28.02.1975
Efri deild: 51. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1999 í B-deild Alþingistíðinda. (1594)

168. mál, ráðstafanir vegna snjóflóða í Norðfirði

Jón Árnason:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. gerði glögga grein fyrir stöðu Viðlagasjóðs og ríkissjóðs gagnvart Seðlabankanum í sinni fyrri ræðu áðan, og má sjá af því sem þar kom fram að þær till., sem hér eru uppi frá stjórnarandstöðunni, eru algjörlega óraunhæfar eins og ég hef vikið að áður.

Hv. 5. þm. Norðurl. v. var að tala um það, að eins og hag almennings væri komið nú væri algjörlega óraunhæft að koma með þetta prósentustig í söluskatti nú til viðbótar. Vitanlega viðurkenna allir að hækkun skatta, hvort sem er söluskattur eða annað, er eins og hver önnur neyðarráðstöfun hverju sinni til þess að afla tekna til að standa undir nauðsynlegum kostnaði.

En hvernig var hag almennings komið? Það er eins og allt hafi verið í besta lagi þegar vinstri stjórnin var hér við völd og þegar hún hrökklaðist frá. Var hagur almennings það góður þá, að það sé ástæða fyrir hv. þm. að vera að minnast á það sérstaklega? Það var búið að gera samninga við launþega í landinu — samninga sem áttu að hækka kaupið verulega. En hvað gerðist svo nokkrum tímum seinna? Hvað gerði vinstri stjórnin þá? Hún rauf samningana, sem launþegasamtökin voru búin að gera við atvinnurekendur, tók allt úr sambandi og vísitöluna með, enda þótt meiri verðbólga ætti sér stað í landinu en dæmi voru til um áður, yfir 50% verðbólga, eins og var á s.l. ári, og það var grundvöllurinn að óðaverðbólgu, lagður í tíð fyrrv. ríkisstj., vinstri stjórnarinnar.

Svo kemur þessi hv. þm. og segir, að hag almennings sé illa komið. Vitanlega eru erfiðir tímar. Viðskiptakjör þjóðarinnar hafa farið niður á við síðan þetta átti sér stað, og það segir sig sjálft, að eftir því sem viðskiptakjörin verða lakari hjá þjóðinni þá hefur hún minni upphæðum að skipta. Þess vegna furða ég mig á því, að þessir hv. þm. skuli vera að minnast á hvernig hag almennings hafi verið komið, eins og allt hafi verið blómlegt þegar þeir réðu. Þeir hefðu ekki átt að gera þær neyðarráðstafanir sem þeir gerðu, að kippa vísitölunni úr sambandi og setja allt fast um leið og þeir kyntu undir verðbólgunni í landinu. Það er nokkuð til að hæla sér af þetta!

Hv. þm. Steingrímur Hermannsson, 2. þm. Vestf., sagði áðan að hann efaðist um að það þyrfti að hægja nokkuð á uppbyggingunni í Vestmannaeyjum. Það hefur enginn minnst á það nema hann að það ætti að taka Vestmannaeyjar inn í þetta dæmi. Hann taldi í sinni fyrri ræðu, það fór ekkert á milli mála, það kom skýrt fram hjá honum, að eina leiðin til þess að fjármagna bæturnar til Neskaupstaðar væri að hægja á uppbyggingunni í Vestmannaeyjum. Mig undrar að hv. þm. skyldi láta slík orð frá sér fara. Hann sagði enn fremur: „Það verður staðið við allt sem norðfirðingum var lofað. Loðnubræðslan verður komin í gang á næstu vertíð.“ Það er eins og ekkert hafi skeð á Norðfirði annað en að loðnubræðslan hafi eyðilagst. Því miður var það miklu meira en loðnubræðslan sem eyðilagðist í snjóflóðinu sem kom á Norðfirði á sínum tíma. Og það er margt annað miklu meira sem þarf þar að bæta og verður ekki gert nema því verði mætt með því að afla fjár til þeirra framkvæmda.

Hv. 1. landsk. þm., Jón Árm. Héðinsson, sagði að það væri ekkert út í hött að gera ráð fyrir því að greiða 400 millj. kr. úr ríkissjóði til þess að bæta fyrir tjónið á Norðfirði. Það er algjörlega út í hött að gera ráð fyrir því, eins og hag ríkissjóðs er komið, að ekki verði því meira skorið niður af nauðsynlegum framkvæmdum sem fjárlögin gera ráð fyrir, vegna þess að tekjuskerðingin hjá ríkissjóði verður það mikil. Þess vegna er hvorki um þessa né aðra upphæð þar að ræða.

Það var hv. 5. þm. Norðurl. v. sem talaði um það áðan í sambandi við skattalækkun, að það mundi ekki koma launþegum neitt að gagni að lækka skattana. (Gripíð fram í: Það sagði ég aldrei.) Það er eins og þessi hv. þm. hafi ekkert fylgst með því, sem komið hefur fram hjá þeim sem telja sig forsvarsmenn verkalýðssamtakanna. (Gripið fram í: Ræðumaður hefur ekki hlustað á ræðuna.) Ég held að hann hafi talað íslensku og ég tel mig skilja hana. Hann spurði jafnframt hæstv. forsrh. um það, hvort ætti ekki að nota þessar 700 millj. sem gert er ráð fyrir í fjárlögum. Þegar ekki hefur verið tiltekin skattvísitala í fjárlögum þegar þau hafa verið afgr., þá hefur fjmrh. jafnan gefið yfirlýsingu um það, við hvaða skattvísitölu yrði miðað þegar skattálagning færi fram á því skattári. Nú er skattvísitalan ákveðin á fjárl., svo að það er vitanlega ekki um annað að ræða en við þessar 700 millj. kr., sem þar er gert ráð fyrir, verði miðað sem lágmark. Hins vegar er öllum kunnugt, að það hafa farið fram viðræður um það milli forsvarsmanna ríkisstj. og launþegasamtakanna og þar er sótt á um að þessi upphæð verði hærri. Og það segir sig sjálft, að sá þrýstingur, sem er hjá forsvarsmönnum verkalýðsfélaganna í þessum efnum, er vegna þess að þeir meta það nokkurs ef hægt væri að hafa þessa upphæð hærri en 700 millj. kr., eins og gert er ráð fyrir í fjárl. Vitanlega ber að hafa samráð við verkalýðsfélögin í sambandi við það mál, vegna þess að þau hafa marglýst því yfir að þau muni meta það til jafns við aðrar kjarabætur, miklu skipti í launagrundvellinum sú upphæð sem tekin verður í þessu skyni.

Ég sé svo ekki ástæðu til að orðlengja frekar um þetta. Ég var búinn að tina hér upp einstaka liði, sem taka verður með í reikninginn í sambandi við þá kjarasamninga, sem nú standa yfir, og óhjákvæmilega hljóta að lenda að verulegu leyti til útgjalda hjá ríkissjóði.