27.02.1975
Neðri deild: 49. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1972 í B-deild Alþingistíðinda. (1571)

162. mál, áhrif olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég vil strax við 1. umr. þessa máls segja hér nokkur orð og koma á framfæri athugasemdum mínum, ekki síst vegna þess að við eigum ekki fulltrúa í þeirri n. sem málið fer til og um það mun fjalla.

Það þarf ekki að endurtaka það hér, það hefur bæði verið svo oft sagt og almenningur í landinu fengið svo hatrammlega á því að kenna, að núv. stjórnarstefna hefur mjög svo þrýst á launakjör og afkomu alls almennings í landinu, og fyrir nokkrum mínútum var verið enn að auka þar á með samþykkt á hækkun söluskatts.

Það frv., sem hér er til umr., eins og það lítur nú út fyrir að verða samþ., er þess eðlis, að það mun mjög auka á þá erfiðleika sem þeir einstaklingar hafa átt við að stríða í sambandi við kostnað vegna hitunar á íbúðarhúsum sínum þeir sem verða að búa við olíukyndingu. Hv. 4. þm. Reykv., Stjórnmálaritstjóri Tímans og einn af æðstu mönnum innan Framsfl., skrifaði leiðara í blað sitt 26. febr. s.l., þ.e. a. s í gær, leiðara, sem ber yfirskriftina: „Hve miklar byrðar þola heimilin.“ Í þessum leiðara er m.a. fyrst og fremst fjallað um þær kröfur sem uppi hafa verið um gjaldskrárhækkun hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Reykjavíkur. Hv. 4. þm. Reykv. staðfestir í þessum leiðara að þær hækkanir, sem orðið hafa að undanförnu, eða þær hækkanir, sem Rafmagnsveita Reykjavíkur annars vegar og Hitaveita Reykjavíkur hins vegar hafa fengið á s.l. ári, séu þess eðlis og það miklar að þær geti vel við unað, þar þurfi ekki meiru á að bæta. Hann dregur þar af þær niðurstöður, eins og fyrirsögnin ber reyndar vitni um, að þær byrðar, sem er búið að leggja á herðar þeirra sem standa undir heimilisrekstri hér í Reykjavík, séu nú þegar orðnar nógu miklar, á þær verði ekki bætandi. En ég er hissa á því um hv. 4. þm. Reykv., form. þingfl. Framsfl. og jafnmikils og hann er ráðandi í þeim flokki, þegar til þess er litið að Framsfl. hefur hvað mest gumað af byggðastefnu, að það skuli ekki vera vikið einu orði að þeim stórkostlega kostnaðarauka, sem fólk úti á landsbyggðinni hefur orðið að taka á sig vegna þeirra verðhækkana, sem orðið hafa á olíu frá því að lögin, sem voru samþ. hér á Alþ. á s.l. ári, að ég held rétt í apríl s.l., voru samþ. Það liggur nú fyrir, að kostnaður íbúa á hitaveitusvæðum er sem nemur 20% af þeim kostnaði sem þeir íbúar víðs vegar á landinu verða við að búa sem kynda hús sín með olíu.

Ég var einn þeirra, sem töldu þegar þessi lög voru sett á sínum tíma, að þá hefði þurft meira fjármagn til að nota í þessum tilgangi, að létta greiðslubyrðar þeirra einstaklinga, sem hér eiga hlut að máli, vegna þess gífurlega þunga kostnaðar, sem þeir urðu og hafa orðið æ betur fyrir frá því að þetta var gert.

Nú er komið hér fram frv. frá hæstv. ríkisstj. þess eðlis að draga úr greiðslum frá því sem áður var gert. Það er talið að eitt söluskattsstig muni gefa á ársgrundvelli, eins og menn segja, um 1000–1100 millj. kr. Eins og frv. upphaflega leit út frá hæstv. ríkisstj. átti að taka af þessum 1 000–1100 millj. kr. 400 millj. kr., — átti að taka af því, sem ella hefði farið til niðurgreiðslu á olíusvæðunum, til þess — ja, hvað að gera við það? Það veit enginn enn, það átti að vera óráðstafað — ótiltekið í hvaða framkvæmdir það átti að fara. En sennilega hefur það átt að fara til þess að greiða eitthvað fyrir þeim fjárhagsörðugleikum, sem sagðir eru vera hér á Reykjavíkursvæðinu — hitaveitusvæði Reykjavíkur — til þess að útvíkka það svæði.

Þegar þær reglur, sem borgað er eftir, voru hér til umr. og samþ., þá voru þær mjög svo gagnrýndar af hálfu hv. þm. Sjálfstfl., — mjög svo gagnrýndar og þeim fundið allt til foráttu. Og ekki skal ég leyna því, að það er ýmislegt við þessar reglur sem er þess eðlis að mætti breyta. En eigi að síður, enn þá er gert ráð fyrir óbreyttum reglum, þ.e.a.s. það er greitt á einstakling. Og þegar er litið til þess, að hækkun á olíuverði frá því að lögin voru samþ. í apríl s.l. hefur orðið um kr. 8.50 á hvern einasta lítra af olíu, sem þeir íbúar víðs vegar um landið þurfa að borga fyrir olíu sem hita hús sín með olíukyndingu, þá verður að teljast furðulegt af hæstv. ríkisstj. að leggja nú til að óbreytt krónutala komi til með að gilda í þessum efnum og þar til viðbótar að klípa um 400 millj. kr. af þessu til annars konar ráðstöfunar.

Ég sagði áðan, að nú væri kostnaður á hitaveitusvæðinu talinn um 20% miðað við það sem upphitun kostar á olíusvæðunum. Ég veit ekki hvort hv. þm. hafa gert sér grein fyrir því, að það kostar íbúðareiganda í venjulegu íbúðarhúsnæði á olíusvæði á bilinu frá 15–20 þús. kr. á hverjum einasta mánuði að kynda íbúðarhús sitt, þ.e. sem næst helminginn af mánaðarkaupinu miðað við dagvinnutíma. Á sama tíma og þetta er staðreynd leggur hæstv. ríkisstj. fram á Alþ. frv. þess efnis að draga úr því sem hefur verið gert til þess að lækka þessa óskaplegu byrði sem fólk úti á landsbyggðinni hefur orðið að taka á sig. Ég þykist vita, að það yrði ekkert glæsilegt upplitið á íbúum hitaveitusvæðanna, ef þeir fengju á þriggja mánaða fresti reikning upp á um 60 þús. kr. vegna kostnaðar við upphitun íbúðarhúsnæðis síns. Miðað við það, að gjaldskrá Hitaveitu Reykjavíkur t.d. væri hækkuð um 30% frá því sem hún er nú, þá væri það í kringum þriðjungur þess, sem nú kostar að kynda íbúðarhúsnæði á olíusvæðinu — um þriðjungur með 30% hækkun.

Það er því rétt, sem hv. 4. þm. Reykv., ritstjóri Tímans, segir, að það hljóta að vera einhver takmörk fyrir því hvað stjórnvöld geta leyft sér að leggja á almenning í landinu. Hv.

4. þm. Reykv. talar hér auðvitað fyrst og fremst um hitaveitusvæðið. En ef honum þykir komið nóg af álögum á þá aðila, sem búa á hitaveitusvæðum, þá vil ég spyrja: Hvað þá um alla hina, sem búa utan þessara svæða og hafa orðið að taka á sig stórkostlegar hækkanir á við það, sem gerst hefur hér á þéttbýlissvæðinu, því svæði sem hitaveitan nær til.

Ég verð því að segja, að þessi stefna hæstv. ríkisstj. ber ekki þess vott, að það eigi að reyna að leiðrétta þá skekkju sem komin er í sambandi við aðstöðumun frá því sem var, þá skekkju sem hlýtur að leiða til sama ástands og var áður en fyrrv. ríkisstj. tók við völdum, þ.e. að fólk flykkist af þeim svæðum, sem verða að kynda hús með olíu, til þéttbýlissvæðanna hér á Suðvesturlandi, og verður því farið að öllum líkindum í sama farið og þá var.

Ég verð að segja fyrir mitt leyti, að mér finnst furðulegt að þeir þm. stjórnarflokkanna, sem eru þm. þeirra landssvæða sem búa við þessi stórkostlega skertu greiðslukjör frá því sem áður var, skuli bjóða umbjóðendum sínum það að ætla að standa að slíkri lagasetningu. Ég tel það furðulegt. Ég fyrir mitt leyti tel, að með vinnubrögðum eins og hér er lagt til sé um beina aðför að dreifbýlisfólki að ræða, — aðför sem hlýtur að koma til með að verka í þá átt að það flýr unnvörpum frá þessum svæðum til höfuðborgarsvæðisins, á hitaveitusvæðin. Ég er ekkert hissa á því, þegar staðreyndir sýna að málum er svo komið, að það þarf helming tekna fyrirvinnu heimilis, miðað við dagvinnu, til þess bara að greiða kostnað af hitun íbúðarhúsnæðis.

Ég vil því strax við 1. umr. koma hér á framfæri skrifl. brtt. og geri það nú, til þess að hún komist til n. og fái þar skoðun, og eins og ég sagði áðan, geri þetta vegna þess að við eigum ekki fulltrúa í þeirri n. sem kemur til með að fjalla um málið. Brtt. mín er í fyrsta lagi við 1. gr., að á eftir orðunum „svo og um aðra framkvæmd“ bætist: Einnig skal á tímabilinu 1. mars 1975 til 29. febr. 1976 leggja 20% aukagjald á gjaldskrár hitaveitna og skal því á sama hátt varið til að draga úr áhrifum verðhækkunar á olíu til hitunar íbúðarhúsnæðis. — Þó að orðið verði við þessari till. og hún yrði samþ., þá þýddi það þó ekki meiri kostnað á þá íbúa, sem búa við hitaveitukerfið, en rösklega þriðjung af því sem íbúar olíusvæðanna verða að borga. Ég tel því að slík till. eigi fyllsta rétt á sér til þess að reyna að minnka það mikla bil, sem orðið er nú milli þess kostnaðar sem er hjá húshitun á hitaveitusvæðum og hins vegar á olíusvæðum. Ef þetta yrði gert, mundi það þýða í reynd tekjur upp á 220–230 millj. kr.

Ef áfram yrði haldið á þeirri braut, sem mörkuð var þegar lögin voru samþ., að allt andvirði söluskattsstigsins, 1000—1100 millj., færi í niðurgreiðslu á olíu + 20% aukagjald á gjaldskrár á hitaveitusvæðum, þá mundu verða til ráðstöfunar um 1200–1300 millj. kr. til þessa. Þrátt fyrir það er það allt of stór baggi, sem þeir íbúar sem búa á olíusvæðunum verða að gjalda vegna þeirrar gífurlegu hækkunar sem átt hefur sér stað í sambandi við olíuverð. Hér er sem sagt um það að ræða að þeir, sem best eru settir, komi til með að leggja ofurlítinn hluta af mörkum til þess að brúa þetta geigvænlega bil.

í öðru lagi geri ég till. um að breyta 2. gr., þ.e. a-lið, í samræmi við það sem ég hef áður sagt, að sú tala, sem þar er núna eftir breyt., 8 200, var áður 7 200, hún falli niður og er þá meiningin að allt andvirði eins söluskattsstigs fari í að greiða niður olíu, og enn fremur að í stað orðanna „sem nemur 11/2 styrk einstaklings“ komi: sem nemur tvöföldum styrk einstaklings. — Ég held að Alþ. geti ekki vikið sér undan því að gera leiðréttingu á því gífurlega vandamáli sem er hjá elli- og örorkulífeyrisþegum og þeim sem fá bætur úr almannatryggingunum og hafa ekkert annað til lífsviðurværis, — Alþ. geti ekki skotið sér undan því að gera hér á leiðréttingu frá því sem nú er. Það er lágmark að mínu mati og auðvitað allt of lágt þó, að þessi styrkur verði hækkaður frá því að vera sem nemur 11/2 styrk einstaklings í það að vera tvöfaldur. Það er allt of lágt. En ég fer þó ekki hærra og það væri vissulega skref í áttina til að koma til móts við það fólk, sem hefur engar tekjur aðrar en elli- og örorkulífeyri, — koma til móts við það í þeirri hörðu baráttu, sem það heyr til þess að geta staðið undir þessum gífurlega kostnaðarauka.

Þetta eru efnislega þær brtt. sem ég geri strax við 1. umr. til að koma þeim inn í umr. og til n. Það er í fyrsta lagi, að jafnframt því að lagt er 1 söluskattsstig á til þess að greiða niður olíuverð, sé lagt 20% aukagjald á gjaldskrár hitaveitna og það verði notað í sama skyni, til þess að greiða niður olíuverð hjá þeim, sem við það þurfa að búa. Í öðru lagi, að sett verði út sú tala sem nú er í frv., og í þriðja lagi að styrkur til þeirra, sem langverst eru settir, þ.e. elli- og örorkulífeyrisþegar, verði hækkaður frá því að vera 11/2 styrkur í að vera tvöfaldur.

Þessu vildi ég koma á framfæri strax við 1. umr. málsins hér í d. til þess, kannske ekki síst ef hv. dm. hafa ekki gert sér grein fyrir því, hvað hér er um geigvænlegt vandamál að ræða, — vandamál sem fjöldi heimila á þessum svæðum getur bókstaflega ekki undir risið. Það er alveg augljóst mál. að ef t.d. fyrirvinna heimilis með 40 þús. kr. mánaðarlaun á að borga helminginn af því, 20 þús. á mánuði, til þess bara að kynda upp íbúðarhúsnæði, þá getur enginn við það búið áfram. Ég vil því vænta þess, að hv. þm. geri sér ljósa þá geigvænlegu byrði, sem lögð er á þetta fólk, og snúist við vanda þessa fólks í þá átt að létta byrðina, en ekki þyngja hana eins og hæstv. ríkisstj. ætlar nú að gera.

Það er — mér liggur við að segja — furðuleg afstaða þeirra þm. dreifbýlisins, sem vita hvernig þessum málum er háttað, ef þeir sitja þegjandi og hljóðalaust undir að svo skuli nú vera snúið við blaði frá því sem áður var til ætlast. Ég tel þvert á móti, að það ætti að vera skýlaus skylda stjórnvalda, hverra sem eru, að gera ráðstafanir til þess að minnka verulega þennan geigvænlega kostnað þessa fólks, sem það hefur orðið að þola vegna hækkana á olíuverði. Það er vissulega mikil ábyrgð, sem þeir menn bera sem treysta sér til þess að rétta upp hönd með slíku óréttlæti eins og hér virðist ætla að eiga að líðast. Ég heiti því á alla þm., ekki bara þm. þeirra svæða sem ég er hér að höfða til, heldur og þingheim almennt, að gera sér grein fyrir þessu vandamáli, — vandamáli sem er svo stórt og svo þungur baggi á þessum einstaklingum úti á landi, að þeir fá ekki undir honum risið. Verður með einhverjum hætti að koma til liðs við þá til að létta þessa byrði.

Ef það er komið svo sem einn af forustumönnum núv. stjórnarflokka, hv. 4. þm. Reykv., heldur fram, að byrðar heimila hér í Reykjavík séu nú þegar orðnar allt of miklar, hvað þá um hina, sem verða að borga margfalt meira til þessara nauðsynjahluta, margfalt meira en reykvíkingar eða íbúar á hitaveitusvæði þurfa að gera? Hvað þá um þá alla? Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því hér í þinginu, að dreifbýlisþm. stjórnarliðsins leyfi sér að sýna umbjóðendum sínum slíkt miskunnarleysi — liggur mér við að segja — slíkt miskunnarleysi eða lítilsvirðingu, eins og það mundi sýna að standa að samþykkt þess frv. sem hér er nú til umr. Ég trúi því vart, að þeir geti horft framan í nokkurn af sínum umbjóðendum eftir að þeir hafa gert slíkt.