03.03.1975
Efri deild: 53. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2060 í B-deild Alþingistíðinda. (1638)

95. mál, vegalög

Jón Árnason:

Herra forseti. Hv. 4. þm. Sunnl., frsm. samgn., hefur gert ítarlega grein fyrir afgreiðslu n. á þessu frv., sem hér er til umr., og hef ég lítið við það að bæta sem þar kom fram. Ég vildi aðeins til viðbótar segja nokkur orð út af þeirri breyt., sem felst í þessu frv. frá gildandi l., og eins í sambandi við 5. tl. í brtt. samgn., þá breyt. sem hv. síðasti ræðumaður vék að í lok ræðu sinnar, en það er um að árlega skuli halda eftir 25% af heildarframlagi því, sem veitt er til lagningar þjóðvega í kaupstöðum og kauptúnum í stað 10% eins og verið hefur á undanförnum árum.

Þetta atriði var allmikið rætt á milli manna í n. og nokkuð skiptar skoðanir um upphæðina eða prósentuna sem hér er lagt til að verði. Þó sameinuðust menn í n. allir um að þetta mundi vera rétt, leggja til að þessu sinni að þetta hækki úr 10 í 25%. Ég held að það sé mjög varhugavert að ganga lengra í þessu en að vera með 25%. Ég er þeirrar skoðunar. Það er orðinn nokkuð stór hluti þá, sem þar er um að ræða, ef það verður áfram, eins og hv. seinasti ræðumaður var að lýsa, á valdi vegamálastjóra svo til eins. Þó að hann leiti umsagnar hjá sveitarstjórnarsambandinu og maður verði að treysta því að hann muni taka tillit til þess vissulega, þá er orðið um nokkuð stóra upphæð þarna að ræða sem þingið sleppir hendinni af. Ég er sammála síðasta ræðumanni um það, að sjálfsagt er að athuga nánar hvort það er ekki réttara að binda þetta eitthvað frekar en þessar till., bæði till. sem hann er meðflm. að og aðrir og í frv. sjálfu kveða á um.

Það er nú svo, eins og hann einnig vék að, að það er ákaflega mismunandi aðstaða og kostnaður við lagningu þjóðvega í gegnum kauptúnin og kaupstaðina. Sums staðar er búið að ljúka þessu, sem er kallað þjóðvegir í gegnum kauptúnin. Á öðrum stöðum er ekki byrjað á þessum framkvæmdum, að byggja þessa vegi úr varanlegu efni, og skil ég ekki hvers vegna það er ekki eftir allan þennan tíma, þar sem hefur verið deilt árlega vissu fjármagni á þessa staði. Í hvað hafa þeir peningar verið notaðir? Vitanlega er það miklu meira mál en bara þjóðvegirnir sem um er að ræða, því að gatnagerð úr varanlegu efni er mjög kostnaðarsöm og dýr í framkvæmd. Þess vegna má segja eins og nú er, að kannske hefði verið eðlilegra að hækka í heild það sem færi til þess að byggja upp gatnakerfi í þéttbýlinu. Einnig kemur, finnst mér, mjög til greina að hið opinbera eða vegasjóðurinn í heild taki meiri þátt í byggingu þjóðveganna í gegnum kauptúnin en á sér stað núna. Ég er ekki frá því, vegna þess að í sumum minni þéttbýliskjörnum, þar sem eru alllangir kaflar sem heita þjóðvegir í gegnum kaupstaðina, verða það svo dýrar framkvæmdir, að þessir litlu þéttbýliskjarnar ráði e. t. v. ekki við nema á löngum tíma að ljúka þeim verkum.

Ég er alveg sannfærður um að það hefði ekki átt að hafa þann hátt á um ráðstöfun á 10% fjármagnsins sem gert hefur verið, að veita því eingöngu í Kópavog og Selfoss. Það hefði verið miklu nær og sjálfsagt, tel ég, í sambandi við t. d. þessa dýru framkvæmd í Kópavogi að fjármagna hana sérstaklega. Hún gleypir þessa upphæð um svo langan tíma. Hins vegar finnst mér að eðli þeirra framkvæmda sé þannig, að það hefði verið sjálfsagt að taka það úr sameiginlegum sjóði Vegasjóðs.

Ég skal ekki orðlengja frekar um þetta mál, en ég vildi aðeins láta álit mitt í ljós um það, að ég held að það sé ekki rétt að fara með þessa prósenttölu hærra en í 25%. Ég held að það sé ekki rétt. Hins vegar er ég sammála síðasta ræðumanni um það, að ómaksins vert væri að athuga á milli umr. hvort við vildum binda eitthvað fastar um ráðstöfun á þessu fé eftir að það hefur verið aukið eins mikið og hér er gert ráð fyrir.