03.03.1975
Efri deild: 53. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2067 í B-deild Alþingistíðinda. (1645)

95. mál, vegalög

Frsm. (Jón Helgason) :

Herra forseti. Ég vil nú þakka hv. þm. fyrir þær undirtektir, sem brtt. samgn. hafa fengið. Þær umr., sem hér hafa farið fram, hafa fyrst og fremst verið á þá leið að benda á ýmislegt sem hefði þurft að ganga lengra, en ekki að gagnrýna það sem hún hefur lagt til í sjálfu sér.

Ég get tekið undir með hv. 7. landsk. þm. að það er vandamál með sýsluvegi í sambandi við snjómokstur og ýmislegt fleira í því sambandi, sem vissulega væri þörf á og æskilegt að athuga betur. En n. treysti sér ekki til þess að fara út í það á þessu stigi, þar sem það hlýtur að þurfa töluverðan undirbúning, eins og það, sem hefur verið bent hér á, að flokka vegi upp og er þá að nokkru leyti kannske sama málið. En við teljum að þær breyt., sem lagðar eru nú fram í þessu frv., séu það mikilvægar að það sé þörf á að tefja ekki afgreiðslu þeirra og hitt yrði þá að taka upp og skoða betur síðar. Ég þarf ekki að fara langt út í þetta mál eða þessar umr. hér núna, því að mér finnst sjálfsagt, eins og hér hefur komið fram, að n. taki ábendingar til athugunar á milli umr. og sjái hvað hægt er að komast áfram við að færa frv. í það horf sem sem flestir geti sætt sig við.

Hv. 5. þm. Norðurl. v. ræddi hér um framlagið til litlu þorpanna sem eiga að fá þéttbýlisvegafé. í núgildandi vegal. er markið miðað við 300 íbúa. Skv. frv. á þetta mark að færast niður í 200 íbúa. En um leið og þetta mark er fært niður í 200 íbúa verða viðkomandi þéttbýlisstaðir að taka að sér vega- og gatnagerð í viðkomandi stöðum með þeim styrk, sem þéttbýlisvegaféð þá veitir þeim, að svo miklu leyti sem það kemur í þeirra hlut, en hins vegar á stöðum sem eru með undir 200 íbúa skv. frv., eru götur annað hvort þjóðvegir eða sýsluvegir. Ef væri farin sú leið að færa þetta mark — segjum niður í 50 íbúa þá vex vitanlega mikið það vandamál sem skapast fyrir þessa litlu staði ef í gegnum þá liggur fjölfarinn þjóðvegur, sem er æðierfiður viðfangs fyrir stærri staði, eins og komið hefur fram í umr., ef þeir eiga algjörlega að sjá um þá, að viðbættu þéttbýlisvegafénu, sem hefur ekki verið stór upphæð. Þá þyrfti jafnframt að leysa það vandamál, þ.e. a. s. um fjölfarna þjóðvegi í gegnum þessi þorp. Hins vegar með brtt., sem n. lagði fram, að það væri heimilt að veita eitthvað af 25% framlaginu til staða með 100–200 íbúa eru götur og vegir þar ekki tekin úr sýsluvegatölu og lagning þjóðvega á þeim stöðum mundi þá heyra undir vegáætlun beint. Það er þá möguleiki fyrir þá staði að fá framlag til þjóðveganna á vegáætlun af hinu almenna framlagi til þjóðvega.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta, því að eins og ég sagði tel ég sjálfsagt að samgn. athugi þær till. og ábendingar, sem fram hafa komið, fyrir 3. umr.