28.02.1975
Efri deild: 51. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2003 í B-deild Alþingistíðinda. (1599)

168. mál, ráðstafanir vegna snjóflóða í Norðfirði

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Ég hef ekki ætlað að blanda mér í þetta söluskattsmál, en þetta eru orðnar meira og minna umr. almenns efnis.

Eitt af því, sem venjulega kemur fram hjá vinstri mönnum þegar þeir eru að tala um elli- og örorkulífeyrisþega, er að allar umbætur eða flestar hafi verið gerðar í tíð vinstri stjórnarinnar. Þetta er ekki alveg rétt. Það er mikið búið að skamma viðreisnarstjórnina, en hún gerði margt merkilegt einmitt í tryggingamálum. Þegar viðreisnarstjórnin tók við af vinstri stjórninni fyrri, fékk t.d. ellilífeyrisþegi í Norðfjarðarhreppi 25% minni bætur en reykvíkingurinn, hann fékk 25% minni bætur en keflvíkingurinn og hann fékk 25% minni bætur en sá sem bjó í Neskaupstað. Þetta var alþekkt og mjög illa þokkað fyrirbrigði og var búið að vera lengi í lögum. Þetta afnam hún. Það var hún, viðreisnarstjórnin, sem kom því í lög að heimilt var að hækka tryggingabætur sem í raun og veru svöruðu til þeirrar tekjutryggingar sem kom svo núna. Það var með því að mega tvöfalda ellilífeyrinn og örorkulífeyrinn þegar á þurfti að halda og jafnvel meira en tvöfalda hann. Þetta var búið að vera í lögum frá tímum viðreisnarstjórnarinnar. Einhverjar mestu umbætur, sem gerðar hafa verið á tryggingalöggjöfinni íslensku, voru einmitt gerðar í byrjun viðreisnarstjórnartímabilsins, og ég held að það sé rétt að hafa það í huga.

Það er stundum verið að bendla tryggingalöggjöf við sósíalisma. Slíkt er ekki að mínu viti rétt, vegna þess að í fyrsta lagi hófust þær annars staðar, hjá fiskmarkaðnum í Þýskalandi. Í öðru lagi fara tryggingabætur og almannatryggingar mjög eftir almennum stjórnarháttum og möguleikum þjóðanna. Við vitum að hjá okkur vill það gjarnan verðu að þær dragist aftur úr á slæmum tímum, en batna þá líka þegar batnar í ári. Slíkt hefur verið um langan tíma, og því er ekki að neita að það urðu margs konar umbætur á tryggingalöggjöf okkar í tíð vinstri stjórnarinnar síðari. En ég á ekki von á því að úr þeim umbótum verði dregið heldur með reynslunni, og það er eins og sagt hefur verið, það er sí og æ verið að endurbæta tryggingalöggjöf okkar. Og ég tek undir það með hv. 2. þm. Vesturl., að ég hef ekki trú á öðru en að ellilífeyrisþegar og öryrkjar haldi sínum hag nú undir þessari stjórn.

En það var annað sem ég vildi aðeins minnast á líka.Það er rétt að með batnandi hag á árum vinstri stjórnarinnar fór kaupgjald að sjálfsögðu hækkandi og raunkjör bötnuðu. En þetta þýddi að það var ekki eingöngu notaður hagnaðurinn sem varð af batnandi viðskiptakjörum þjóðarinnar, heldur var þá þegar, meðan góði tíminn var, tekið úr þeim sjóðum, sem viðreisnarstjórnin hafði safnað til af illri reynslu, og þeir notaðir til þess að bæta kjörin þá strax með þeim afleiðingum að þegar versnar í ári er bókstaflega ekkert til, og þá vilja menn ekki gjarnan sætta sig við að hagurinn rýrni um leið og viðskiptakjörin rýrna. Ég veit ekki hvort hv. þm. hafa séð línurit sem gert var nýlega yfir okkar viðskiptakjör alveg frá 1914. Þar kemur fram að þetta er eiginlega eins og slæmt hjartalínurit, sífelldir toppar og dældir, og þýðir að sjálfsögðu það, að ef á aldrei að safna í neina sjóði til mögru áranna, verður ekki hjá því komist að rýra kjörin þegar viðskiptakjörin rýrna og bæta það að sjálfsögðu aftur þegar batnar í ári. Hitt virðist þó vera öllu skynsamlegra, að taka toppana af og geyma þá í sjóðum til mögru áranna. Þetta var það sem viðreisnarstjórnin hafði gert tilraunir með og hefur reynst sjávarútveginum mjög vel. En það var eitt fyrsta verk vinstri stjórnarinnar að ganga á þann sjóð, enda þótt ekki væru sjáanleg nein sérstök tilefni til þess þar eð viðskiptakjör fóru þá ört batnandi.