04.03.1975
Sameinað þing: 45. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2092 í B-deild Alþingistíðinda. (1655)

105. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen) :

Herra forseti. Það frv., sem hv. þm. spyrst fyrir um, var flutt af honum á tveim síðustu reglulegum þingum. 6. maí 1974 var því vísað til ríkisstj. Fyrrv. stjórn mun ekki á þeim tíma, sem hún átti þá eftir, hafa fjallað um frv., en eftir stjórnarskiptin hefur málið verið vandlega athugað í félmrn.

Ég tel að þær hugmyndir, sem fram koma í frv. og hv. þm. hefur rakið hér skilmerkilega, séu mjög athyglisverðar, þar sé um að ræða merkt framlag til byggðamálanna eða eins þáttar þeirra. Í grg. komst hv. flm. m. a. svo að orði, með leyfi hæstv. forseta:

„Efling byggðajafnvægis er í framkvæmd margslungið viðfangsefni. Ekki tjóar að láta til sín taka hluta vandamálsins. Venjulega þurfa að koma til samverkandi aðgerðir á ýmsum sviðum, svo sem á vettvangi samgöngumála, atvinnumála, skólamála, heilbrigðismála og félagsmála. Í allri viðleitni til eflingar byggðajafnvægi kreppir nú skórinn ekki síst að í húsnæðismálunum. Víða úti um land skortir nú íbúðarhúsnæði. Þetta á einkum við þróttmikla útgerðarstaði.“

Í grg. frv. ræðir flm. einnig um það, að íbúðalán, sem veitt eru til þessara staða, þurfi að vera hærri og hagkvæmari en almennt gerist, og enn fremur, að ekki sé nægilegt að binda þessi sérstöku lán við byggingu leiguíbúða.

Eins og ég gat um þá hefur málið verið til skoðunar í félmrn. og hefur verið ákveðið að fá umsagnir um það frá húsnæðismálastjórn, frá stjórn Byggðasjóðs og mþn. um byggðamál eða byggðanefnd.

Varðandi það atriði frv. að hækka húsnæðismálalán og þær tölur, sem frv. fjallaði um, sem eru eins og hv. fyrirspyrjandi gat um nú orðnar úreltar, vil ég taka það fram að fyrir ríkisstj. liggja till. frá húsnæðismálastjórn um verulega hækkun húsnæðislána. Fjármögnun Byggingarsjóðs er til meðferðar hjá ríkisstj. og verður ákvörðun tekin mjög skjótlega. En varðandi meðferð sjálfs frv., sem hv. þm. spyrst fyrir um, þá hefur það verið til athugunar og nú ákveðið að fá umsögn þeirra þriggja aðila sem ég greindi.