04.03.1975
Sameinað þing: 45. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2095 í B-deild Alþingistíðinda. (1661)

121. mál, útfærsla landhelginnar

Forsrh. (Geir Hallgrímsson) :

Herra forseti. Áður en ég vík að svari við fsp. þykir mér rétt að ræða í örstuttu máli aðdragandann að þeirri ákvörðun, sem fyrir höndum er að taka.

Með lögum um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins, nr. 44 frá 5. apríl 1948, sbr. l. nr. 45 frá 13. maí 1974, um breyt. á þeim l., var lagður grundvöllur að þeirri stefnu íslendinga, að allar veiðar á landgrunnshafinu umhverfis Ísland skuli háðar íslenskum reglum og eftirliti. Jafnframt áttu íslendingar frumkvæði að því, að Sameinuðu þjóðirnar tóku hafréttarmálin til heildarmeðferðar á árinu 1949. Síðan hefur markvisst verið að því unnið að færa fiskveiðimörkin við Ísland út með hliðsjón af þróun þjóðaréttar.

Fyrsta hafréttarráðstefna Sameinuðu þjóðanna var haldin á árinu 1958. Þar náðist að vísu ekki endanlegt samkomulag, en mikið fylgi var þar við 12 mílna mörk. Einnig gekk ráðstefnan frá ályktun um að forgangsréttindi strandríkja, sem byggja afkomu sína á fiskveiðum, skyldu viðurkennd með samningum hlutaðeigandi þjóða. Sendinefnd Íslands tók fram við þá afgreiðslu, að slíkir samningar mundu aldrei geta komið í stað fiskveiðimarkanna sjálfra, enda þótt þeir gætu komið að gagni utan þeirra. Eftir þessa ráðstefnu vorn mörkin við Ísland færð út í 12 mílur.

Önnur hafréttarráðstefna Sameinuðu þjóðanna var haldin árið 1960 og munaði þar aðeins einu atkv. að 12 mílna mörk væru staðfest. Ísland greiddi atkv. gegn slíkri afgreiðslu. Þau ríki, sem fylgjandi voru frekari útfærslu, gerðu sér grein fyrir því, að nægilegt fylgi á þriðju ráðstefnunni til útfærslu umfram 12 mílur mundi ekki fást fyrr en fjölmörg ný ríki hefðu bæst í hóp Sameinuðu þjóðanna.

Á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna haustið 1970 var talið rétt að kveðja saman þriðju hafréttarráðstefnuna, en Ísland átti þá aðild að flutningi till. þess efnis. Undirbúningur ráðstefnunnar fór síðan fram og meðan á honum stóð færði Ísland út fiskveiðilögsögu sina í 50 mílur. Ráðstefnan hófst í New York haustið 1973 og hélt annan fund sinn í Caracas s. l. sumar. Þriðji fundurinn verður haldinn í Genf 17. mars til 10 maí n. k. og er nú ráðgert að ráðstefnan ljúki störfum sínum á þessu ári. Er nú svo komið, að mikið fylgi er fyrir allt að 200 mílna efnahagslögsögu á ráðstefnunni, og hefur þátttaka Íslands í henni verið miðuð við að fylgja því sjónarmiði fram til sigurs.

Þetta er sá alþjóðlegi rammi, sem mótaður hefur verið í hafréttarmálum. Mörg ríki hafa lýst því yfir að þau muni hvorki taka ákvörðun um útfærslu efnahagslögsögu sinnar í 200 sjómílur né tilkynna fyrirætlanir um hana fyrr en ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna er lokið.

Í stefnuyfirlýsingu sinni á síðasta ári lýsti ríkisstj. því yfir, að hún mundi færa efnahagslögsögu Íslands út í 200 sjómílur á árinu 1975. Þótt enn sé gengið út frá því, að hafréttarráðstefnunni ljúki á þessu ári, er það ekki fullvíst. Ákvörðun íslensku ríkisstj. um útfærslu í 200 mílur á árinu stendur óbreytt án tillits til þess, hvort ráðstefnunni lýkur fyrir árslok eða ekkí. Hins vegar verður ekki gefin út tilkynning um það, hvenær útfærslan fer fram, fyrr en eftir 10. maí þegar fundum hafréttarráðstefnunnar í Genf lýkur. Voru menn sammála um þessa málsmeðferð á fundi í landhelgisnefnd sem í eiga sæti 4 ráðh. og fulltrúar þingflokka. N. hefur haldið einn fund í byrjun ársins og mun hittast aftur innan skamms.

Ég býst við því, að fyrirspyrjandi vilji fá svör um einstakar aðgerðir stjórnvalda til undirbúnings útfærslunni í 200 mílur. Þar er af mörgu að taka og vil ég með upptalningu nefna það helsta:

1. Pólitísk ákvörðun hefur verið tekin um að útfærslan verði á þessu ári.

2. Með hliðsjón af bráðabirgðasamkomulaginu við breta, sem rennur út 13. nóv. 1975, og nýgerðu samkomulagi við færeyinga, er líklegast að útfærslan verði á tímabilinu frá 10. maí til 13. nóv. 1975.

3. Ríkisstj. hefur kallað saman að nýju eða endurskipað landhelgisnefndina svonefndu, þar sem allir þingflokkar hafa samráð.

4. Íslenska sendinefndin á fundum hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Genf verður skipuð fulltrúum þingflokkanna og embættismönnum. Af hálfu Íslands hefur verið lögð á það áhersla frá upphafi, að íslendingar sjálfir geti hagnýtt alla fiskstofna sem eru innan 200 mílna markanna, að strandríkið sjálft verði að ákveða leyfilegt aflahámark og möguleika sína á að nýta það, að strandríkið kveði sjálft á um rétt annarra þjóða til fiskveiða innan lögsögunnar, svo og að úrskurður þriðja aðila komi ekki til greina varðandi þessi atriði.

5. Fiskifélag Íslands hefur unnið skýrslu um afrakstursgetu Íslandsmíða og afkastagetu fiskiskipastólsins, og Hafrannsóknastofnunin hefur unnið skýrslu um þol fiskstofna á svæðinu milli 50 og 200 sjómílna frá Íslandi. Þessi gögn, sem nú hafa verið útbúin, eru ómissandi við mat á hagsmunum okkar varðandi 200 mílurnar og verða lögð fram á fundi landhelgisnefndar sem haldinn verður næstu daga.

6. Í ráðuneytum og ríkisstofnunum er unnið alhliða að undirbúningi undir útfærsluna. Samkv. 18. gr. l. nr. 102 frá 1973, um veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelginni, skal láta endurskoða þau lög fyrir 31. des. 1975. Þessi endurskoðun er hafin og verður haft samráð við hagsmunaaðila og frv. um breyt. á l. lagt fyrir Alþ. á næsta vetri. Dómsmrn. hefur til athugunar eflingu Landhelgisgæslunnar vegna útfærslunnar. Í því sambandi beinist athyglin einkum að því að efla flugvélakost gæslunnar. Þá þarf einnig sérstaklega að koma upp fullkomnu staðsetningarkerfi fyrir flotann umhverfis landið. Eftir útgáfu reglugerðar um útfærslu fiskveiðilögsögunnar í 200 sjómílur er nauðsynlegt að breyta botnvörpuveiðalögunum, nr. 102 frá 1973, til að fastákveða að ákvæði laganna, þ. á m. um veiðiheimildir, veiðitakmarkanir, leyfakerfi og viðurlög við brotum, taki í heild til allrar hinnar nýju 200 mílna lögsögu.

7. Ákvörðun íslensku ríkisstj. um 200 mílna útfærslu efnahagslögsögunnar 1975 hefur verið kynnt á margvíslegan hátt á erlendum vettvangi. Á fundum hafréttarráðstefnunnar og í undirbúningsnefnd hennar hefur um árabil verið haft stöðugt samband við aðrar þjóðir, bæði þær sem sammála eru sjónarmiðum íslendinga og aðrar. Nauðsynlegt er að ræða sérstaklega við fulltrúa dana, norðmanna og breta vegna afmörkunar gagnvart Færeyjum, Grænlandi, Jan Mayen og Rockall. Ákvörðun um formlegar viðræður út af útfærslunni hefur ekki verið tekin. Ráðamönnum margra ríkja hefur verið gerð sérstök grein fyrir útfærslunni. T. d. hefur mér gefist kostur á því í viðræðum við aðila í Bandaríkjunum og Kanada og á fundi forsrh. Norðurlanda. Ákvörðun um útfærslu hefur verið kynnt í Norðurlandaráði, Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, innan Atlantshafsbandalagsins, í Evrópuráðinu og annars staðar þar sem það á við í alþjóðasamtökum sem Ísland er aðili að.

Hans G. Andersen sendiherra er nýlega kominn af fundi í svonefndri Evensen-nefnd, þar sem rætt var um gang mála á hafréttarráðstefnunni. Í þeirri n. starfa formenn sendinefnda 25 ríkja á hafréttarráðstefnunni. Fulltrúarnir eru úr öllum heimsálfum, þ. á m. frá Bandaríkjunum, Sovétríkjunum, Kína, Frakklandi og Bretlandi. Í þessari n. kom fram sjónarmið allra ríkjahópa til hafréttarmálefna. Starf hennar miðar að því að móta grundvöll undir heildarsamkomulag. Á nýafstöðnum fundi í New York var aðallega fjallað um efnahagslögsöguna og reynt að ná samkomulagi um 200 mílna efnahagslögsögu. Ráðgert er, að þessi n. hittist daglega á meðan hafréttarráðstefnan situr á fundum í Genf.

Ég hef hér stiklað á stóru til að gefa nokkra hugmynd um, í hvaða farveg aðgerðir stjórnvalda til undirbúnings útfærslu á íslenskri lögsögu í 200 sjómílur hafa farið. Að því er stefnt að allar hliðar þessa lífshagsmunamáls okkar verði sem best kannaðar inn á við og kynntar út á við áður en útfærsludagurinn rennur upp.