19.11.1974
Sameinað þing: 10. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 233 í B-deild Alþingistíðinda. (152)

16. mál, skipting landsins í þróunarsvæði

Flm. (Ólafur Ragnar Grímsson):

Herra forseti. Það hefur komið greinilega fram á þessu þingi sem og á undanförnum árum að vandi landsbyggðarinnar er nú orðinn það almennt viðurkenndur mikill að þm. hafa flutt nú þegar margvísleg málefni sem beinast að lausn þessa vanda. Allir þeir stjórnmálaflokkar, sem fulltrúa eiga hér á þingi, hafa á einn eða annan hátt viðurkennt að það misræmi, sem ríkir í aðstöðu hinna einstöku byggðarlaga og íbúa þeirra, sé einn helsti vandi, sem við er að glíma á Íslandi á okkar tímum. Þrátt fyrir það að þetta málefni hefur hlotið svo almenna viðurkenningu sem eitt helsta viðfangsefni íslenskra þjóðmála, jafnt Alþ., ríkisstj. sem fjölmargra samtaka og stofnana í þjóðfélaginu, þá hefur ekki verið framkvæmd nein úttekt eða lýsing á því hve vandinn er mikill, hvers eðlis hann er á hinum einstöku svæðum. Fram að þessu hefur yfirleitt í stórum dráttum verið fjallað um heila landshluta og þeir bornir saman við Reykjavíkursvæðið svokallaða, en lítt greint á milli þess mismunandi vanda sem er að finna innan landshlutanna.

Við höfum þess vegna, þm. SF, flutt hér till. til þál. sem felur það í sér að undirbúið verði og lagt fram á yfirstandandi þingi frv. til l. um skiptingu landsins í þróunarsvæði. Við teljum að það eigi að liggja í augum uppi að vandi einstakra byggðarlaga í hinum ýmsu landshlutum er mjög mismunandi. Vilji ríkisvaldið, löggjafarstofnunin, ríkisstj., fjármálastofnanir og aðrir þeir aðilar í þjóðfélaginu, sem fara með mál sem snerta íbúa landsbyggðarinnar, heina starfsemi sinni gagngert inn á þá braut að leiðrétta smátt og smátt það misræmi, sem ríkir í aðstöðu íbúa landshlutanna, þá verður að liggja fyrir skýr og greinargóð úttekt á því hvers eðlis vandinn er í hverju byggðarlagi og á hvern hátt hann er frábrugðinn vanda sem ríkir í öðrum byggðarlögum. Ég á erfitt með að sjá hvernig eigi að vera hægt á skipulagsbundinn og vitrænan hátt að takast á við þetta helsta vandamál íslensks þjóðfélags án þess að allir aðilar, sem með vald fara sem snertir hagsmunamál þessara byggðarlaga, hafi slíka kortlagningu vandans fyrir hendi.

Eigi opinberar aðgerðir að reynast árangursríkar um lausn byggðavandans, þá verða þær að miðast að okkar dómi við slíka þróunarsvæðaskiptingu. Við höfum lagt til að þessi skipting yrði síðan lögð til grundvallar aðgerðum í fjárfestingarmálum, skattamálum, húsnæðismálum, samgöngumálum, menntamálum, heilbrigðismálum og öðrum málaflokkum, sem áhrif hafa til lausnar byggðavandans. Á þeim svæðum, þar sem byggðavandinn sé mestur, verði atvinnuuppbygging öflugri, lán til húsbygginga gerð hagkvæmari, byggingu skóla og sjúkrahúsa hraðað og aðrar opinberar aðgerðir látnar hafa forgang. Í þessari mgr. þáltill. felst grundvallarstefnubreyting í aðgerðum í byggðamálum, — stefnubreyting sem hefði það í för með sér að stjórntæki hins opinbera yrðu gerð sveigjanlegri í samræmi við byggðavandann. Þar sem sérstakleka væri talið nauðsynlegt að stuðla að fjölgun íbúanna yrðu lán til íbúðarhúsabygginga með lægri vöxtum, til skemmri tíma og jafnvel hærri að upphæð. Þar sem atvinnuleysi væri yfirvofandi og nauðsynlegt væri að gera atvinnulífið fjölbreyttara yrðu fyrirtæki, sem störfuðu á viðkomandi svæðum eða væru reiðubúin að hefja þar rekstur, látin njóta þess í formi forgangslánveitinga fram yfir fyrirtæki á öðrum svæðum. Ríkisvaldið sjálft mundi síðan í aðgerðum sínum við byggingu skóla, sjúkrahúsa og annarra þjónustustofnana láta þessi svæði hafa forgang.

Því miður hefur það verið þannig á undanförnum árum og jafnvel áratugum, að aðgerðir hins opinbera í þessum málum hafa reynst meira og minna tilviljanakenndar. Þær hafa verið háðar mismunandi þrýstingi frá hinum einstöku byggðarlögum, frá þm. þessara byggðarlaga og þeim almennu sjónarmiðum, sem ríkt hafa í ríkisstofnunum og öðrum þjónustustofnunum hins opinbera á hverjum tíma. Þessar tilviljanakenndu aðgerðir hafa svo leitt til þess í reynd, að mörg svæði, fjöldi byggðarlaga, allt í kringum landið — á Austurlandi, Norðurlandi, Vestfjörðum og Vesturlandi, þar sem byggðavandinn er greinilega mestur, þar sem fólksfækkun hefur átt sér stað, þar sem atvinnuuppbygging hefur verið stöðvuð, þar sem ekki hafa verið byggð íbúðarhús jafnvel í áratugi, — á þessum stöðum hefur ríkisvaldið lítt látið til sín taka. Þessi byggðarlög hafa orðið út undan. En hinir stærri og sterkari staðir í landshlutunum, sem meira þrýstiafl hafa getað sett fram, sem meiri stuðnings og eigin fjármagns hafa getað notið, þeir hafa haldið áfram að vaxa fram úr þessum byggðarlögum. Hv. þm. landsbyggðarinnar þekkja sjálfsagt allir úr sínum kjördæmum dæmi um slík byggðarlög, — byggðarlög sem greinilega eiga mjög erfitt uppdráttar og hafa horfið í skuggann fyrir uppbyggingu annarra byggðarlaga.

Ef landinu yrði skipt í þróunarsvæði í samræmi við þau ákvæði, sem við leggjum hér til, yrði a.m.k. reynt að fyrirbyggja það að slík byggðarlög yrðu út undan um áraraðir. Þá yrði gerð reglulega á 4 ára fresti heildarúttekt á öllum héruðum landsins um það hvar skórinn kreppti helst að. Þegar sú niðurstaða væri fengin mundu þau byggðarlög, sem talið væri að mestan forgang ættu að hafa, næstu 4 ár njóta þessa forgangs á öllum þeim sviðum, í atvinnuuppbyggingu, félagslegri þjónustu, húsnæðismálum og á öðrum þeim sviðum sem ríkisvaldið getur látið til sín taka á.

Þegar við ræðum um byggðavandann á Íslandi og reyndum að brjóta hann til mergjar sjáum við að sá mikli þungi, sem dregið hefur fólk til Reykjavíkursvæðisins á undanförnum áratugum, er mjög margþættur. Hann er ekki einskorðaður við einhverja eina tegund þjóðfélagssviða. Hann bókstaflega nær til allra þátta mannlegs lífs. Á Reykjavíkursvæðinu er hið fjölþættasta atvinnulíf sem um getur á Íslandi. Á Reykjavíkursvæðinu eru allar helstu mennta- og menningarstofnanir landsins. Þar eru stjórnarstofnanir, þar eru fjármagnsstofnanir, þar eru þeir aðilar, sem ákvörðun taka í íslensku þjóðfélagi. Eigi að vera nokkur von til þess á næstu árum eða jafnvel áratugum að hið opinbera geti unnið á móti þessum mikla þunga, sem allir þessir þættir mynda, hinu mikla aðdráttarafli sem Reykjavíkursvæðið hefur atvinnulega, félagslega og menningarlega, þá verða að koma til miklu kerfisbundnari aðgerðir en beitt hefur verið til þessa, — aðgerðir sem fela það í sér að það sé skilgreint, bæði fyrir þjóðinni og fyrir valdhöfum á öllum sviðum þjóðfélagsins, hver vandinn er, hvar á afmörkuðum landssvæðum hann er mestur og hvaða byggðarlög eigi þess vegna að hafa forgang. Ef slíkt er ekki gert, þá er þeirri hættu boðið heim, sem eins og ég sagði áðan hefur því miður einkennt aðgerðir í byggðamálum til þessa, að það sé fyrst og fremst tilviljanakenndur samsetningur valdahagsmuna á hverjum tíma sem ræður því hvaða byggðarlög njóta þeirra aðgerða sem hið opinbera kýs að beita sér fyrir hverju sinni. Ef hv. Alþ. er, eirs og ýmislegt bendir til, reiðubúið að takast á við það í ár og á næstu árum að reyna að snúa þessari þróun við, reyna að skapa á Íslandi þjóðfélag raunverulegs jafnréttis þar sem íbúar allra byggðarlaga sitja við sama borð, þá teljum við að það sé ekki nein veruleg von til að árangur náist í því, nema vandinn sé skilgreindur á þennan hátt, á skipulagsbundinn og vitrænan hátt með því í sérstakri löggjöf reglubundið á 4 ára fresti að marka vandann með tilliti til einstakra byggðarlaga.

Þessi till. til þál. felur það í sér að þessi löggjöf verði undirbúin í samráði við Samband ísl. sveitarfélaga og landshlutasamtök sveitarfélaga. Við erum þeirrar skoðunar að þessir aðilar séu eðlilegustu samstarfsaðilarnir. Þeir eru fulltrúar byggðarlaganna sjálfra. Innan þeirra er að finna mestu þekkingu á hinum staðbundnu vandamálum og þessir aðilar eru í beinustum tengslum við fólkið og vandamál þess. Ég vona að þessi till. okkar verði upphafið að því að þingheimur og stjórnarstofnanir ríkisins, hvers eðlis sem þær eru, samræmi aðgerðir sinar í byggðamálum svo að við getum innan ekki allt of langs tíma sagt með sanni að okkur hafi miðað eitthvað umtalsvert áfram í átt að því að skapa raunverulegt jafnrétti allra þegna á Íslandi.