20.11.1974
Efri deild: 8. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 239 í B-deild Alþingistíðinda. (157)

11. mál, launajöfnunarbætur

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til 1. umr., er flutt til staðfestingar á brbl. um launajöfnunarbætur, bætur almannatrygginga og verðlagsmál sem út voru gefin 24. sept. s.l.

Þegar þessi brbl. voru gefin út, lá fyrir að leysa þann vanda, sem við blasti þegar lög um viðnám gegn verðbólgu féllu úr gildi, en þau lög voru sett á sumarþinginu og voru til staðfestingar brbl., er fyrrv. ríkisstj. hafði sett. Það var ljóst að féllu þau lög úr gildi, þá mundi koma til almennrar 15.5% hækkunar launa vegna hækkunar kaupgreiðsluvísitölu 1. okt. s.l., og ef af þeirri hækkun yrði var enn fyrirsjáanleg hækkun kaupgreiðsluvísitölu að öllu óbreyttu um a.m.k. 15 % frá 1. des. n.k. Þannig var séð fram á nær 36% hækkun kaupgjalds það sem eftir var ársins þegar tekið hafði verið tillit til umsaminnar 3% grunnkaupshækkunar sem á að ganga í gildi 1. des. n.k. Kauptaxtar höfðu þá þegar hækkað um 30% .frá ársbyrjun þannig að með þessum hætti var stefnt í hvorki meira né minna en 77% hækkun kauptaxta á einu ári.

Ég hygg að flestir geti verið sammála um það að hvernig sem á málið er litið stefnir slík þróun skipulegri efnahagsstarfsemi og atvinnuöryggi í hættu. Það var ekki annað fyrirsjáanlegt en að hjól atvinnulífsins mundu stöðvast og atvinnuleysi blasa við. En auk þessa er svo til þess tillit að taka að svo ör verðbólga hefði mjög ranglát áhrif á tekjuskiptinguna í þjóðfélaginu, yrði fyrst og fremst hinum tekjuhærri, metíð í krónutölu, í vil, en gengi á hag hinna lægst launuðu og lakast settu. Það var því nauðsynlegt að fá svigrúm til varanlegra úrræða og rjúfa um sinn sjálfvirka víxlhækkun verðlags og launa, en hlífa þó kjörum hinna tekjulægri eftir því sem kostur var á. Sá er tilgangur þeirra brbl., sem sett voru í sept. s.l. og hér er leitað staðfestingar á.

Það er rétt að geta þess að áður en þessi brbl. voru sett voru ítarlegar viðræður við aðila vinnumarkaðarins og reynt eftir föngum að taka tillit til sjónarmiða forvígismanna launþegasamtakanna við setningu þessara brbl.

Meginatriði l. eru:

1. Ákveðið er, að í stað almennrar verðlagsuppbótar á laun skuli á næstu 8 mánuðum koma sérstakar bætur á lág laun, launajöfnunarbætur. Launajöfnunarbæturnar, sem eru 3500 kr. á mánuði og tilsvarandi á yfirvinnu, þýða um 10% hækkun á lægstu kauptöxtum, en hverfa með öllu við 53.500 kr. mánaðarlaun. Áætlað er, að þær valdi um 6–6.5% hækkun heildarlauna í landinu. Bætur þessar skulu koma til endurskoðunar, fari vísitala framfærslukostnaðar fram úr 358 stigum á gildistíma laganna.

2. Með l. er ákveðið að hækka árlegar fjölskyldubætur um 5 þús. kr. með barni að óbreyttu kerfi fjölskyldubóta eða að jafngild ívilnun verði veitt barnafjölskyldum með öðrum hætti með tryggingabótum og/eða með skattbreytingum á næsta ári. Í viðræðum ríkisstj. við aðila vinnumarkaðarins kom einnig fram sú fyrirætlun ríkisstj, að halda lengra í þá átt, sem mörkuð var með skattkerfisbreytingunni á s.l. vetri, launþegum til hagsbóta og má geta þess að í frv. því til fjárl., sem lagt hefur verið fram og er nú til meðferðar í fjvn., eru ætlaðar til þessara skattkerfisbreytinga 500 millj. kr.

3. Með l. er tekjutryggingarmark elli- og örorkulífeyristrygginga, þ.e. þær lágmarkstekjur, sem tryggðar eru með almennum lífeyri og uppbótarlífeyri til þeirra sem engar eða mjög litlar tekjur hafa auk lífeyris, hækkað jafnt og lægstu kauptaxtar eða um 10%. Almennar bætur lífeyristrygginga eru hins vegar hækkaðar um 6% eða líkt og ætlað er að launatekjur í heild hækki vegna launajöfnunarbóta.

4. Ríkisstj. hefur jafnframt ákveðið, að á gildistíma l. skuli niðurgreiðslur vöruverðs haldist óbreyttar á núverandi stigi. Eins og kunnugt er voru heildarniðurgreiðslur lækkaðar um 12.5%, en um fjórðung, ef miðað er aðeins við þá hækkun, sem varð á niðurgreiðslunum í maímánuði s.l. Í þessu efni voru þau sjónarmið uppi, að æskilegt hefði verið að lækka niðurgreiðslurnar meira vegna fjárhagsafkomu ríkissjóðs og til þess að draga úr heildarupphæð fjárlagafrv. og fjárlaga fyrir næsta ár, en bæði fulltrúar bænda og launþega voru sammála um að örar breytingar á upphæð niðurgreiðslna, hvort heldur til hækkunar eða lækkunar, væru andstæðar hagsmunum umbjóðenda þeirra. Á þetta sjónarmið vildi ríkisstj. fallast og hét því á gildistíma 1. að halda þessum niðurgreiðslum óbreyttum.

5. Þá er það eitt meginatriði l., að með l. er gert ráð fyrir, að næstu 8 mánuði verði áfram í gildi sömu verðlagsákvæði og nú eru í gildi samkv. l. um viðnám gegn verðbólgu.

Með þessum l., sem hér eru til umr., er að því stefnt að staðfesta þau lífskjör, sem okkur hefur auðnast að ná á undanförnum árum, og tryggja jafnframt örugga atvinnu og jafnvægi í utanríkisviðskiptum þjóðarbúsins. Þessi lög eru nauðsynlegur líður í þeim ráðstöfunum, sem hófust með gengisbreytingunni 29. ágúst s.l. og fylgt var eftir með ráðstöfunum í sjávarútvegi, En til þess að þessar aðgerðir allar nái tilætluðum árangri er nauðsynlegt að saman fari hæfilegar stuðningsaðgerðir á sviði ríkisfjármála og peningamála með aðhaldssemi í útgjöldum og útlánum.

Efnahagsþróunin undanfarin missiri hefur sem kunnugt er verið þannig að sú stórfellda aukning kaupmáttar, sem stefnt var að með kjarasamningum á s.l. vetri, hlýtur að teljast algerlega óraunhæf, þ.e. einfaldlega ókleift að auka kaupmátt launa um 20–25% á ári þegar horfur eru á að raunverulegar þjóðartekjur á mann minnki vegna skertra viðskiptakjara þótt aðrar ástæður komi ekki til. Ef við lítum á kaupmáttaráhrif þeirra ráðstafana, sem í l. felast, og þá verðþróun, sem fram hefur komið og fyrirsjáanleg er, er niðurstaðan sú að með þessum aðgerðum sé stefnt að svipuðum kaupmætti launa og var á árunum 1972 og 1973 fyrir launþega í heild og ívið betur fyrir þá sem lægst hafa launin. Takist okkur að ná þessu marki hlýtur það að teljast góður árangur miðað við allar aðstæður.

Ríkisstj. er ljóst, að með þessum aðgerðum er teflt á tæpasta vað með greiðslugetu atvinnuveganna, ekki síst sjávarútvegs, og niðurgreiðslur vöruverðs og auknar tryggingabætur leggja þungar byrðar á ríkissjóð. Hins vegar er vandratað meðalhófið í þessum efnum og ekki síður viðsjárvert að herða um of að kaupmætti og eftirspurn innanlands.

Ég vil ekki láta hjá líða að víkja að því, að þessum l. er ætlað að veita svigrúm til þess að móta samræmda tekjustefnu, í fyrsta lagi fyrir það 8 mánaða tímabil, sem hófst 1. okt. s.l., og svo að því er snertir framtíðina eftir gildistíma þessara l. Við vonumst til þess, að á gildistíma þessara l. haldist vinnufriður og aðilar vinnumarkaðarins gefi sér tóm til þess að íhuga með hvaða hætti unnt er að skipa kjaramálum þjóðfélagsins á betri veg en verið hefur, svo að áfram megi halda sú þróun, sem verið hefur löngum, að kjör almennings fari batnandi hér á landi.

í sambandi við mótun samræmdrar tekjustefnu eru það einkum þau atriði sem koma til meðferðar er greind voru í stefnuyfirlýsingu ríkisstj. um skipan kjaramála og voru:

1. Fyrirkomulag á greiðslu vísitöluuppbótar á laun.

2. Vinnuaðferðir við gerð kjarasamninga.

3. Sameining almennustu bóta almannatrygginga og tekjuskattsins, sem tryggi þjóðfélagsþegnunum lágmarkstekjur og horfi til skýrari áhrifa á tekjuskiptingu í réttlætisátt og aukinnar hagkvæmni.

4. Könnun á stöðu lífeyrissjóða og lífeyrisþega.

5. Jöfnun húsnæðiskostnaðar og aðstöðu til öflunar húsnæðis.

6. Verðlagning búvöru sem yrði tekin til athugunar í samráði við hagsmunasamtök þau sem hlut eiga að máli.

7. Að koma á fastri skipan fyrir samráð aðila vinnumarkaðarins og ríkisstj. um kjara- og efnahagsmál.

Segja má til viðbótar ofantöldum atriðum að æskilegt sé að taka launakerfið á fiskiskipaflotanum til heildarendurskoðunar, fyrst og fremst af aðilum sjálfum, með atbeina ríkisvaldsins ef þörf krefur. Markmið slíkrar endurskoðunar væri að tryggja sjómönnum jafnari tekjur þótt þess verði jafnan að gæta að þeir hafi beinan hag af auknu aflaverðmæti.

Um þessi atriði flest hafa átt sér stað viðræður frá því að brbl. voru sett við fulltrúa aðila vinnumarkaðarins.

Ég skal þá víkja að einstökum gr. frv.

Um 1. gr. er það að segja að með henni er ákveðið að í stað verðlagsuppbótar á laun komi á næstu 8 mánuðum sérstakar bætur á lág laun, eins og ég hef áður greint frá. Launahækkun þessari er að vísu misskipt milli stétta og starfsgreina svo sem liggur í eðli málsins þar sem hér er um láglaunabætur að ræða. Þannig er launahækkun verkamanna og verkakvenna áætluð nálægt 10%, iðnaðarmanna 3–4%, verslunarmanna 7–8%, meira í smásölu-, en minna í heildsölugreinum, og loks er hækkun taxta opinberra starfsmanna og bankamanna áætluð 2–3%.

Í 2. gr. er gert ráð fyrir, að sett verði reglugerð um ákvörðun og uppgjör launajöfnunarbóta. Þessi reglugerð hefur verið sett að undangenginni athugun og tillögugerð sérstakrar nefndar sem skipuð var í því skyni. Ég hygg að ég megi segja að starf þeirrar n. hafi gengið mjög vel. Hún hefur innt af höndum ágætt starf sem ég vona að reynslan sýni að beri tilætlaðan árangur.

Með 3. og 4. gr. er gert ráð fyrir að hinir tekjulægri meðal bænda njóti tekjuhækkunar í átt við launajöfnunarbætur launþega með því að launaliður verðlagsgrundvallar búvöru hækki um 5.5% og að sú hækkun búvöruverðs, sem af því hlýst, skuli ekki gagnast bændum almennt, heldur aðeins jafnað til hinna tekjulægri meðal bænda í líkingu við launajöfnunarbæturnar sjálfar. Sérstök n. hefur verið skipuð til þess að semja reglugerð um þessar launajöfnunarbætur til bænda. Hún hefur ekki lokið störfum sínum, en útlit er fyrir að hún muni setja reglugerð annars vegar um innheimtu þessa gjalds af búvörum bænda, en hins vegar um úthlutun þess fjármagns sem þannig kemur til skiptanna. Það er búist við því á þessu stigi málsins að launajöfnunarbætur samkv. þessari gr. verði ekki greiddar út fyrr en fyrri hluta næsta árs þegar öll gögn, sem nauðsynleg ern til úrvinnslu áður en til bótagreiðslna kemur, eru fyrir hendi.

í 5. gr. eru ákvæði um endurskoðun launajöfnunarbóta, fari vísitala framfærslukostnaðar fram úr 358 stigum á gildistíma l. Eins og kunnugt er var vísitala framfærslukostnaðar 297 stig í ágústbyrjun. Það var áætlun frá Hagstofunni, að vísitala framfærslukostnaðar yrði 338 stig nú 1. des., en samkv. nýfengnum upplýsingum mun vísítalan verða 342 stig eða 4 stigum hærri en áætlunin gerði ráð fyrir. Eftir upplýsingum hagstofustjóra mun þó ekki ástæða til að ætla að áætlun framfærsluvísitölunnar 1. febr. eða 1. mars n.k. raskist að mun af þessum sökum, heldur felist þessi hækkun í því að hækkanirnar komi fljótar fram en upphaflega var ráð fyrir gert í áætlunum, fremur en þær séu hærri en ráð var fyrir gert eða um nýjar hækkanir sé að ræða sem ekki voru innifaldar í áætlununum. En við skulum ekki loka augunum fyrir því að þessi viðmiðunartala, 358 stiga framfærsluvísitala, sníður tiltölulega þröngan stakk í þessum efnum.

Með 6. gr. er ákveðið að árlegar fjölskyldubætur með barni verði 20 þús. kr. á tímabilinu, sem l. gilda, en fjölskyldubætur hafa verið 15 þús. kr. frá 1. júlí s.l. Gert er ráð fyrir, að ekki verði breyting á þeim reglum um greiðslu fjölskyldubóta, þ.e. að fjölskyldubætur skuli greiddar með börnum yngri en 16 ára umfram eitt í fjölskyldu, en þó skuli greiða fjölskyldubætur með fyrsta barni séu brúttótekjur framfæranda lægri en 700 þús. miðað við tekjur á síðasta ári eða séu börn í fjölskyldu 5 eða fleiri undir 16 ára aldri. Á hinn bóginn er gert ráð fyrir því í 6. gr. að í stað þessarar hækkunar fjölskyldubóta til stuðnings barnmörgum fjölskyldum megi koma samsvarandi ívilnun með öðrum hætti og er hér m.a. haft í huga það atriði stefnuyfirlýsingar ríkisstj., sem kveður á um sameiningu algengustu bóta almannatrygginga og tekjuskatts í eitt kerfi.

Í 7. gr. er kveðið á um hækkun almennra bóta lífeyristrygginga, þ.e. elli- og örorkulífeyris, eins og ég gat um áður, og með 8. gr. er tekjutryggingarmark elli- og örorkulífeyristrygginga, þ.e. þær lágmarkstekjur sem tryggðar eru með almennum lífeyri og uppbótarlífeyri til þeirra sem litlar eða mjög litlar tekjur hafa auk lífeyris, hækkað jafnt og lægstu kauptaxtar með launajöfnunarbótum eða um 10%. Hækkun tekjutryggingarmarks um 10% veldur hækkun tekjutryggingarfjárhæðar um rúmlega 17% og er talin valda um 80 millj. kr. kostnaðarauka fyrir ríkissjóð eða tryggingarnar á heilu ári.

Í 9. gr. er kveðið nánar á um breytingar lífeyristrygginga og tekjutryggingar, en í 10. gr. er kveðið á um, að á gildistíma l. skuli niðurgreiðslur landbúnaðarvara úr ríkissjóði ekki lækka.

Um 11. gr. er það að segja að samkv. ákvæðum þeirrar gr. er hvers konar verðhækkun seldrar vöru og þjónustu óheimil á tímabilinu 23. sept. til 31. maí 1975 nema að fengnu samþykki hlutaðeigandi verðlagsyfirvalda. Þó er þeim óheimilt að leyfa aðrar verðhækkanir en þær sem þau telja óhjákvæmilegar. Allar verðhækkanir skulu jafnframt háðar staðfestingu ríkisstj.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjalla frekar um einstakar gr. frv., en vildi aðeins, áður en ég lýk máli mínu, geta þess hvaða kostnað þessi lög hafa í för með sér.

1. Hækkun launajöfnunarbóta veldur hækkun á fjárl. eða fjárveitingum úr ríkissjóði í A-hluta fjárl. um 60 millj. kr. Hér skal skýrt fram tekið að ótalinn er kostnaðarauki B-hluta-fyrirtækja vegna launajöfnunarbótanna.

2. Fjölskyldubætur eða samsvarandi ívilnun samkv. 6. gr. veldur hækkun fjárveitinga í A-hluta fjárl. um 280 millj. kr.

3. Lífeyristryggingar samkv. 7., 8. og 9. gr. valda hækkun: a. Almenn hækkun bóta, 6%, kostar 320 millj. kr. b. Hækkun tekjutryggingar um 10% kostar 80 millj. kr.

4. Niðurgreiðslur samkv. 10. gr. kosta samkv. áætlun Hagstofu Íslands um 3800 millj. kr. og sé miðað við að í gögnum fjárl. hafi verið gengið út frá 2116 millj. kr. felur þetta í sér kostnaðarauka um 1600 millj. kr.

Samtals er hér um kostnaðarauka að ræða er nemur 2300–2400 millj. kr.

5. Ríkisstj. hefur gefið fyrirheit þess efnis að þau skattakjör haldist, sem fólust í skattalagahreytingunni á þessu ári, og frekari ívilnun verði veitt sem nemi um það bil 500 millj. kr., svo að útgjaldaaukning eða tekjumissir ríkissjóðs vegna þessara laga mun nema 2800–3000 millj. kr.

Herra forseti. Ég skal ekki hafa þessa ræðu lengri, en vil leyfa mér að leggja til að frv. þessu verði vísað til 2. umr. og fjh.- og viðskn. þessarar hv. þd. að lokinni 1. umr.