04.03.1975
Sameinað þing: 45. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2106 í B-deild Alþingistíðinda. (1675)

139. mál, lánveitingar úr Byggðasjóði

Tómas Árnason:

Herra forseti. Það kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda að það væri alveg sérstök ástæða til þess að gleðjast yfir því að upplýsa um lán úr Byggðasjóði. En svo vill til að Byggðasjóður er áreiðanlega eini lánasjóðurinn, sem ég veit um hér í landinu, sem árlega birtir allar lánveitingar úr sjóðnum. Þessar lánveitingar eru skráðar á sérstaka skrá sem fylgir ársskýrslum Framkvæmdastofnunar ríkisins sem alltaf er dreift hér á hv. Alþ. Ég tei þetta mjög góða reglu og átti þátt í að stuðla að því að svona væri farið að, vegna þess að þessi sjóður er á þann veg öðru vísi en aðrir lánasjóðir að hann starfar ekki eftir almennum lánareglum, heldur er honum ætlað samkv. lögum að stuðla að jafnvægi í byggð landsins með því að veita fjárhagslegan stuðning til framkvæmda og eflingar atvinnulífs með hliðsjón af landshlutaáætlunum og til að bæta aðstöðu til búsetu í einstökum byggðarlögum og koma í veg fyrir að lífvænlegar byggðir fari í eyði.

Á árunum 1950–1972 var 46% meðalfólksfjölgun í landinu. Á Reykjavíkur- og Reykjanessvæðinu varð á sama tíma 78% fjölgun, þannig að það svæði hefur tekið til sín um 83% af fólksfjölguninni í landinu á þessum tíma. Byggðasjóði er einmitt ætlað að reyna að sporna gegn þeirri geysilegu röskun sem orðið hefur á byggðinni í landinu á undanförnum áratugum. Þess vegna er auðvitað eðlilegt og fullkomlega rökrétt að lán úr sjóðnum beinist til þeirra landssvæða sem harðast hafa orðið úti í þessum efnum. Það má auðvitað deila um þessi efni fram og til baka, en varðandi bátaflotann eða skipaflotann í Reykjaneskjördæmi vildi ég upplýsa það, að það kemur æðioft fyrir að skip utan af landi, sem hafa notið lána úr Byggðasjóði áður, eru seld síðan til Reykjanessvæðisins og þá er venja að lánin fylgja með. Í þeim tilfellum má segja að um óbeinar lánveitingar sé að ræða til þessa svæðis. En ef Byggðasjóður á að breyta til í þessum efnum, þá verður að breyta lögum. Þá verður að breyta grundvellinum, sem Byggðasjóður starfar eftir og í meginatriðum er sá, eins og ég tók fram áðan, að reyna að sporna gegn þeirri miklu röskun, sem hefur átt sér stað á búsetu manna í landinu á s. l. áratugum.