04.03.1975
Sameinað þing: 45. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2109 í B-deild Alþingistíðinda. (1681)

139. mál, lánveitingar úr Byggðasjóði

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Það kom fram í ræðu hv. síðasta ræðumanns, það sem ég ætlaði að spyrja um, vegna þess að á sínum tíma var það samþykkt — stjórnarsamþykkt gegn mótmælum frá fulltrúa Alþfl. í stjórninni — að draga línuna Þorlákshöfn-Akranes og veita ekki inn á það svæði sem lægi vestan þessarar línu, þ. e. a. s. Reykjavík og Reykjanes. Hann upplýsir núna að stjórn Framkvæmdasjóðs hafi breytt þessu í morgun, að því er mér skilst, og ég vil fagna því. Þótt það sé ekki að öllu leyti dregið til baka, er það viss þáttur, sem er kannske sá stærsti varðandi Reykjanes, og þetta er mergurinn málsins.

En það er líka annað, sem er mikilvægt í þessu, að þegar ríkissjóður fer að leggja Byggðasjóði til mörg hundruð millj., þá er Alþ. að úthluta vaxandi upphæðum frá sér og setja að vísu í hendur manna sem eru kjörnir hér á Alþ., en við fylgjumst síðan sáralítið með. Og það mun vera staðreynd að það hefur gerst á þessum vetri oftar en einu sinni og oftar en tvisvar, að stjórn Byggðasjóðs hafi orðið að senda í skyndingu fjármagn til að hjálpa vissum þáttum atvinnulífsins fyrir vestan og norðan, en engar sérstakar greinargerðir komu um það nánar. Ég veit ekki hvort nægileg trygging er fyrir hendi á einn eða annan veg, en þessum lánveitingum úr Byggðasjóði hefur fylgt að aðrir sjóðir væru pindir um leið. Ég tel að það sé rétt að gera grein fyrir slíkri lánstilhögun á Alþ. alveg hreinlega. Og ég vil þakka hv. þm. Tómasi Árnasyni fyrir það; að hann hefur stuðlað að því að öll lánin séu birt og þessi fsp. hefði raunverulega ekki þurft að koma hér fram, vegna þess að allir, sem halda til haga skýrslu Framkvæmdastofnunarinnar, gátu flett upp og séð yfirlit yfir þetta allt saman, hverjir hafa fengið lánin og til hverra hluta. Þetta er mjög þakkarvert atriði.

En það er gamalt deilumál hér á Alþ., hvernig á að fjalla um fjármagn til Reykjavíkur og Reykjanesumdæmis, og mun sennilega lengi verða. En aðalatriðið er að ég tel það heilbrigt mat hjá stjórn Framkvæmdastofnunar núna að lána til nýsmiði skipa hvar sem vera skal á landinu. Það er ekki hægt að svelta einn þátt sérstaklega eða tvo stóra staði, eins og Reykjavík er og Reykjanes, varðandi þennan þátt. Það er ekki hægt til lengdar. Það kemur í ljós, að hin gamla samþykkt stenst ekki þegar á reynir.