04.03.1975
Sameinað þing: 45. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2111 í B-deild Alþingistíðinda. (1683)

139. mál, lánveitingar úr Byggðasjóði

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Það var aðeins í lok þessarar umr. að ég vildi vekja athygli á því hversu fróðlegar þær hafa verið fyrir ýmissa hluta sakir.

Hér hafa menn brigslað hver öðrum um mismunun í úthlutun á fjármagni Byggðasjóðs. Fyrirspyrjandi fullyrti nánast að fjármagninu hefði verið úthlutað með hliðsjón af því úr hvaða kjördæmum stjórnarmenn og embættismenn þessarar stofnunar væru. Annar ræðumaður kom og fullyrti að tilgangurinn hefði beinlínis verið sá að mismuna.

Hins vegar hafa „kommissararnir“ hv. hlaupið hingað ótt og títt upp í ræðustólinn og tekið til varnar, enda eru þeir orðnir það samvaxnir, að þeir hlaupa stundum báðir í einu þegar öðrum er gefið orðið, og eru orðnir svo samgrónir þessari stofnun, að nýskipaðir „kommissarar“ eru farnir að verja ráðstafanir og aðgerðir þessarar stofnunar langt aftur í tímann og er það alveg óþarfi. Ég legg engan dóm á það hver hefur rétt fyrir sér í þessum umr., enda er nokkur vandi að átta sig á því, ekki hvort mismunun hafi farið fram, heldur hvernig hún hafi farið fram.

Hins vegar sanna þessar umr. eitt. Þær sanna það að pólitísku valdi fylgir alltaf mismunun eða a. m. k. liggur sá grunur á að þar sé um mismunun og misnotkun að ræða. Þess vegna kemur það engum á óvart hvers vegna menn sækjast svo fast eftir því að komast í stjórn og komast í embætti hjá þessum stofnunum, og mætti draga ýmsa lærdóma af því.

Nú hefur enn verið hækkað framlag til Byggðasjóðs upp í 900 millj. kr. og við skulum ímynda okkur þann slag sem upphefst á næsta ári og á þinginu næsta vetur þegar menn fara að kljást um það og deila um hvernig því fjármagni hafi verið úthlutað.

Ég vil aðeins segja það að lokum, að þessar umr. hafa sannað með áþreifanlegum hætti, að það þarf að breyta þessari stofnun og breyta því fyrirkomulagi sem þarna ríkir. Stjórnin á að vera skipuð þm., það er út af fyrir sig eðlilegt og enginn hefur mótmælt því, en það er ótækt, að til viðbótar sé verið að ráða pólitíska „kommissara“, vegna þess að það veldur því, að úlfaþytur og ágreiningur verði áfram um það hvernig þessu fjármagni er úthlutað. Við eigum að reyna að hefja úthlutun þessa fjármagns, ef það á annað borð á að vera þarna fyrir hendi, upp yfir pólitískar deilur og slíkt þras sem hér hefur rutt sér stað.