28.02.1975
Efri deild: 51. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1991 í B-deild Alþingistíðinda. (1588)

168. mál, ráðstafanir vegna snjóflóða í Norðfirði

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Hv. 2. þm. Vesturl. var nokkuð stórorður áðan og taldi að við, sem höfum bent á aðrar leiðir til tekjuöflunar, vildum koma í bakið á vestmanneyingum og jafnvel norðfirðingum. Ég vil andmæla þessu mjög harðlega og ef orð mín hafa skilist svo, þá hafa þau verið mjög óskýr og raunar skildi ég engan, hv. ræðumann svo.

Með lögum um Viðlagasjóð er gert ráð fyrir því að byggt verði aftur upp í Vestmannaeyjum eins fljótt og unnt er. Það vissi meira að segja enginn hvenær gosinu lyki þegar þetta var ákveðið. Það hlýtur að sjálfsögðu að fara eftir aðstæðum hverju sinni. Ástæðurnar eru töluvert aðrar í dag en þær voru þegar þau l. voru samþ. Í raun og veru efast ég um, og skal reyna að færa rök að því, að hér þurfi að hægja nokkuð á uppbyggingu í Vestmannaeyjum. Það er hins vegar ljóst að þá þarf skuld við Seðlabankann að standa lengur og ég satt að segja vorkenni Seðlabankanum ekkert að leyfa þeirri skuld að standa árinu lengur.

Um Norðfjörð gildir að sjálfsögðu það, að þar verður síldarverksmiðjan að verða endurreist fyrir næstu loðnuvertíð. Um það hef ég engan heyrt deila og ég legg á það ríka áherslu að svo verði. Áætlað er að til þeirrar uppbyggingar þurfi um 500 millj. kr. Ég tel að þær 500 millj. beri, ef ég má orða það svo, að taka fyrst af þessum tekjustofni og ljúka þannig á þessum nauðsynlega tíma uppbyggingu á Norðfirði. Þarna er því sannarlega ekki verið að koma í í bakið á norðfirðingum.

Eftir verða um 300 millj. af einu söluskattsstigi út þetta ár, ef við erum sammála um að söluskatturinn á árinu öllu sé um 960 millj. Þessu má ráðstafa a.m.k. að verulegum hluta til þess að halda áfram uppbyggingu í Vestmannaeyjum. Að einhverjum hluta þyrfti e.t.v. að nota þetta til þess að greiða niður vexti af skuldinni við Seðlabankann. Einnig hefur verið vakin athygli á því að útistandandi er töluverður hluti af söluskattsstigi síðasta árs sem kæmi þarna inn til viðbótar. Ég hef því raunar ekki séð nein rök þar fyrir því, sem ég tek góð og gild, að það þurfi að hægja svo mjög á framkvæmdum í Vestmannaeyjum, og jafnvel þótt það þurfi að gera að einhverju leyti, þá sýnist mér, að vestmanneyingar geti vel við unað, og segi það ekki af neinni illsku í garð vestmanneyinga. Það er fjarri því að við ætlum ekki að standa við okkar loforð.

Við vorum að samþ. fjárl. fyrir áramótin, og hæstv. form. fjvn. veit mætavel að það er verið að tala um niðurskurð á fjölmörgum liðum. Hæstv. forsrh. hefur sagt það opinberlega. Það er talað um frá 2 600 til 2 500 millj. kr. Haldið þið að það sé ekki einhver sem er búinn að lesa fjárl. og gerir ráð fyrir því að hann fái framkvæmdir við höfn eða við veg, sem lítur svo á að Alþ. standi ekki við sín loforð? Það er alveg ljóst. Það verða margir sem þannig munu líta á málin. Og ég vil gjarnan spyrja hv. þm. hvort hann ætli einnig þar að neita að breyta því sem lofað hefur verið og hann hefur gengið manna fremst í í sambandi við gerð fjárl.? Ég vil gjarnan heyra svar hans við þeirri spurningu.

Með fjárl.fyrir 1975 hefur Alþ.lofað ákveðnum framkvæmdum um land allt, og það er ekkert launungarmál að í dag er rætt um að skera þessar framkvæmdir að einhverju leiti niður. Ég held að það muni margir, eins og ég sagði áðan, ef hv. þm. hefur ekki heyrt orð mín, þá endurtek ég það, að margir muni líta svo á að það sé verið að ganga gegn þeim loforðum sem gefin voru við samþykkt fjárl. fyrir áramótin. Hitt er svo annað mál, að aðstaða öll hefur breyst mjög verulega frá því að fjárl. voru samþ. og því mun ég taka þátt í því að endurskoða þessa liði með tilliti til breyttra aðstæðna. Sama gildir gagnvart Vestmannaeyjum. Ég vona að þetta sé sæmilega ljóst. Ég tók hins vegar skýrt fram, að ég er ekki samþykkur b-lið brtt. á þskj. á 334, og tek þar undir það sem hv. þm. Jón Árnason sagði um afkomu ríkissjóðs. Það er alveg ljóst að þar er enginn afgangur og langt frá því, að ríkissjóður mun ekki geta lagt fram 400 millj. til Viðlagasjóðs.

Hins vegar sýnist mér á því, sem hv. þm. sagði, að afstöðu mína megi misskilja. Ég hef því kosið að flytja skrifl. brtt. sem ég vil lesa, með leyfi hæstv. forseta:

„Við 5. gr. 1. málsl. orðist þannig: Á tímabilinu 1. mars 1975 til 31 des. 1976 skal leggja 1% viðlagagjald á söluskattsstofn allra sömu aðila og lög nr. 10 1960, um söluskatt, taka til.“

M.ö.o.: ég geri ráð fyrir því að söluskattsstigið framlengist út allt árið 1976. Sýnist mér ljóst að með því móti muni endar nást saman hjá Viðlagasjóði bæði gagnvart norðfirðingum og einnig gagnvart vestmanneyingum. Og ég vil endurtaka það, að þó einhver dráttur kunni að verða á framkvæmdum í Vestmannaeyjum, þá er fyrst og fremst um hitt að ræða að skuld Viðlagasjóðs við Seðlabankann stendur til áramóta 1976 að einhverju leyti.