20.11.1974
Efri deild: 8. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 244 í B-deild Alþingistíðinda. (159)

11. mál, launajöfnunarbætur

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Frv. af þessu tagi kallar fram ýmsar spurningar, ekki aðeins hér á Alþ., heldur miklu fremur meðal þjóðarinnar og þá sér í lagi þeirra sem hér er verið að bæta í einhverju áður unnin spellvirki. Eðli þessa frv. er yfirbót að afloknum ýmsum miður elskulegum aðgerðum. Yfirbótin er því ekki byggð á neinni elskusemi stjórnvalda til láglaunafólks eða aldraðra og öryrkja. Af þeim er þegar búið að taka í ríflegra lagi og aðeins um að ræða hve miklu er til baka skilað, hve mikil er yfirbótin, eða er hún þegar að engu orðin?

Skerðing lífskjara þessa fólks er í raun viðurkennd, enda ekki annað kleift. Spurningin er í raun um það, hve mikið er bætt, hve mikið eftir skilið og hve mikið er í vændum enn af frekari skerðingu lífskjara. Þessum spurningum hafa launþegasamtökin í raun þegar svarað. Þau hafa eðlilega lýst yfirbótina ófullnægjandi með öllu, uppsagnir kjarasamninga hjá almennu verkalýðsfélögunum, eindregin mótmæli ríkisstarfsmanna eru hér um órækt vitni. Orð mín hér verða aðeins staðfesting þess einróma allsherjardóms.

Þegar stórfelldar efnahagsaðgerðir eru framkvæmdar, sem leiða af sér rýrnandi kaupgetu fólks yfirleitt, skiptir auðvitað mestu hver hlutur þeirra verður sem skarðastan hlut bera frá borði. Um hann er hér verið að fjalla, en heildarstefnan er hins vegar ljós. Það er verið að færa til fjármuni í þjóðfélaginu frá launafólki fyrst og fremst til atvinnurekstrar og fyrirtækja. Fólk hlýtur að velta fyrir sér nauðsyn þessara aðgerða hvort fjármunirnir séu betur komnir í höndum þeirra, sem hafa svokallaða þræði atvinnulífsins í höndum sér, og þeir hafi til þessarar tilfærslu unnið umfram aðra, og þá ekki síður hvernig ráðstöfunin tekst til. Fólki er gjarnan bent á þjóðarhag í því sambandi og ekki vil ég neita þeirri nauðsyn að vel rekin fyrirtæki geti borið sig fjárhagslega. Ég sagði: vel rekin, því að flest bendir til þess að svo sé ekki um mikinn hluta fyrirtækja í dag, að ekki sé nú talað um ráðdeild eða sparnað í rekstri sem sjaldan verður vart um of svo að ekki sé meira sagt.

Ítarleg könnun á rekstri fyrirtækja, fjölda þeirra, starfsmannahaldi og óþarfri yfirbyggingu hefur ekki farið fram svo að ég viti, en fjármunatilfærsla til þessara aðila meira og minna af handahófi þykir engu að síður sjálfsögð.

Þessi tilfærsla nú kemur engum á óvart. Þar er verið að snúa við blaðinu frá árum vinstri stjórnarinnar og eflaust er hér aðeins um smávægilega byrjun að ræða. Á valdatíma vinstri stjórnarinnar var tilfærslan öfug við þetta. Hún var til launafólks í landinn, til elli- og örorkuþega, frá þeim sem nú sjá fram á réttan hlut sinn á ný.

Samfelldur sultarsöngur um erfiðleika í rekstri, tap á tap ofan hefur líka svo sannarlega glumið í eyrum. Alltaf á eitthvað af því tagi rétt á sér. En að hinu er sjaldan gáð þegar stórar fúlgur eru færðar þessum aðilum hvernig þeir ráðstafa þeim, og síður en svo að þess sé krafist að þær færi til betri vegar það sem aflaga fer í rekstri og umsvifum öllum.

Það furðulega búskaparlag gildir í íslenskum þjóðarbúskap að meðan allt leikur í lyndi í atvinnurekstrinum, jafnvel stórgróði verður á öllu saman, þá mega eigendur fara með þann gróða allfrjálslega, stinga ólitlum upphæðum í eigin vasa og umfram allt að koma þeim undan öllum samfélagslegum skyldum. En á erfiðleikatímum, þegar að kreppir, er tapið þjóðnýtt og þegnarnir greiða í ýmsu formi það tap, sem sumpart er eflaust réttmætt, sumpart tilbúið eða fengið með talnaleik bókfærslukúnsta. Einkaframtakið er haft að yfirvarpi og útbásúnað á velgengnistímum, en síðan er leitað á náðir samfélagsins, ef þrengist hið minnsta.

Mér kemur í hug annar rekstur mér miklu hugstæðari. Það er raunar sá rekstur sem hér er á dagskrá. Ég á við heimilisrekstur hins almenna launamanns sem er því miður ekki eins hátt skrifaður og sá rekstur sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur að sögn verið að bjarga frá glötun með ráðstöfunum á ráðstafanir ofan nú í haust. Í þeim rekstri er ekki spurt um það hvort endar nái saman í raunveruleikanum, hvað þá ef afskriftir og bókhaldskúnstir ýmiss konar mættu koma inn í það dæmi. Þennan rekstur hefur hæstv. ríkisstj. verið að þrengja svo sannarlega og þessi yfirbót verður harla léttvæg þegar allt er skoðað. Þessi rekstur, heimilisrekstur launamannsins, hefur verið þrengdur til hagsbóta fyrir þá sem barlómssönginn stunda, þá sem eru reyndar alltaf að tapa, alltaf að geispa golunni fjárhagslega, en lifa þó, já, lifa bara nokkuð vel á okkar mælikvarða, með hús á stærð við félagsheimili, fáeina einkabíla, stöku utanlandsferðir og ýmis ótalin hlunnindi, en eru þó fátæku mennirnir í þjóðfélaginu sem sumir hverjir eru nú að ganga á fund gjaldheimtunnar til að fá greiddan til baka skattafsláttinn sinn, sennilega til að eiga þó til brýnustu jólagjafa.

Ég dreg enga dul á vonbrigði mín með það hve illa var til þessara aðila margra hverra náð á árum vinstri stjórnarinnar. Þar var hvergi nærri náð fram þeim breyt., sem til þess hefði þurft að þessi fátækt þeirra væri dregin fram í rétt dagsljós, en til þess liggja nú ofur eðlilegar ástæður. Til þess hefði víst þurft að raska hinni marglofuðu lýðræðislegu uppbyggingu þjóðfélagsins á einhvern hátt og þá hefðu margir orðið skelfingu lostnir, fundist við vera farnir að færast ískyggilega nálægt byltingunni margumtöluðu sem ég er ekki heldur talsmaður fyrir þó að ég sjái brýna þörf róttækra breytinga og raunar umbyltingar í ýmsu. En það er víst best að taka byltinguna út af dagskrá, allra helst nú þegar öll þróun stefnir í gagnstæða átt við jöfnuð og réttlæti í þjóðfélaginu.

Rétt er þá að víkja að einstökum þáttum þessa frv. Tveir aðalþættirnir fjalla um láglaunabætur og bætur almannatrygginga. Í vinstristjórnarviðræðum í sumar komu þessar láglaunabætur á dagskrá. Ég hef ævinlega verið lítt hrifinn af okkar vísitölukerfi og því að almenn framfærsluhækkun komi þannig fram í reynd að sá, sem mest hefur fyrir og besta aðstöðuna, fær mestar bætur. Að því leyti til er ég samþykkur því sem stefnuatriði að láglaunafólk fái hækkun umfram aðra þegar gerðar eru efnahagsráðstafanir sem festa kaup, en stórhækka allt verðlag. En láglaunabæturnar verða þá að vera fullnægjandi, duga þessu fólki til að taka við verðhækkunum til fulls þannig að kaupmátturinn sé óskertur. Síðan má svo um það deila hversu langt skuli haldið eftir launastiganum með bætur sem þessar og vegna verðlagsþróunarinnar er það auðvitað ljóst að mun lengra hefði þurft að ganga.

Láglaunabæturnar hafa í verðhækkanaflóði síðustu vikna af völdum gengislækkunar, söluskattshækkunar, búvöruverðshækkunar, stórfelldrar hækkunar ýmiss konar þjónustu, lækkaðra niðurgreiðslna, fyrir svo utan almennar erlendar verðhækkanir, sem ekki skrifast á reikning ríkisstj., en hafa þó sín miklu áhrif, — láglaunabæturnar eru í ljósi alls þessa þegar uppurnar, óbreytt kjör láglaunafólks því herfileg blekking og liggur raunar ljóst fyrir nú þegar. Markið, sem hæstv. ríkisstj. setti í þessu frv. við framfærsluvísitöluna 358 stig, nálgast meira að segja óðfluga.

1. nóv. s.l. var upplýst að verðlag hefði hækkað um 15.4% frá 1. ágúst s.l., þ.e. framfærsluvísitalan mældist svo síðan hafa orðið umtalsverðar hækkanir á ýmiss konar útgjaldaliðum. Skv. þessu eru áhrif allra láglaunabóta rokin út í veður og vind, beint og óbeint, fyrir tilstuðlan hæstv. ríkisstj. Ég man ekki betur en að í kosningabaráttunni í vor hafi því verið hampað mjög af þeim sjálfstæðismönnum t.d. að vegna brbl. vinstri stjórnarinnar hafi kaupmáttur láglaunafólksins rýrnað og voru höfð um það þá uppi hin hörðustu orð af þeim sjálfstæðismönnum. Þróunin fram til 1. ágúst gat svo ekki verið annað en neikvæð vegna erlendra verðhækkana ýmiss konar, þó að öðru verðlagi væri haldið í skefjum. Skv. skilgreiningu þeirra sjálfstæðismanna frá í vor hefði raunar mátt segja að láglaunabætur ríkisstj. nú væru aðeins uppbót á skert kjör launafólks fram til 1. ágúst. Þegar svo verðlag nauðsynja hækkar um 15% frá þeim tíma til 1. nóv. og enn nokkur prósent sjálfsagt bæst við síðustu daga, þá fer að harðna á dalnum í rökstuðningi fyrir því að lægst launaða fólkið búi við óskert kjör. Ég heyrði það líka á hæstv. forsrh. áðan að hann var kominn allnokkuð aftur í tímann, farinn að færa sig aftur til ársins 1972 í samanburði við kaupmátt þessa fólks. Ég er hræddur um að það þurfi jafnvel enn lengra að fara til þess og þá er vitanlega blekking ein að tala um það að þetta fólk búi við óskert kjör eftir þær efnahagsráðstafanir sem gerðar hafa verið.

Fyrst binda átti kaup, fyrst bæta átti sérstaklega þeim lægst launuðu, þá hlaut kaupmáttur lágu launanna að vera höfuðmarkmiðið. Það lágmark var t.d. sett sem skilyrði í viðræðum um hugsanlega vinstri stjórn að kaupmáttur þeirra lægst launuðu yrði tryggður og það átti að vera kleift. Þetta hefur hins vegar einfaldlega ekki verið gert. Meginstaðreynd málsins er sú að kaupgjald er fest, bundið með lögum og það allt til 1. júní n.k., þeim allra lægst launuðu tryggðar bætur sem þegar eru að engu orðnar vegna þess að á sama tíma og kaupið er lögfest er verðlag hvers konar á hraðri uppleið. Annar þátturinn er bundinn meðan hinn er á fullri ferð. Forsenda kaupbindingarinnar og réttlæting hennar hlaut að vera ófrávíkjanleg verðstöðvun, nema þar sem um óviðráðanlegar erlendar verðhækkanir var að ræða. Uppsögn kjarasamninga og e.t.v. órói á vinnumarkaði þarf því engum á ávart að koma og munu viðræður ríkisstj. við launþegasamtökin í haust þó hafa leitt til þess að ríkisstj. sá sig knúna til að ganga lengra í láglaunabótunum en hún hafði hugsað sér, eflaust í þeirri veiku von að hún gæti frekar keypt sér frið með þeim hætti.

Alþb. er andvígt þessu frv. af því fyrst og fremst að allt of skammt er með því gengið til móts við launafólk í landinu, miðað við þær álögur sem á voru lagðar í haust með þeim ráðstöfunum í efnahagsmálum sem þá voru gerðar, vegna þess einnig að verðstöðvunin er sýndarmennska ein eða a.m.k. sér hennar hvergi stað enn, — andvígt því að svo sé gengið á gerða samninga að lægst launaða fólkið í landinu fái ekki einu sinni þær bætur sem því bæri annars að fá. Þó er enn eftir sá hluti frv. sem að þeim snýr sem sannarlega eru þeir tekjulægstu í þjóðfélaginu, aldraða fólkinu og öryrkjunum. Hver skyldi þeirra hlutur vera?

Mér þótti mjög vænt um það, hvað Sjálfstfl. bar þetta fólk mjög fyrir brjósti þegar vinstri stjórnin ríkti. Getur það verið að ríkisstj. telji í dag að þetta fólk sé fullsæmt af sínum hlut í þessu frv., að það búi við óbreytt kjör eða lítt skert kjör? Ellilífeyrir hækkar um rúmar 700 kr. á mánuði, tekjutryggingin um rúmar 1100 kr. svo að samtals er hér um að ræða rúmar 1800 kr. eða rúman helming þeirra bóta sem láglaunafólk fær þó á sitt dagvinnukaup. Ég hlýt að spyrja: Hver var sú viðmiðun er höfð var til hliðsjónar þegar þessar tölur voru festar á blað? Átti að halda kaupmætti tekjutryggingar óbreyttum eða ekki? Ég hefði ekki trúað því að óreyndu eftir allt tal þeirra sjálfstæðismanna um tryggingabætur undir vinstri stjórn að aftur á bak yrði snúið, — máske því að kjör þessa fólks stæðu í stað. Það er rétt, þau voru hvergi nærri nægilega tryggð hjá þeim sem ekkert annað hafa til lífsviðurværis. Vinstri stjórnin hafði ekki tryggt það þó að áfram hefði þokast.

Allir vita að verðhækkanirnar að undanförnu hafa löngu gleypt þessar hækkanir til hinna öldruðu og langt yfir það. Það mætti t.d. spyrja, hver var kaupmáttur tekjutryggingarinnar 1. ágúst s.l. og hver hann er svo aftur í dag. Ég er býsna hræddur um það að sá samanburður yrði hrikalega óhagstæður því fólki sem hefur hana eina við að styðjast. Það hlaut þó að vera lágmarksskilyrði að við það yrði þó látið sitja að skerða hlut alls launafólks í landinu til að rétta við hlut meira og minna illa rekinna fyrirtækja og atvinnurekstrar, þó ekki bættist þar við að í þessum björgunarráðstöfunum væri gamla fólkið og öryrkjarnir látin taka ríkulegan þátt, eins og bersýnilegt er. Hér ber allt að sama brunni. Í ákafa sínum við að færa fjármagnið aftur til í þjóðfélaginu, frá vinnandi fólki, frá jafnvel þeim sem minnst hafa, gæta stjórnvöld einskis hófs. Við þessu mátti svo sem búast og fólk er þá reynslunni ríkara.

Enn eiga eftir að dynja yfir fólk hækkanir sem það verður að þola bótalaust, jafnvel þeir sem minnst hafa. Engin fyrirheit sjást a.m.k. um það í fjárlagafrv. að um neinar viðbótarhækkanir til aldraðra og öryrkja eigi að vera um að ræða.

Andstaða Alþb. við vinnubrögðin við aðgerðirnar er alger og ótvíræð. Andstaða þessi er í fullu samræmi við tillögur þess í sumar er leið, þar sem tryggður skyldi kaupmáttur þeirra sem minnst bera úr býtum. Íslenskt þjóðfélag þolir það mætavel að skerða í engu laun þess erfiðisfólks sem leggur undirstöðu að þjóðarauðnum. Það þolir einnig vel að tryggja að fullu þau kjör, sem aldraðir og öryrkjar bjuggu þó við. Það þarf svo sannarlega fyrr að leita til ýmissa annarra aðila um fjármuni, þó að faldir séu, í þá veru að bjarga þjóðarbúinn en þessa fólks. Þótt ekki væri af öðru en því að þess sér hvergi merki hlyti ég að vera andvígur þeim heildarráðstöfunum, sem þetta frv. er angi af. Stefnan í heild sannar þá staðreynd, bitra og augljósa, að á þetta fólk, það tekjulægsta, er fyrst ráðist þegar þetta fallega orðalag glymur við: „Bjarga þarf þjóðarbúinn“. En þar býr nefnilega annað undir.