04.03.1975
Sameinað þing: 45. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2106 í B-deild Alþingistíðinda. (1674)

139. mál, lánveitingar úr Byggðasjóði

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Það hefur hingað til ekki þótt góð pólitík að svelta mjólkurkúna, og ég held að sá upplestur, sem hér var áðan, beri greinilega með sér að þetta næstfjölmennasta kjördæmi landsins, Reykjaneskjördæmi, er algerlega sett hjá við ákvarðanir um lán úr Byggðasjóði. Þetta er ekki í lagasetningunni, vegna þess að þetta er gamli Atvinnujöfnunarsjóðurinn, og það er ekki tekið þar fram að Reykjaneskjördæmi og Reykjavík skuli vera út undan, hins vegar eigi að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, það er rétt. Ég get ekki lítið þannig á, að alþm. hafi ætlast til þess að það ætti að svelta menn út úr Reykjaneskjördæmi með aðgerðum opinberra stjórnvalda. Eins og við vitum kemur megnið af tekjum Byggðasjóðs úr Reykjaneskjördæmi og Reykjavík, fyrst og fremst vegna þess að þarna eru flestir gjaldendurnir og í öðru lagi vegna þess að Byggðasjóður hefur sínar megintekjur af álverinu í Straumsvík. Nú er svo komið að útgerðin á Suðurnesjum sker sig í raun og veru úr í landinu. Það er kannske ekki vegna þess að hún hafi ekki getað fengið þessi 5%, sem Byggðasjóður veitir sem viðbótarlán, heldur er það einnig vegna þess að Byggðasjóður knýr á með lán úr öðrum lánastofnunum, enda sýnir það sig, ef maður athugar aðra sjóði líka, að fjárfestingarsjóðirnir lána gjarnan meira í önnur kjördæmi en í Reykjaneskjördæmi. Að sjálfsögðu þurfti að rétta við atvinnufyrirtækin víða úti um landið, en ég held því fram og ég held að það sé rétt, að atvinnufyrirtæki séu einna fæst í landinu einmitt í Reykjaneskjördæmi. Það mun hafa verið í Norðurl. v. þar til nú nýlega, að þar er einnig komið það langt áleiðis, að nú munu vera einna fæst atvinnufyrirtæki í þessu næststærsta kjördæmi landsins.