20.11.1974
Efri deild: 8. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 253 í B-deild Alþingistíðinda. (163)

11. mál, launajöfnunarbætur

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að taka hérna dúett um landbúnaðarmálin, en í leiðinni væri ekkert á móti því, þar sem hv. ræðumaður þekkir manna best hvað kostar að framleiða hvert kíló af smjöri — ég ætla að spyrja hann um það, — ef hann vildi gjöra svo vel að skrifa það hjá sér, hvað kostar að framleiða núna hvert kíló af smjöri, hvert kíló af osti, 45%, af kindakjöti, af nautakjöti og einnig hvað niðurgreiðslur eru á þetta. Það má líka bæta við: Hvað kostar mjólkurlítrinn kominn í hyrnu óniðurgreiddur? Það væri fróðlegt fyrir okkur og allan almenning að fá að vita um þennan framleiðslukostnað. Þegar erlendar rekstrarvörur hækka svona gífurlega, bæði fyrir tilstuðlan hæstv. ríkisstj. og af öðrum orsökum, væri ekkert úr vegi að framleiðslumagn yrði nú aðeins haft í hófi eða við skulum segja sæmilega nægilegt svo að útflutningsuppbætur fari ekki að nálgast einn milljarð. Ég ætla okkur ekki þá bóga í dag að við þurfum að fara að framleiða mjög mikið fyrir breta af landbúnaðarvörum, — ekki mjög mikið, en eitthvað mætti gera til að hjálpa þeim. Þeir eiga í erfiðleikum. Það er æskilegt að fá þetta dæmi lagt hér á borðið framan við okkur, eða a.m.k. í n. sem mun fjalla um þetta frv., en þar á ég sæti.