19.11.1974
Sameinað þing: 11. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í B-deild Alþingistíðinda. (154)

Umræður utan dagskrár

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs utan dagskrár í þeim tilgangi að spyrja hæstv. félmrh. hvort hann og hans rn. hafi hugsað sér einhverjar aðgerðir opinberra aðila vegna vaxandi tilhneigingar kaupstaða að ásælast og leggja undir sig land nágrannasveitarfélaga. Ég spyr um þetta hér utan dagskrár vegna sjónvarpsviðtals á föstudagskvöld við Sigstein bónda Pálsson á Blikastöðum. Í því sjónvarpsviðtali kom fram að bæði fyrrv. og núv. borgarstjóri í Reykjavík höfðu ýjað að því við eiganda Blikastaða að fá jörðina keypta og það kom fram hjá fréttamanninum, eins og hver annar sjálfsagður hlutur, að með því væri verið að stækka lögsagnarumdæmi Reykjavíkur.

Til þess að gera hv. þingheimi grein fyrir því að það er ekki alveg að ástæðulausu þótt við nágrannar höfuðborgarinnar kippumst aðeins við þegar byrjað er að tala um sölu á jörðum er liggja að mörkum Reykjavíkur, þá langar mig til að lesa hér nokkrar línur úr lagasafni okkar, með leyfi hæstv. forseta. Þar stendur m.a. á bls. 1331: Lög frá 1894 um að leggja jarðirnar Laugarnes og Klett í Seltjarnarneshreppi undir lögsagnarumdæmi og bæjarfélag Reykjavíkur. 1923 lög um stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur um að leggja jarðirnar Breiðholt, Bústaði og Eiði í Seltjarnarneshreppi undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur. Lög frá 1929 um að jarðirnar Ártún og Árbær í Mosfellshreppi í Kjósarsýslu skuli lagðar undir lögsagnarumdæmi og bæjarfélag Reykjavíkur. Lög frá 1931 um að jarðirnar Þormóðsstaðir og Skildinganes í Seltjarnarneshreppi ásamt öllum lóðum og lendum skuli leggjast undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur. Lög frá 1943 um að jarðirnar Elliðavatn og Hólmur í Seltjarnarneshreppi skuli lagðar undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur. Ennfremur skal leggja undir lögsagnarumdæmið frá sama tíma jarðirnar Grafarholt, að svo miklu leyti sem eignarnámsheimild tekur til, Gufunes, Keldur, Eiði, Knútskot, Korpúlfsstaði, Lambhaga, Reynisvatn og jarðarhlutann Hólmsheiði, allar í Mosfellshreppi, undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur. Tekið er svo fram í hverju tilfelli að Reykjavíkurkaupstaður skuli annast framfærslu þurfalinga á viðkomandi áður greindum jörðum.

Fyrir nokkrum áratugum voru mörk Reykjavíkur og Mosfellssveitar við Elliðaár. Nú eru þau mörk við Blikastaði. Það þarf engan slyngan stærðfræðing til þess að reikna út líkurnar fyrir því, hvenær Reykjavík muni kaupa síðustu jörðina í Mosfellssveit. En það er ekki einungis, að hér sé vegið að hagsmunum lítils sveitarfélags. Hér er einnig verið að breyta sýslumörkum, verið að minnka Kjósarsýslu. Það er einnig verið að raska stærð kjördæma. Það er verið að minnka Reykjaneskjördæmi.

Nú er mér ljóst að það þarf lög frá Alþ. til þess að breyta lögsagnarumdæmum, en ég held hins vegar að það hafi ekki oft verið annmarkar á því að fá slík lög í gegn. Ég álít að hér sé vegið að grundvallarskipulagi okkar og þess vegna sé brýn nauðsyn að gera eitt af tvennu, annaðhvort að stórauka aðstoð opinberra aðila við kaup á slíkum markajörðum eða setja miklu strangari skorður en nú er við breytingu á lögsagnarumdæmum. Mér er það ljóst að eigandi Blikastaða verður að fá gangverð fyrir eignir sínar, en það er ósanngjarnt að það leiði til rýrnunar á sveitarfélagi, og það verður að gera sér ljóst að hér er ekki um nein venjuleg eigendaskipti að ræða, hér er verið að minnka sveitarfélag, hér er verið að minnka sýslufélag og hér er verið að minnka kjördæmi. Þess vegna langar mig til að vita hvort möguleikar væru á því að opinberir aðilar sæju ástæðu til að skerast hér eitthvað í leikinn.