28.02.1975
Efri deild: 51. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2003 í B-deild Alþingistíðinda. (1597)

168. mál, ráðstafanir vegna snjóflóða í Norðfirði

Jón Árnason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af þessari seinustu ræðu. Mig furðar svo sem ekkert á þessari ræðu því að þetta kemur að sjálfsögðu við þessa heiðursmenn, forsvarsmenn vinstri stjórnarinnar. Hv. þm. fór að hæla sér sérstaklega í sambandi við launakjörin. Launakjörin gjörbreyttust! Jú, þau hækkuðu verulega og hækkuðu aldrei meira en á árinu 1974. En hvað gerðist þá? Strax eftir að var búið að semja um þessi háu launakjör er vísitalan tekin úr sambandi og meira að segja vísitölustig tekin til baka. Svo eru þeir að hæla sér í sambandi við tryggingarnar, hvað þeir hafi gert fyrir gamla fólkið og ellilífeyrisþegana. Hvað gerðu þeir? Þeir gerðu ekkert annað en að framkvæma löggjöf sem fyrrv. ríkisstj. var búin að setja áður en þeir tóku við. Þetta er það eina sem eftir þá liggur. Það er eins og þessi hv. þm. hafi ekkert fylgst með þessum málum. En lögin taka gildi eftir að þeir taka við stjórninni. Hver þakkar þeim að þeir framkvæmi lög sem aðrir eru búnir að setja? Hvað gerðu þeir svo allan tímann? Hvaða umbætur gerðu þeir í elli- og örorkulífeyrismálum? Ekki nokkurn skapaðan hlut sem hægt er að tala um. Ætli það verði ekki fyrst sú ríkisstj., sem nú situr við völd, sem bætir eitthvað hag elli- og örorkulífeyrisþega í sambandi við þær úrbætur sem nú liggja fyrir? Það kann að vera að það eigi eftir að sýna sig að þær umbætur, sem að gagni koma fyrir þessa menn í þjóðfélaginu, elli- og örorkulífeyrisþega, komist aðeins á þegar Sjálfstfl. er í stjórn.