28.02.1975
Neðri deild: 50. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2024 í B-deild Alþingistíðinda. (1614)

162. mál, áhrif olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Gunnlaugur Finnsson:

Hæstv. forseti. Við höfum heyrt í þessum umr. tvenns konar tón, og mér finnst ástæða til þess að fara ár aftur í tímann, þegar ég var í þeim sporum að standa að kröfugerð um jöfnun á hitunarkostnaði íbúðarhúsnæðis. Ég hygg, að þegar Fjórðungssamband vestfirðinga gerði sínar athuganir í jan. 1974, þá hafi þjóðinni fyrst orðið ljóst, í ljósi þeirra staðreynda sem þar voru settar fram, hversu gífurlegt vandamál væri hér í raun og veru á ferðinni. Þá var olíulítrinn að vísu ekki kominn í nema 11.60 kr., ef ég man rétt, en samt kom þarna fram gífurlegur aðstöðumunur. Ég segi ekki að það hafi verið í kjölfarið á þessum athugunum eða útreikningum, en það leið a.m.k. ekki nema mánuður frá því að þessar skýrslur voru sýndar þangað til lagasetning hafði átt sér stað hér á hinu háa Alþ. og þessi munur jafnaður að verulegu leyti, enda þótt deilur væru uppi um á hvern hátt ætli að jafna þennan aðstöðumun. Það er þess vegna, að ég get ekki að því gert að ég treysti mér ekki til þess að standa að óbreyttu frv., sem hér hefur verið lagt fram, eins og það hefur verið afgr. frá fjh.- og viðskn.

Fyrsta ástæða mín er sú, að á sama tíma og stórlega hefur dregið sundur varðandi þennan aðstöðumun frá því í fyrra, þar sem bilið hefur aukist. Eins og ég sagði í ræðu í þessari hv. d. í gær, hefur kostnaður aukist um 10 þús. kr. á íbúa á olíuhitunarsvæðunum á meðan hann jókst um um það bil 2 000 kr. á hitaveitusvæðunum — og nokkru meira ef sú hækkun verður sem sótt er um. Breytingin hefur orðið svo mikill að ég sé ekki ástæðu til þess að sá markaði tekjustofn sem var ákveðinn í fyrra, eitt söluskattsstig, verði á nokkurn hátt skertur til þess að auka þennan mun. Þessi ástæða er höfuðástæðan fyrir því að ég tel að hér sé farið út á hæpna braut, nema því aðeins að það sé tekin upp alhliða stefna á öðrum vettvangi til að jafna þetta.

Ég sagði í gær að ég gæti fallist á þetta ef 100–150 millj. yrði alfarið varið til þess að flýta raforkuframkvæmdum á þeim stöðum sem jarðvarma væri ekki að finna. Hér er ekki um nein kjördæmissjónarmið að ræða. Þetta gildir um allt landið. Það er jarðhiti í öllum kjördæmum, líka í mínu kjördæmi. En við vitum það að til þess að hægt sé að taka upp stórfellda rafhitun íbúðarhúsnæðis þarf að styrkja línur til þeirra svæða sem vitað er að ekki geta notið jarðvarma til húshitunar. Og sú var hugsun mín í gær með þeirri brtt., sem ég flutti, að það yrði lagt kapp á þetta, til þess að fólk sæi fram á að þarna yrði unnið vel að málum.

En við höfum heyrt hér, eins og ég sagði áðan, tvenns konar tón, bæði að það væri eðlilegt ef eitthvað verður klipið af þessu söluskattsstigi, að þá færi það bæði til jarðvarma- og raforkuframkvæmda. Ég get út af fyrir sig vel tekið undir það, að það sé eðlilegt að mynda sjóð til þess að flýta þessum framkvæmdum. En ég vil ekki að sá sjóður sé eingöngu myndaður af því fé sem tekið er af þessum markaða tekjustofni. Og mig furðar það að verða vitni að því hér, að fulltrúar þeirra, sem hafa a.m.k. helmingi minni hitunarkostnað, eftir að búið er að greiða olíuna niður, skuli telja þetta svæði alveg heilagar kýr og líta ekki svo á málið að íslendingar eigi landið allir og það sé ástæða til þess að miðla verðmætum þess.

Mér er fullkunnugt um það, að eitt af því, sem verulega hefur staðið í vegi fyrir því að auka álögur á hitaveitusvæðunum, er það ákvæði að hækkun á þessum gjöldum skuli reiknast inn í kaupgjaldsvísitölu. En úti á landi er alveg sama hver húshitunarkostnaðurinn verður. Þar kemur ekki til nein hækkun á laun eða hækkun vísitölunnar. Ég ætla þess vegna að draga til baka þá till., sem ég flutti hér í gær, að því tilskildu að samþ. verði önnur till. sem ég legg hér fram. Megintilgangurinn með þeirri till. er að fá á móti því, sem tekið verður af söluskattsstiginu, framlag í Orkusjóð frá hitaveitusvæðunum. Mín till. er ekki shlj. till. hv. 5. þm. Vestf. að því leyti varðandi 20%, að ég tel að við eigum ekki að stefna lengra í verðjöfnun á olíuhitunarsvæðunum en að ná sama marki og rafhitun gefur. Þess vegna flyt ég till. um að það verði lagt 20% aukagjald á gjaldskrá hitaveitnanna, því verði varið til jöfnunar á hitunarkostnaði íbúðarhúsnæðis þar til jöfnuði er náð samkv. að sjálfsögðu meðaltalsútreikningum, væntanlega Þjóðhagsstofnunar, en afganginum af þessu gjaldi verði varið í Orkusjóð, sem verði þá varið samkv. c-lið 2. gr. frv., eins og liggur fyrir, þannig að það komi þá frá báðum stöðum fé til þessara framkvæmda.

Ég verð að segja það, í hvert skipti sem verið er að tala um álögur, að þegar menn eru á móti þeim af einhverjum ástæðum, þá er gjarnan farið í það að segja að hinir verr settu í þjóðfélaginu þurfi líka að greiða þessi gjöld. Ég skal ekki neita því. En þeir eru illa settir margir um landið allt. Og til þess að þetta þurfi ekki að hafa áhrif á kaupgjaldsvísitöluna, þá geri ég ráð fyrir því að sú hækkun, sem gerð er vegna þessa gjalds, sé undanskilin útreikningi kaupgjaldsvísitölu. Ef þessi till. nær ekki fram að ganga, þá mun ég að sjálfsögðu halda mig við þá till. sem ég lagði hér fram í gær. En ef hún nær fram að ganga, þá mun ég draga hana til til baka. Ég leyfi mér að lesa till.:

„Á eftir orðunum „svo og um aðrar framkvæmdir“ í 1. gr. bætist: Einnig skal á tímabilinu frá 1. mars 1975 til 29. febr. 1976 leggja 20% aukagjald á gjaldskrár hitaveitna og skal því á sama hátt varið til að draga úr áhrifum verðhækkunar á olíu til hitunar íbúðarhúsnæðis, þar til jöfnuði er náð miðað við rafhitun. Afganginum skal ráðstafað samkv. e-lið 2. gr. Gjald þetta skal undanskilið við útreikning á kaupgjaldsvísitölu.