03.03.1975
Efri deild: 53. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2056 í B-deild Alþingistíðinda. (1637)

95. mál, vegalög

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls vakti ég athygli á ýmsum þeim þáttum, sem ég tel að mættu e. t. v. betur fara varðandi vegalögin, og þegar ég sé niðurstöðu þeirrar hv. n., sem um þetta mál hefur fjallað, þá vil ég segja það, að margt er ég ánægður með, breytingarnar, sem n. leggur til eru til bóta. Auðvitað hefði í sumu eflaust mátt betur gera og ágreiningur hlýtur alltaf að vera um einstök atriði, hversu langt eigi þá að ganga, og þá kemur auðvitað spurningin um leið, hvernig fjár skuli aflað, ef viðbótarverkefni koma til. Ég vil þó aðeins minna á það, að mjög er talað um niðurskurð allra opinberra framkvæmda, og verður oft svo, að það er sérstaklega vísað einmitt á vegaframkvæmdir í því efni. Menn hafa efalaust heyrt það og lesið að einmitt þar mætti kannske skera niður. Ég vona aðeins, að ef af þessum niðurskurði verður, þá bitni hann sem minnst einmitt á þessum framkvæmdaþætti og alveg sérstaklega að hann verði ekki á kostnað þeirra framkvæmda sem ég tel að séu brýnastar í okkar vegamálum, þ. e. a. s. að það verði gerðir sæmilega akfærir vegir byggða á milli og út um einstakar sveitir. Þessi verkefni hljóta nefnilega og eiga að hafa forgang umfram allar hraðbrautir, hvað sem um þær má annars segja. Ég verð að treysta núv. hæstv. samgrh. til þess að sjá svo um að þessar framkvæmdir — þessar brýnustu framkvæmdir um sæmilega akfæra vegi byggða í milli og vegi út um einstakar sveitir lendi ekki undir þennan niðurskurðarhníf.

Ég fagna alveg sérstaklega ákvæðinu, sem n. hefur komið inn á eftir 13. gr., þar sem segir að Vegagerðin skuli leitast við að rykbinda þjóðvegi þar sem þeir liggi um hlöð eða næsta nágrenni íbúðarhúsa, eftir því sem fé er veitt til á vegáætlun. Inn á þetta mál var komið þegar í till. frá okkur hv. þm. Jónasi Árnasyni í fyrra. Við bentum þar á hversu mikið nauðsynjamál þetta væri. Við bentum einnig á að það væri vitað að þetta verkefni væri mjög viðamikið og það yrði mjög dýrt í framkvæmd. En eftir því sem kostur er ber auðvitað að gera þetta, verja bændur og þeirra lið gegn umferðarrykinu sumarlangt eins vel og mögulegt er. Auðvitað óttast maður alltaf, þegar um slík verkefni er að ræða, að þetta verkefni, sem mönnum þykir mörgum hverjum býsna langt í burtu, að það verði skilið eftir, það verði út undan þegar í mörg horn þarf að líta. Ég á ekki við það, að Vegagerðin geri það af illum hvötum, heldur eru verkefnin svo mörg og þetta hefur hingað til verið gert í svo litlum mæli, að ég óttast að enn um sinn kunni að verða svo að þetta verði útundan. En n. hefur sem sagt gert sina ótvíræðu skyldu í þessu efni og orðað þetta á þann veg sem ég get mjög vel fellt mig við.

Aðeins ætla ég að nefna sýsluvegina, þó að það komi ekki beint inn í brtt. núna. Það er hvort tveggja í þessu nýja frv. til vegalaga, að þá er þeim ætlað aukið fé, en um leið að nokkru aukin verkefni. Ég hef fundið það glögglega nú í vetur hve þessir vegir verða útundan t. d. í snjómokstri, og ég veit líka af biturri reynslu að þessir vegir verða einnig útundan í viðhaldi. Hér er ekki eingöngu um það að ræða að skorti fé, heldur er líka ansi mikið sambandsleysi milli Vegagerðar ríkisins og viðkomandi aðila,þ. e. sýslumanns, sem hefur með framkvæmdahliðina að sjá í þessu efni. Í vetur hefur t. d. verið kvartað um það víðs vegar frá á Austurlandi, þar sem um sýsluvegi hefur verið að ræða, hvað þetta sambandsleysi væri mikið og hvað gengi erfiðlega að fá fram minnstu úrbætur í sambandi við t. d. snjómoksturinn. Ný og aukin fjáröflun til sýsluveganna er þess vegna góðra gjalda verð. Eins og ég benti á við 1. umr., þá ber auðvitað að líta á þá mörgu sem sleppa algerlega við þessa skattlagningu, og hafa t. d. sum sveitarfélög beinlínis sótt um kaupstaðarréttindi kannske framar öðru til þess að sleppa við þetta gjald fyrir utan upphefðina.

Ég held að það þurfi fyrst og fremst að hyggja að nýskipan framkvæmdaatriða varðandi sýsluvegina ef þeir eiga á annað borð að vera til. Ég hef látið í ljós nokkrar efasemdir um það áður hvort þeir vegir eigi að vera til á þann hátt sem þeir eru nú. Þá á ég ekki við vegina sjálfa, heldur við fyrirkomulagið um sýsluvegi og umsjón sýsluvegasjóðs á þeim. Þessar efasemdir hafa aukist í vetur við þá reynslu sem hefur fengist þá, og sú reynsla er þessu vegakerfi mjög í óhag. Það er um augljósa mismunun að ræða og þátttakan heima fyrir er oft algerlega óviðráðanleg, sú þátttaka sem þar þarf að koma til á móti. Hér getur einmitt oft verið um mikil verðmæti að ræða sem eru í húfi. Ég bendi sérstaklega á mjólkurflutninga bænda, og þar skáru þeir bændur, sem bjuggu við sýsluvegina í nágrenni mínu, sig alveg úr hvað þetta snerti, hvað þeim gekk miklu verr en þó öðrum í öllum snjóunum eystra að koma sinni mjólk á markað. Og það er vissulega hart fyrir þetta fólk að búa við önnur kjör og lakari þegar það er að koma verðmætum sínum í peninga.

Meginatriðið varðandi þetta frv. um vegalögin, eins og hv. frsm. kom hér einmitt inn á áðan, er samt hið stóra verkefni sveitarfélaganna um lagningu bundins slitlags á götur í þorpum og bæjum. Ég fagna því að þéttbýlismarkið skuli hafa verið fært niður í 100 íbúa, en eins og við 1. umr. minni ég enn á það hvort e. t. v. væri ekki þó réttara að miða við allt þéttbýli, þ. e a. s. þéttbýlismyndanir þar sem væri um skipulagsskylda þéttbýlisstaði að ræða. Oft vaxa slíkir staðir með undraverðum hraða og við höfum þar um mjög glöggt dæmi austan að frá Egilsstöðum. Spurningin er, hvort það eigi ekki að gera þessum stöðum kleift frá upphafi að byggja gatnakerfi sitt með þeim hætti sem nú er að unnið víðast hvar. Á hitt ber þó að líta einnig í því sambandi, hvort með því móti væri kannske réttur þeirra skertur einmitt í stað þess að fá nú framlög úr sýsluvegasjóði. Ég hef ekki haft aðstöðu til að bera þetta saman, en þó kann vel að vera, þegar allt kemur til alls, meðan þorpin eru svona fámenn, undir 100 íbúum, þ. e. þéttbýlisstaðirnir, þá sé samt sem áður hagstæðara fyrir þau að hafa gamla formið á. En aðalatriðið er þó á hvern hátt megi flýta þessu verkefni í heild og auðvelda það. Við vitum að sveitarfélögin og íbúarnir leggja hart að sér varðandi þetta verkefni. Það sem fæstum hefði til hugar komið fyrir nokkrum árum er nú komið í fullan gang, t. d. það að flest sveitarfélög, ef ekki næstum öll eru nú í þann veginn að leggja á hjá sér sérstök gatnagerðargjöld. Eru það býsna há gatnagerðargjöld og mikil viðbót við önnur gjöld íbúanna einmitt á þessum tíma. En þessum gjöldum er vel tekið, sem er mjög óvenjulegt um gjöld og álögur yfirleitt, og þegar íbúarnir taka svona myndarlega á þessu verkefni, þá á á móti að koma frá hálfu ríkisins aukinn stuðningur, og alveg sérstaklega á að auðvelda framkvæmd þessara mála þar sem aðstæður allar eru erfiðastar, þar sem verkefnin eru styst á veg komin, t. d. vegna örs vaxtar síðustu ár, því að við vitum að fjölmörg byggðarlög hafa tekið mikinn fjörkipp nú síðustu ár og gatnakerfi þeirra hefur þanist út, en ekkert verið gert áður í varanlegri gatnagerð á þessum stöðum. Um þetta atriði hef ég áður flutt þáltill. sem ég fer nú ekki nánar út í. Þar var bent á ýmsar leiðir.

Í þessu frv. er grein, sem mér skilst að n. sé óbundin af hvernig greidd verða atkv. um, þ. e. a. s. 11. gr. Þar segir, að halda skuli eftir 25% af þessu heildarframlagi og skuli því fé ráðstafað eftir till. vegamálastjóra að fenginni umsögn Sambands ísl. sveitarfélaga til að flýta framkvæmdum þar sem sérstök ástæða þykir til að ljúka ákveðnum áfanga eða til að stuðla að hagkvæmari vinnubrögðum. Ákvæðið um umsögn Sambands ísl. sveitarfélaga er þarna nýtt og er hiklaust til bóta. Þarna er auðvitað töluverð spurning um tilhögun. Reynslan af 10% hefur verið slík að menn óttast framkvæmd á þessu og sumir hafa jafnvel lýst því yfir, jafnvel þeir sem ættu þarna góðs af að njóta, þeir hafa lýst yfir algerri andstöðu við þessa hugmynd um hækkun þessa 10% framlags í 25% og þá auðvitað alveg sérstaklega í því óbreytta formi, sem í frv. er, Þá eru menn sem sagt sannfærðir um að þessum 25% verði varið á sama hátt og 10% hefur verið varið áður, í einhverjar tilteknar stórframkvæmdir, og byggðarlögin yfirleitt, sem þarna er þó meiningin að vinna fyrir, verði útundan eftir sem áður og verði þá enn meir útundan vitanlega ef framkvæmdin yrði á sama veg og verið hefur. Menn álíta að þarna verði farið alveg öfugt að við tilganginn. Ég tel alveg fráleitt að hafa sama orðalagið um þessi 25% og um 10%, enda gerðum við 3 þm. brtt. við þetta. Sú brtt. var fólgin í hækkaðri prósentu annars vegar og hins vegar því að kveða skýrar á um það verkefni sem vinna ætti að til að auðvelda kaupstöðum og kauptúnum að flýta gerð vega með bundnu slitlagi og jafna þann mismun sem er á milli staða að þessu leyti.

Síðan hef ég hugsað mikið um þetta og komist að þeirri niðurstöðu að þetta væri ef til vill ekki nóg og við þyrftum jafnvel að endurskoða þetta nokkuð því að mörgum líst ekki á það að vegamálastjóri hafi hér um næstum allan ráðstöfunarrétt. Hann á aðeins að fá umsögn Sambands ísl. sveitarfélaga um þetta og þó að hún sé auðvitað til bóta, þá óttast menn að sú umsögn yrði kannske hunsuð og þar með yrði þessum eina aðila, vegamálastjóra, falið allt vald um ráðstöfun þessa fjár og því alvarlegra vitanlega eftir því sem þessi prósenta yrði hærri. Það væri þess vegna ábyggilega athugandi og væri rétt að kanna það milli umr., hvort ekki væri hægt að gera þetta ákvæði skýrara, og eftir ábendingu held ég það sé mjög réttmætt að það sé einmitt sú n. þingsins, sem hefur með fjárveitingar að mestu að gera þ. e. a. s. fjvn., sem ráðstafaði þessu fé í samráði við Samband ísl. sveitarfélaga. Ég hygg að þetta sé mjög góð ábending og við ættum fyllilega að taka hana til athugunar, því að þetta atriði, sem á beint að ganga til kauptúnanna og kaupstaðanna, er nokkuð sem ekki kemur kannske beinlínis inn á verksvið vegamálastjóra. Ég held við ættum þess vegna að athuga þetta mál milli umr. og kanna hvort við getum ekki fengið einhverja breyt. þarna á og einhvern þann aðila, sem réttlátara væri að fengi þennan ráðstöfunarrétt, og það væri alls ekki tekið af þinginu ef þessi valdmesta n. þingsins fengi þetta til ráðstöfunar. Ég tek þetta fram vegna mjög mikilla og almennra aðvarana fjölmargra sveitarstjórnarmanna varðandi þetta atriði, þar sem þeir hafa lýst yfir algerri andstöðu við núverandi orðalag. Ég hef ekki hitt neinn sveitarstjórnarmann, sem treystir orðalagi 11. gr. frv. eins og það liggur fyrir nú. Einnig hafa sveitarstjórnarmenn o. fl., m. a. ýmsir þm., haft ýmislegt við það að athuga hvernig orðalagið er á brtt okkar. Þess vegna ættum við að freista þess að ná fram því orðalagi sem tryggði að þetta fé rynni til þess sem við erum ábyggilega allir sammála um að það renni til. Ég sem sagt ítreka það, að hvort sem um yrði að ræða 25% eða 35%, þá væri fjvn. Alþ. e. t. v. réttasti og eðlilegasti aðilinn, sem hefði með þessa útdeilingu að ræða og þá ekki bara að fenginni umsögn, heldur í samráði við Samband ísl. sveitarfélaga.

Ég vil svo aðeins minna í lokin á að enn er eitt vandamál óleyst, að ég tel, þó að við séum með þetta þéttbýlisvegafé og það eigi að renna til þjóðvega á þann hátt sem þar er greint, þá eigum við enn þá að nokkru eða að miklu leyti óleyst það verkefni þar sem þjóðvegir liggja gegnum kaupstaði og kauptún, og ég held míg fast við það enn þá að ríkið eigi þar að koma til í enn ríkari mæli en er gert með þéttbýlisvegafénu, þegar framkvæmdastigið er ekki lengur sú venjulega hefðbundna vegagerð, sem áður var í þorpum og kaupstöðum, þegar framkvæmdastigið er algerlega miðað við bundið slitlag. Þegar þetta þéttbýlisvegafé var ákveðið í upphafi var það miðað við allt annað verkefni, veigaminna verkefni og ódýrara verkefni en nú er. Ég nefni bara sem dæmi, að þetta verkefni er hjá okkur á Reyðarfirði, sem er mjög sígilt dæmi um þetta, um hinn gífurlega gegnumakstur, þetta verkefni er nú orðið svo gerbreytt, að við höfum rætt það í fullri alvöru eftir að við höfum lokið að leggja bundið slitlag einir án nokkurrar sérstakrar aukaaðstoðar frá ríkisins hálfu eftir endilöngum þjóðveginum sem liggur í gegnum kauptúnið, — við höfum rætt um það í fullri alvöru að loka veginum fyrir öllum gegnumakstri og segja Vegagerðinni að leggja nýjan veg fyrir ofan kauptúnið. Ég er ekki að segja að þetta sé mín hugmynd, en það eru háværar raddir um þetta í okkar sveitarstjórn. Og ég vil minna á að miðað við þá staði aðra, sem ekki eru með þennan mikla gegnumakstur eins og á stað á Reyðarfirði þá er okkar hlutur lakari og verri. Við fáum ekki það sama. Ég ætla ekki að fara í neinn meting, en ég bendi bara á næsta stað við okkur, Eskifjörð, sem fær miklu hærra, þriðjungi hærra, fé frá ríkinu til þessa verkefnis, þriðjungi meira fé, en þar liggur þjóðvegurinn aðeins um 1/3 af aðalvegi kauptúnsins á meðan þjóðvegurinn liggur alveg eftir endilöngu Reyðarfjarðarþorpi.

Þetta vandamál tel ég enn óleyst. Ég er ekki tilbúinn enn að segja til með hvaða hætti það skuli gert að fá til vissan aukastuðning þarna, því að menn una ekki öðru með þeirri umferð, sem þarna fer í gegn og er oft gífurleg. Alveg sérstaklega gildir það á þessum tiltekna stað, ég tala nú ekki um eftir að hringvegurinn er kominn, og þá koma fleiri staðir þarna inn i, eins og t. d. Búðir í Fáskrúðsfirði, að þeir njóti einskis umfram þá staði, sem eru t. d. endastöðvar eða hafa þjóðvegi gegnum sin byggðarlög að litlu leyti.