04.03.1975
Sameinað þing: 45. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2111 í B-deild Alþingistíðinda. (1684)

139. mál, lánveitingar úr Byggðasjóði

Tómas Árnason:

Herra forseti. Það er með hálfum huga að maður þorir að kveðja sér hljóðs eftir ræðu þá sem hv. þm. var að ljúka við. Ég vil upplýsa það — auðvitað væri mjög fróðlegt að ræða miklu meira um þessi mál en unnt er að gera á örstuttum tíma — en ég vil upplýsa það að Byggðasjóður starfar þannig að það koma inn lánsbeiðnir frá þeim aðilum, sem sækja um lán úr Byggðasjóði, og þessar lánsbeiðnir eru teknar og athugaðar af stofnuninni að sjálfsögðu. Ég verð að mótmæla því alfarið, sem hv. síðasti ræðumaður var að gefa í skyn hér áðan, að það væri um mismunun að ræða í þessum efnum. (Gripið fram í.) Og ég álít að hann hafi enga aðstöðu til þess á neinn hátt að fullyrða slíkt sem þetta, enda hefur hann enga tilraun gert til þess að rökstyðja það. Hann getur litið á lánveitingarnar. Þær liggja fyrir í skýrslum, og ef hann telur að um sérstaka mismunun sé að ræða í þessum efnum sem ekki byggist á eðlilegum forsendum, þá verður hann að gera grein fyrir því ef hann heldur því fram opinberlega.

Varðandi þetta málefni vil ég víkja aðeins að hv. þm. úr Reykjaneskjördæmi. Það eru fleiri málefni en Byggðasjóður sem geta komið til álita þegar verið er að ræða um einstök kjördæmi. Það er eins og t. d. það, að það eru lög í landinu, að 25% af skattgjaldi af álbræðslu renni til eins sveitarfélags í Reykjaneskjördæmi, til Hafnarfjarðarkaupstaðar. Þetta er geysileg upphæð. Ég veit ekki hverju þessi upphæð mun hafa numið á síðasta ári. Hún gæti numið 50 millj. kr. Ég er ekki alveg viss um það. Það kemur auðvitað margt til álita þegar farið er að ræða um einstök kjördæmi, einstök sveitarfélög og einstök landssvæði og ekki hægt að gera slíku máli skil í örfáum orðum hér á hv. Alþ. En ég vil mótmæla því sem hér hefur komið fram, að það hafi átt sér stað einhver sérstök pólitísk mismunun í sambandi við starfsemi Byggðasjóðs.