26.02.1975
Neðri deild: 47. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1907 í B-deild Alþingistíðinda. (1523)

163. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Flm. (Ellert B. Schram):

Herra forseti. Mér kom ekki á óvart að heyra þessa rödd, því að þegar ég hef reifað þetta mál meðal þm. hef ég orðið var við, að ýmsir eru andvígir því að víkka út þær undanþágur sem nú þegar eru í lögunum. Af þessum sökum var ekki gengið það langt í þessu frv. að fara fram á fullkomna undanþágu, þ.e.a.s. að fasteignaskattur yrði alfarið lagður niður, heldur gert ráð fyrir því og lagt til að hann sé lækkaður úr 11/2% í 1/2%.

Vegna þeirra orða, að hér sé um að ræða hættulega stefnu að víkka út þessar undanþágur, þá vil ég aðeins ítreka það, sem ég vildi sagt hafa áðan, að hér er raunverulega ekki um útvíkkun að ræða í sjálfu sér, heldur að viðurkenna ákveðna tómstundaiðju sambærilega við þær undanþágur sem veittar eru nú þegar í l., og leiðrétta þá ósanngirni að slík tómstundaiðja falli ekki undir þær undanþágur, sem l. gera ráð fyrir, úr því að á annað borð eru veittar undanþágur. Lögin og löggjafinn hafa fram að þessu viðurkennt að starfsemi eins og mannúðar- og líknarstarfsemi svo og íþróttastarfsemi og æskulýðsstarfsemi væri undanþegin eða fengi ákveðna fyrirgreiðslu varðandi fasteignaskatta.

Í þessu frv. er talað um fasteignir, sem einvörðungu eru notaðar fyrir viðurkennda tómstundaiðju sem fram fer á vegum félags- og æskulýðssamtaka eða í tengslum við þau. Og það kemur fram í grg., að það er ósk mín og vilji að þetta ákvæði sé túlkað mjög þröngt, en það felur það í sér, eins og orðalagið bendir til, að þarna falli undir starfsemi sem strangt til tekið er ekki viðurkennd sem t.d, íþróttastarfsemi, en í eðli sínu er þó íþróttastarfsemi.

Íþróttasamtökin hafa enn ekki getað komið hestamannafélögum fyrir í sínum samtökum, enda þótt flestir séu á því að þetta sé hliðstæð starfsemi og hliðstæð tómstundaiðja. Ég skal ekki dæma um af hvaða ástæðum sú tregða er, en ég held að allir, sem skoða þetta mál með velvilja, sjái að þarna er um líka hluti að ræða og ósanngjarnt er að á sama tíma sem íþróttahús og íþróttastarfsemi njóta þessarar undanþágu njóti einn þáttur æskulýðs- eða tómstundastarfa ekki sömu fríðinda. Það er eingöngu af þessum ástæðum, sem þetta frv. er flutt, til að leiðrétta þetta misræmi. Menn mega ekki skilja það svo, að hér sé um að ræða útvíkkun á undanþágunum, heldur aðeins að fella að þá starfsemi, sem raunverulega á heima undir þeim undanþágum sem nú þegar hafa verið gefnar.