03.03.1975
Efri deild: 53. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2053 í B-deild Alþingistíðinda. (1636)

95. mál, vegalög

Frsm. (Jón Helgason) :

Herra forseti. Samgn. hefur haft til athugunar frv. um breyt. á vegalögum á þskj. 106. N. hefur rætt þetta mál á nokkrum fundum og komu vegamálastjóri og ráðuneytisstjóri samgrn, á einn fund n. og skýrðu einstakar gr. frv. og svöruðu fsp. Leggur samgn. fram nokkrar brtt. við frv. á þskj. 313.

Í 1. gr. frv. er ákvæði um það að taka inn í vegáætlun þjóðgarðavegi og vegi að fjölsóttum ferðamannastöðum. Eins og alkunnugt er hefur umferð ferðafólks um landið vaxið gífurlega á síðustu árum og því miður hefur þessi umferð sums staðar skilið eftir sig sár á landinu þar sem ekið hefur verið ógætilega utan vega. Eina varanlega úrræðið er að leggja vegi eða slóðir um helstu leiðir og halda þeim við í trausti þess að síður verði þá ekið utan þeirra. Sums staðar virðist einnig þörf á að létta á umferð gangandi fólks, t. d. hefur form. Náttúruverndarráðs sagt að knýjandi þörf væri á lagningu vega upp brekkurnar í þjóðgarðinum í Skaftafelli til að létta þar á umferð gangandi fólks, þar sem sýnilegt væri að fenginni reynslu á s. l. sumri að þar væri annars hætta á ferðum.

Við 2. gr. frv. gerir n. þá brtt. að aftan við hana verði bætt nýrri málsgr. um það, að hálfum hundraðshluta af tekjum skv. l. um fjáröflun til vegagerðar skuli varið til rannsókna og tilrauna við vega- og gatnagerð. Sams konar ákvæði var í XIV. kafla vegalaganna frá 1973, en hann var felldur brott við setningu l. um fjáröflun til vegagerðar á s.l. sumri. En þar sem allir munu sammála um að nauðsyn sé á einhverjum rannsóknum og tilraunum fyrir íslenska vegagerð, þá virðist það algert lágmark að ákveðið sé í kaflanum um vegáætlun að verja skuli 1/2% í þessu skyni.

Í 4. gr. leggur n. til að bætt verði inn því ákvæði, að sýslunefndum verði heimilað að taka vegi að skipbrotsmannaskýlum í tölu sýsluvega. Það munu hafa komið fram einhverjar óskir frá einstaka sýslunefndum um að gera þetta, en talið að vantaði lagaheimild til þess. Nú eru að vísu víða langar vegleysur að skipbrotsmannaskýlum og yrði fullkomin vegagerð að þeim á næstu árum mörgum sýslusjóðum ofviða miðað við núverandi tekjustofna. Hins vegar er eðlilegt að heimild um þetta sé sett í vegalögin.

Í 6. gr. frv. er ákvæði um að hreppsnefnd geti ákveðið að greiða allt að tvöfalt hærri upphæð til sýsluvegasjóðs en ákveðið er sem lágmark skv. sömu gr. og miðast við andvirði 3 dagvinnustunda fyrir hvern íbúa.

Í 8. gr. er tekið fram að þetta aukaframlag skuli renna óskipt til viðkomandi hrepps ásamt mótframlagi ríkissjóðs sem greiðist strax á sama ári. Miðað við reynslu okkar síðustu áratugina er því slíkt aukaframlag hagkvæmara fyrir sveitarfélögin heldur en hækkun lágmarksgjaldsins, þar sem ríkissjóður greiðir ekki á móti því fyrr en eftir ú þegar framkvæmdamátturinn hefur þá reynst minni.

Við 10. gr. frv. er lagt til að bæta ákvæði um að síðasta setning í 1. málsgr. 32. gr. vegalaga („Ráðherra er þó heimilt að undanskilja tekjur vegamála, sem varið er til framkvæmda við hraðbrautir.“) — þessi setning falli niður. Þar er um að ræða hið svokallaða þéttbýlisfé, sem skv. 10. gr. þessa frv. skal vera 121/2% af heildartekjum vegamála skv. l. um fjáröflun til vegagerðar, en áður var miðað við heildartekjur til vegamála skv. XIV. kafla vegalaga, en undanskildar voru þó fjárveitingar til hraðbrauta. Með þessari breyt. er afmarkað skýrt við hvað þessi hlutfallstala skal miðuð og því ekki ástæða til að láta það hafa áhrif á hana þó að skipting á fjármagni milli hraðbrauta og annarra vega breytist frá ári til árs.

Í 11. gr. frv. er ákvæði um að ráðstafa skuli 25% af þéttbýlisvegafénu eftir till. vegamálastjóra að fenginni umsögn Sambands ísl. sveitarfélaga.

Á þskj. 180 liggur fyrir brtt. frá Steingrími Hermannssyni, Helga F. Seljan og Þorv. Garðari Kristjánssyni um að hlutfall þetta skuli hækka í 35%. Nefndarmenn hafa óbundna afstöðu til þessarar og annarra brtt. sem fram kunna að koma. Hins vegar leggur n. til að við gr. bætist heimild um það að láta ákvæði þessarar gr. einnig ná til þéttbýlis með 100–200 íbúa, enda þótt það njóti ekki þéttbýlisvegafjárins að öðru leyti, þar sem það nær skv. frv. til staða með yfir 200 íbúa í stað 300 íbúa eins og er í núgildandi vegalögum.

Reiknað er með við gerð þeirrar vegáætlunar, sem nú er verið að semja, að þetta þéttbýlisvegafé verði samtals um 280 millj. og 25% af því verði þá um 70 millj., sem verða þá til ráðstöfunar á þessu ári til þeirra staða þar sem þörfin er brýnust, og ætti það að geta létt verulega undir. Skv. áætlun sem Framkvæmdastofnun ríkisins lét gera og dreifði til þm. fyrir skömmu yrðu það um 80 millj., sem skiptust eftir íbúafjölda til staða utan Reykjavíkur og Reykjaneskjördæmis, en heildarfjárfesting í gatna- og holræsagerð á því svæði árið 1974 var talin 380 millj. kr.

Þá leggur n. til, að á eftir 13. gr. frv. komi ný gr., svo hljóðandi:

„Vegagerðin skal leitast við að rykbinda þjóðvegi, þar sem þeir liggja um hlöð eða næsta nágrenni íbúðarhúsa, eftir því sem fé er veitt til á vegáætlun.“

Það er öllum kunnugt hvað hinn rotgjarni ofaníburður íslenskra vega er mikið vandamál, en verst er þó ástandið af þessum sökum þar sem fjölfarinn þjóðvegur liggur um hlöð eða nærri íbúðarhúsum. Vegagerðin hefur reynt í litlum mæli að rykbinda stutta kafla, en tækjakostur og of lítið viðhaldsfé hefur skorið henni þröngan stakk þar sem rykbindiefnið er dýrt. Nú er verið að afla meiri tækja, svo að vegagerðin stefnir að því að sinna þessu meira en áður. En n. fannst samt rétt að það kæmi fram í vegal. að þetta væri eitt af verkefnunum sem ekki má gleyma við gerð vegáætlunar.

Að lokum leggur n. til breyt. á dagsetningu í frv., að í stað þess, þar sem segir að lög þessi öðlist gildi 1. jan. 1975, þá skuli koma : öðlist þegar gildi þar sem 1. jan. 1975 er liðinn, en hins vegar of langt að bíða fram að næstu áramótum. Og enn fremur leggur hún til, að í staðinn fyrir 15. febr. í 6. gr. frv. um tilkynningu og ákvörðun sveitarstjórna, hvort þær ætli að hagnýta sér aukaframlag til sýsluvegasjóðs, þá komi 15. apríl og samsvarandi 1. maí í stað 1. mars um ákvörðun sýslumanns á sýslusjóðsgjaldinu.

Ég hef í stuttu máli rakið brtt. n. N. leggur til að frv. verði samþ. þannig breytt, að því þó undanskildu, eins og ég sagði áðan, að einstakir nm. áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja brtt.