03.03.1975
Efri deild: 53. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2066 í B-deild Alþingistíðinda. (1643)

95. mál, vegalög

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Þegar þetta frv. var hér til 1. umr. gerði ég að umtalsefni örfáa þætti þess, og ég er þakklátur n. fyrir að hafa tekið tillit til þeirra sumra. Það er ekki von að maður fái fram allt, sem manni dettur í hug að hægt væri að fá inn í lög, því að slíkt getur orkað tvímælis þótt maður sjálfur sé nokkurn veginn sannfærður um að hafa rétt mál að flytja. Hins vegar var einn þáttur, sem ég hafði orð á hér að mér sýndist eðlilegt að breyta, sem ekki er samstaða um og ég veit að þarf mikinn undirbúning til að koma á, og það er að flokka vegi í landinu upp að nýju. Hv. þm. Oddur Ólafsson, 2. þm. Reykn., kom einmitt inn á þetta sama mál. Ég tek undir það að aðstaða héraðanna er ákaflega ólík hvað þetta snertir. Ég heyri það á mönnum, sem ræða um sýsluvegi í heimahéruðum sínum, að þar er allt annað víðhorf en t. d. í minni heimabyggð. Þó að sýsluvegir í Árnessýslu séu nokkuð langir hefur þó tekist að byggja þá velflesta upp. Annars staðar í landinu gengur þetta verr og þetta torveldar að sjálfsögðu það að jafna út aðstöðumun fólksins.

Ég ætla ekki að ræða meira um þetta, en ég vil aðeins til áréttingar koma inn á það sem hér er fyrst og fremst rætt um, og það er hlutfallstalan af þéttbýlisvegafé, sem menn greinir á um hvað á að vera há og til hvaða staða eigi að falla. Ég get ekki fallist á það að hækka þann hundraðshluta, sem tekinn er af þéttbýlisvegafé, upp í 35% eins og till. þeirra Steingríms Hermannssonar o. fl. gerir ráð fyrir. Ég var í miklum vafa um hvort það væri rétt að taka þennan 25% hluta til hliðar, en féllst svo á það og styð það. Ég þykist sjá að þó að sumir telji að höfðatölureglan sé erfið og ranglát á stundum, að þá sé ekki búið að sannfæra mig um að það yrði að jafnaði til bóta að taka stærri hluta af þéttbýlisvegafénu til ráðstöfunar eftir einhverjum öðrum reglum en höfðatölureglunni. Ég þykist sjá að það sé ekki til hægðarauka fyrir ýmsa staði að minnka þá upphæð sem þeir eiga að fá til að ráðstafa eftir eigin ákvörðun til hvers vegaféð fellur, fremur en að hafa þann hluta stærri og vera bundinn því að aðrir ákvarði hvað er gert við fjármagnið. Vegna þessa er ég þeirrar skoðunar að við megum ekki fara hærra með hundraðshlutann, sem ráðstafað er eftir öðru en höfðatölureglu, en gert er ráð fyrir í frv., og ég ætla mér að styðja það.