04.03.1975
Sameinað þing: 45. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2093 í B-deild Alþingistíðinda. (1658)

105. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen) :

Herra forseti. Þegar þetta frv. var til meðferðar í allshn. Sþ. á síðasta reglulegu þingi, mun hafa verið leitað umsagnar aðila. Mér er ekki kunnugt um og ég hef ekki séð umsögn nema frá húsnæðismálastjórn, sem taldi frv. mjög athyglisvert, en þyrfti breytinga við. Niðurstaða allshn. varð sú, að hún mælti ekki með samþykkt frv., heldur með að vísa því til ríkisstj. til nánari athugunar.

Meðal þeirra mikilvægu atriða, sem hér þurfa vandlegrar skoðunar við, eru núgildandi lög um byggingu leiguíbúða fyrir sveitarfélög og svo hins vegar till. hv. þm. sem ganga að nokkru leyti í aðra átt þó að sami sé tilgangurinn. Það er ljóst, að þegar lög um leiguíbúðir sveitarfélaga voru settar vorið 1973, hafði ekki verið nægilega hugsað fyrir því, hvernig sú löggjöf félli að húsnæðismálakerfinu. Þess vegna hefur reynslan orðið sú, að þar hefur orðið nokkur árekstur milli annars vegar leiguíbúðakerfisins og hins vegar verkamannabústaðanna. Kunnugir menn telja, að það liggi þegar fyrir, að dregið hafi úr byggingu verkamannabústaða og áformum um slíka bústaði vegna laganna um leiguíbúðir sveitarfélaga. Margir þeir sem líta svo á að verkamannabústaðakerfið sé mjög æskileg og gagnleg leið, telja það miður farið. Þess vegna er það eitt af þeim verkefnum sem þarf að skoða vandlega. Frv. hv. þm. kemur einmitt mjög inn á þetta atriði, m. a. með því að sveitarfélögin þurfi ekki að leggja eins mikið fram til verkamannabústaða eins og nú er ákveðið í lögum. En m. a. er þetta mikið vandamál, sem þarf að skoða.

Ég vil ítreka, að ég tel frv. hv. þm. fela í sér mjög merkilegar ábendingar, merkilegar till. og flestar þeirra mjög til bóta ef lögfestar yrðu, en málið allt þarf nánari skoðunar við eins og ég tók fram.