28.02.1975
Neðri deild: 50. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2049 í B-deild Alþingistíðinda. (1626)

162. mál, áhrif olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Magnús Kjartansson:

Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð. — Það er auðvitað hárrétt sem hæstv. viðskrh. sagði, að við getum ekki lifað lífinu án þess að breyta um afstöðu, við getum ekki lifað eftir einhverjum kreddum og haldið að við leysum vandamálin á þann hátt, án þess að taka tillit til þess hvernig aðstæðurnar breytast hverju sinni. Þannig hljóta allir viti bornar manneskjur að starfa og ég er alveg sammála hæstv. ráðh. um það. En það, sem gerðist þegar hæstv. ráðh. samþykkti í morgun hækkun á gjaldi Hitaveitu Reykjavíkur þvert ofan í forustugrein Tímans tveimur dögum áður, er auðvitað ekki það að hæstv. ráðh. hefur skipt um skoðum á þessum dögum. Það hefur ekkert gerst á þessum dögum sem hefur valdið því að hæstv. ráðh. hafi skipt um skoðun. Það gerðist hins vegar að hæstv. ráðh. beygði sig fyrir samstarfsflokki sínum, Sjálfstfl., í þessu máli. Þetta höfum við oft horft upp á síðustu vikur og mánuði. Við heyrðum t.d. boðskap hæstv. ráðh, þegar verið var að þurrausa gjaldeyrissjóðinn, og hæstv. ráðh. lét mjög greinilega á sér skilja að hann teldi tímabært að gera einhverjar stjórnarfanglegar ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir að gjaldeyrissjóðnum yrði sólundað í alls kyns óþarfa og vitleysu þegar hann væri kominn svo að þrotum sem hann var. Þetta var skoðun hæstv. viðskrh. Síðan kemur hæstv. forsrh. úr ferðalagi til útlanda og það fyrsta, sem hann segir, er: Frelsi, frelsi. Hvað gerist? Hæstv. viðskrh. beygir sig. Það er einnig alkunna að hæstv. viðskrh. var andvígur því einmitt að fara þá leið að lækka gengið. Hann hefur lýst því sjálfur í þessum ræðustól að hann hafi verið andvígur því, þróunin hafi hins vegar leitt hann út í það. Sem sagt, hann var beygður þar.

Nú vitum við auðvitað báðir, ég og hæstv. viðskrh., að þegar flokkar starfa saman þá verða þeir einatt að beygja sig hver fyrir öðrum, það er í sjálfu sér sjálfsagt mál. En mér finnst þessar beygingar í tíð núv. ríkisstj. vera furðulega einhliða. Það beygir sig enginn nema framsóknarráðh. Menn verða ekki varir við neitt annað. Það eru þeir sem beygja sig æ ofan í æ og sífellt og einnig í þessu máli hér. Það er það sem mér finnst vera ákaflega athyglisvert, og ég verð að segja það að ég þekki þá illa hæstv. viðskrh. ef hann unir þessu ástandi sérstaklega vel.

Hv. þm. Þórarinn Þórarinsson kom hér með ákaflega einkennilega málsvörn áðan. Hann sagðist hafa skrifað forustugrein sína til þess að stappa stálinu í hæstv. viðskrh. og auk þess í trausti þess að hann hefði góðan bandamann þar sem væri ég, því að ég hefði lýst því í Þjóðviljanum að ég teldi algera fjarstæðu að heimila þessa hækkun til Hitaveitu Reykjavíkur. Hins vegar hefði ég brugðist í málinu vegna þess að borgarráðsmaður Alþb. hefði staðið að samþykkt í borgarráði um að heimiluð yrði 24% hækkun á gjaldskrá Hitaveitu Reykjavíkur.

Nú er það svo í Alþb. að þar eru ekki gefnar neinar fyrirskipanir til manns um það hvaða afstöðu þeir eigi að hafa. Við höfum t.d. ekki sömu afstöðu og sömu vinnubrögð og þingflokkur Framsfl. að gefa ráðh. ótakmarkað vald til þess að ráða fram úr vandamálunum, en þannig hefur Framsfl. starfað undanfarin ár, svo sem mér er fullkunnugt um. Sigurjón Pétursson borgarráðsmaður gerði þá grein fyrir afstöðu sinni í viðtali við Þjóðviljann, að hann teldi ríkisstj. fullkomlega ábyrga fyrir þessari afgreiðslu. Hann sagði að ljóst væri að bein áhrif frá gengisfellingunni á dögunum til hækkunar á skuldum Hitaveitunnar væru 335 millj. kr., gengisfelling ríkisstj. í sept. hefði hækkað skuldir Hitaveitunnar um 200 millj. kr., þá hefði síðari gengisfelling hækkað efnispantanir, sem Hitaveitan ætti erlendis, um 48 millj. og áhrif gengisfellingarinnar á ógreiddar erlendar innheimtur og ávísanir eru þær, að þær hækka um 5 millj. Samtals hefur því ríkisstj. hækkað skuldir Hitaveitunnar með gengisfellingu um hvorki meira né minna en tæpar 600 millj. kr. Afborganir Hitaveitunnar hækka um 102 millj. á þessu ári vegna gengisfellingarinnar.

Vafalaust er þetta allt saman rétt hjá borgarráðsmanninum, að það eru þessar aðgerðir ríkisstj, sem gera það rekstrarlega eðlilegt að hálfu Hitaveitunnar að fara fram á hækkum. En málið er ekki svona einfalt. Gengislækkanir ríkisstj. hafa líka komið við afkomu heimilanna og yfir á hverja eiga heimilin að velta þeim þungbæru byrðum sem á þau eru lögð? Hvernig á launamaðurinn að velta þeim byrðum af sér? það er sá munur á afstöðu Sigurjóns Péturssonar og afstöðu hv. þm. Þórarins Þórarinssonar, að hv. þm. Þórarinn Þórarinsson er einn af ábyrgðarmönnum þess að það er bannað núna að hækka kaupgjald til samræmis við vísitöluna, en Sigurjón Pétursson er þar á allt annarri skoðun. Hins vegar hefði ég ekki greitt atkv. með neinni hækkun til Hitaveitu Reykjavíkur á meðan svona er ástatt fyrir láglaunafólki í Reykjavík, að yfir það dembast verðhækkanir hvern einasta dag án þess að nokkrar bætur komi á móti. Það er algert siðleysi að framfylgja slíkri stefnu. (Gripið fram í.) Ég var að gera grein fyrir því hvernig Sigurjón skýrði afstöðu sína. Ég er ekki á sömu skoðun. Ég tel að ég sé hér umboðsmaður almennings í þessum bæ og það er ákaflega þungbært að hitaveitugjöldin hafa verið hækkuð um 73% á hálfu ári í tíð núv. ríkisstj. Auk þess er það staðreynd sem ég sagði áðan, að Hitaveita Reykjavíkur hefur fengið aðstöðu til þess að fjármagna framkvæmdir sínar í nágrannabæjunum með því að safna gróða af viðskiptum sínum við reykvíkinga. Ólafur G. Einarsson, hv. þm., var að vefengja þetta áðan. Ég hef í höndunum skýrslu frá Seðlabankanum um það hvernig þessar framkvæmdir voru fjármagnaðar, miðað við verðlagið eins og það var þá.

Á árinu 1974 var fjármögnunin þannig: Eigið fé og heimæðagjöld 60 millj., önnur innlend fjáröflun 60 millj., erlend lán 125 millj. Á árinu 1975: eigið fé og heimæðagjöld 300 millj., önnur innlend fjáröflun 215 millj., erlend lán 515 millj. Á árinu 1976: 250 millj. eigið fé og heimæðagjöld, önnur innlend fjáröflun 180 millj., erlend lán 425 millj. Samtals eigið fé og heimæðagjöld og önnur innlend fjáröflun 10 065 millj., en erlend lán 10 065 millj.

Þarna er um að ræða að helmingurinn er fjármagnaður með erlendum lánum, en helmingurinn af eigin fé, og þetta hefur ekki breyst. Hæstv, iðnrh. lýsti því yfir áðan að Hitaveitan hefði ekki farið fram á að taka nein aukin lán vegna þessara framkvæmda. Þessar hækkanir um 73% hafa sem sé leitt til þess að það er hægt að fjármagna þetta á þennan ákaflega hagstæða hátt fyrir þetta fyrirtæki. En fjármögnun af þessu tagi hlýtur að vera að sama skapi þungbær fyrir láglaunafólkið í Reykjavík sem verður að greiða þetta mjög svo þungbæra gjald fyrir Hitaveituna. Og ég vil biðja hv. þm. Karvel Pálmason um að hugsa sig um enn einu sinni áður en hann heldur til streitu till. sinni um að hækka enn gjald þessa fólks vegna hitunarkostnaðar húsa sinna, því að ef till. hans yrði samþ. yrði hækkunin ekki 73%, hún kæmist upp í 105%.