28.02.1975
Neðri deild: 50. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2038 í B-deild Alþingistíðinda. (1621)

162. mál, áhrif olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Frsm. (Ólafur G. Einarsson):

Herra forseti. Ég skal nú reyna að stytta mál mitt, enda sýnist mér að þessum umr. mætti fara að ljúka.

Það er alveg ljóst orðið um hvað er deilt. Það er deilt um það atriði, hvort leggja eigi fé í Orkusjóð vegna þessarar tekjuöflunar, sem menn eru hér sammála um. Af þeim ágreiningi kemur svo fram mismunur á því, hver olíustyrkurinn eigi raunverulega að verða.

Það hefur komið fram í þessum umr., að stjórnarandstæðingar vilja ekkert leggja í Orkusjóð af því fé sem hér verður til umráða. Þeir segja, að aðeins þurfi að taka erlent lán til hitaveituframkvæmda og þá sé allur vandi leystur. Ég veit ekki, hvort þeir gera sér ljóst t.d. hvert hlutfallið er hjá Hitaveitu Reykjavíkur á þessu ári, en hv. þm. Magnús Kjartansson sagði áðan, að meiri hluti framkvæmda Hitaveitu Reykjavíkur væri tekinn af ágóða af hreinum rekstri Hitaveitunnar. Til að upplýsa þetta skal ég nefna nokkrar tölur. Á þessu ári er fjárfesting Hitaveitunnar áætluð 1072 millj. afborganir lána 258 millj. og aukning veltufjár um 50 millj. kr. Þetta gerir 1380 millj. samtals og þetta hyggst Hitaveitan fjármagna með lánsfé að upphæð 830 millj., en eigin fé 530 millj. Allar hitaveituframkvæmdir annarra sveitarfélaga eru að langmestu leyti fjármagnaðar með erlendu lánsfé, að því leyti sem lán eru tekin til þeirra framkvæmda. Öll lán t.d., sem Lánasjóður sveitarfélaga veitir til hitaveituframkvæmda, eru að miklum meiri hluta gengistryggð.

Það hefur komið hér fram í þessum umr. líka, að menn hafa talið að í útreikningum Þjóðhagsstofnunar sé reiknað með of lágri tölu varðandi olíukostnaðinn. Þessum tölum ber þó saman við sölu olíufélaganna á olíu til húsakyndingar og renna þær þannig stoðum undir að þessar tölur séu réttar. Þegar menn eru að tala um hærri tölur, sem hér hafa mjög verið nefndar, eins og 15–20 þús. kr. á íbúð á mánuði, þá býst ég við að mönnum skjótist yfir það, við hvaða stærð er miðað í tölum Þjóðhagsstofnunarinnar, en þar er áætlað rúmmál á mann 95 rúmmetrar, en auðvitað er hægt að finna mörg dæmi þess að menn búa í miklu rýmra húsnæði.

Eins og hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sagði, þá er hér ekki deilt um tekjuöflunina, heldur er deilt um það hvernig tekjunum verði varið. Hann sagði, að ekkert dæmi væri að finna á Íslandi um aðra eins mismunun og hér á sér stað. Það er vissulega rétt, að mismunurinn er hér mikill. En hvenær kom þessi mismunur fram? Það er ekki svo langt síðan, hann kom ekki fram að neinu ráði fyrr en hinar miklu hækkanir á olíu áttu sér stað. Og hverjir höfðu framtak til þess að virkja jarðvarmann meðan kynding með olíu var ekkert dýrari og jafnvel ódýrari? Það er rétt að menn hafi þetta í huga.

Hv. þm. sagði, að það væri ekkert réttlæti í því að fólk, sem þyrfti að borga miklu hærri flutningsgjöld og fleira og fleira, þyrfti að inna af hendi fimm- eða sexfalda þessa upphæð sem þarf til húskyndinga, miðað við þá sem búa á höfuðborgarsvæðinu. En mér sýnist heldur ekkert réttlæti í því að hneykslast á þessum mismun hér í ræðustól. Hvernig væri ástandið ef framtakið hefði ekki verið fyrir hendi í Reykjavík, í Ólafsfirði, Sauðárkróki, Húsavík, Selfossi, Seltjarnarnesi og e.t.v.. víðar? Það er ekki lausn á þessum vanda, eins og hér er látið í veðri vaka, að það sé aðeins ráðið að taka erlent lán, en ekki að vera að klípa af þessum peningum, eins og það er orðað. Ef sífellt er haldið áfram að taka erlend lán, þá getur það ekki endað nema á einn veg. Það endar með því að hitaveiturnar fara með allt sitt rekstrarfé í afborganir lána og vexti og verða reknar með tapi. Það er ekki hægt að byggja á slíku.

Mig langar til að spyrja líka þá, sem hér hafa talað af hálfu stjórnarandstöðunnar og látið í það skína að þeir, sem búa við hitaveitu, hafi miklu betri lífskjör að þessu leyti heldur en aðrir: Halda menn virkilega að sveitarfélög þau, sem núna standa í hitaveituframkvæmdum, leggi ekkert á þegna sína vegna þess? Ég skal nefna sem dæmi, að sveitarfélögin á Suðurnesjum, en þau standa nú í undirbúningi að stórfelldum hitaveituframkvæmdum, leggja á sína þegna 30 millj. kr. á þessu ári. Þarna búa um 11 800 manns og þetta þýðir um 25 þús. kr. á hvert mannsbarn. Þetta skulu menn líka hafa í huga þegar verið er að bera þessi atriði saman.

Hæstv. iðnrh. svaraði ýmsu af því sem hv. þm. Magnús Kjartansson spurði um, en ég get ekki látið hjá líða að lýsa undrun minni yfir því orðbragði sem þm. viðhafði hér. Hann sagði — ég held að ég hafi það nokkurn veginn orðrétt eftir — að á tímum vinstri stjórnarinnar og að því er mér skilst núna líka hafi Hitaveita Reykjavíkur notað áhuga íbúanna á höfuðborgarsvæðinu á að fá hitaveitu sem fjárkúgunaraðferð. Ég hefði gaman af að sjá hv. þm. standa við þessi stóryrði. Málið liggur alveg ljóst fyrir og lá ljóst fyrir á sínum tíma. Hitaveita Reykjavíkur hafði gert samning við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu um að hún annaðist hitaveituframkvæmdir í viðkomandi sveitarfélögum. En það voru ákveðnar forsendur í þessum samningi sem gengið var út frá, m.a. þær, að Hitaveitan hefði ákveðinn arð. En sá arður fékkst ekki nema með hækkun gjaldskrár og á þeirri hækkunarbeiðni Hitaveitunnar stóð í nokkurn tíma. Ég skal ekki leggja dóm á það hér, hvort það hafi í rauninni verið réttlætanlegt að ríkisstj. stóð gegn þessu á sínum tíma, en eitt er víst, að það tafði fyrir framkvæmdum.

Hv. þm. sagði einnig, að Hitaveita Reykjavíkur hefði engin rök fyrir kröfum sínum. Ég hef sagt hér áður, að rökin eru auðvitað þau að Hitaveitan þarf tekjur til þess að standa undir rekstri sínum og framkvæmdum og ef sífellt á að taka lán, þá endar þetta með því, eins og ég sagði áðan, að allar rekstrartekjur fara í afborganir og vexti og Hitaveitan verður rekin með halla.

Aðeins nokkur orð svo vegna þess, að hér var minnst á Hitaveitu Suðurnesja af hv. þm. Magnúsi Kjartanssyni, þar sem hann sagði að að undirbúningur við Hitaveitu Suðurnesja hefði tafist vegna þess að ríkisstj. hefði ekki aflað fjár til þeirra framkvæmda. Þetta er rangt. Málið er á undirbúningsstigi hjá nýskipaðri stjórn Hitaveitu Suðurnesja. Þótt núv. ríkisstj. sé hin athafnasamasta, má ekki ofmeta hana þannig, að hún geri það á hálfu ári sem hæstv. fyrrv. iðnrh. tókst ekki á þremur. En við treystum hins vegar því, að framkvæmdir við Hítaveitu Suðurnesja komist af stað sem allra fyrst, og stjórn hitaveitunnar hefur uppi þær ráðagerðir að tengja í hálfan Grindavíkurbæ á þessu ári. Ef það tekst, þá er vissulega vel af stað farið.