27.02.1975
Neðri deild: 48. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1961 í B-deild Alþingistíðinda. (1562)

168. mál, ráðstafanir vegna snjóflóða í Norðfirði

Frsm. 1. minni hl. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Ég vil fyrst víkja örfáum orðum að því, sem hv. 4. þm. Austurl. var að enda við að segja, þar sem hann gerði nokkra grein fyrir mismun á áhrifum þeirra till., sem ég hef flutt, á afkomu Viðlagasjóðs og þeirra till., sem felast í frv. ríkisstj. Það, sem hv. þm. sagði í þessum efnum, var í öllum aðalatriðum rétt að mínum dómi, en aðeins skorti þar á eitt atriði, sem mér fannst ekki koma nægilega skýrt fram og ég vil þar bæta við.

Það er alveg ljóst, að sá er munur á till. mínum og þeim till., sem felast í frv., að staða Viðlagasjóðs um næstu áramót yrði lakari skv. mínum till. en skv. því sem felst í frv. Á þetta hafði ég einmitt minnst, þegar ég gerði grein fyrir till. mínum, og taldi að af þessum ástæðum þyrfti að reyna að tryggja það við Seðlabankann að hann veitti Viðlagasjóði á þessu ári og fram um næstu áramót nokkuð ríflegra yfirdráttarlán, sem síðan yrði greitt Seðlabankanum með þeim tekjustofnum sem felast í till. minni, en mundu ekki skilast inn sem tekjur fyrr en á fyrra helmingi næsta árs. Þegar þær tekjur eru komnar inn, á miðju ári 1976, á Viðlagasjóður að standa fyllilega eins vel gagnvart Seðlabankanum skv. mínum till. og yrði með samþykkt frv. eins og það liggur fyrir. Þetta er munurinn. Ég tel fyrir mitt leyti, að hér sé til svo mikils að vinna, að losna við að hækka söluskattinn um 1 stig, að það eigi ekki að horfa í þann vanda, þó að Seðlabankinn þyrfti að þola það að fá minna greitt inn af skuld Viðlagasjóðs um næstu áramót sem nemur í kringum 400 millj. kr., þegar hann hefur það staðfest í lögum að þessa fjárhæð fær hann greidda á fyrri hluta næsta árs. Hér á ekki að þurfa að verða ágreiningur, sem byggist á fjárhagslegri stöðu Viðlagasjóðs, heldur er það eitthvað annað sem knýr á um að heldur sé farin sú leið, sem hér er valin. Það er ekki hægt að neita því, að það sé eðlilegt að upp í huga manna komi, að hugmyndin með því að fara frekar þá leið að hækka söluskattinn um 1 stig byggist á því, að þá muni vera handhægara að framlengja þetta skattstig áfram um næstu áramót, þegar því sé einu sinni á komið.

Eins og hér hefur komið skýrt fram, er málið flutt á þeim grundvelli að þetta söluskattsstig eigi aðeins að standa á þessu ári og ganga úr gildi um næstu áramót. Það er því skoðun mín að það sé fyllilega réttmætt og fært að fara þá leið, sem ég hef lagt til, og það geti ekki verið sá vandi að semja við Seðlabankann um aukinn yfirdrátt þennan stutta tíma að menn þurfi að setja það fyrir sig.

Ástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs, var fyrst og fremst sú einkennilega ræða, sem hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason flutti hér, og ætti ég þó í rauninni hvorki að vera að eyða mínum tíma né annarra manna að elta ólar við slíka furðuræðu sem hann flutti hér og flytur hér allajafna nú í seinni tíð. Einu sinni var það svo, að mér fannst þessi hv. þm. vera sæmilega talnaglöggur, enda hefur hann tekið að sér að kenna talnafræði við Háskóla Íslands. En hann er orðinn einstakur ruglari í því að fara með tölur. Hann hleypur í einhverja talnahrúgu, þar sem hann grípur einhverja tölu, þvælir henni saman við aðrar tölur og fær venjulega út einhverja bölvaða vitleysu. Þetta gerðist núna á áberandi hátt. Það skýrist auðvitað allt með þeim mikla ákafa, sem kom fram hjá hv. þm. í því að reyna að koma höggi á mig í sambandi við það mál, sem hér liggur fyrir til afgreiðslu, og svo auðvitað minn flokk. Það var aðalatriðið, þegar hann geystist nú í þessum efnum. Það var eitt m.a. sem hann sagði, að ég vildi tryggja Viðlagasjóði miklu meiri tekjur en nokkur þörf væri á, og reiknaði það auðvitað út og sagði að það munaði hvorki meira né minna en því, að ég vildi auka tekjur Viðlagasjóðs umfram það, sem þörf væri á, um yfir 800 millj. kr.

Nú eru þær till., sem hér liggja fyrir, svo einfaldar, að ég efast ekkert um að það er auðvelt að láta alla skilja þessa till. og einnig hv. þm. Gylfa Þ. Gíslason, þó að hann sé farinn að ruglast svona í talnafræðinni. Sjálfur stendur hann að till. um að Viðlagasjóður skuli halda einu söluskattsstigi í 12 mánuði. Það eru samkvæmt þeirri áætlun, sem hér liggur fyrir og er óumdeild, 960 millj. kr. Síðan leggur hann til að ríkissjóður leggi fram 500 millj. kr. Nú eru þarna bara á ferðinni tvær tölur, 960 millj. og 500 millj. Hvað er þetta mikið? Ætli það sjái ekki nokkurn vegin allir og hv. þm. einnig, hvað þetta muni gera mikið? 1 460 millj. En till. mín, sem hér liggur fyrir, gerir ráð fyrir því að framlengja söluskattsstigið í 16 mánuði eða til júníloka á árinu 1976. Það gerir eftir nákvæmlega sama reikningi 1280 millj. Auk þess legg ég til, að 400 millj. verði greiddar úr ríkissjóði. Þetta gerir samanlagt 1680 millj., munur 220 millj. kr. Ég hafði þegar rökstutt till. mína með því, að hún ætti að koma í staðinn fyrir till. þá sem felst í frv. og er lögð fram af hæstv. ríkisstj., en hún telur að það þurfi að tryggja sjóðnum 1600 millj., en mínar till. voru upp á 1 680 millj. sem áttu að koma nokkru seinna til sjóðsins.

Það er alveg ástæðulaust að hefja upp einhvern hamagang út af þessu, sérstaklega ef menn vissu til viðbótar, að þessi hv. þm. lýsti því yfir ásamt öðrum þm. Alþfl. á sameiginlegum fundi fjh.- og viðskn. beggja þd. í gærmorgun, að Alþfl. væri reiðubúinn að framlengja þetta eina söluskattsstig — ekki fram á mitt ár, heldur út allt árið 1976. (Gripið fram í.) Nei, þetta kom afar skýrt fram hjá þeim báðum. Þá er auðvitað um það að ræða að tryggja Viðlagasjóði miklum mun meiri tekjur. En það passaði auðvitað ekki í það flogaveikikast sem hv. þm. stóð hér í þegar hann var að reyna að ná sér niðri á mér áðan og halda fram þessari vitleysu.

Auðvitað má hver maður sjá, að eðli málsins samkv. er það alveg rétt, sem kom fram hjá hv. þm. Karvel Pálmasyni, að það er í rauninni enginn eðlismunur á till. minni og þeirri till., sem hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason og Karvel Pálmason flytja hér. Það er aðeins minni háttar stigsmunur á þeim till. Þær miða báðar að því að losna við að hækka söluskattinn um eitt stig, en tryggja þó Viðlagasjóði ákveðnar tekjur, sem skakka ekki mikið frá þeirri áætlun sem fyrir liggur. Því er það, að hv. þm. Karvel Pálmason lýsti því yfir að hann mundi að sjálfsögðu greiða atkv. minni till. ef hún yrði borin upp á undan. Ég veit ekki, hvernig fer fyrir hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasyni, þegar hann þarf að standa frammi fyrir slíku. Það passar auðvitað ekki við það kast sem hann var í þegar hann var að ráðast á mig fyrir mínar till. En ástæðan var sú, að hann þurfti að halda því hér fram, þrátt fyrir allt það sem fram hefur komið í þessu máli, að ég væri sérstakur tillögumaður þess að hækka söluskattinn, þó að ég hafi tekið skýrt fram og margendurtekið, svo oft að ég býst við því að hv. þm. sé farið að leiðast, — það líkist næstum stagli kennara í kennslustund að endurtaka þetta svo oft sem ég hef gert í mínum ræðum, — að ég tel mjög miður að velja þá leið til tekjuöflunar í þessu tilfelli að þurfa að hækka söluskattinn og hef farið fram á að leita ráða til að losna við það og reyna að ná samkomulagi á öðrum grundvelli. Allar mínar till. eru miðaðar við það, því að ég er á móti því að fara þessa leið. En eftir það að ég hef margsagt þetta og undirstrikað í mínum ræðum, þá kemur hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason og segir: Hans leið er söluskattshækkun, hann vill söluskattshækkun. — Þegar ég hef bent á að þetta sé varhugaverð stefna, þá kemur Gylfi auðvitað rétt á eftir og segir: Stefna hans er söluskattshækkun. — En eins og ég segi, þetta er mjög í samræmi við þau ræðuhöld sem þessi hv. þm. hefur haft hér í frammi í seinni tíð, að fara að endastingast á þennan hátt með þeim ágæta árangri sem hann hefur haft af slíkum ræðuflutningi, að hann er bráðum búinn að eyða Alþfl. upp til agna. Það sem sagt munaði ekki nema hársbreidd, að hann félli alveg út úr Alþ. við síðustu kosningar. Eflaust tekst hv. þm. með nokkrum svona ræðum til viðbótar að ljúka þessu hlutverki sínu í næstu kosningum, þannig að það þurfi ekki þar frekar um að binda.

Það er hins vegar rétt að undirstrika það, að á milli mín og hv. þm., þótt reynt sé að túlka málflutning hans á besta veg, er ágreiningur um eitt verulega mikilvægt atriði og það er lokaafgreiðslu málsins. Ég hef undirstrikað það, að fyrir mér er það höfuðatriði að standa við gefin fyrirheit við vestmanneyinga og norðfirðinga, sjá um að þeir fái þá fjármuni sem búið er hátíðlega að lýsa yfir að þeir skuli fá vegna sinna miklu tjóna. Ég hef sagt það, að ég tel mér skylt í þessum efnum að leita samkomulags við aðra um leiðir til þess að ná þessu marki. Ég get ekki ætlast til þess að ég fái einn að ráða leiðinni. Það er ósköp létt verk að segja t.d. við norðfirðinga í þessu tilfelli: Það er sjálfsagt að bæta ykkur tjónið, ég er með því að bæta ykkur tjónið, — lofa því hátíðlega og koma svo með einhverja till. um að bæta tjónið á þann veg, að maður er nokkurn veginn viss um að það verður ekki samþ. á Alþ., af því að það fæst enginn meiri hl. með því, jafnvel þó að sú leið gæti verið góð. Þeim verður ekki bætt það tjón, sem þeir hafa orðið fyrir, með slíkum yfirlýsingum.

Það var einmitt þetta sem gerðist, eins og ég hef minnst á hér áður, þegar vandamálið mikla kom upp eftir gosið í Vestmannaeyjum. Þá komu upp till. bæði frá mér og öðrum um það, hvernig skyldi afla fjár til að leysa vandann. Við í Alþb. vildum leysa þann fjárhagsvanda, sem þá kom upp, eftir öðrum leiðum. Stjórnarandstaðan vildi fara enn aðrar leiðir. Og ég hef bent á það í þessum umr., að við urðum að sætta okkur við það að reyna að ná samkomulagi, slá af okkar till. og samlaga þær á milli flokkanna og sameinast þannig um leið, sem við töldum eftir atvíkum að ætti að duga, a.m.k. fyrst í stað, þó að margir teldu að það væri ólíklegt að sú leið, sem samið var um, dygði til fulls, eins og reynslan hefur líka sýnt að ekki varð.

Það, sem mér sýnist alveg augljóst á framkomu hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasonar, sem hefur talað hér fyrir Alþfl. og er reyndar farinn að tala hér fyrir hönd SF líka og margundirstrikar það, að hann tali fyrir þeirra hönd, rétt eins og þeir hefðu engan annan til þess að tala fyrir sig í þessari d., — mér sýnist að öll hans framkoma í þessu máli miðist við það eitt að segja: Ég vil bæta norðfirðingum og ég vil bæta vestmanneyingum tjónið, — en síðan leggur hann sig ekkert fram um það á neinn hátt að ná árangri í málinu. Hann úteys allri sinni orku í að reyna að ráðast á mig og bera mér á brýn kjördæmissjónarmið og þröng hreppasjónarmið, eins og hann hefur gert áður í sambandi við þetta mál.

Ég segi það, að þó að sú leið, sem lögð er til í þessu frv., sé mér ekki geðfelld og ég telji hana óheppilega þessa leið og hægt væri að fara aðra hagkvæmari leið, þá dettur mér ekki í hug að neita því, að hér sé um leið að ræða sem leysi vandann. Ég neita því ekki. Við fórum þessa leið í aðaltekjuöfluninni fyrir Vestmannaeyjar á sínum tíma, að hækka söluskatt. Og nú á síðasta ári var þetta eina leiðin sem farin var, að framlengja söluskattsstigið. Þetta er því, eins og hér hefur verið sagt, að fara troðna slóð, að gera það sem áður hefur verið gert í hliðstæðu tilfelli.

En þó að ég sem sagt undirstriki það, að ég tel aðra leið heppilegri og það hefði átt að reyna að fara hana og ég hef unnið að því eins og ég hef getað að fá samkomulag um það, þá neita ég því ekki, að það verður fremur að fara þessa leið en að svíkja loforðið. Það er vegna þess, að falli mín till. og falli till. hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasonar og Karvels Pálmasonar, þá mun ég eigi að siður greiða frv. atkv. með þeirri margföldu yfirlýsingu, sem hér hefur komið fram frá minni hálfu, að ég er ekki ánægður með þá tekjuöflunarleið, sem valin er, og ég tel hana ekki heppilega. En fjármunir fást inn einnig eftir þessari leið á sama hátt og áður, og hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason hefur sjálfur samþ. þessa sömu leið áður í sams konar tilfellum. En nú virðist vera svo, að honum sé nokkurn veginn sama um það, hvort vestmanneyingar fái loforðin uppfyllt eða ekki. Mikið má honum vera farið að förlast ef hann sér ekki, að afstaða hans í þessu máli verður ekki eingöngu túlkuð þannig, að hann hirði lítið um að standa við loforðin gagnvart norðfirðingum. Till. liggur þannig fyrir, að hann er að bregðast því, að vestmanneyingar fái það sem er margbúið að lofa þeim og stendur upp á opinbera aðila að greiða þeim og hefur staðið.

Ég læt mér svo í léttu rúmi liggja öll stóryrði hans um það, að með því að greiða endanlega atkv. með þessu frv. sem einu leiðinni til þess að hægt verði að standa við loforðin, fyrst aðrar leiðir hafa reynst lokaðar, gífuryrði hans um það, að með því sé ég að ráðast á verkalýðshreyfinguna og vega sérstaklega að henni, Það hefur engin áhrif á mig, þó að hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason segi slíkt, og það hefur víst ekki áhrif á nokkurn einasta mann.

Ég vil svo aðeins bæta því við, m.a. vegna þeirrar gífurlegu skekkju, sem kom fram í talnarugli hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasonar, að sá fjárhagsvandi, sem við er að glíma hjá Viðlagasjóði, er auðvitað allt annar samkv. þeim gögnum, sem hér liggja fyrir, en hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason hefur viljað halda fram. Hér liggur það alveg skýrt fyrir, að ef tekjur Viðlagasjóðs, eins og þær eru núna, verða framlengdar óbreyttar, aðeins 1%, þá hækkar yfirdráttarskuld hans um næstu áramót, en lækkar ekki, og þar að auki er allur Norðfjarðarvandinn og ekkert fé til að mæta honum. Það er það, sem þær skýrslur segja sem hér liggja fyrir. Það er því ekki auðvelt að segja, að aðeins það að framlengja eitt stig leysi Vestmannaeyjavandann og Norðfjarðarvandann. Þannig er það ekki. Það þarf að framlengja eitt stig, ef um það er að ræða, um allmiklu lengri tíma og viðbótarfjármagn þarf þá einnig að koma til.

Ég skal svo ekki lengja þessar umr. frekar, en aðeins ljúka máli mínu með því, af því að mér fannst það táknrænt um alla afstöðu Alþfl. í þessu máli, sem kom fram í Alþýðublaðinu nú í dag: Hækkun söluskattsstigsins, það er bara Norðfjarðarvandinn. Það er Norðfjarðardeildin, eins og þeir sögðu í Alþýðublaðinu. Það er sem sagt höfuðatriðið að reyna að mála það upp: Nú er verið að hækka söluskattinn um eitt prósentustig bara vegna Norðfjarðardeildarinnar. Þetta hefur greinilega skinið í gegnum allar umr. frá hálfu hv. þm., að hann hefur ekki mikinn hug á því að standa við þær skuldbindingar sem gefnar hafa verið hér, einnig til vestmanneyinga, en þar stendur miklu meira upp á heldur en í sambandi við Norðfjörð enda líka gert ráð fyrir því samkv. frv., að 68% af tekjunum renni til Vestmannaeyja, en aðeins 32% til Norðfjarðardeildarinnar.

Ég ætla, að afstaða mín hafi komið glögglega fram. Ég er andvígur því að þurfa að fara í söluskattshækkun, ég tel það ranga leið og óheppilega, hef því leitast við að fá menn til samkomulags um aðra leið. Hvað sem svo Gylfi og Alþýðublaðið segja um það, að söluskattsleiðin sé mín leið og ég vilji endilega söluskattshækkun, þá hef ég sagt það, að ég er á móti henni, hún er röng, hún er óheppileg. En mér er það svo mikið atriði, að staðið verði við gefin loforð, að ef ekki fæst samkomulag um annað, þá greiði ég frekar atkv. með frv. eins og það er, svo að hægt sé að standa við þau loforð sem gefin voru.