27.02.1975
Neðri deild: 48. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1945 í B-deild Alþingistíðinda. (1554)

168. mál, ráðstafanir vegna snjóflóða í Norðfirði

Eðvarð Sigurðsson:

Hæstv. forseti. Ég ætla að reyna í stuttu máli að gera grein fyrir afstöðu minni til þess frv. sem hér er til umr.

Það er eins og alkunnugt er, að hlutverk Viðlagasjóðs er að bæta tjón vegna eldanna í Heimaey og nú til viðbótar vegna tjóna af völdum snjóflóðanna í Neskaupsstað. Ég held að sé óhætt að segja það, þó að raunar sé óþarft, að þjóðin er öll einhuga um að þessi tjón á að bæta með sameiginlegu framlagi allra landsmanna. Með þessu frv. er lagt til að söluskattur verði hækkaður um 1% til þess að standa við þessar skuldbindingar, eins og sagt er. Þá er að líta á hvort það sé nauðsynlegt, að söluskattur verði hækkaður sem þessu nemur, eða önnur viðlíka skattheimta, nýir skattar á lagðir, og er þá rétt að líta á stöðu Viðlagasjóðs eins og hún kemur mér fyrir sjónir samkv. þeim fskj. sem fram hafa verið lögð með þessu frv. Niðurstaða mín í þeim efnum er ákaflega svipuð og hv. síðasta ræðumanns, Gylfa Þ. Gíslasonar. En það er ekki þar með sagt að ég ætli að fara að taka í einu og öllu undir ræðu hans sem hér var nú flutt. Þó verð ég að segja það, að það er bíræfni af þeim manni að bera Lúðvík Jósepssyni á brýn fjandskap við verkalýðshreyfinguna og það skuli segja sá maður, sem í 12 ár samfleytt lá í flatsæng með íhaldinu í viðreisnarstjórninni, en þá hefur verkalýðshreyfingin orðið að þola þann mesta fjandskap, sem ríkisstj. hafa fram til þessa sýnt henni, og er hann þar alls ekki undanskilinn, síður en svo. Að öðru leyti ætla ég ekki að tala frekar um ræðu hans.

Mér sýnist að heildarstaða Viðlagasjóðs, og ég vil undirstrika: heildarstaða, sé nokkurn veginn sú, að þótt farið væri að lögum eins og þau nú eru og félli niður það söluskattsprósent, sem runnið hefur til Viðlagasjóðs á s.l. ári og fram til 1. mars, ef það félli alveg niður, þá mundi staða sjóðsins vera nálægt því að skuldir umfram eignir mundu vera nálægt 760 millj. kr. Sé hins vegar reiknað með því, að frv. þetta verði að lögum og 2% söluskattur verði innheimtur til ársloka 1975, munu eignir Viðlagasjóðs umfram skuldir nema röskum 800 millj. kr. Í báðum dæmunum er búið að reikna með að kostnaður vegna skaðans í Neskaupstað verði bættur með 600 millj. kr., eins og frv. gerir ráð fyrir. Ég vil undirstrika að hér er um að ræða heildarstöðu Viðlagasjóðs. Greiðslustaðan er önnur og verri. En eins og var tekið fram áðan af frsm. meiri hl. n., er þar um að ræða tímabundinn vanda og greiðsluvandi Viðlagasjóðs er tímabundinn, og ég vil segja að þann vanda á að leysa með öllum ráðum öðrum en þeim að hækka söluskatt. Til þess að leysa tímabundinn greiðsluvanda á nú að skattleggja matarpeninga almennings. Ég vil undirstrika og benda á, að í því dæmi, sem sett er upp í fskj. sem frv. fylgja, eru greiðslur á tollum, söluskatti til ríkisins og vaxtagreiðslur, fyrst og fremst við Seðlabankann og reyndar til ríkisins einnig, sem nema a.m.k. á 8. hundrað millj. kr. og sennilega þó nær milljarðinum þegar allt kemur til alls. Ég spyr aftur: Á að skattleggja matarpeninga almennings til þess að borga þetta?

Söluskattur hefur þá náttúru að hækka allt verðlagsstig í landinu hér um bil til jafns við prósentutöluna. Það er talað um að það eigi að líta á þetta mál sem alveg sérstakt mál, tímabundið, ekki varanlegt, sagði hv. frsm. meiri hl. n. Það getur vel verið, að þegar um er að ræða að hækka verðlagið í landinu sem nemur fast að 1% geti hann horft á það ósköp rólegur. En almenningur, sem nú verður að velta hverjum peningi fyrir sér áður en hann er greiddur, getur ekki gert það. Hann hlýtur að spyrja: Er ekki hægt að gera annað? Ég veit ekki til þess að skattur og þá allra síst söluskattur hafi verið færður niður, þegar hann er einu sinni kominn á, og að tala um að hér sé um að ræða aðeins bráðabirgðaúrræði til næstu áramóta, það þýðir ekki að segja mér. Það var aldrei meiningin að þetta stæði svona lengi, og það verða áreiðanlega komnar aðrar þarfir þá, sem verða leidd að rík rök að þurfi að uppfylla, og söluskattur verður ekki afnuminn. Sú verðlagshækkun, sem af samþykkt þessa frv. leiddi nú, mundi þess vegna verða varanleg, en ekki tímabundin og það vil ég undirstrika.

Það hefur nú verið boðið fram að framlengja þann 1% söluskatt, sem rennur til Viðlagasjóðs, til miðs árs 1976. Ég sé ekki annað en með því sé fyllilega séð fyrir greiðslum Viðlagasjóðs. Að vísu þarf að leysa tímabundinn greiðsluvanda á annan hátt, en fyrir endanlegum fjárþörfum Viðlagasjóðs er fyllilega séð með þeim hætti. Þessi leið er allt önnur en að fara nú að hækka söluskattinn til viðbótar um eitt stig, vegna þess að með því móti verður allt verðlag í landinu hækkað, en þó að þetta stig -sem er verði látið vera áfram, þá hækkar verðlagið út af fyrir sig ekki af þeim sökum. Á þessu tvennu .er reginmunur.

Hæstv. forsrh. tók fram í sinni framsöguræðu fyrir þessu máli, að, það yrði séð fyrir því að hinir verst settu mundu fá bætta þá skerðingu, sem þetta 1% á söluskatt kynni að valda þeim. Hann talaði um í því sambandi, að það yrði nú senn sett fram frv. um nýjar launajöfnunarbætur og talaði þá um, að bætt yrði það sem umfram væri að framfærsluvísitala væri komin í 358 stig, upp í 375 stig, eins og hann orðaði það. Framfærsluvísitalan 1. febr. er 372 stig. Ekki veit ég hvort hér er um að ræða mismæli eða þá hitt, sem sennilega mun vera, að það sé búið að reikna inn í framfærsluvísitöluna áhrifin af hækkum söluskattsins um 1%, sem nemur sennilega eitthvað nálægt 3 stigum í framfærsluvísitölunni.

Um þetta vil ég aðeins segja það, að þegar hæstv. forsrh. talar um að bæta það sem umfram er 358 stig, þá eru það einvörðungu hugmyndir hans eða ríkisstj., hvernig ætlunin sé með málin að fara. Ég vil taka það mjög skýrt og greinilega fram, að þegar verkalýðshreyfingin fékk það ákvæði inn í brbl. frá því í haust um launajöfnumarbæturnar, að endurskoða skyldi þau mál þegar og ef framfærsluvísitalan færi í 358 stig, þá var ekki í hugum neinna okkar, sem vorum þar af hálfu verkalýðshreyfingarinnar, að það ætti að bæta það sem væri fram yfir 358 stig. Sá leki, sem við vorum að setja undir, var að fá bætta þá hækkun sem yrði úr 342 stigum framfærsluvísitölunnar og í 358 eða meira, sem hún kynni að verða. Það var þetta bil sem auðvitað var haft í huga. En nú er talað um að láta falla niður hækkunina upp í 358 stig og greiða það sem fram yfir kynni að vera. Þá held ég að fari að verða ódýr lausnin á bótum fyrir þá verst settu, ef með þessum hætti á að bæta þeim upp það sem 1% hækkun söluskattsins veldur.

Það var lögð hér áðan áhersla á að innan veggja Alþ. yrði að ná samkomulagi til að leysa þessi mál. Ég vil mjög undirstrika, að það væri nauðsynlegt. Hins vegar geng ég ekki svo langt, að þeir, sem hér hafa töglin og hagldirnar og geta gert í raun og veru hvað sem þeir vilja, setji kostina og ætli að beygja alla aðra undir sína kosti. Ég mun ekki greiða þessu frv. atkv., ef þær brtt., sem komnar eru fram, verða felldar Ég lýsi yfir andstöðu minni við hækkun söluskattsins um 1% og vil minna mjög alvarlega á þau mótmæli, sem miðstjórn Alþýðusambandsins og öll samninganefndin algjörlega einhuga tók í afstöðunni til þessa máls. Og ég verð að segja, að það er næsta furðulegt, að á sama tíma sem ríkisstj. stendur í viðræðum við verkalýðshreyfinguna um ráðstafanir sem mættu verða til þess að liðka fyrir að samningar tækjust milli verkalýðsfélaganna og samtaka atvinnurekanda, þá skuli þessi leið vera farin. Þar hefur komið mjög á dagskrá linun á þeim mjög svo þungu sköttum á almenningi, sem hljóta að verða á þessu ári, verða mjög þungbærir. Þar hefur í raun og veru ákaflega lítið komið fram. En með þessu frv. og öðrum þeim skattaálögum, sem þegar er búið að framkvæma, svo sem með hækkun á tóbaki og áfengi, með bensínhækkuninni, þar sem ríflegur hluti rennur beint í ríkissjóð, þá er búið að leggja á mun þyngri skatta en ríkisstj. hefur nokkurn tíma orðað við okkur að til mála gæti komið að gert yrði til þess að lina þá.

Þegar málum var svo komið, að augljóst var að átti að taka meira með annarri hendinni en gefið var með hinni, þá taldi samninganefnd verkalýðsfélaganna ekki ástæðu til að sitja lengur yfir þeim málum, þannig að allt hefur þetta orðið til þess, að þau mál eru nú sigld í strand. Það er engu líkara en að með alls konar ráðstöfunum ætli ríkisstj. nú að knýja fram — bókstaflega knýja fram aðgerðir sem verkalýðshreyfingunni er ekki ljúft að fara í á þessari stundu.