27.02.1975
Neðri deild: 48. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1959 í B-deild Alþingistíðinda. (1561)

168. mál, ráðstafanir vegna snjóflóða í Norðfirði

Frsm. meiri hl. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að tala langt mál aftur um þetta frv. sem hér er til umr., en ég vil taka það fram að vandinn, sem við er að fást í þessum efnum, og sú erfiða staða í þessu máli stafar af því í fyrsta lagi, að Viðlagasjóður skuldar um s.l. áramót 1547 millj. kr. í Seðlabankanum. Þessi skuld er óumsamin, þannig að í raun og veru er sjóðurinn í vanskilum, sem nema 1547 millj. kr. um s.l. áramót. En á hitt ber að líta í öðru lagi, að sjóðurinn þarfnast mjög peninga á þessu ári til að geta staðið undir þeim tjónbótum, sem honum er ætlað að standa undir, og það vill svo til að í Neskaupstað er ákaflega þýðingarmikið að dómi heimamanna og raunar allra, sem til þekkja, að síldarverksmiðjan, sem eyðilagðist í snjóflóðunum miklu í des., verði byggð upp að nýju á þessu ári, þannig að hún verði tilbúin fyrir væntanlega loðnuvertíð á árinu 1976. Þess vegna er þessi staða að mörgu leyti óhæg og þýðingarmikið að afla fjár í Viðlagasjóð til þess að hann geti sinnt verkefnum sínum truflunarlaust.

Það er alveg rétt, sem hefur komið fram hjá sumum hv. þm., að það er út af fyrir sig ekkert skemmtiverk að standa að því að leggja söluskatt á vörur eins og nú er ástatt. En á hitt ber að líta í fyrsta lagi, að þetta hefur verið gert áður, þegar eldgosið í Vestmannaeyjum varð. Þá náðist samstaða um að leggja á 2 söluskattsstig á árinu 1973 til þess að standa undir greiðslu tjónbóta vegna tjónsins í Vestmannaeyjum, þannig að hér er raunverulega farið troðna slóð. Í báðum tilfellum er um það að ræða að þessari skattálagningu er eingöngu ætlað að vara um tiltekinn tíma í þessu tilfelli að falla niður við n.k. áramót.

Því hefur verið lýst yfir af hæstv. forsrh., að það sé stefna ríkisstj. að heildaráhrif efnahagsráðstafana hennar verði að hlífa þeim, sem lág laun og lægst laun hafa, og hafa verið boðaðar ráðstafanir í því sambandi, svo sem skattalækkanir, hækkun á bótum almannatrygginga, láglaunabætur áfram og síðan hefur verið talað um niðurskurð á ríkisútgjöldum. Ég vil þó segja það hér strax, að ég er ákaflega viðkvæmur fyrir því, ef skerða þarf fjárveitingar á fjárl. til opinberra framkvæmda úti um landsbyggðina á þessu ári, og tel ekki að til þess eigi að gripa nema í hreinu neyðarástandi, þar sem búið er að afgr. fjárl. fyrir árið eins og kunnugt er.

Varðandi þær till., sem hér liggja fyrir, þá gerði ég grein fyrir því í framsöguræðu minni, að staða Viðlagasjóðs mundi verða viðunandi ef sá háttur verður hafður á að leggja þessi 2 söluskattsstig á til áramóta n.k. Eins og ég sagði áður, var skuld Viðlagasjóðs við Seðlabankann í árslok 1974 1547 millj. kr. Viðlagasjóður hefur gert um það greiðsluáætlun, að ef núverandi tekjustofn sjóðsins, 1% söluskattsstig, haldist áfram til miðs árs 1976 eða til 30.6., þá yrði staðan í árslok 1976 1 286 millj. kr. neikvæð.

Hér liggja fyrir tvær aðrar till. en þær, sem gerð er grein fyrir af hálfu meiri hl. fjh.- og viðskn. Það er annars vegar till. hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar og hins vegar till. hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasonar og Karvels Pálmasonar. Mér sýnist, að staða Viðlagasjóðs í árslok 1975 með óbreyttum tekjustofni, þ.e.a.s. 1 prósentustigi söluskatts, mundi verða neikvæð um 1662 millj. Ef farið yrði að till. hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar mundi þessi staða verða neikvæð um 1662 millj., að frádregnum 400 millj., sem hann gerir ráð fyrir að ríkissjóður leggi fram. Þá mundi því staðan verða neikvæð um 1 262 millj. kr. Aftur á móti mundi staðan verða neikvæð um 1162 millj., ef farið yrði að till. hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasonar og Karvels Pálmasonar, en þeir leggja til að lagðar verði fram úr ríkissjóði 500 millj. kr. á þessu ári. Í báðum tilfellum yrði greiðslustaða sjóðsins áfram geysilega slæm.

Nú er það kunnara en frá þurfi að segja, að staða ríkissjóðs við Seðlabankann hefur verið afar slæm og versnandi, eins og kunnugt er. Það kemur fram í ritinu Úr þjóðarbúskapnum, sem Þjóðhagsstofnunin gefur út og er dags. 10. febr. 1975, að í heild hafi staða ríkissjóðs gagnvart Seðlabankanum versnað um 3 660 millj. kr. nettó á árinu 1974 samanborið við 1 200 millj. kr. versnun árið 1973. Þannig er alveg sýnilegt, að ekki er bætandi á þessa stöðu, þegar þar við bætist svo sú staðreynd að gjaldeyrisvarasjóður þjóðarinnar er uppurinn.

Ef við lítum áfram á þessi dæmi og rekjum þau nokkuð áfram, þá liggur það fyrir að greiðslustaða Viðlagasjóðs 31.12. 1976 mundi verða 1 286 millj. kr. neikvæð, ef óbreyttur tekjustofn gilti, eins og ég gerði grein fyrir í framsöguræðu minni. Ef við lítum á till. hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar, þá sýnist mér að greiðslugeta Viðlagasjóðs í árslok 1976 yrði neikvæð um 826 millj., en aftur á móti ef litið er á till. hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasonar og Karvels Pálmasonar mundi staðan verða neikvæð um 1086 millj. Í báðum þessum tilfellum er lögð á Viðlagasjóð mjög slæm greiðslustaða, sem áreiðanlega mundi hafa þau áhrif að hann gæti ekki starfað, ég vil segja með eðlilegum hætti.

Hv. þm. Lúðvík Jósepsson gerði að vísu grein fyrir því í sinni ræðu áðan, að hann ætlaðist til þess að það yrði gerður samningur um það við Seðlabankann af hálfu Viðlagasjóðs, að hann hlypi undir bagga í þessu sambandi á þann veg, að Viðlagasjóður gæti haft handbært fjármagn til að sinna sínum verkefnum. En það hefur komið fram hér í umr. áður og er ástæða til að endurtaka það, að staða ríkissjóðs gagnvart Seðlabankanum og gjaldeyrisstaðan er með þeim hætti, að það verður að teljast mjög varhugavert að leggja á Seðlabankann frekari byrðar en sýnilegt er að verða mundu ef þessum till. yrði fylgt.

Varðandi þá tillögugerð að skera niður ríkisútgjöld í því skyni að leggja fé í Viðlagasjóð, þá er þess að geta, eins og hæstv. forsrh. hefur lýst yfir, að það eru uppi áform í því efni, veruleg áform, og þessar till. mundu auðvitað auka nauðsyn á slíkum niðurskurði ef þær væru samþ. Þá er raunar komið að því, sem verður áreiðanlega rætt um síðar meir, þegar verður farið að ræða um niðurskurð á ríkisútgjöldum, hvað eigi að skera niður og hvað ekki. Þá liggur það auðvitað ljóst fyrir, að þessar till., sem gera ráð fyrir, önnur 400 millj. kr. og hin 500 millj. kr. niðurskurði ríkisútgjalda, mundu bætast við þær fyrirætlanir sem þegar ern uppi í því efni.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um málið að þessu sinni og leiði hjá mér að hefja deilur almennt um efnahagsmálin.