04.03.1975
Sameinað þing: 45. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2101 í B-deild Alþingistíðinda. (1665)

318. mál, hlutafélög og verðlagsmál

Fyrirspyrjandi (Ellert B. Schram) :

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. viðskrh. svör hans. Eins og fram kom í svarinu hefur verið unnið nokkuð lengi að endurskoðun á hlutafélagalöggjöfinni eða allt frá því 1972, þegar Benedikt Sigurjónsson hrl. og núv. hæstaréttardómari fékk það verkefni í hendur. Mér er ljóst að þetta er vandasamt verk og þarf nokkra yfirlegu, en ég hygg þó að það sé orðið nokkurrar óþreyju vart á þessum vettvangi og biðin orðin nokkuð löng eftir að þetta endurskoðaða frv. sjái dagsins ljós. Hæstv. ráðh. gerði sér vonir um að hægt væri að sýna frv. á þessu þingi og ég fagna því vegna þess að ég og við sjálfsagt báðir erum sammála um nauðsyn þess að þessari löggjöf verði breytt hið allra fyrsta.

Varðandi verðlagsmálin kemur fram í svari ráðh. að nokkur undirbúningsvinna hefur verið lögð af mörkum, en ekki enn þá búið að skipa n. til þess að endurskoða verðlagsmálin í heild sinni, eins og um er getið í málefnasamningi ríkisstj. Það er rétt, að ekki er tekið fram að endurskoðað frv. verði lagt fram á þessu þingi, og hafði ég ekki heldur gert ráð fyrir því. Engu að síður er áríðandi að nota tímann vel og hefjast þegar handa því að þetta mál er geysiviðamikið og viðkvæmt og þarf að hafa fullt samráð við sem flesta aðila, þannig að ekki rísi upp pólitískar deilur um það þegar það er lagt fram. En ég er sannfærður um að ef rétt er á málum haldið og mönnum er komið í réttan skilning um þörfina á breytingu á verðlagsmálunum, þá ætti að geta náðst sæmilegt samkomulag um slíkar breytingar. Ég hvet því hæstv. ráðh. og hæstv. ríkisstj. eindregið til þess að hraða þessum málum eftir því sem kostur er.

Hæstv. ráðh. vék nokkuð að ummælum mínum varðandi það ástand sem nú ríkir í innflutningsversluninni. Mér er fullkomlega ljóst af hvaða ástæðum það ástand varir, og ég geri ráð fyrir því, að flestir, sem hlut eiga að máli og hagsmuna hafa að gæta, sætti sig a. m. k. við það ástand í bili, enda sé þeim þá gerð grein fyrir því og fullvissaðir um að þetta sé bráðabirgðaástand sem lagist jafnskjótt og úr rætist almennt í efnahagsmálum þjóðarinnar.

Mér þykir vænt um að heyra að innan viku verði settar skýrari reglur um hvað fram undan sé varðandi heimildir til gjaldeyrisyfirfærslu vegna þess að kvartanir mínar og annarra, sem með þessu hafa fylgst, beinast fyrst og fremst að þeirri óvissu sem ríkir. Það er ekki með velþóknun gert að fyrirtæki segi upp fólki eða þurfi að grípa til samdráttar í sínum viðskiptum. Það er sannarlega ósk þessarar atvinnustéttar að hún geti áfram unnið ötullega að sínum verkefnum. En það er auðvitað afar slæmt og bagalegt að gera ráðstafanir, gera áætlanir fram í tímann, þegar óvissan er slík sem raun ber vitni um í dag. Það er sem sagt upplýst nú að um þetta verði settar skýrari reglur innan viku, og það eru ágæt tíðindi svo langt sem þau ná.