03.03.1975
Neðri deild: 52. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2083 í B-deild Alþingistíðinda. (1652)

33. mál, samræmd vinnsla sjávarafla

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Ég vil fyrst taka það fram, að ég lít svo á, að það frv., sem hér liggur fyrir til umr., sé ekki í neinum verulegum tengslum a. m. k, við þá deilu sem staðið hefur við Húnaflóa. Ég lít svo á að þetta frv. sé bæði miklu stærra mál og yfirgripsmeira en sú deila sem þar hefur staðið, svo ill sem hún hefur þó verið. Þess vegna undrast ég það mjög, þegar hæstv. ráðh. kemur hér í stólinn til þess að ræða um þetta mál að þá skuli hann telja henta að snúa höfðinu öfugt meginhluta af sinni ræðu í stað þess að horfa fram á veginn og ræða það más sem hér liggur fyrir.

Ég tel að þau skrif, sem orðið hafa um þá deilu sem staðið hefur við Húnaflóa, hafi verið í mörgum tilvikum óheppileg. En ég tel einnig, að upprifjun á þessu deilumáli nú með þeim hætti, sem hæstv. sjútvrh. hefur gert, sé ekki til þess að bæta þetta mál og það hefði verið honum meir til sóma að láta það mái niður falla og horfa fram á veginn og stuðla áfram að sáttum í þessu máli. Ég hef litið svo á að með því samkomulagi, sem tekist hefur og ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir, sé þessu máli a. m. k. að verulegu leyti lokið og það sé þess vegna óheppilegt og raunar óviðeigandi að draga þær deilur, sem að baki eru, fram í dagsljósið hér á hv. Alþ. með þeim hætti sem hæstv. ráðh. hefur gert.

Það er eitt af grundvallaratriðum í okkar þjóðfélagsskipan að þegnarnir skuli búa við frelsi, þeir skuli búa við frelsi til athafna, frelsi til að stunda atvinnu, þeir skuli búa við málfrelsi, fundafrelsi, ritfrelsi o. s. frv. Þessi réttur borgaranna er verndaður í stjórnarskrá lýðveldisins og er einn sá grundvallarréttur sem hvað helgastur er hverjum íslendingi. Þrátt fyrir það, að þessi réttur sé óskoraður, hefur verið talið nauðsynlegt að setja frelsinu skorður á marga lund. Ef frelsinu eru ekki settar skorður leiðir það gjarnan til stjórnleysis, ef frelsið er með öllu óhindrað og hömlulaust. Allar þær skorður, sem frelsinu eru settar í íslensku þjóðskipulagi, eru með þeim hætti að þær eru almennar. Þær eru almennar að því leyti, að þó að réttur borgaranna sé takmarkaður, þá skuli þó þess gætt að gera ekki upp á milli þeirra, þess skuli gætt að borgararnir hafi sama rétt með þeim mismun sem þeir kunna að hafa áunnið sér við nám, próf eða þekkingu, skv. reynslu eða á annan slíkan hátt. Þess er einnig gætt þegar takmarkaður er réttur borgaranna í íslensku þjóðfélagi og frelsi þeirra settar skorður, að þá sé það höfuðatriði að rétturinn sé ekki bundinn ákveðnum svæðum, eða ákveðnum kaupstöðum, ákveðnu byggðarlagi. Þetta eru höfuðatriði sem þær skorður, sem frelsinu eru settar, eru fólgnar í.

Ég tel nauðsynlegt að rifja þetta upp, vegna þess að það frv., sem hér er á ferðinni gengur þvert á þau sjónarmið sem hér eru sett fram. Það brýtur gegn þessum meginsjónarmiðum í sambandi við frelsi íslenskra borgara eftir okkar stjórnskipan. Þetta gerist með þeim hætti að í frv. er t. d. skv. 1. gr. kveðið svo á, að tiltekið rn., í þessu tilviki sjútvrn., hafi heimild til þess að gera upp á milli aðila, gera upp á milli vinnslustöðva í sambandi við vinnslu á rækju og skelfiski. Sjútvrn. getur mælt fyrir um það til tiltekinna báta, sem hlut eiga að máli, að þeir skuli selja afla sinn í þessa vinnslustöð, en ekki hina. Það er verið að hverfa aftur til þess skipulags sem gilti á einokunartíma og ég hélt að flestir íslendingar vildu ekki hverfa að að nýju.

Skv. 2. gr. þess frv. er sjútvrn. fengið í hendur það vald að ákveða án umsagnar eða að tilhlutan nokkurra aðila hvort vinnslustöð skuli rísa í tilteknu byggðarlagi á tilteknum stað eða ekkí. Rn. fær í hendur vald til þess að synja eða leyfa nýja rækjuvinnslustöð eða skelfiskvinnslustöð og fær í hendur vald til þess að synja um eða leyfa stækkun á þeim sem fyrir eru. Ég lít svo á að það vald, sem sjútvrn. er ætlað að fá í hendur með þessum hætti, samrýmist ekki þeim almennu takmörkunum á frelsi íslenskra ríkisborgara sem gilda á mörgum öðrum sviðum. Í lögum um veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelgi, sem títt hefur verið vitnað til í umr. um þetta mál, er sjútvrn. fengið í hendur vald til að setja reglur um t. d. rækju- og skelfiskveiðar. Þessar reglur eru með öðrum hætti en hér er stefnt að því að fara inn á. Þessar reglur eru almennar. Þær eru almennar að því leyti, að sjútvrn. gefur út ákveðinn kvóta um aflamagn að till. Hafrannsóknastofnunarinnar og sjútvrn. hefur rétt til þess að ákveða tölu báta. Þessar reglur eru vitaskuld við það miðaðar að hafa hemil á veiðum á þessum fisktegundum, og slíkar reglur gilda á fleiri sviðum, um fleiri fisktegundir og slíkar almennar reglur gilda á margan hátt annan en þennan í sambandi við veiðar í íslenskri landhelgi. Það eru t. d. reglur um það til hvaða veiðisvæða fiskiskip af ákveðinni stærð mega sækja afla á vissum árstímum, eins og alkunna er og þarf ekki rekja. Þessar reglur eru sem sagt allar með þeim hætti að þær eru almennar og þar er ekki horfið að því að gera upp á milli einstaklinga, ekki horfið að því að gera upp á milli fyrirtækja eða horfið að því að gera upp á milli einstakra byggðarlaga eða kauptúna innan tiltekinna svæða. Með þessu frv. er því stefnt að því að taka upp algerlega nýja hætti í þessum leyfisveitingum og yfirráðum og forsjá hins opinbera.

Ég skal ekki draga neina dul á það, að ég er þessu frv. gersamlega andvígur og mun greiða atkv. gegn því. Ég tel, að með þessu frv. sé verið í fyrsta lagi að brjóta gegn þeim sjónarmiðum sem ég hef lýst, brjóta gegn þeim almennu takmörkunum sem stjórnskipun ríkisins setur frelsi borgaranna. Það brýtur gegn grundvallarsjónarmiðum þess stjórnmálaflokks sem ég er hér fulltrúi fyrir og það brýtur gegn minni persónulegu lífsskoðun. Þetta segi ég þrátt fyrir það að hér sé, eins og hæstv. ráðh. ræddi um, um viðkvæmt deilumál að ræða. Ég tel að það sé skylda alþm. að taka afstöðu til slíkra mála eftir sinni sannfæringu og eftir sinni eigin skoðun, en ekki af neinum öðrum toga.

Þess er einnig rétt að minnast, að það frv., sem hér er á ferðinni, er þarflaust að því leyti að það þurfi að koma á þessu fornaldar- og einokunarskipulagi til að hægt sé að hafa hemil á veiðum á rækju og skelfiski og hafa hemil á því að settar verði upp nýjar stöðvar. Eins og ég hef þegar vitnað til laga um veiðar með botnvörpu og flotvörpu, þá hefur rn. skv. gildandi lögum fullar heimildir til þess að takmarka í fyrsta lagi afla og í annan stað tölu báta sem aflann sækja. Ef um það er að tefla að nýjar rækjuvinnslustöðvar séu í uppsiglingu, þá getur rn. vitaskuld farið að þessum heimildum og neitað bátum um leyfi. Það getur neitað að fjölga bátum. Og ég skal taka það fram í sambandi við þá deilu, sem staðið hefur við Húnaflóa, að það var vitaskuld engin þörf á því fyrir núv. hæstv. sjútvrh. að veita fleiri leyfi til rækjuveiða heldur en fyrir voru á síðasta ári. Það var engin þörf á því. Það lá fyrir, að veiðikvótinn var minnkaður frá því sem var á síðustu vertíð, og það lá einnig fyrir, að sá fjöldi báta, sem voru gerðir út, var ekki í neinum vandræðum með að veiða það aflamagn sem leyfilegt var. Þess vegna var engin þörf á því og raunar engin ástæða til að fjölga bátum á þessu veiðisvæði á síðasta hausti. Hefði hæstv. ráðh. horfið að því ráði, þá hefðu, miðað við það sem hann sagði hér áðan, fallið út leyfi til tveggja báta á Skagaströnd, fallið út leyfi til tveggja báta á Blönduósi, fallið út leyfi til eins báts á Hvammstanga og eins báts á Hólmavík, og þar með hefði ekki verið um það að ræða að rækjuvinnsla hefði sprottið upp á Blönduósi á s. l. hausti. Þetta ráð hafði hæstv. sjútvrh. í hendi sér skv. gildandi lögum og þurfti ekki að flytja frv. af þessu tagi til að öðlast þann rétt eða hafa á þessu nægilegt vald. Að þessu ráði hvarf hæstv. ráðh. ekki og hann lýsti ástæðum fyrir því í ræðu sinni áðan.

Hæstv. ráðh. sagði áðan að það hefðu verið einkanlega nokkrir aðstandendur Særúnar hf. og þá aðallega tilteknir lögfræðingar sem hefðu haft uppi andstöðu við það frv. sem hér er á dagskrá. Hæstv. ráðh. svaraði þessu vitaskuld sjálfur að mestu í ræðu sinni, vegna þess að hann rakti að nokkru umsagnir frá þeim stofnunum sem leitað var til í sambandi við frv. Þær umsagnir eru í fyrsta lagi frá Landssambandi ísl. útvegsmanna sem leggur til að frv. verði fellt, frá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna sem leggur einnig til að frv. verði fellt eða látið daga uppi. Hæstv. ráðh. minntist ekki á umsögn frá Framkvæmdastofnun ríkisins sem leggur það til að frv. sé breytt, en telur óráðlegt að samþ. það í því formi sem það er lagt fram. Hæstv. ráðh. minntist ekki á umsögn eða samþykkt frá stjórn Félags rækjuvinnslustöðva. En maður skyldi ætla að rækjuvinnslustöðvarnar sjálfar, sem hæstv. ráðh. er nú alltaf að tala um að hann vilji vernda, hefðu átt rétt á að koma fram með það sem þessir aðilar vilja segja um þetta frv. Ég vil því — með leyfi hæstv. forseta — lesa þá umsögn, sem dags. er 17. des. 1974:

„Sem umsögn um frv. til l. um samræmda vinnslu sjávarafla og veiðar, sem háðar eru sérstökum leyfum, vill stjórn Félags rækjuvinnslustöðva láta í ljós eftirfarandi álit:

Stjórnin telur að í frv. felist óæskileg skerðing á atvinnufrelsinu í landinu. Fyrir hönd félagsmanna sinna óskar stjórnin ekki eftir þeirri einokunaraðstöðu sem framkvæmd l. gæti leitt af sér ef frv. verður samþ. sem lög. Nokkuð öruggt er að afkoma rækjuvinnslustöðva byggist fyrst og fremst á sömu aðalforsendum og aðrar greinar sjávarútvegsins, þ. e. aflabrögðum, hagkvæmni í rekstri hvers fyrirtækis og markaðsástandi erlendis. Af framangreindum ástæðum er stjórn Félags rækjuvinnslustöðva andvíg því að frv. verði samþ. sem lög.

Stjórn Félags rækjuvinnslustöðva.“

Ég tel ástæðulaust, að þessi samþykkt liggi hér í láginni, og er þó um að ræða stjórn þeirra aðila, sem þeirri einokunaraðstöðu sem þetta frv. býður, á að þröngva upp á af hv. Alþ.

Ég get auðvitað ekkert um það sagt hvað um frv. þetta verður hér á hinu háa Alþ., en verði það samþ. sem lög, þá tel ég að gengið sé inn á hættulega braut. Verði frv. þetta að lögum er verið að ryðja brautina fyrir slíkum leyfisveitingum, slíku drottnunarvaldi tiltekinna ráðuneyta yfir atvinnurekstrinum í landinu. Sú ríkisstj., sem nú situr að völdum, og þeir stjórnarflokkar, sem mynda núv, ríkisstj., kenna sig a. m. k. annar þeirra við frjálsræði. Það hefur verið eitt megininntakið í stefnu og störfum Sjálfstfl., eftir því sem hann hefur komið fram á hverjum tíma, að styðja frjálsræði í þjóðfélaginu, frjálsræði til atvinnurekstrar, frjálsræði til atvinnu, málfrelsi o. s. frv. Það er því með nokkrum ólíkindum að frv. sem þetta skyldi flutt af hæstv. sjútvrh. f. h. núv. hæstv. ríkisstj. En fyrst sú ríkisstj., sem nú situr, telur sér fært að flytja slíkt frv., þá vitum við að stjórnarskipti eru tíð á Íslandi og enginn veit lífdaga þeirrar ríkisstj., sem nú situr, né heldur hvernig sú ríkisstj. verður skipuð, sem í valdastóla sest að þessari genginni. Það kynni að vera að sú ríkisstj., sem þá tæki við völdum, hefði ekki þessi frjálsræðismarkmið að leiðarljósi í orði kveðnu eða í stefnuskráratriðum. Það kynni að vera að sú ríkisstj., sem þá tæki við völdum, hefði önnur sjónarmið að markmiði. Það gæti skeð að það yrði sósíalistísk ríkisstj., — ríkisstj. sem hefði það að markmiði skv. stefnuskráryfirlýsingum sinna stuðningsflokka að koma á sósíalisma í atvinnurekstrinum á Íslandi, að koma á fót almennu leyfakerfi fyrir því að stofna ný atvinnufyrirtæki og stækka önnur og fleira á þeirri hraut. Það kynni sem sagt að vera að sú ríkisstj. styddist við stuðningsflokka sem hefðu þetta ýmist beint eða óbeint sem markmið í sínum stefnuskráryfirlýsingum, og gildir þá einu hvað sú ríkisstj. mundi e. t. v. telja sér henta að lýsa yfir við sína valdatöku. En úr því að sú ríkisstj., sem nú situr og mynduð er af Sjálfstfl. og Framsfl., telur sér fært að flytja hér frv. sem þetta, þá má telja víst að ekki yrði róttækari sósíalistískri ríkisstj., sem kynni að taka við völdum hér á Íslandi fyrr eða síðar, óglatt af því að flytja frv. um frekari skerðingar á athafnafrelsi landsbúa en hér er lagt til. (Gripið fram í: Var ekki hv. þm. búinn að samþ. frv. í þingfl: Sjálfstfl.?) Það er rétt, að frv. þetta var kynnt í upphafi þings í þingfl. Sjálfstfl., og það er einnig rétt að frv. hlaut þar litlar athugasemdir. Og ég get sagt það hreint út, að ég var ekki meðal þeirra sem gerðu athugasemdir við þetta frv. þá. Ég lít hins vegar svo á, að enda þótt tiltekinn stjórnarþm. geri ekki athugasemdir við frv. þegar þau eru lauslega kynnt í upphafi þings, þá beri honum að fara eftir sinni sannfæringu og engu öðru. Þetta ætti hv. þm. Magnús Kjartansson að vita. Ég lít svo á að enda þótt frv. sé kynnt í þingfl. og það síðan flutt og þm. hafi ekki gefist mikill tími til að hugleiða efni þess en komist síðar að raun um að það stefni í þveröfuga átt við þá stefnu, sem hann sjálfur aðhyllist, og jafnvel í þveröfuga átt við þá stefnu, sem sá stjórnmálafl. berst fyrir, sem hann er fulltrúi fyrir, þá beri honum ekki að vaða áfram í þeirri villu að styðja slíkt frv. Hann á að fara eftir eigin sannfæringu, skoðun sinni, og ef hann gerir það ekki, þá er hann að bregðast sinni þingskyldu. Ég vænti þess að hv. 3. þm. Reykv. hafi heyrt hvaða skoðun ég hef á þessu.

Þetta frv. er kannske nokkur prófsteinn á það, hvað málefnaleg afstaða er mikils virði hjá hv. þm. Þetta er prófsteinn á það — og ég tala þá kannske sérstaklega til minna flokksbræðra hér á Alþ. — hvort þeir láta stefnuskráratriði ráða, hvort þeir vilja framfylgja þeirri skoðun og þeirri stefnu, sem Sjálfstfl. hefur grundvallast á, eða hvort þeir vilja láta önnur hentistefnusjónarmið ráða, sjónarmið sem eru kannske bundin ímynduðum pólitískum hagsmunum í ákveðnum kjördæmum með tilliti til ákveðinna byggðarlaga eða jafnvel einstakra manna. Ég lít svo á að frv. þetta sé prófsteinn á það hvort málefnalegur bakfiskur er að einhverju marki í þm. sem um það koma til með að greiða atkv.

Hæstv. sjútvrh. gerði í sinni furðulegu ræðu áðan litla tilraun til að mæla fyrir þessu frv. Eins og ég sagði áðan sneri hann höfðinu á bak aftur og rakti sögu rækjudeilunnar við Húnaflóa, þrátt fyrir það að þá deilu ætti að leitast við eftir öllum ráðum að kveða niður og það ætti að vera ekki síst hans keppikefli sem æðsta yfirmanns þessara mála að bera klæði á vopn og hlutast til um það að friður takist með mönnum og byggðarlögum.

Ég hafði ekki ætlað mér að fara út í þessa deilu hér og tel það raunar mjög svo óviðeigandi. Ég vil þó ítreka það að sú deila hefur valdið miklum sárindum og er viðkvæm. Þegar slík deila kemur upp er a. m. k. hætta á því að hún nái yfir fleiri svið, og ég lít svo á að ef ekki hefði tekist að leysa þessa deilu og kveða hana niður, fá hana út úr heiminum, þá væri a. m. k. mikil hætta á því að á eftir mundi fylgja slóði vandræða á milli þeirra sveitarfélaga sem þarna eiga hlut að máli. Þess vegna einnig ætti það að vera höfuðkeppikefli okkar, sem teljumst fulltrúar þeirra byggðarlaga sem um er rætt, að haga svo okkar orðum að líkur megi verða til þess að sættir verði sem fyrst.

Ég tek það fram út af því samkomulagi, sem gert hefur verið og ég þakka hæstv. sjútvrh. fyrir, að ég tel mig hafa átt nokkurn hlut að því máli, en ég hef á þeim tíma sem þær sáttaumleitanir hafa staðið forðast að láta nokkur þau orð falla um þetta mál á opinberum vettvangi er gætu orðið til þess að skaða þá lausn sem nú er fengin. Ég tel að þótt lausnin sé fengin, þá sé það einnig og eigi að vera höfuðmarkmið þeirra manna, sem teljast fulltrúar þeirra byggðarlaga sem hér eiga hlut að máli, að vera ekki að óþörfu og af gráleik, eins og hæstv. sjútvrh. gerði hér, að rifja þær deilur upp sem staðið hafa.

Ég skal ekki svo fara frekar út í þau efni að neinu marki. Ég vil aðeins taka það fram út af þeirri upptalningu, sem hæstv. ráðh. lét hér fylgja um ýmis hagsmunamál blöndósinga, að þar var vitaskuld um að ræða hagsmunamál sem fulltrúar frá sveitarstjórn Blönduóshrepps voru að kynna fyrir sínum þm. og fyrir þeim hæstv. ráðh. sem þar sátu á fundi. Ég tel það alls óviðunandi að draga slík mál hér inn og reyna að gera það með háðulegum hætti, með því orðalagi sem hæstv. ráðh. valdi. Ég vil einnig láta það koma hér fram í sambandi við það, að hæstv. ráðh. sagði að afgr. hefðu verið með forgangshraði og utan við allar reglur tvö lán til blöndósinga eftir þennan fund, að eftir því sem ég veit best er þétta forgangshrað með þeim hætti að annað af þessum lánum hefur ekki verið afgr. enn. Ég vænti þess, vegna þess að fundur mun vera hjá stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins í fyrramálið, að þetta forgangshrað verði þá með þeim hætti að stjórn Framkvæmdastofnunar sjái sér fært að afgr. nú þetta mál að þremur mánuðum liðnum, en um var að ræða 1 millj. kr. til tiltekins fyrirtækis. Ekki var það nú stórmál. En þetta sýnir m. a. að mál af þessu tagi eiga ekkert erindi í sambandi við það frv., sem hér liggur fyrir, og það hefði hæstv. ráðh. átt að vita.

Ég vil einnig láta það koma fram út af þessari deilu, úr því hún var svo mjög borin hér á góma, að tilteknir aðilar, þ. e. a. s. þeir sem stóðu að Særúnu hf., og það fólk sem að meginhluta byggir það hérað sem hún reis upp í, og enn fremur mjög margir aðrir landsmenn töldu að brotinn hefði verið réttur á þeim aðilum sem þarna áttu hlut að máli. Ég lít einnig svo á að ef fólkið í landinu telur að brotinn sé á því réttur, jafnvel þótt finnist hæpinn lagastafur fyrir, sem ég efast um að sé í þessu tilviki, þá mun það ekki standast. Þessu hefur enda verið hnekkt með því samkomulagi sem gert hefur verið og ég þakka hæstv. ráðh. enn.

Ég ætla svo ekki, hæstv. forseti, að lengja umr. um þá mjög svo leiðu og sársaukafullu deilu sem staðið hefur við Húnaflóa. Ég tel að opinberar orðræður um það mál ætti að hafa í sem mestu hófi eftirleiðis. En ég ítreka það, að frv. það, sem hér er til umr., hefur það í för með sér að gefa ráðh. sjávarútvegsmála, hvort sem það er hæstv. ráðh. Matthías Bjarnason eða einhverjir aðrir þeir sjútvrh. sem setjast í það sæti síðar meir, — gefa þeim tilefni og tækifæri til að gera upp á milli manna, gera upp á milli byggðarlaga og gera upp á milli fyrirtækja. Þetta frv. felur það í sér að hæstv. sjútvrh., hver svo sem hann er, fær þessar heimildir í hendur, og þeir hæstv. sjútvrh., sem eiga eftir að sitja í þeim stól, munu vitaskuld verða bundnir af mismunandi sjónarmiðum. Þeir munu taka mið af mismunandi sjónarmiðum, ímynduðum eða raunverulegum, pólitískum, persónulegum eða út frá byggðasjónarmiðum, allt eftir því hver þar á hlut að máli hverju sinni. Ég vil ekki gefa sjútvrh. eða sjútvrn. alfarið slíkt vald. Ég vil ekki ryðja þá braut að farið sé út í það að tiltekin rn. í stjórnarráðinu hér í Reykjavík fái vald til þess að segja fyrir um það við landslýðinn, hvort þessi eða hinn megi stofna fyrirtæki, hvort setja megi upp fyrirtæki á þessum stað eða öðrum eða hvort sjómenn megi landa afla sínum í þessari höfn eða hinni og selja afla til vinnslu hjá þessu fyrirtæki eða hinu. Þessa braut vil ég ekki ganga út á, og ég vara enn við því að þetta frv. verði samþ. til þess að opna þá slóð.

Svo að ég tali aðeins til flokksbræðra minna hér á hinu háa Alþ., þá hafa þeir nú í seinni tíð, eins og ég, oft talað um dreifingu valds í þjóðfélaginu. Þeir hafa talað um að miðstjórnarvald væri orðið mikið, þeir hafa talað um það að valdið hafi verið dregið saman í stjórnarráðsskrifstofunum hér í Reykjavík, þangað sé einnig safnað saman fjármagninu og þaðan sé deilt og drottnað yfir landslýðnum, Það frv., sem hér er á ferðinni, hefur ekki í för með sér mikla samþjöppun fjármagns í höfuðstöðvunum og það sýnist e. t. v. ekki við fyrsta yfirlit leggja þungan stein í byggingu þess mikla miðstjórnarvalds sem hér er risið. En þegar nánar er að gætt, þá er hér stefnt að því að flytja í tilteknum efnum óskorað vald yfir frelsi borgaranna á þessu sviði til einnar stjórnarráðsskrifstofu og til eins manns í þjóðfélaginu. Það stríðir því gersamlega gegn öllum kenningum Sjálfstæðisfl. um dreifingu valdsins. Það stríðir gegn þeim grundvallarsjónarmiðum að öðru leyti sem hann hefur byggt á. Og ég vænti þess, að enda þótt það sé hæstv. sjútvrh., sjálfstæðismaðurinn Matthías Bjarnason, sem flytur þetta frv., þá nái það ekki fram að ganga. Og ég leyfi mér að enda þessi orð mín á því að beina þeirri eindregnu ósk til hæstv. sjútvrh. að hann falli frá því að knýja þetta frv. fram hér á hinu háa Alþ. Það er vitaskuld alkunna að mörg stjórnarfrv. daga uppi og ekkert við því að segja, og það er vitaskuld ekkert vandara um fyrir þennan hæstv. ráðh., þótt frv. þetta dagi uppi, heldur en oft hefur verið fyrir ráðh. í íslenskri ríkisstj.

Ég skal ekki orðlengja þetta meir. Ég vænti þess að hv. þd. taki afstöðu og hver og einn hv. þm. taki afstöðu í samræmi við eigin skoðun, ekki af tilhliðrunarsemi við þá hæstv. ríkisstj., sem nú situr, vegna þess að um stjfrv. er að ræða, ekki af tilhliðrunarsemi við hæstv. ráðh. sem málið hefur flutt og ekki af neinum öðrum sjónarmiðum en þeim, sem þingsköp og stjórnarskrá ákveða að þm. skuli starfa eftir. Ég tel að þegar svo er vegið að frelsinu sem gert er með þessu frv., vegið að þeim almennu reglum sem gilda um skerðingu á frelsi einstaklinga og fyrirtækja, þá beri hverjum hv. þm. að skoða hug sinn vel áður en slíkt frv. er samþ. Þar á ofan virðist einsýnt, a. m. k. að mínum dómi, að frv. sé óþarft til þess að hafa hemil á þeim efnum sem því er þó ætlað að ná til. Þess vegna tel ég að sæmd Alþ. mundi vaxa að mun ef frv. þetta yrði fellt eða það látið daga uppi.