04.03.1975
Sameinað þing: 45. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2105 í B-deild Alþingistíðinda. (1673)

139. mál, lánveitingar úr Byggðasjóði

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Það er auðvitað rétt, sem hv. 4. þm. Reykn. Jón Skaftason, tók fram, að hann er ekki í neinni aðstöðu til þess í þessum stól að dæma um eðli þessara lánveitinga. Til þess þyrfti hann vitanlega að kynna sér alla málavexti. Ég hygg að ég geti talað af reynslu, a. m. k. fullyrði ég það hér og nú, að það er út í hött að álíta að lánveitingar úr Byggðasjóði beri merki kjördæmasjónarmiða þeirra manna sem hafa átt sæti í stjórn Byggðasjóðsins. Ég hygg að það, sem fyrst og fremst megi út úr þessu lesa, séu ástæður landshlutanna eins og þær hafa verið á hverjum tíma, hvar þörfin hefur verið mest. Af sjálfu leiðir að þangað hefur auðvitað mest fjármagn runnið.

En varðandi það, sem hann ræddi um Reykjaneskjördæmi, þá er, eins og hann tók fram, Byggðasjóður stofnaður til jafnvægis í byggð landsins, stofnaður í framhaldi af byggingu álversins í Straumsvík. Beinlínis eru aðaltekjur hans markaðar skattgreiðslur frá álverinu til þess að bæta öðrum landshlutum upp það sem mönnum þótti kjördæmi þetta njóta góðs umfram þau vegna byggingar þeirrar stóriðju. Þetta er skýrt markað í lögum sjóðsins og þarf engum að koma á óvart, ekki heldur reyknesingum sjálfum. Þetta hljóta þm. þeirra að hafa upplýst þá um frá upphafi, hvert sé eðli og tilgangur Byggðasjóðsins sjálfs.

Vissulega má lesa út úr niðurstöðum þessara lánveitinga að til þeirra kjördæma, þar sem sjávarútvegur er mest stundaður, hafa lánveitingar flestar farið og mest fjármagn, af því að Byggðasjóður hefur fyrst og fremst fjármagnað sjávarútveginn, skipakaup og uppbyggingu við sjávarsíðuna. Skýringin á t. d. því, hvers vegna Norðurl. v. er sýnu lægra en ýmis önnur kjördæmi, liggur m. a. í þessu. Sú regla hefur verið í Byggðasjóðnum, og mynduð vegna eðli sjóðsins og laga, sem um hann eru, að lánveitingar yrðu ekki til Reykjaness eða Reykjavíkur. — Ég er alveg að ljúka máli mínu, herra forseti. — Hins vegar er þetta ekki ný regla, sem var upp fundin við stofnun Byggðasjóðsins, heldur hafði hún gilt á tímum Atvinnujöfnunarsjóðsins á sinni tíð. En það hefur sýnt sig að reglan vegna nýbyggingar og endurnýjunar skipa hefur ekki staðist að því leyti, að það hefur ævinlega brostið í böndunum sú ákvörðun að ekki væri heimilt að lána til þessa svæðis, fyrst þegar Atvinnujöfnunarsjóðurinn var starfandi á árunum 1964 og 1965 og einnig nú hjá Byggðasjóði, enda hefur Byggðasjóður tekið upp núna nýja viðmiðunarreglu. Að vísu skal það fram tekið að engin sjálfvirkni er í neinum reglum þar og verður ekki viðhöfð, en ný viðmiðunarregla hefur verið tekin upp varðandi nýbyggingar skipa innanlands og endurbætur skipa sem fara fram innanlands, að þessi landshluti og allt landið njóti í þessu efni fyrirgreiðslu Byggðasjóðs.