27.02.1975
Efri deild: 48. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1915 í B-deild Alþingistíðinda. (1530)

162. mál, áhrif olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð frá minni hendi um það mikilvæga mál sem hér er til umr.

Ég vil í upphafi lýsa því yfir, að ég er samþykkur þeim breytt., sem hv. fjh.- og viðskn. hefur flutt við frv., og mun fylgja þeim. Ég tel eðlilegt að styrkurinn sé nokkuð hækkaður með hliðsjón af þeirri miklu olíuverðhækkun sem átt hefur sér stað á tímabilinu.

Svo langar mig til að segja það, að ég hef verið að lesa nál. minni hl. fjh.- og viðskn. og mig langar af því tilefni að fara í reikningstíma hjá hv. 1. landsk. þm. Hann segir í nál. sínu, að um 95 þús. manns muni nota olíu til hitunar húsnæðis síns. Hann leggur til að 10 000 kr. styrkur verði veittur á hvern þessara íbúa. Mér telst svo til að 10 000x95 000 séu 950 millj. kr. Þá leggur hann enn fremur til, eins og hv. meiri hl., að þeir, sem njóta bóta skv. 19. gr. l. um almannatryggingar fái 11/2 styrk, og ég hef heyrt nefnt að slíkur styrkur gæti numið um 40 millj. kr. Þá er enn fremur lagt til í báðum till., bæði hans og meiri hl., að rafveitur verði styrktar að því marki sem þær nota olíu sem orkugjafa til framleiðslu rafmagns til hitunar íbúða á sölusvæði sinu, þannig að upphitun með rafmagni verði ekki dýrari en olíukynding. Ég veit ekki hverju þetta kann að nema, en ég hef heyrt nefnda töluna 50 millj. kr. Ef þessar tölur eru réttar, sem ég hef hér stuðst við, telst mér til að útgjöld sjóðsins yrðu 1040 millj. kr. Í nál. minni hl. segir að söluskattsstig muni gefa 960 millj. kr. á yfirstandandi ári, það sem eftir er af árinu. (Gripið fram í.) Ég kem að því síðar. Þá finnst mér endilega, að í þetta dæmi muni vanta 80 millj. kr. En ég tók ekki betur eftir en að hv. 1. landsk. segði að Orkusjóður ætti að geta fengið um 200 millj. kr. út úr þessu dæmi.

Nú vil ég bara varpa fram þeirri spurningu, hvort það er skilningur minni hl. fjh.- og viðskn., að söluskatturinn sé svo vanáætlaður að þessir útreikningar þeirra fái staðist. Það er enn fremur rétt að taka tillit til þess, að nokkur breyting verður í Reykjaneskjördæmi, að hluti Kópavogs, Garðahrepps og Hafnarfjarðar fær hitaveitu á árinu. Ég veit ekki hvað það nemur miklu, en ég hef heyrt töluna 40 millj. kr. nefnda í því sambandi.

Ég fæ ekki séð, að Orkusjóður fái neitt ef þessi till. hv. minni hl. verður samþ., að olíustyrkurinn verði 10 000 kr., heldur sýnist mér, að það láti nærri að allur söluskatturinn renni til þess að greiða niður olíuverðið hjá þeim sem nota olíuna. Má vera að það sé tilgangur minni hl., en þá er líka c-liður 2. gr. óþarfur og órökréttur.

Ef hér er um einhvern misskilning hjá mér að ræða, þá er ég fús til þess að hafa það sem sannara reynist, en svona lítur uppsetning á dæmi hv. minni hl. út í mínum augum.