28.02.1975
Efri deild: 51. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1993 í B-deild Alþingistíðinda. (1590)

168. mál, ráðstafanir vegna snjóflóða í Norðfirði

Frsm. 2. minni hl. (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Þó ég geti með engu móti tekið orð hv. 2. þm. Vesturl. til mín þykir mér rétt að lesa upp fyrir hann, því að hann virðist ekki hafa haft tíma til þess, úr bréfi frá stjórn Viðlagasjóðs, en þar segir svo orðrétt:

„Það er því till. stjórnar sjóðsins að núverandi tekjustofn verði framlengdur í 12 mánuði, þ.e. til febrúarloka 1976. Í árslok 1975 yrði skuldin við Seðlabankann 827 millj. kr. Þá er óinnkomið söluskattsstig seinustu 4 mánaða sem áætlast 332 millj. kr. og mundi lækka þessa skuld á fyrstu mánuðum ársins 1976 í 495 millj. kr. Á móti væru eignir sjóðsins, skuldabréf til langs tíma umfram skuldbindingar við aðra en bankann, 1350 millj. kr. Afborganir af þessum skuldabréfum mundu þá greiða skuldina við Seðlabankann á nokkrum árum.“

Þetta var eftir því sem menn vissu best í stjórn Viðlagasjóðs í des. Svo verða þessar hörmungar og staða og viðhorf breytist og eðlilega eru gefin fyrirheit um að mæta því tjóni, sem þarna verður, og það er metið — sumir segja kannske varlega — en það er metið 500 millj. Við getum sagt að það þurfi að bæta einhverju víð, kannske 50 millj., kannske 100 millj. Hvernig á þá að mæta þeirri þörf? Ég held að það sé ekki um neitt annað deilt hér en aðferð, leiðir til þess, og það er vitað mál og er ekkert launungarmál, að innan stjórnarflokkanna var geysilegur ágreiningur, um leið og það var líka augljóst mál, að ef fallist hefði verið á þá hugmynd að framlengja söluskattsstigið óbreytt þótt ekki væri nema til 30. júní 1976, þá var nægileg tekjuöflun komin. En það er af einhverri annarri hvöt eða orsök, sem hæstv. ríkisstj. sér sig til knúna að fara þá leið að fá eitt stig nýtt samþ. og tekið inn í lög, þrátt fyrir margvísleg vandkvæði sem því fylgja. Það er þess vegna sem við ýmsir andmælum þeirri stefnu.

Það er augljóst mál, að um þetta eru mjög skiptar skoðanir innan hæstv. ríkisstj. eða í stuðningsflokkum hennar, þó að það hafi verið barið í gegn eftir löng fundarhöld að fallast á þetta, a.m.k. með einhverjum ákveðnum meiri hl. Lýsi ég óánægju minni yfir þessu, því að í þessu tilfelli, um slíka tekjuöflun sem hér er um að ræða, var langeðlilegast og heilbrigðast að fullkomin og eðlileg samstaða næðist hjá öllum flokkum, því við eigum ekki að vera að deila um tekjuöflun í þágu slíkra bóta sem hér um ræðir, það er ekki eðlilegt.

Það er vitað mál að eitt söluskattsstig aflar ríkissjóði tekna langt fram yfir bætur. Eru þá áhrif Seðlabankans svona gífurleg að hann segi Alþ. fyrir verkum? Eru það áhrif hans sem hér eru að verki? Ef svo væri, þá harma ég það enn meir.

Hv. þm. hafði um það mörg orð að till. okkar væru ábyrgðarlausar, sérstaklega varðandi b-lið brtt. Ég drap á það að hans flokkur hefði á sínum tíma komið fram með frv. sem átti að vera ábending fyrir vinstri stjórnina, og þá töldu þeir létt verk að skera niður um 4.6 milljarða, sem þýddi í dag 6—7 milljarða, miðað við peningaveltu. En það var bara till., ekkert meira, þrátt fyrir margvíslegar áskoranir.

Þegar fyrstu lög um Viðlagasjóð voru sett taldi Alþ. sér sæma, þrátt fyrir gildandi fjárl., glæný, að leggja til að ríkissjóður legði nokkra upphæð fram, mig minnir 160 millj. kr. Þess vegna er ekki út í hött að tala um 400 millj. kr. núna, hafandi það í huga einnig að hæstv. ráðh. hefur gefið í skyn geysilegan niður skurð á framkvæmdum. Það mætti spyrja hæstv. forsrh.: Er það til að létta á ríkissjóði eingöngu eða til að létta á verðbólgunni eða blandað? Sennilega tel ég tvöfalda nauðsyn til að skera niður, bæði að draga úr útgjöldum ríkissjóðs og einnig að hamla gegn verðbólgu, og þá er það alveg eðlilegt og rökrétt, eins og aðstaðan er í þjóðfélaginu í dag, að fjalla um þetta sameiginlega.

En það kom alveg greinileg fram hér að hv. 2. þm. Vesturl., form. fjvn., virðist ekkert vita um þetta enn þá, miðað við orð hans áðan. Þess vegna undra mig þessar tölur, ég segi það alveg eins og er, mig undra þessar tölur, að þær skuli vera komnar á flot án þess að fjöldi þm. hafi hugmynd um hvernig þær eru fundnar. Hagsýslustofnunin gefur það út að hún viti ekkert um þær. Kannski veit bara Seðlabankinn um þetta og hann hringir út í þingið og segir okkur hvernig þetta eigi að vera.

Því miður held ég að hér takist miður til um tekjuöflun. Miklu heilbrigðara væri að framlengja söluskattsstigið þá út árið 1976, eins og ég hef sagt og ég er reiðubúinn til að standa að. Og ef rök eru færð fyrir því, svo að óyggjandi sem verða má, að 400 millj. kr. álag á ríkissjóð sé um of, þá vil ég líka endurskoða það. En þá verðum við að vera virtir viðtals um upplýsingar. En það hefur ekki verið, eins og kom greinilega fram hjá einum ræðumanni áðan. Við fáum ekki neitt að vita í stjórnarandstöðunni, a.m.k. mjög takmarkað, og er ekki einu sinni tími til að fjalla um málið eðlilega. Svo eru menn undrandi yfir því að við skulum vera með ýmsar vangaveltur um svona mikilvæg og alvarleg mál og reyna að gera fyrirspurnir og aths. Við mundum bregðast skyldu okkar ef við gerðum það ekki, hreinlega sagt, frumskyldu okkar hér á Alþ. ef við gerðum það ekki. Bréf frá framkvæmdastjórn ASÍ ern svo ótvíræð mótmæli á móti þessari tekjuöflunaraðferð, að mig undrar að hæstv. forsrh. skuli treysta sér til að leggja þetta til. Mig undrar það miðað við núv. ástand í kjaramálum og þróun í verðlagsmálum. Ég hefði látið segja mér það mjög seint að hann hefði valið þessa leið, og ég trúi því varla enn að hún verði endanleg niðurstaða. Eftir að það hefur komið skýrt fram að við erum tilbúnir til að framlengja söluskattsstigið óbreytt út árið 1976 til að ná samkomulagi og tryggja með því enn meiri tekjur en virðist vera þörf á í dag, þá undrar mig enn meir að þessi leið skuli vera farin sem mun reynast olía á eldinn.