28.02.1975
Efri deild: 51. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1983 í B-deild Alþingistíðinda. (1583)

168. mál, ráðstafanir vegna snjóflóða í Norðfirði

Frsm. 2. minni hl. (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Eins og þegar hefur komið fram vilja allir að staðíð sé við þau fyrirheit sem gefin voru er það óhapp, sem þjóðinni er kunnugt, henti á Neskaupstað, svo að um það er raunverulega ekki deilt að bjarga því sem bjargað verður og mannlegur máttur ræður yfir. En við deilum um þær leiðir, sem á að fara til þess að geta komið sem best til hjálpar.

Nú var það á sínum tíma svo, að þegar l. um Viðlagasjóð voru sett þótti réttmætt að leggja á 1% söluskattsstig sérstaklega til þess að mæta þeim vanda sem skapaðist í Vestmannaeyjum, en einnig þótti réttmætt að draga nokkuð úr ríkisútgjöldum um nokkur hundruð millj. kr., ef ég man rétt, 100–200 millj. a.m.k. Það hefur verið boðað núna að það eigi að draga úr ríkisútgjöldum, en eftir því sem ég veit best, þá neita þeir í hagsýslunni að þeir hafi nokkuð fengið um það að vita. Einnig neita fulltrúar hæstv. ríkisstj. í fjvn. að þeir hafi nokkuð fengið um málið að vita. Samt sem áður hefur hæstv. forsrh. látið hafa eftir sér í tölum talið, að það geti numið rúmum 3 milljörðum sem um er að ræða. Það væri þess vegna nokkuð fróðlegt að vita hvar á að höggva í fjárl. og búa til þetta svigrúm. Ég vona að þessar tölur séu aðeins meira en sá talnaleikur sem hafður var í frammi í fyrravetur, þegar fram komu till. af hálfu núv. hæstv. fjmrh. og annars núv. ráðh. um að vinstri stjórnin skyldi þá lækka fjárl. um 4.6 milljarða, miðað við núv. fjármagnshreyfingu ættu það að vera um 7 milljarðar, en aldrei sáum við neinar raunhæfar till. í því efni. Ég vil þess vegna fara að heyra eitthvað kringum þann talnaleik meira en bara að það eigi að gera hlutina, heldur leggja eitthvað á borðið, þegar þeir menn, sem hingað til hafa fjallað um fjárveitingar og tillögugerð fyrir Alþ. og fjvn., segja mér enn þá í svari við persónulegum spurningum, að þeir viti ekkert um málið — alls ekki neitt. Þetta finnst mér ekki nógu góð latína, ef svo má segja.

Það, sem ég harma, miðað við stefnuræðu hæstv. ríkisstj., er að hún skuli telja sig knúna til þess að leggja nú á viðbótarsöluskattsstig. Hvort sem það gerir meira eða minna en einn milljarð eða ekki, þá eykur það skattheimtu á almenning og skapar einnig verðbólgu. Við erum tilbúnir, eins og fram hefur komið í Alþfl. og Alþb. einnig, að framlengja gildandi lög a.m.k. til miðs árs 1976, og persónulega gæti ég vel framlengt þau út árið, ef ég réði einhverjum úrslitum, til þess að tryggja að Viðlagasjóður hefði nægilegt fjármagn. Það eina vandamál, sem fyrir er, er að skapa smásvigrúm til þess að greiða út til íbúanna austur frá strax nokkurt fjármagn. En hver trúir því að það sé ekki hægt að hreyfa 200–400 millj. kr. til með aðstoð lánasjóða og Seðlabanka í þeirri óhemju peningaveltu, sem er í þjóðfélaginu, þrátt fyrir það að yfirlýst sé nú hina síðustu daga að harkalega skuli dregið úr allri peningaveltu í þjóðfélaginn? Ég læt segja mér það oftar en einu sinni, að það sé ekki hægt.

Við bjóðum því fullkomlega tekjuöflun fyrir Viðlagasjóð í framtíðinni. Hér er aðeins um það að ræða að hreyfa til nokkurt fjármagn til að mæta knýjandi vanda strax. Þegar upp yrði staðið, hvort sem það yrði um mitt ár 1976 eða í árslok, þá ætti sjóðurinn örugglega á annan milljarð í skuldabréfum. Þessi skuldabréf eru auðvitað ekki lausir aurar í hendi þegar í stað, en væntanlega yrði þá nokkurt svigrúm til þess að skapa hreyfanlegt fjármagna þegar það lægi endanlega fyrir, og vandinn er því ekki óviðráðanlegur. En mig grunar að hæstv. ríkisstj. ætli með þessum hætti að ná sér í nokkur hundruð millj. í aukatekjuöflun, þess vegna sé leikurinn gerður. En það er ömurlegt að notað skuli átakanlegt áfall fyrir þjóðina til þess að búa til slíka tekjuöflun. Það harma ég mjög eindregið.

Ég sé ekki ástæðu til þess að lengja hér umr. um þetta efni. Það sjálfsagt breytir ekki miklu.

Ég aðeins ítreka það, að ég tel þessa leið mjög óskynsamlega, sérstaklega með það í huga að verkalýðshreyfingin hefur lýst eindreginni andstöðu við þessa aðferð, hún stendur í samningaumleitunum, við erum að berjast hér við vaxandi verðbólgu enn einu sinni, og þá skuli hæstv. ríkisstj. hafa forgöngu um að auka hana. Hér stingur algerlega í stúf við stefnuræðu hæstv. forsrh. á sínum tíma í haust, og það er auðvitað algerlega borin von og það fyrir löngu, að hið ákjósanlega markmið náist, að verðbólguaukning hér á ári verði um n.k. áramót aðeins 15 stig. Hún verður auðvitað langtum meira, 25–35 stig, með þessum vinnubrögðum.

Því miður virðast menn ekki enn geta fallist á það að framlengja gildandi söluskattsstig í þágu Viðlagasjóðs. Ég segi fyrir mig, að þótt till. mín gangi út á mitt árið 1976 er ég fús til þess að standa að brtt. er tryggði sjóðnum sama skattstofn út árið 1976, og þá er með engu móti hægt að segja að við viljum ekki standa að því, að Viðlagasjóður hafi nægilegt fjármagn. En ég mun ekki treysta mér til þess að fylgja frv., mun heldur sitja hjá, vegna þess að hér er um óeðlileg og óskynsamleg vinnubrögð að ræða sem skapa aukin vandamál, þar sem hitt liggur alveg ljóst fyrir, að það er hægt að tryggja þetta með góðu móti með framlengingu gildandi laga.