27.02.1975
Neðri deild: 48. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1938 í B-deild Alþingistíðinda. (1553)

168. mál, ráðstafanir vegna snjóflóða í Norðfirði

Frsm. 2. minni hl. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég hlýt í upphafi máls míns að harma það, að nál. mínu og brtt., sem við hv. þm. Karvel Pálmason flytjum, hefur ekki verið útbýtt. Ég verð að halda ræðu mína á grundvelli þskj., sem þm. þekkja ekki og mæla fyrir till., sem ekki hefur verið útbýtt. Nál. er komið, till. hins vegar ekki, hún er vonandi væntanleg líka. En þótt hún sé ekki komin mun ég mæla fyrir álíti mínu sem 2. minni hl. í fjh: og viðskn.

Það kom fram á sameiginlegum fundum fjh.og viðskn. beggja d. að allir flokkar þingsins, eins og raunar var fyrir fram vitað, eru sammála um að gera ráðstafanir til að tryggja Viðlagasjóði nægilegar tekjur til þess að hann sé fær um að standa við allar skuldbindingar, sem hann hefur undir gengist vegna jarðeldanna í Vestmannaeyjum, og bæta norðfirðingum að fullu það tjón, sem þar varð í hinum hörmulegu snjóflóðum um áramótin síðustu. Enn fremur voru fulltrúar allra flokka sammála um að æskilegt væri að orða eina gr. þessa frv. þannig, að Viðlagasjóði í samráði við Bjargráðasjóð væri einnig heimilt að bæta tjón sem hlytist af náttúruhamförum á öðrum stöðum í landinu, þeim sem þegar hafa átt sér stað og þeim sem kynnu að eiga sér stað.

Um þetta er enginn ágreiningur milli flokka hér á þingi, og er það sannarlega ánægjulegt. Hins vegar er uppi ágreiningur og hann djúpstæður um það, hversu mikil fjáröflun sé nauðsynleg í þessu sambandi. Í því frv., sem hér er nú til 2. umr. og er stjfrv., er gert ráð fyrir því, að í þessu sambandi sé nauðsynlegt að framlengja gildandi viðlagagjald, gildandi eins stigs álag á söluskatt, til áramóta og jafnframt að bæta við öðru stigi til næstu áramóta, þannig að söluskattur verði frá 1. mars til ársloka ekki 19%, eins og hann er í dag, heldur 20%. Um það hefur megindeilan staðið, hvort slíkt sé nauðsynlegt eða ekki.

Það kom fram á fundi fjh.- og viðskn. í morgun, eins og raunar frsm. 1. minni hl. n. hefur þegar tekið fram, að ef till., sem hann flytur og þingfl. Alþfl. út af fyrir sig getur stutt og mun greiða atkv. með, nær ekki fram að ganga, muni hann styðja stjfrv., þ.e. styðja hækkun söluskattsins úr 19% í 20% frá 1. mars til áramóta. Þessi afstaða, þegar hann boðaði hana við 1. umr. málsins, vakti mikla furðu mína og margra annarra. Ég þóttist þá sýna fram á í ræðu minni sem var flutt eftir ræðu hans, að hækkun söluskattsins væri ekki nauðsynleg til að hægt væri að bæta vestmanneyingum og norðfirðingum að fullu það tjón sem þeir hefðu orðið fyrir. Ég geri grein fyrir þeirri skoðun í hnotskurn í nál. og skal ekki endurtaka það jafnrækilega nú við 2. umr. og ég reyndi að gera við 1. umr. Mergurinn málsins er sá, að það liggur fyrir vitnisburður um það frá sjálfri stjórn Viðlagasjóðs frá 11. des. 1974, að hún teldi nóg að framlengja eitt söluskattsstig í 12 mánuði, þ.e.a.s. frá febrúarlokum þessa árs til febrúarloka næsta árs. Fyrst stjórn Viðlagasjóðsins sjálfs taldi þetta nóg í desember, þá hlýtur það í meginatriðum að vera rétt nú í febrúar. Lítils háttar breyt. á áætlunum, sem hv. frsm. meiri hl. gerði grein fyrir áðan, breyta í engu þeirri meginniðurstöðu, að stjórn Viðlagasjóðs taldi í des. og telur í dag, að það væri nóg vegna Vestmannaeyjavandans að framlengja eitt söluskattsstig, framlengja gildandi ákvæði um viðlagasjóðsgjald um 12 mánuði. Við þetta er sú till. miðuð, sem við hv. þm. Karvel Pálmason, form. þingfl. SF, flytjum nú við 2. umr. málsins.

Þá er að víkja að Norðfjarðarvandanum, sem metinn er á 500 millj. kr. og sjálfsagt er að útvega fé til. Hv. þm. Lúðvík Jósepsson hefur lagt til, að það yrði gert með því móti að leggja óbeint þá kvöð á Seðlabankann að standa undir nauðsynlegri fjárþörf í því skyni. Nú er kunnugra en frá þurfi að segja, að með lögum er ekki hægt að binda Seðlabankann til tiltekinna ráðstafana. A.m.k. hefur ekki tíðkast að það væri gert, hvorki gagnvart Seðlabankanum, fjárfestingarsjóðum né viðskiptabönkum. Að gera ráð fyrir slíku er að hafa óvissa tekjumöguleika og það teljum við í Alþfl. og SF ekki vera nægilegt öryggi fyrir norðfirðinga. Við viljum beinlínis hafa lagaákvæði um það, að Viðlagasjóði séu tryggðar 500 millj. kr. tekjur, eins og nú er talið að þurfi til að bæta tjónið. Það skal haft í huga, að þegar fyrstu viðlagasjóðslögin voru sett fyrir tveim árum vegna Vestmannaeyjaáfallsins varð um það samkomulag milli þáv. stjórnar og þáv. stjórnarandstöðu, að ekki væri eðlilegt að láta almenning einan greiða þetta tjón, sem auðvitað varð að greiða, heldur væri eðlilegt að láta fyrirtæki einnig taka þátt í kostnaðinum við tjónabæturnar, eins og gert var, og jafnframt eftir miklar umr. á mörgum fundum þá að ríkissjóður skyldi leggja sitt af mörkum. Það var ekki talið eðlilegt að íþyngja almenningi með hækkuðu vöruverðlagi, hækkuðum söluskatti, að íþyngja fyrirtækjum með hækkuðu aðstöðugjaldi og hækkuðu útsvari, en láta ríkissjóði vera málið algerlega óviðkomandi. Þess vegna varð að lokum samkomulag allra flokka á þingi, samkomulag milli stjórnar og stjórnarandstöðu, að sett yrðu ákvæði í frv. um það, að ríkissjóður skyldi leggja 160 millj. kr. í Viðlagasjóð. Það skyldi verða hlutdeild ríkissjóðs í því tjóni sem orðið hefði, og ríkissjóði var heimilað að draga saman útgjöld sín sem því svaraði, auk þess sem Atvinnuleysistryggingasjóði var gert skylt að veita nokkurt óafturkræft framlag til Viðlagasjóðs.

Við þm. Alþfl. og þm. SF teljum líka sjálfsagt, að þegar það hefur gerst sem nú hefur gerst og í því ástandi sem nú er í þessum málum, þá taki ríkissjóður þátt í því að leysa vandann. Með hliðsjón af því, að hafi 160 millj. kr. ekki þótt ofætlun fyrir ríkissjóð fyrir 2 árum, þá eru 500 millj. sannarlega ekki ofætlun fyrir ríkissjóð á árinu 1975, þegar fjárl. eru milli 45 og 50 milljarðar kr. 500 millj. kr. tjónabætur eru því rúmlega 1% af heildarútgjöldum fjárl. Enginn maður getur tekið það alvarlega, ef borið' er á móti því að ríkissjóði sé kleift að draga saman útgjöld sín um 500 millj. kr. eða rúmt 1% af heildarútgjöldum sínum til þess að taka þátt í því að leysa þann vanda sem hér er við að glíma. Hitt væri beinlínis óeðlilegt, það væri beinlínis ósanngjarnt, það væri beinlínis ranglátt, að ríkissjóður væri eini aðilinn í þjóðfélaginu, sem ekkert skyldi að sér leggja til að leysa þennan vanda. Almenningur ber byrðar og telur sjálfsagt að bera þær, fyrirtækin bera byrðar og telja rétt að bera þær, það eru lagðar byrðar á sveitarfélögin, — hví skyldi ríkissjóður vera eini aðilinn sem enga ól þyrfti að herða að sér þegar slíkan vanda ber að höndum eins og þann, sem hér er um að ræða? Þess vegna er það önnur till. okkar form. þingfl. SF, Karvels Pálmasonar, að ríkissjóður skuli leggja 500 millj. kr. í Viðlagasjóð og hafa heimild til að skera niður útgjöld sem því svarar.

Á því getur enginn vafi leikið, að ef farið er að till. stjórnar Viðlagasjóðs og viðlagasjóðsstigið framlengt í 12 mánuði, þ.e. til febrúarloka, en ekki til ársloka, og Viðlagasjóður fær 500 millj. kr. úr ríkissjóði, þá er að fullu kleift að standa við allar skuldbindingar sem á Viðlagasjóði munu hvíla vegna Vestmannaeyjaskaðans og vegna Norðfjarðarskaðans. M.ö.o.: með þessu móti mundi vandinn vera leystur að fullu.

Ég skal rökstyðja þetta nokkru nánar með því að gera grein fyrir því hvað verða muni verði frv. ríkisstj. samþ. óbreytt, eins og nú eru allar horfur á. Stjórnarflokkarnir munu greiða atkv. með því, og a.m.k. hv. þm. Lúðvík Jósepsson. Ég vil ekki enn bera það neinum öðrum þm. Alþb. á brýn að þeir ætli að bregðast launþegum jafnherfilega og hv. þm. Lúðvík Jósepsson er nú að bregðast þeim. Ég vil ekki ásaka þá fyrr en í ljós er komið að þeir raunverulega gera slíkt. Þeir skulu þvert á móti hafa heiður fyrir það, ef þeir fylgja ekki fordæmi Lúðvíks Jósepssonar og bregðast launþegasamtökunum jafnherfilega og hann hefur verið að gera undanfarna daga og lýsir yfir að hann ætli sér að gera. Það, sem hann ætlar að styðja ríkisstj. í því að gera, er að veita óþarflega mikið fé, að veita beinlínis fé umfram sannanlega nauðsyn í Viðlagasjóð. Það sést á því hver staða Viðlagasjóðs mundi vera að óbreyttum tekjustofni. Þá mundu innborgaðar tekjur nema 5 983 millj. kr., en óinnheimtar tekjur í árslok verða 1905 millj. kr., þannig að tekjur alls á árinu 1975 yrðu 7 888 millj. kr. En greiðslur yrðu á árinu 7 595 millj. og ógreiddar skuldir 555 millj. kr. — þetta eru tölur beint frá Viðlagasjóði sjálfum — og greiðslur því alls 8150 millj. kr. Það er rétt, að það er nokkurt fé að öllu óbreyttu en munurinn er þó ekki nema um 200 millj. kr. 500 millj. kr. framlag úr ríkissjóði mundi gera kleift að lækka skuldina við Seðlabankann um því sem næst 300 millj. kr., og til þess ætlast auðsjáanlega Viðlagasjóðurinn, að því yrði hægt að koma fram. Ég játa fúslega, að eðlilegt er að skuldin við Seðlabankann verði lækkuð í framhaldi af slíkum ráðstöfunum og það yrði hægt ef gjaldið yrði framlengt óbreytt og ríkissjóður legði til 500 millj. kr.

En hver yrði niðurstaðan, ef þetta frv. yrði samþ. óbreytt — þetta frv. ríkisstj., sem hv. fulltrúi Alþb. í fjh.- og viðskn. Nd. ætlar sér að styðja að felldri sinni till.? Hver yrði staðan miðað við 2% hækkun söluskattsins til ársloka 1975? Er þá miðað við það hlutfall, sem gert er ráð fyrir í frv., að 68% skuli ganga til Vestmannaeyja og 32% í Norðfjarðardeild. Þá yrðu innborgaðar tekjur 6 855 millj., óinnheimtar tekjur eða eignir 2125 millj. kr., eða tekjur alls 8980 millj. Greiðslurnar yrðu hinsvegar 7 595 millj., ógreiddar almennar skuldir sama upphæð og áðan, 555 millj. kr., eða greiðslur alls 8150 millj. Tekjurnar yrðu 8980 millj., en greiðslurnar 8150 millj. Það munar m.ö.o. 800 millj. kr. Það er 800 millj. kr., sem tekið er meira í Viðlagasjóðinn en þarf til að standast nauðsynlegar greiðslur það eru 842 millj. kr. nákvæmlega, sem sjóðurinn fengi meira en hann þarf til að standa við skuldbindingar ársins 1975. M.ö.o.: það er ætlast til þess að Seðlabankanum verði greiddar 842 millj. kr. eða að meira sé notað í tjónabætur en nú er gert ráð fyrir.

Í sambandi við þetta er enn fremur nauðsynlegt að hafa í huga, að Viðlagasjóður hefur nú þegar greitt 100 millj. kr. í tolla og söluskatt af viðlagasjóðshúsum og gert er ráð fyrir að hann greiði á þessu ári 386 millj. kr. í tolla. Það verður að athuga þetta. Sjálfur ríkissjóðurinn hefur þegar haft 100 millj. kr. tolltekjur af innflutningi vegna Viðlagasjóðs, og honum er ætlað að hafa tolltekjur að upphæð 386 millj. kr. á því ári sem nú er nýbyrjað. Þó að ríkissjóði yrði gert að greiða 500 millj. kr. í Viðlagasjóðinn, þá væri hann í raun og veru aðeins að skila aftur tolltekjunum einum og söluskattstekjunum einum. Þetta væri í raun og veru ekki raunverulegt framlag, heldur að skila aftur tolli sem hann hefur innheimt í sambandi við þær hörmungar sem orðið hafa. Þessar tölur eru taldar með í útgjöldunum sem ég nefndi hér að framan.

Að síðustu er þess að geta, að gert mun verða ráð fyrir því og reiknað með því í útgjaldatölum, að fjmrn. innheimti vexti af Viðlagasjóði að upphæð 75 millj. kr. Ríkissjóður hefur, þegar tekið er tillit til vaxtagreiðslnanna líka, — látum þær vera, þær eru sérstaks eðlis, — en í öllu falli ríkissjóður hefur fengið meira frá Viðlagasjóði en við Alþfl.- þm. og þm. SF. leggjum nú til að hann leggi til Viðlagasjóðs. Það er um það að ræða að skila aftur fé, sem hann hefur fengið, og hætt yrði að taka fé, sem hann annars mundi taka. Hér er því raunverulega ekki um neina viðbótarbyrði á ríkissjóð að ræða, sem hins vegar þýðir ekki það að honum beri ekki nauðsyn til að spara þrátt fyrir það.

Þá má enn fremur minna á það, að vaxtagjöld Viðlagasjóðs af yfirdrætti við Seðlabankann hafa numið gífurlegum upphæðum. Ég efast um að hv. þm. hafi gert sér grein fyrir um hversu stóra upphæð þar er að ræða. Viðlagasjóður hefur greitt Seðlabankanum hvorki meira né minna en 160 millj. kr. í vexti, og er sú tala talin með í útgjaldatölunum sem ég gat hér um áðan.

Þessar staðreyndir gera það enn þá augljósara en lá fyrir við 1. umr. málsins, hvílík fjarstæða það er að ætla sér nú undir þessum kringumstæðum að hækka söluskattinn um eitt stig. Það er óþarft. Það er algerlega óþarft, og á þessum tímum á ekki að leggja óþarfar álögur á almenning. Þetta er ekki aðeins óþarft, það er stórhættulegt að gera þetta, eins og ástandið á vinnumarkaðnum nú er, eins og ástand kjaramála launþega er nú. Þar vitna ég til þess bréfs, sem hv. frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. las upp frá stjórn og samninganefnd Alþýðusambands Íslands, þar sem hækkun söluskattsins er mótmælt harðlega sem beinni árás á kjör launþega í landinu, sem þó sannarlega hafa rýrnað stórlega á undanförnum mánuðum, eins og ég tel mig hafa sýnt glögglega fram á í ræðu minni við 1. umr. málsins.

Ef ríkisstj. með hjálp hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar knýr fram slíkar álögur á almenning að nauðsynjalausu, að óþörfu, þá hljóta launþegasamtökin að skoða það sem hnefahögg í andlit sér, og það hlýtur að verða til þess að torvelda mjög alla skynsamlega og eðlilega samninga, sem þó er nú þegar nauðsyn að gerðir verði á vinnumarkaðnum.

Ég varpaði fram þeirri spurningu við 1. umr. hvort afstaða hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar væri afstaða þingfl. Alþb. Ég hafði þá, þegar sú ræða var flutt, ekki haft tíma til að lesa öll morgunblöðin. En sama daginn og hann flytur þessa ræðu, þ.e.a.s. í gær, er grein í blaði flokks hans, Þjóðviljanum, forustugrein, ágæt grein, sem heitir: „Eining er afl — afl sem sigrar“. Í lok greinarinnar, sem fjallar um samþykkt sem verkalýðsfélagið Eining hafði gert, segir svo, með leyfi hæstv. forseta, — í niðurlagi ályktunar Einingar er þetta:

„Fundurinn beinir þeirri eindregnu áskorun til þeirra pólitísku afla, sem lýst hafa samstöðu með verkalýðshreyfingunni, að þeir gangi sameiginlega til liðs við hana og víki pólitísku karpi sínu til hliðar um sinn, svo að komið verði í veg fyrir frekari réttinda- og lífskjaraskerðingu verkalýðsins.“

Þetta segir verkalýðsfélagið Eining og Þjóðviljinn lýkur svo forustugrein sinni með því að segja, — og þetta gerist sama morguninn og hv. þm. Lúðvík Jósepsson mælir með hækkun söluskatts úr 19 í 20 stig, — Þjóðviljinn segir:

„Undir þessa afstöðu verkalýðsfélagsins Einingar vill Þjóðviljinn taka eindregið, og heitir blaðið liðsinni sínu til framgangs þeirrar stefnu sem þar er krafist.“ M.ö.o.: blaðið heitir stuðningi við framgang þeirrar stefnu, sem er andstæð stefnu Lúðvíks Jósepssonar hér á hinu háa Alþ. sama dag. Enn segir blaðið: „Jafnframt vill blaðið beina þeirri áskorun til annarra verkalýðsfélaga í landinu, að þau taki kröftuglega undir kröfur Einingar um einingu launamanna andspænis fjandsamlegu ríkisvaldi. Eining er afl — afl sem sigrar.“

En það er alveg auðséð að hv. þm. Lúðvík Jósepsson ætlar ekki að vera í þeirri sókn sem þarna er hvatt til. Hann ætlar þvert á móti að skipa sér í hóp með fjandmönnum verkalýðshreyfingarinnar, með fjandmönnum alþýðusamtakanna. Þess vegna var það með athygli að ég opnaði Þjóðviljann í morgun til þess að vita hvort hinum sterka manni Alþb. hefði e.t.v. ofboðið þessi grein í gær og hann léti nú Þjóðviljann gera betrumbót og hætta að ráðast jafnharkalega á sig og leiðarinn í gær hlaut að túlkast. Þá vill svo ágætlega til, að það er hinn sterki maður Alþb. sem skrifar þennan leiðara, ef maður má taka mark á þeim upplýsingum, sem koma fram í blöðum, að leiðarar sem undirskrifaðir eru „M“ séu ritaðir af hv. þm. Magnúsi Kjartanssyni. En í þessum leiðara segir m.a., með leyfi hæstv. forseta, — í upphafi er talað um samstöðuna um að bæta tjónið vegna snjóflóðanna í Neskaupstað, sem allir eru sammála um, en svo segir orðrétt:

„Þrátt fyrir þessa samstöðu hefur ríkisstj. haft þann ósæmilega hátt á að ákveða gjaldheimtu í þessu skyni án nokkurs samráðs við stjórnarandstöðuna, og enn á að vega í sama knérunn og fyrr — hækka söluskattinn upp í 20%.“

Hér er auðsjáanlega tekin eindregin afstaða gegn afstöðu Lúðvíks Jósepssonar í þessari deilu sem var hér í gær og í þn. í morgun. Og enn segir Þjóðviljinn, eða hv. þm. Magnús Kjartansson:

„Óbeinir skattar hérlendis eru nú hærri en í nokkru nálægu landi. Við búum enn við verulega tolla af innfluttum neysluvarningi, auk þess sem söluskatturinn er orðinn svipuð hundraðstala og í löndum þar sem tollheimta af innfluttum varningi hefur verið felld niður. Óbeinir skattar af þessu tagi leggjast hlutfallslega þyngst á það fólk sem minnstar tekjur hefur, barnmargar fjölskyldur, aldrað fólk og öryrkja. Slík skattheimta er sérstaklega ranglát nú“ — nú endurtek ég: „slík skattheimta er sérstaklega ranglát nú, þegar bannað er með lögum að greiða nokkrar bætur á kaup vegna óðaverðbólgunnar.“

Þarna erum við Þjóðviljinn, við Magnús Kjartansson algerlega sammála. Þarna mælir hann réttlát og réttmæt orð, og ég vona að þau þýði það, að hann greiði atkv. gegn hækkun söluskattsins. En það breytir ekki því, að annar af aðalforustumönnum Alþb. er þegar búinn að lýsa verkalýðsfjandsamlegri afstöðu. Hann er þegar búinn að lýsa afstöðu, sem er í ósamræmi við yfirlýstan vilja stjórnar Alþýðusambandsins og samninganefndar Alþýðusambandsins. Ég vona að ég megi taka þetta þannig, að þarna sé komið eitt atkv. á móti einu í Alþb., og nú hlýtur bæði þing og þjóð að bíða spennt eftir því að vita hvað verður um hin atkv. 9. Hvar lenda þau? Verkalýðsins megin eða atvinnurekenda og ríkisstjórnarinnar megin. Það er mergurinn málsins, og þjóðin mun sannarlega biða með eftirvæntingu eftir því að fá botn í það mál.

Þá vil ég að síðustu víkja örfáum orðum að ræðu, sem hv. þm. Þórarinn Þórarinsson flutti hér í gær og ég heyrði raunar ekki, en hef lítið yfir síðan, auk þess sem sagt hefur verið frá henni í blöðum. Í ræðu minni hafði ég bent á það sem dæmi um hversu lítinn áhuga ríkisstj. hefði á því að spara, að nú um þessar mundir væri háð annað þing hér í Reykjavík en Alþ., þ.e. búnaðarþing, og það þing væri haldið algerlega á kostnað hins opinbera, algerlega á kostnað ríkissjóðs og um greiðslu þess kostnaðar giltu sömu eða svipaðar reglur og um greiðslu kostnaðar við Alþ. Þetta er túlkað í blaði Þórarins Þórarinssonar, hv. þm., í morgun þannig, að ég hefði viljað leggja búnaðarþing niður. Gagnrýni á því, að almenningur sé látinn borga þinghald einnar stéttar, á að þýða það, að ég sé á móti slíku þinghaldi. slíkt er svo siðlaus málflutningur í blaðamennsku að engu tali tekur. Ef hér kæmi fram till. um að ríkissjóður greiddi kostnað af iðnþingi og hv. þm. Þórarinn Þórarinsson væri á móti slíkri till., þýddi það þá að hann væri á móti því að iðnþing væri haldið? Iðnþing er haldið. Kostnaður við það, að því er ég best veit, er greiddur úr sjóðum iðnaðarmanna sjálfra. Með nákvæmlega sama hætti ætti kostnaður við búnaðarþing að vera greiddur úr sjóðum bænda sjálfra. Ég vil spyrja hv. þm. Þórarin Þórarinsson, ég bið hann að svara því hér á eftir: Hvernig rökstyður hann það, að réttlátt sé að kostnaður við búnaðarþing sé greiddur úr ríkissjóði en iðnaðarmenn sjálfir t.d. greiði kostnað við þing sitt úr eigin sjóði? Telur hann það réttlátt? (Gripið fram í: Hvað þá um kirkjuþing?) Er kostnaður við það greiddur úr ríkissjóði? Ekki ver ég það. En skýringin er líklega sú, að þjóðkirkjan er ríkiskirkja, en bændurnir eru ekki ríkisbændur. Skýringin er líklega sú, að það er lítið á þjóðkirkjuna sem ríkisstofnun.

Um fiskiþing sagði ég í gær, að ég vissi ekki betur en svipaðar reglur giltu um fiskiþing og gagnrýndi það með alveg sama hætti og ég hafði raunar gert áður. Nú var upplýst í Morgunblaðinu í morgun, að ekki giltu sömu reglur um greiðslu kostnaðar við fiskiþing, þ.e.a.s. kostnaður við það er aðeins brot af kostnaði við búnaðarþing og um það gilda miklu eðlilegri og sanngjarnari reglur en um kostnað við búnaðarþingið. Öll önnur stéttaþing eru kostuð af stéttunum sjálfum. Búnaðarþing hefur hér algera sérstöðu og ef það er fjandskapur við búnaðarþing eða fjandskapur við bændur að gagnrýna slík sérréttindi og slíkt sukk sem hér er á ferðinni, þá vil ég fá rökin fyrir því frá hv. þm. Þórarni Þórarinssyni, hvers vegna á þá ekki alveg eins að greiða kostnað t.d. við iðnþing, svo að ég láti við það dæmi eitt sitja.

Ég skal ekki lengja þessa umr. frekar. Þingfl. Alþfl. styður að því að þetta mál og raunar olíubótamálið einnig geti orðið að lögum í dag, ef fært þykir af afgreiðsluástæðu. Hann mun ekki torvelda að það geti orðið. Hann hefur skýrt mótaða stefnu í báðum málunum og hefur gert grein fyrir henni í báðum deildum, mun greiða atkv. í samræmi við það og stuðla að því að málin hljóti afgreiðslu á þessum degi ef hæstv. ríkisstj. óskar eftir því. Ég skal því ekki halda áfram almennum umr. um efnahagsmál, sem ég gerði að umræðuefni við 1. umr. málsins í gær. Það létu ýmsir þm. í ljós undrun yfir því að ég skyldi leyfa mér að ræða efnahagsmál almennt í sambandi við þetta frv. Sér er nú hver syndin 1 Það er verið að hækka álögur á almenning um 1 milljarð. Það er að óþörfu verið að hækka söluskatt um eitt stig. Það er að óþörfu verið að hækka nær allt verðlag í landinu meðan kaupgjald er bundið með lögum. Hvað er þá eðlilegra en að efnahagsmál almennt séu rædd í því sambandi, þó að ég skuli ekki halda því áfram núna, ég tel mig hafa gert það nægilega rækilega í gær? En auðvitað er óhjákvæmilegt að benda á það í þessu sambandi, að þetta er enn eitt dæmið um það, að þessi ríkisstj. hefur enn enga heildarstefnu í efnahagsmálum, ekki frekar en fyrrv. ríkisstj. Efnahagsstefna þessarar ríkisstj. er framhald af sama ráðleysinu, sömu smáskammtalækningaaðferðinni og fyrri ríkisstj. reyndi að beita með þeim hörmulega árangri sem ég lýsti í gær og raunar er alkunnur og þarf ekki að l.ýsa frekar hér. Það versta við stefnu þessarar ríkisstj. er það, að hún er í raun og veru sama stefnan og stefna síðustu ríkisstj. Það er m.ö.o. sami framsóknargrauturinn í sömu kommaskálinni. Nú eru það sjálfstæðiskokkar, sem sjóða hann, en hann verður ekkert betri fyrir það.