sem auðvitað ætti að gera, en það er þetta sem hæstv. ríkisstj. vanrækir að gera. Hún hefur ekki hugað að þessum möguleika. En þetta eru staðreyndir sem sóttar eru í skýrslu þeirrar ágætu stofnunar, Þjóðhagsstofnunar Íslands.

Launþegasamtökin hafa haft fullkomlega ábyrga afstöðu til þessa vandamáls. Þeim er algerlega ljóst, að hækkun krónutölu kaupgjalds leysir engan vanda. Þau hafa líka lýst því yfir, að þeim er ljóst að vísitölukerfið þjónar ekki hagsmunum launþega til frambúðar, og lýst sig reiðubúin til að endurskoða það. En þau hafa bent á, að við verðum á árinu 1975 að slá skjaldborg um hag hinna lægst launuðu, og þau hafa bent á raunhæfar leiðir til þess aðrar en beina kauphækkun. Þau hafa óskað eftir lækkun á beinum sköttum sem næmi 2 500–3 000 millj. kr., sem mundi þýða raunverulegt afnám tekjuskatts hjá öllu venjulegu launafólki. Og það hefur beðið um auknar fjárveitingar til þess að auðvelda almenningi, einkum láglaunafólki, að eignast þak yfir höfuðið eða leiguhúsnæði með ódýrum hætti. En hvert hefur verið svar ríkisvaldsins? Skattahugmyndunum hefur verið hafnað. Það hefur verið sagt, að ríkisstj. væri reiðubúin til að lækka skatta, þá upphæð sem gert var ráð fyrir á fjárl., um einar 700 millj. kr., 1/4 af því sem alþýðusamtökin hafa farið fram á. Hver eru svörin á sviði húsnæðismálanna? Engin, engu hefur verið lofað, ekkert gefið í skyn, engin fyrirheit. Hins vegar hefur verið sagt, að það mundi verða tekið til athugunar að hækka láglaunabæturnar. Þetta eru svörin, sem fulltrúar launþegasamtaka hafa fengið fram til þessa dags frá stjórnvöldum, frá hæstv. ríkisstj.

En nú í dag kemur viðbótarsvar við þessum hóflegu og skynsamlegu till., viðbótarviðbrögð við þessari skynsamlegu og hógværu afstöðu launþegasamtakanna. Nú kemur hér till. um ekki aðeins að framlengja söluskattinn í 19 stigum, heldur hækka hann um eitt stig, þ.e.a.s. upp í 20%. Ég þykist viss um, að þetta munu launþegasamtökin, Alþýðusamband Íslands og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, skoða sem beina ógnun við sig. Það standa yfir samningar milli launþegasamtakanna og atvinnurekenda, og það hafa staðið yfir vinsamlegar viðræður, sem betur fer, á milli launþegasamtakanna og ríkisvaldsins. En nú kemur þetta innlegg í þessar viðræður, þ.e.a.s. það á að hækka söluskattinn um 1 stig. Áður en ég segi meira um þetta, þá spyr ég: Er þetta nauðsynlegt? Skyldi þetta vera nauðsynlegt?

Það var þegar orðið ljóst á s.l. ári, undir lok s.l. árs, að tjónið, sem varð í Vestmannaeyjum, væri meira en svo að hægt væri að bæta það að fullu með því að innheimta eitt söluskattsstig til ársloka 1974. Það var þegar orðið ljóst, og ég hygg að um það hefði náðst alger samstaða að framlengja söluskattinn, til þess að unnt væri að standa við allar skuldbindingar, sem orðið hefðu af Vestmannaeyjatjóninu. Ég hef hér fyrir framan míg plagg, þar sem stjórn Viðlagasjóðs lýsir skoðun sinni á því 11. des., með hverjum hætti væri hægt að leysa Vestmannaeyjavandann, og þessi skoðun er undirrituð af formanni stjórnar sjóðsins, Helga Bergs. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

11. des. 1974 — menn veiti því athygli: Það er því till. stjórnar sjóðsins að núverandi tekjustofn verði framlengdur í 12 mánuði, þ.e.a.s. til febrúarloka 1976. Í árslokin 1975 yrði skuldin við Seðlabankann 827 millj. kr. Þá væri óinnkomið söluskattsstig seinustu 4 mánuði sem áætlast 332 millj. kr. og mundi lækka þessa skuld á fyrstu mánuðum ársins 1976 í 495 millj. kr. Á móti væru eignir sjóðsins, skuldabréf til langs tíma umfram skuldbindingar við aðra en bankann, 1 350 millj. kr. — þ.e.a.s. 1905 millj. kr. ~~mínusmerki~~ 555 millj. kr. Afborganir af þessum skuldabréfum mundu þá greiða skuldina við Seðlabankann á nokkrum árum.

Þetta var einróma till. stjórnar Viðlagasjóðs 11. des. 1974. Um þessa till. var þingfl. Alþfl. kunnugt og hann var á einu máli um að stuðla að því, að þessar hugmyndir næðu fram að ganga, að samþ. þessarar till., sem stjórn Viðlagasjóðs lagði einróma til. Það skortir ekkert á það, að þingflokkur Alþfl. sé reiðubúinn til að hafa ábyrga afstöðu til þeirra vandamála, sem við er að etja.

Svo gerðust hin hörmulegu tíðindi á Norðfirði, og að sjálfsögðu er það algerlega rétt, sem kom fram hjá hæstv. forsrh. og hv. 2. þm. Austf., Lúðvík Jósepssyni, að það er sjálfsagt að þjóðin öll beri þann kostnað sem af slíkum válegum atburðum hlýst. Um það getur enginn ágreiningur verið meðal alþm. eða meðal góðra íslendinga yfir höfuð að tala. Það tjón, sem varð á Norðfirði hefur verið metið af stjórn Viðlagasjóðs á 500 millj. kr., og þingflokkur Alþfl. telur sjálfsagt að þetta tjón verði bætt, að þjóðin í heild greiði þessar 600 millj. kr. En hvernig á að greiða þær? Hér er um svo litla fjárhæð að ræða í hlutfalli við heildarfjárlög ríkisins, að það á enginn vandi að vera að spara sem þessum 504 millj. kr. nemur. Það þarf hvort eð er að taka fjárl. til gagngerrar endurskoðunar. Þau hljóða upp á næstum 50 milljarða kr. útgjöld. Hér er um að ræða 500 millj., hér er um að ræða 1% af útgjöldum fjárlaganna, sem þarf til að bæta norðfirðingum tjón þeirra, eins og sjálfsagt er. Ætli það leyfi sér nokkur að halda því fram, að það sé ekki hægðarleikur að lækka ríkisútgjöldin um 1% til þess að norðfirðingar geti fengið sitt, eins og þeir eiga auðvitað að fá? Það þarf ekkert að hækka söluskattinn vegna þess sem gerðist á Norðfirði, enda gefur eitt söluskattsstig helmingi meira, yfir 1000 millj., helmingi meira en tjónið á Norðfirði nam.

Við höfum hér, hv. þm., orð stjórnar Viðlagasjóðs fyrir því frá því í des. 1974, að það þarf ekki að hækka söluskattinn vegna Vestmannaeyjavandans. Við höfum orð allrar stjórnar Viðlagasjóðs undir forustu sjálfs Helga Bergs fyrir því að það þarf ekki. Síðan kemur 50'0 millj. kr. viðbótartjón á Austurlandi — 500 millj. — 1% af fjárlögum, sem þarf að bæta. Hvað er auðveldara en að bæta það með niðurskurði á fjárlögum?

Það þarf enga hækkun á söluskatti, hvorki vegna Vestmannaeyja né heldur vegna Neskaupstaðar. Þetta er mergurinn málsins. Þess vegna verð ég að segja það, að mér finnst afstaða hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar til málsins hér áðan afar furðuleg, alveg furðuleg, að ætla sér að samþ. það með hæstv. ríkisstj. að hún hækki söluskattinn í núv. verðlagsástandi, í núverandi ástandi á vinnumarkaðnum, um 1%, að ætla sér að að gefa fjmrh. að ástæðulausu yfir einn milljarð kr. Ég skil satt að segja ekki hugsanaganginn, ég skil hann ekki, vegna þess að þetta er í svo augljósri mótsögn við það, sem áður hefur verið afstaða hv. þm., bæði meðan hann var ráðh., meðan hann var í stjórnarandstöðu þar áður, og nú síðan hann komst aftur í stjórnarandstöðu, að hér hljóta einhver annarleg kjördæmissjónarmið að liggja að baki, það getur varla annað verið. Auðvitað er algerlega ófyrirgefanlegt af þm. að taka þröng kjördæmissjónarmið sín fram yfir það sem ætti að vera skylda flokks hans, sem er í nánum tengslum við verkalýðshreyfinguna, að styðja hana í baráttu sinni gegn því að kjararýrnun verði meiri en nauðsyn er á. En fái söluskatturinn að hækka um eitt stig, þá verður kjararýrnunin meiri en þörf er á, og að það skuli gerast með stuðningi hv. þm., það er furðulegt. Það mun leiða til þess að flokkurinn tapar ekki þriðjungi, heldur miklu meira. Það er eitt sem er alveg ábyggilegt, ef hann heldur áfram eins og hann byrjar núna.

Nú skal ég segja þessi orð aðeins til þessa hv. þm., ekki til flokksins sjálfs, ég trúi því ekki fyrr en ég tek á, að t.d. sá, sem kallaði fram í áðan, Gils Guðmundsson, þó að hann sé þéttur á velli, ég vona að hann reynist líkaþéttur í lund þegar kemur að því að greiða atkv. um þessar óþörfu álögur á alþýðuna, — þá vona ég að hann láti ekki Austurlandsþm. Lúðvík Jósepsson skipa sér að greiða atkv. gegn samvisku sinni. Ég þykist þekkja þann hv. þm. Reykn. það vel og veit hann er það mikill og gamall verkalýðssinni, að ef hann lætur hafa sig í það að samþ. þetta óþarfa söluskattsstig, þá er hann ekki eins þéttur í lund og hann er á velli. En ég skal ekki fella ábyrgð á flokkinn í heild fyrir þetta. Ég vil mega vænta þess að þetta sé einkaskoðun Lúðvíks Jósepssonar, að það sé einkaskoðun Austfjarðaþm. Lúðvíks Jósepssonar, en ekki skoðun þingflokks Alþb. Ég veit að það mun ekki valda verkalýðshreyfingunni verulegu tjóni þó að þessi eini þm. taki eitthvað sem hann heldur að séu kjördæmishagsmunir, fram yfir hagsmuni verkalýðshreyfingarinnar, en það mundi valda verkalýðshreyfingunni tjóni ef allur þingflokkur Alþb. léti þennan mann kúska sig með jafnharkalegum og ósanngjörnum hætti og fælist í því ef hann fengi að ráða ferðinni í þessu máli. Það eru ímyndaðir Austfjarðahagsmunir. Ég segi: ímyndaðir, af því að enginn er á móti því að Norðfjörður fái bætt það tjón sem hann raunverulega hefur orðið fyrir. Enginn er á móti því, því'eru allir samþykkir. En við hljótum að vera á móti því að meira sé tekið í þessu nafni heldur en nauðsynlegt er. Það er það, sem ég er að andmæla og ég vona að aðrir flokksmenn hv. þm. andmæli líka.

Niðurstaða mín og þingflokks Alþfl.er sú: Við fengum tækifæri til að kynna okkur þetta mál, fengum málið sent strax í gær og fyrir það erum við hæstv. ríkisstj. þakklátir að hafa fengið að hafa milli handanna í meir en sólarhring bæði málin, hæði þetta mál og málið í Ed. En einróma niðurstaða okkar var sú, að við vildum stuðla að óbreyttum söluskatti og óbreyttri hagnýtingu hans. Við mundum hafa samþ. till. stjórnar Viðlagasjóðs frá 11. des. 1974. Og við viljum að sjálfsögðu að tjónið í Neskaupstað verði bætt með þeim 500 millj., sem það hefur verið metið á, og sú upphæð verði fengin með sparnaði hjá ríkissjóði, en ekki með óþarfahækkun á söluskattinum. Ég er sannfærður um að launþegasamtökin munu skoða þessa hækkun á söluskatti sem beina ógnun við sig. Þetta mál allt er ótvíræð sönnun þess að ríkisstj. ræður ekki við þann vanda sem við er að etja í íslenskum efnahagsmálum.