28.02.1975
Neðri deild: 50. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2045 í B-deild Alþingistíðinda. (1625)

162. mál, áhrif olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er ekki ýkjamikið sem ég hef við það að bæta sem ég hef áður sagt. Það eru þó nokkur atriði, sem ég vil víkja að, af því sem fram hefur komið hjá þeim hv. þm. sem hér hafa talað.

Ég vil fyrst leiðrétta hv. 9. landsk. þm., að það er rétt sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hélt fram, að það fengust lagfæringar við afgreiðslu fjárl. vegna tillöguflutnings okkar stjórnarandstæðinga fyrir Vestfirði sem ekki fengust í gegn án þess að till. væri flutt. Þar vil ég fyrst og fremst benda á heimildina fyrir Ísafjarðarflugvöll upp á 20 millj. og yfirlýsingu hæstv. samgrh., sem ég vona að hann standi við, og einnig heimildina um að Súðavíkurdæmið verði leyst. Þetta hvort tveggja fékkst vegna tillöguflutnings okkar stjórnarandstæðinga, án þess að það fengist meðan málin voru til umr. og afgreiðslu á því stigi sem Vestfjarðaþm. ræddu um þau. Þessu verður ekki breytt. Þetta eru staðreyndir sem enginn getur á móti mælt. (Gripið fram í.)

Í öðru lagi vil ég víkja að því sem hv. 9. landsk. þm. sagði líka. Hann sagði að það væri ágætt að till. eins og mín till., það væri ágætt að fá þessa hluti, en menn yrðu að líta á þetta í víðara skilningi. Hvaða víðari skilning á hv. 9. landsk. þm. við í þessum efnum? Eiga menn, t.d. vestfirðingar, tökum þá sem dæmi, eiga þeir að sætta sig við þann geysilega mismun sem fyrir liggur samkv. upplýsingum. Hafi hv. þm. hlýtt á og horft á sjónvarpsviðtal s.l. föstudagskvöld við að ég hygg framkvæmdastjóra Hitaveitu Reykjavíkur, þá upplýsti hann að það væri um 20% kostnaður á hitaveitusvæði Hitaveitu Reykjavíkur miðað við olíukyndingu — 20%. Ég hygg, að þetta séu réttar upplýsingar. Og er það þessi víðari skilningur sem hv. 9. landsk. þm. á þá við, að menn eigi að sætta sig við þetta svona? Ef það á, eins og hún sagði, að kanna aðrar leiðir, hefur sú könnun verið sett í gang? Hvað á sú könnun að taka langan tíma? Ég hygg að ef ekkert verður að gert nú þegar, þá líði ekki langur tími þar til fólk af þessum svæðum fer að flykkjast á hitaveitusvæðin, t.d. hér á suðvesturhorninu, og ég tel að það sé engum til góðs, það sé ekki þjóðarheildinni til góðs að við taki það ástand sem var á tíma viðreisnarstjórnarinnar, að fólk fari að flykkjast frá landshlutunum á þéttbýlissvæðið á suðvesturhorninu. Það er ekki þjóðarheildinni til góðs. Þess vegna held ég að þeir, sem á annað borð vilja að þessu verði breytt, að aðstaðan sé jöfnuð, verði að benda á einhverjar leiðir, ekki segja bara: Það á að kanna þetta eða hitt. — Það verður engin breyting á með því, það verður að benda á eitthvað til lausnar vandans.

Ég tek alveg undir það með hv. 3. þm. Reykv. og einnig með hv. 9. landsk. þm., að þær byrðar, sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur sett á launafólk í landinu og allan almenning, eru vissulega þungar og þær eru þungar hér í Reykjavík, mér er það alveg ljóst. En hvað þá um hina sem eru margfalt verr settir vegna kostnaðarhækkana og tilkostnaðar? Hvað þá með þá? Það er þetta sem ég tel að þm. verði að horfast í augu við. Ég viðurkenni að stjórnarstefna núv. ríkisstj. í efnahags- og launamálum hefur haft það í för með sér, að það er búið að þrýsta niður kjörum launafólks langt niður fyrir það sem nokkur getur talið eðlilegt að launafólk sætti sig við. En sé þetta ástand svo slæmt sem það er hér í Reykjavík, hvað þá með hina? Ég bara spyr.

Svo sagði hv. 9. landsk. þm. að það væri vissulega verkefni og þarft verkefni sem bæri að kanna, það væri jöfnun á flutningskostnaði. Það er alveg rétt. En það er til viðbótar þessu ranglæti sem við erum hér að tala um, bæði fyrir Austfirði, Vestfirði og Norðurland. Það er til viðbótar því. Þetta hvílir miklu þyngra á öllum íbúum sem verða að kynda hús sín með olíu, miklu þyngra en þó sá skattur sem á þeim hvílir vegna hærra verðlags úti á landsbyggðinni en er hér á Reykjavíkursvæðinu. Ég tek alveg undir það, það er líka verkefni sem þarf og verður að leysa. En þetta er miklu stærra dæmi. Þetta er svo stórt dæmi að því er varðar það fólk sem við þetta býr, að það er að kikna undan því, og það þýðir ekkert að segja, hvorki fyrir hv. stjórnarþm. né aðra, að kanna eigi þetta eða hitt. Á þessu verður að ráða bót og það strax.

Það er rétt sem hæstv. viðskrh. sagði, að það bil, sem við erum hér að tala um, verður ekki brúað með því þótt svona skattur yrði á lagður. Það er rétt. En það er þó komið lengra til móts við það fólk sem við þetta býr nú heldur en gert er ráð fyrir í sambandi við þá stefnu sem ríkisstj. ætlar sér að hafa í þessum efnum. Hún ætlar að taka af þeim fjármunum sem þetta fólk hefur haft, hún ætlar að taka af þeim og láta til annarra hluta og það er að mínu áliti óheyrilegt að gera slíkt í þessu ástandi. Og hæstv. viðskrh. sagði að það væri ekki hægt að blanda minni till. saman við málið nú. Því er það ekki hægt? Við erum hér að ákveða hvaða tekjustofn skuli lögfesta til þess að fá fjármuni til að jafna þetta bil. Og það eru engin vandræði, a.m.k. frá mínum bæjardyrum séð — það má vel vera að það sé frá sjónarhóli lögfræðinga eða lögspekinga en frá mínum bæjardyrum séð er það enginn vandi — samhliða því að eitt söluskattsstig er ætlað til þessa — að lögfesta einnig að 20% aukagjald skuli lagt á hitaveitugjaldskrá. Ég sé ekki nein vandkvæði á því. Það er bara spurning um í fyrsta lagi vilja og í öðru lagi hvort menn vilja fara þessa leið eða einhverja aðra. En þá eiga menn líka að benda á aðra leið ef þeir vilja ekki fara þessa. Ég er reiðubúinn til að ræða aðrar leiðir en þessa ef menn telja þær eitthvað betri. Ég er bara að vekja athygli á því hér, að ég tel þetta vandamál svo Stórt að það verði að snúast gegn því og leiðrétta það. Hjá því verður ekki komist.

Hæstv. viðskrh. sagði líka að það væri auðvelt að jafna metin á eftir, eftir að svo og svo margir umfram þá, sem nú hafa hitaveitu, væru búnir að fá hana. Vissulega er það rétt. En hvað segja þá hinir sem verða að bíða allan þennan tíma við þann stórkostlega hækkaða tilkostnað varðandi þennan lið? Hvað á að gera við það fólk þennan tíma sem ekki getur borgað olíureikningana? Spara, spara, segir hv. 9. landsk. þm. Ég vænti þess að þessi boð hv. 9. landsk. þm., sem ég tel Vestfjarðaþm. þótt hann sé landsk., þessi boð komist til skila til umbjóðenda hennar vestra. Það hlýtur að merkja að þessi varnaðarorð hennar eða heilræði verði að taka á þann veg að hér hafi verið ofgert í eyðslu. En ég tel að þetta vandamál sé svo stórt nú þegar, að fólk biði ekki öllu lengur eftir því að leiðir verði fundnar til þess að brúa þetta bil. Hvað sem menn segja um meting milli staða, landshluta eða kjördæma þá er þetta staðreynd, því hefur ekki verið mótmælt. Þessi munur er á milli fólks á þessum svæðum og við honum verður að snúast.

Hv. þm. Ólafur G. Einarsson sagði að stjórnarandstæðingar væru að benda fyrst og fremst á að auka erlendar lántökur til hitaveituframkvæmda eða raforkuframkvæmda. Það eru nú aldeilis ekki bara stjórnarandstæðingar. Einn af höfuðpaurunum í stjórnarflokkunum, sjálfur hv. 4. þm. Reykv., sem var að tala áðan, lýsir því yfir í ritstjórnargrein í Tímanum 26. febr. s.l. að það sé mjög auðvelt að fá lánsfé til að framkvæma það sem hann er að tala um, þ.e. framkvæmdir við hitaveitu og rafmagnsveitu. Það er mjög auðvelt og á að fara þá leið að mati hv. 4. þm. Reykv. að fjármagna þetta með lánsfé. Það eru því ekki stjórnarandstæðingar einir sem eru að hamra á þessu. Það eru stjórnarliðarnir sjálfir. En það er athyglisvert að í þessum leiðara ritstjóra Tímans, hv. 4. þm. Reykv.,er því slegið föstu að verði þessi mikla hækkun, sem hann telur, leyfð á gjaldskrá Hitaveitu Reykjavíkur, t.d. „til viðbótar gengisfellingunni,“ segir hann orðrétt „þá mun það kalla á kröfur um stórauknar láglaunabætur og yrði ekki með góðu móti hægt að standa gegn þeim.“ En að mati þessa hv. þm. virðist vera hægt með góðu móti að standa gegn hækkuðum láglaunabótum til þess fólks sem verður að taka á sig stórkostlega auknar byrðar vegna gengisfellingarinnar og vegna annarra hækkana á olíu. Það þarf ekki að bæta því fólki með hækkuðum láglaunabótum. Það má standa í stað. Það er ekki nauðsynlegt að taka undir slíkar kröfur. Þetta lýsir kannske ákaflega vel viðhorfi ýmissa forustumanna Framsfl. til launþega og verkalýðshreyfingarinnar. Þessi fáu orð lýsa sennilega hvað best viðhorfum ýmissa mikilvirkra og háttsettra þm. innan raða Framsfl. En því segi ég þetta hér, að ég undirstrika það enn, að það er brýn nauðsyn og þörf og verður ekki undan því vikist af neinum þm. að freista þess að leita leiða til þess að minnka þann geysilega aðstöðumun sem fólk nú býr við um þennan kostnaðarlið.

Hv. þm. Ólafur G. Einarsson spurði áðan: Hvenær kom mismunurinn á þessu? Hann er fyrir löngu kominn. En hann hefur auðvitað ágerst, þessi mismunur, við þær gífurlegu hækkanir á olíu sem orðið hafa, sérstaklega undanfarin 11/2 –2 ár. Hann sagði jafnframt: Hverjir höfðu framtakið til þess að ráðast í þær framkvæmdir sem þurfti að gera til þess að geta nýtt jarðvarma eða hita með hitaveitu? Og hann benti á og taldi upp nokkur sveitar- og bæjarfélög. En ég vil nú segja þessum hv. þm. að það skorti ekki framtakið á þeim stöðum sem nú verða hvað harðast úti. Og ég vil biðja þennan hv. þm. að leggja t.d. okkur vestfirðingum til jarðvarmann, ég skal leggja til framtakið. Ef hann getur það, þá erum við til reiðu. Það vantaði ekkert framtak til þess að hefja hitaveituframkvæmdir á þessum stöðum. En það vantaði það sem til þurfti og varð að vera til, þ.e. jarðvarmann, og það getum við ekki ráðið við.

Ég skal ekkert draga úr því sem hv. þm. Ólafur G. Einarsson sagði um að þau sveitarfélög, sem hafa farið í framkvæmdir af þessu tagi, hafa sjálfsagt lagt á sina borgara vegna þeirra. En ég vil jafnframt benda á og undirstrika það, að önnur sveitarfélög hafa lagt á sína þegna gífurlegar byrðar til þess að geta staðið undir framkvæmdum sem eru lífsnauðsynlegar fyrir þjóðarheildina, fyrir þjóðarbúið, til þess að geta aflað þeirra tekna sem þarf til þess að við getum lifað mannsæmandi lífi í þessu landi. Og það eru þau bæjar- og sveitarfélög sem hafa eytt kannske hvað mestu af gjöldum þegna sinna til þess að skapa þá aðstöðu sem þarf vegna hafnanna víðs vegar á landinu, til þess að mögulegt sé að skapa þær gjaldeyristekjur sem við þurfum vissulega á að halda ef við ætlum að lifa mannsæmandi lífi, þannig að það hallast ábyggilega ekki á. Og það hefur ekki staðið á því að skattleggja einstaklinga þessara byggðarlaga af hálfu ríkisvaldsins til þess að gjalda í hinn sameiginlega sjóð. Á því hefur ekki staðið. Ég ítreka því mín fyrri orð: Ég tel að sú till., sem ég hef lagt fram um 20% aukagjald á gjaldskrá hitaveitna, hafi við full rök að styðjast, sé réttlætanleg þegar litið er til þess gífurlega mismunar sem við höfum hér verið að ræða og liggur fyrir sem staðreynd.

Mér skilst að hæstv. forseti sé eitthvað í vafa um hvort hún standist, brtt. mín við a-lið, um að fella niður þá krónutölu sem þar er. Ef einhver vafi leikur á því, þá held ég að ég geti dregið þá till, til baka vegna þess að komin er fram brtt. um að þarna komi inn 10 þús. kr. í stað 8 200 kr., sem mun vera nálægt því að ná því marki að allt féð verði nýtt til þess sem því er ætlað. Sé á því vafi að þetta standist formlega, þá mundi ég draga brtt. mína til baka á þessum forsendum, að önnur till. er komin fram sem gengur, að því er mér sýnist, nokkuð í sama far sem ég var hér um að ræða.

Ég vil einnig taka það fram í sambandi við það sem hv. þm. Gunnlaugur Finnsson sagði út af sinni till., að ég geri ráð fyrir því í sambandi við 20% hækkun á hitaveitugjaldskrá að það fari ekki inn í kaupgjaldsvísitölu, ekki frekar en sú hækkun sem á sér stað á vöru og þjónustu, vegna þess að þetta eina söluskattsstig gerir það, þannig að það gildir sama þar um.