25.02.1975
Neðri deild: 46. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1901 í B-deild Alþingistíðinda. (1517)

168. mál, ráðstafanir vegna snjóflóða í Norðfirði

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. eða gera neina tilraun til að gera þær að almennum eldhúsdagsumr. um efnahagsmál. Erindi mitt í ræðustól er að segja aðeins örfáar setningar. Ég get þó ekki stillt mig um að láta þess getið í upphafi máls míns og skal þar með láta orðahnippingum vera lokið, að þegar þeir verða sammála Sverrir Hermannsson og Lúðvík Jósepsson, hv. þm., þá er ábyggilega eitthvað skuggalegt að ske.

Erindi mitt í ræðustólinn var að andmæla því mjög eindregið, að þá afstöðu, sem ég lýsti f.h. Alþfl., megi túlka þannig að við viljum ekki standa við þær yfirlýsingar sem ég gaf f.h. Alþfl. þegar hörmungarnar í Neskaupstað dundu yfir. Þá lýsti ég því yfir f.h. þingflokks Alþfl., að að sjálfsögðu væri það skylda þjóðarheildarinnar, skylda Alþ. að gera ráðstafanir til þess að það tjón, sem þarna varð, því miður, yrði að fullu bætt. Þetta var af einlægni mælt og við þetta viljum við að sjálfsögðu standa. Það hefur ekki hvarflað að okkur, að í afstöðu okkar fælist það að ekki yrði staðið við þetta fyrirheit, að við værum ekki reiðubúnir til þess að standa við ráðstafanir sem gera kleift að standa við þetta fyrirheit, bæta það 500 millj. kr. tjón sem Neskaupstaður og íbúar Neskaupstaðar urðu fyrir.

Það, sem ég benti á í ræðu minni og skal ekki endurtaka hér, heldur bara undirstrika sem aðalatriði, er að skv. álitsgerð sinni 11. des. taldi stjórn Viðlagasjóðs einróma að hægt væri að leysa Vestmannaeyjavandann með því að framlengja eitt söluskattsstig handa Viðlagasjóði í 12 mánuði Þó að það kunni að vera rétt, að tölur frá 11. des. séu nú eitthvað breyttar, þar skakki nokkrum hundruðum millj. kr., þá er það engu að síður staðreynd að í lok þessa árs mun Viðlagasjóður eiga skuldabréf með veði í húseignum að upphæð 1300–1400 millj. kr. Breyting frá einum mánuði til annars á stöðu sjóðsins, sem nemur 100–300 millj. kr. raskar í engu þessari meginniðurstöðu stjórnar Viðlagasjóðs, að það væri hægt að leysa Vestmannaeyjavandann með því að framlengja söluskattsstigið í 12 mánuði, þ.e. í eitt ár. Við höfum þegar lýst því yfir, þm. Alþfl., að þetta styddum við, og ég endurtók það í ræðu minni, að þessa ráðstöfun hefðum við stutt heils hugar. Sá vandi, sem við hefur bæst, er nú metinn á 500 millj. kr. Viðbótarvandinn er 500 millj. kr. Það er ekki vandi sem ég tel réttlæta hækkun söluskatts um eitt stig sem gefur einhvers staðar í kringum einn milljarð eða helmingi hærri tölu. Ég tel 500 millj. kr. vanda norðfirðinga ekki réttlæta hækkun söluskatts um eitt stig sem þýðir helmingi hærri upphæð en þarf í bætur.

Vinnumarkaðurinn er mjög viðkvæmur. Það standa yfir samningar milli verkalýðshreyfingar og launþega annars vegar og vinsamlegar viðræður milli verkalýðshreyfingar og ríkisstjórnar hins vegar. Þetta er versta augnablikið sem hugsanlegt er til að leggja byrðar á almenning sem vitað er að launþegasamtökin eru andvíg og telja óþarfar. Ég var ekki einungis að tala fyrir hönd sjálfs míns eða þingfl. Alþfl. þegar ég sagði áðan að þessar byrðar væru óþarfar. Ég veit að þetta er skoðun forustusveita bæði Alþýðusambands Íslands og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, og það mun áreiðanlega koma í ljós á næstu dögum. Þetta voru engin einkasjónarmið mín, heldur er þetta ríkjandi skoðun innan stærstu launþegasamtaka landsins, Alþýðusambandsins og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja.

Það er alveg rétt að það er leiðinlegt að þurfa að taka sér þau orð í munn í umr. eins og þessum, að maður óttist að afstaða einstakra þm. kunni að mótast af kjördæmissjónarmiðum eða þröngum hreppasjónarmiðum — ég held ég hafi ekki notað það orð, ég held ég hafi talað um kjördæmissjónarmið. En það er ómögulegt að verjast þeirri hugsun að það eigi sér hér stað, Ómögulegt er að skilja málflutning hv. þm., Lúðvíks Jósepssonar og Sverris Hermannssonar á annan veg en þann að einhver slík sjónarmið liggi að baki því að styðja söluskattsstig sem veitir helmingi meiri tekjur en þörf er á, þegar fjárhagsvandinn, sem við er að etja, svarar til 1% af fjárl., sem allir eru sammála um, að séu allt of há. Allir eru sammála um að það þurfi að skera niður þessi 48 milljarða fjárlög um risaupphæðir, og hvernig geta menn þá talið 500 millj. vera óleysanlegan vanda? Hvað þýðir að segja almenningi þetta? Þjóðin hristir aðeins höfuðið þegar hún heyrir slíkar raddir héðan úr sölum hins háa Alþ. Þessar 500 millj. kr. er sjálfsagt að greiða, og ég skal fúslega taka þátt í að benda á, hvar megi spara fyrir þeim, og bera fulla ábyrgð á þeim sparnaði og þeim óvinsældum sem af honum kynni að hljótast. Þeir, sem hefðu annars fengið 500 millj. í framkvæmdir, fá þær ekki. Alþfl. skal fúslega taka þátt í þeim óvinsældum sem af því hljótast. En við viljum ekki, eins og nú er ástatt á vinnumarkaði og í efnahagsmálum þjóðarinnar, standa að því að auka söluskattinn um helmingi hærri upphæð en sannanlega liggja tölur fyrir um að þurfi til að bæta norðfirðingum að fullu það tjón sem þeir hafa orðið fyrir. Þetta er mergurinn málsins. Og þess vegna hlýt ég og það skulu vera síðustu orð mín — að andmæla því alveg eindregið að í þessari afstöðu þingflokks Alþfl., sem ég veit að er líka afstaða stjórnar Alþýðusambandsins og stjórnar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, felist það, að gefin loforð yrðu svikin. Við þau loforð, sem við höfum gefið, skulum við standa og munum standa við þau.