28.02.1975
Neðri deild: 50. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2017 í B-deild Alþingistíðinda. (1611)

162. mál, áhrif olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Mér urðu það mikil vonbrigði að hv. fjh.- og viðskn. þessarar d. skuli ekki hafa séð sér fært að taka meira tillit til þeirra brtt., sem ég gerði hér grein fyrir í gær og varða þetta mál. Ég er þeirrar skoðunar, að það sé með ólíkindum að þeir menn, sem ekki gera sér grein fyrir þessu geigvænlega ástandi, eins og hv. 2. þm. Austf. kom hér inn á í sambandi við hækkun á olíukostnaðinum, geti afgreitt svona mál, eins og mér virtist hv. þm. Ólafur G. Einarsson gera hér áðan, frsm. fjh.- og viðskn., með bara einu pennastriki og segjast ekki ætla að ræða það. Hér er um að ræða mál sem er þess eðlis, að menn verða blátt áfram að komast til botns í því hvort hér er um svo geysilega mismunun að ræða eins og hér hefur komið fram, annars vegar milli þeirra, sem eru á hitaveitusvæðunum, og hins vegar hinna, sem kynda hús sín með olíu, — hvort hér er um svo mikil vandamál að ræða sem ég og margir aðrir halda fram, og ef svo er, sem ég fullyrði, þá verða menn að standa frammi fyrir því, hvort þeir vilja gera tilraun til þess að leiðrétta þann herfilega mismun sem hér á sér stað. Svona mál verður að mínu viti ekki afgreitt bara með því að segja að við ræðum það ekki. Þetta er svo alvarlegs eðlis og snertir slíkan fjölda einstaklinga í landinu, að það verður ekki komist hjá því hér á Alþ. að menn segi til um hvort þeir telji að slík mismunun sé réttlætanleg gagnvart þeim aðilum sem verða við hana að búa. Hjá því verður ekki komist.

Hvað sem hv. þm. Ólafur G. Einarsson segir um kjördæmissjónarmið og hvað sem menn kalla þessa skoðun, sem ég og margir aðrir hafa, sem er í þá átt að við teljum að það verði ekki við unað það ástand, sem er nú og verður áfram að óbreyttum kringumstæðum, — hvað sem menn kalla þetta, þá er staðreynd að það er um þennan mismun að ræða og Alþ. og ríkisstj. verður að gera til þess ráðstafanir með fjáröflun af einhverju tagi, sem geri það kleift að minnka þennan mun. Hjá því verður ekki komist. (Gripið fram í: Er ekki verið að því?) Er ekki verið að því? segir hann. Og þá má ætla svo að þessi hv. þm., sem grípur fram í, telji þetta nóg. Má vera að það sé hans skoðun. En hún fellur ekki í jarðveg hjá þeim sem verða að borga fimmfalt og sexfalt meira en þessi hv. þm. þarf sjálfur að borga til þessara hluta og hefur þó hærri laun til að borga af en þeir, sem hér er verið að tala um. (Gripið fram í.) Já, að hluta ásamt öðru sjálfsagt.

Þegar ég talaði hér fyrir brtt. mínum í gær gerði ég grein fyrir því, og skoðun mín hefur ekki breyst, að hitunarkostnaður á venjulegu íbúðarhúsnæði, er á bilinu frá 15–20 þús. á hverjum einasta mánuði, og það er miklu meiri byrði en a.m.k. ég tel að sé hægt að bjóða fólki á þessum stöðum að bera, miðað við það sem aðrir landsmenn á hitaveitusvæðum búa við. Það er því rétt sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson kom hér inn á áðan, það er ábyggilegt að við finnum engin dæmi þess mismunar á öðrum sviðum eftir búsetu, og eru þau dæmi þó mörg sem við getum fundið um mismun á ýmsum líðum miðað við búsetu manna. En hér keyrir um þverbak, og ég held að það verði ekki við það unað. Þó að hv. stjórnarlið vilji ekki fallast á þessa leið, þá verður ekki hjá því komist, stjórnvöld verða að finna leið og það nú þegar til þess að jafna þennan geysilega aðstöðumun.

Ég verð þó að segja að það er misjafnlega djúpt á réttlætiskennd hv. nm. fjh.- og viðskn. Það var auðheyrt á ræðu hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar, að hann gerir sér þetta ljóst þótt hann að vísu telji vafasamt að fara þessa leið sem ég er hér að benda á. Það má um deila hvort á að fara þá leið eða hver prósentan ætti að vera, ef inn á það væri farið að afla slíkra fjármuna. En hann gerir sér fyllilega ljóst hversu hér er um geysilegt vandamál að ræða. Það dreg ég í efa að allir hv. þm. geri sér ljóst og það sé þess vegna og ég vona fyrst og fremst þess vegna sem jafnmikið tómlæti virðist ríkja og lítið talað um það sem hér er á ferðinni. Ég vil því eindregið hvetja hv. þm. til þess að gera sér grein fyrir þessu máli. Ef þeir sannfærast um að aðstöðumunurinn sé svona mikill eins og ég hef haldið fram, þá hljóta þeir að sannfærast einnig um að Alþ. og stjórnvöldum ber beinlínis skylda til þess að finna leiðir til fjáröflunar til þess að minnka þennan aðstöðumun. Það er fráleitt, algerlega fráleitt, eins og hv. þm. Lúðvík Jósepsson kom hér inn á og Sighvatur Björgvinsson einnig, þm., að meðan þetta ástand varir, þessi aðstöðumunur er ríkjandi í landinu, — þá er fráleitt af stjórnvöldum að vera að klípa af þessum peningum til annarra þarfa sem út af fyrir sig eru nauðsynlegar. Alþ., allir þm., eftir því sem ég man best, eru sammála um að verja tekjum af þessu eina söluskattsstigi til þessara hluta, og það er fráleitt að ætla nú að fara að klípa af þeim fjármunum og ég er satt að segja alveg undrandi á því að Framsfl., forusta Framsfl., skuli geta tekið sér það í munn að mæla með því að slíkt verði nú gert. Það er alveg fráleitt. Það er ekki byggðasjónarmið sem þar ræður. Það er eitthvað allt annað. Og ég er víss um það, að ef íbúar á hitaveitusvæði, eins og hv. þm. sem greip hér fram í áðan, Ellert B. Schram, fengju reikning á þriggja mánaða fresti vegna kyndingar á sinni íbúð upp á 45–60 þús. kr., þá færu þessir sömu aðilar að taka við sér (EBS: Upp á hvað mikið?) Upp á 45–60 þús. á því bili, á þriggja mánaða fresti. Þá færu þessir menn að taka við sér og þá mundi ábyggilega verða rekið upp ramakvein af þeim fulltrúum þessara svæða sem telja nú að við, sem höldum fram þessu sjónarmiði álíka og ég, séum hér með kjördæmissjónarmið.

Nei, ég held að menn verði að horfast í augu við þá staðreynd að það er ókleift, beinlínis ókleift hjá venjulegum launamanni, ég tala nú ekki um þá sem eru á lægstu launum og elli- og örorkulífeyrisþega, — það er bókstaflega ókleift að ætlast til þess að þessir aðilar beri þennan skatt án þess að fá frekari bætur en nú er gert ráð fyrir.

Ég minnist þess að þegar var verið að ræða um þessi mál á síðasta þingi þá var það talsverðum erfiðleikum háð að fá fulltrúa Framsfl. í fjh.- og viðskn., sem þá fjallaði um þetta mál og ég átti sæti í, til þess að fallast á það að elli- og örorkulífeyrisþegar fengju einn og hálfan styrk. Þeir voru ekki þá á þeim buxunum, fulltrúar Framsfl., án þess að það væri verulega látið á það reyna að fallast á slíkt. Og ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því, að fulltrúar stjórnmálaflokkanna hér á Alþ. verði andvígir því, eftir það sem gerst hefur í þessum efnum frá því að þetta var samþ. fyrir um ári, — að þeir verði á móti því nú að þessum aðilum, elli- og örorkulífeyrisþegum, verði bætt frekar en öðrum, þó að full ástæða sé til þess. Ég tel, að eins og mál standa í dag og eins og farið hefur verið með elli- og örorkulífeyrisþega og bótaþega almannatrygginga frá því að núv. hæstv. ríkisstj. tók við völdum, þótt ekki sé litið yfir lengri tíma, þá sé ekki sæmandi af Alþ. að gera ekki þá breytingu á þessum líð að elli- og örorkulífeyrisþegar fái a.m.k. tvöfaldan styrk. Það væri miklu nær hv. stjórnarliðum að fallast á slíka breyt. og gefa frá sér þá hugmynd að klípa af þessum tekjulið til annarra framkvæmda. Það væri sök sér, þótt svo þessi líður stæði óbreyttur þannig séð, að eitt stig færi til þessa, en styrkur til elli- og örorkulífeyrisþega færi upp í að verða tvöfaldur, en allar tekjurnar væru eigi að síður notaðar til þess sem þær væru ætlaðar.

Ég fyrir mitt leyti verð að segja það, að ég verð fyrir afskaplega miklum vonbrigðum ef það sjónarmið virðist koma til með að ríkja hér á hv. Alþ., að það sé ekki réttlætanlegt í slíku vandamáli að skattleggja að hluta þá sem búa við 5–6 sinnum hagkvæmari aðstöðu en hinn aðilinn sem hér er verið að tala um. Ég hélt því fram í gær, að miðað við það að verð hjá hitaveitu hækkaði um 30% frá því sem það nú er, þá væri það rösklega þriðjungur af því verði sem þeir einstaklingar verða að borga sem kynda hús sín með olíu, — rösklega þriðjungur. Ég tel, að slík ákvörðun sé fullkomlega réttlætanleg, þegar þetta tvennt er borið saman, ekki síst ef tekið er tillit til þess að það eru stór svæði í okkar landi, heilir landshlutar, sem ekki eygja það takmark að geta hitað íbúðarhús sín með hita frá hitaveitu eða með raforku, þannig að það er allt útlit fyrir að landshluti eins og Vestfirðir verði um áraraðir að búa við sama ástand og nú er á því svæði.

Menn kannske minnast þess, að við fjárlagaafgreiðslu hér fyrir jólin var Orkustofnun og þar með vestfirðingum neitað um að fá tæpar 10 millj. kr. til þess að hægt væri að ljúka nauðsynlegum undirbúningsrannsóknum til þess að taka ákvörðun um hvernig skyldi hagað virkjunarframkvæmdum á Vestfjörðum. Vel má vera að það sé ætlun núv. stjórnarherra að sá hluti, sem á að klípa af olíustyrknum, sé ætlaður til þess að leiða vestfirðinga eitthvað af með því, að nú verði hægt að ljúka þeim undirbúningsrannsóknum sem farið var fram á fjárveitingu til við fjárlagaafgreiðslu. En hvað sem því liður, þá er það staðreynd að að mínu álíti kemst Alþ. ekki hjá því að horfast í augu við þessa staðreynd og er ekki bjóðandi íbúum neins hluta þessa lands að þurfa að borga 5–6 sinnum meira, hvorki fyrir þessa þjónustu né neina aðra þjónustu, en þeim aðila sem býr við bestu skilyrði. Við verðum að horfast í augu við þá staðreynd að það verður að jafna þennan mun, fyrst og fremst þennan kannske eins og mál standa nú, en þeir eru ótalmargir fleiri sem verður að jafna með tilliti til búsetu.

Út af því, sem hv. þm. Lúðvík Jósepsson sagði, að það væri æskilegra að hafa ákveðna tölu sem ætti að greiða fyrir einstakling, þá get ég út af fyrir sig fallist á að það er æskilegra. En ef stjórnvöldum er ekki til þess treystandi, þegar búið er að ákvarða til hvaða hluta ákveðnum tekjum skuli varið, þá veit ég ekki hvað á að gera. En till. mín er einmitt um að öllu þessu fé verði ráðstafað til þessa, eins og það var ætlað í upphafi og á að gera. Það má vel vera að það verði að setja þær skorður að nefna ákveðna tölu, og ekki skal ég hafa á móti því. En ég taldi það satt að segja, kannske vegna þess að ég er það nýr í starfinu, ástæðulaust þegar það væri á annað borð ákvarðað til hvers þetta fjármagn ætti að fara.

Ég skal ekki hafa öllu fleiri orð um þetta en ég vil aðeins víkja að því sem kemur fram í till. frá hv. þm. Gunnlaugi Finnssyni. Það er út af fyrir sig rétt, að ef á að fara í það á annað borð að klípa af þessum peningum og ef það verður staðreynd, þá er réttlætanlegra að mínu áliti að veita því frekar til raforkuframkvæmda en til hitaveitu eða jarðvarma, þótt það sé nauðsynlegt út af fyrir sig. En ég held að hér sé ekki um það mikla fjármuni að ræða að þeir komi að miklu gagni til þessara framkvæmda, en koma hins vegar að mjög miklu gagni fyrir þá einstaklinga sem hafa orðið fyrir barðinu á hinni geigvænlegu hækkun olíuverðsins. Var farin sú leið, sem ég hef hér gert till. um, þá þýddi það í reynd um 25% hækkun eða nálægt því 25% hækkun á greiðslu olíustyrks til þeirra sem hans munu njóta eða hafa notið. Það væri ekki langt frá því. Allt söluskattsstigið + þessar 230 millj. miðað við núv. verðlag á hitaveitugjaldi, sem mundi þá verða hærra ef um hækkun yrði að ræða, það mundi þýða nálægt 25% hækkun á þeim styrk sem þeir fengju sem búa við þessar aðstæður, og það er lítill hluti, lítið bil sem brúað er af því geigvænlega bili sem er milli þessara tveggja þátta.

Ég sé ekki, herra forseti, ástæðu til þess að ræða þetta frekar. Ég vænti þess, að þó að fáir hv. þm. hafi tekið undir mitt mál í umr., verði þeir þó a.m.k. talsvert fleiri sem undir það taka í atkvgr., og það er það sem skiptir máli.