04.03.1975
Sameinað þing: 46. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2116 í B-deild Alþingistíðinda. (1698)

135. mál, bifreiðatryggingar

Flm. (Benedikt Gröndal) :

Herra forseti. Við höfum, þrír þm. Alþfl., leyft okkur að flytja till. til þál. um athugun á bifreiðatryggingum. Till. þessi hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að láta fara fram sérfræðilega rannsókn á því, hvort unnt sé að gera bifreiðatryggingar þjóðinni ódýrari og hagkvæmari, og verði í því sambandi sérstaklega athuguð þau nýju tryggingakerfi, sem nú breiðast ört út í Bandaríkjunum og Kanada.“

Því þarf ekki að lýsa fyrir hv. þm. hversu bifreiðaeign íslendinga hefur farið ört vaxandi á síðustu árum, en jafnframt því hefur kostnaður við bifreiðatryggingar aukist gífurlega. Ýmislegt veldur því að tjón á farþegum, ökumönnum og bifreiðum er hér mikið. Vegir og götur eru engan veginn í því ástandi að þau standist umferðina þar sem hún er mest, og þar að auki hefur þjóðin eignast mikið af bifreiðum á skömmum tíma og verður að viðurkenna að það sem er stundum kallað umferðarmenning, virðist ekki hafa skotið hér djúpum rótum enn sem komið er. Er því reynslan sú, að tryggingatjón eru gífurlega mikil og hafa farið ört vaxandi. Kemur þetta eðlilega fram í feiknamiklum tryggingakostnaði, sem er orðinn verulegur útgjaldaliður þegar þess er gætt, að fjöldi bifreiða í landinu gefur til kynna að flestar fjölskyldur muni hafa umráð bifreiðar eða eiga a. m. k. eina bifreið. Það væri því til mikils að vinna ef unnt reyndist að draga úr þessum kostnaði og gera bifreiðatryggingar á einn eða annan hátt hagkvæmari en þær hafa verið.

Sams konar vandamál og þetta hafa í öðrum löndum leitt til þess að fram hafa komið hugmyndir um veigamiklar breytingar á tryggingakerfi bifreiða og hafa þær sérstaklega verið reyndar nú undanfarið í Bandaríkjunum og Kanada, ef dæma má eftir almennum fréttum sem við flm. höfum um þau mál lesið.

Í Bandaríkjunum ber mest á svokölluðum „no fault“ bifreiðatryggingum sem fyrst voru teknar upp í einu af fylkjum landsins árið 1971, enda þótt alllangur aðdragandi hafi verið að því að þær væru teknar í framkvæmd og málið ítarlega rætt áður. Síðar hafa fjöldamörg önnur fylki tekið upp slík kerfi, þó í nokkuð mismunandi myndum, og fram hafa komið í þinginu í Washington till. um að skylda öll fylkin til þess. Það er sameiginlegt þessum kerfum að greiðslur tjóna fara fram án tillits til sakar og þær eiga sér stað innan tiltekins tíma sem er allt niður í 30 daga. Sparast við þetta feiknamikil málaferli, enda er reynslan sú að lögfræðingar eru ekki allt of hrifnir af kerfinu en tryggingafélög hafa yfirleitt verið hlynnt því. Það er talin mjög mikil framför að bótamál fást afgreidd á mun skemmri tíma en áður. Þá hefur reynslan orðið sú að iðgjöld hafa lækkað, sums staðar verulega. Sem dæmi má nefna að hjá hinu gagnkvæma samvinnutryggingafélagi Allstate, sem er eitt af stærstu tryggingafélögum þar í landi, lækkaði iðgjald í tilteknum algengum flokki bifreiðatrygginga í New York úr $134 í $85 og hjá öðrum félögum eilítið minna, en öllum verulega.

Í Kanada hefur þróunin í þessum málum orðið með dálitið öðru móti. A. m. k. tvö kanadísku fylkin, slétturíkin Manitoba og Saskatehewan, hafa tekið upp sams konar kerfi án megintillits til sakar, sem einnig hefur þá kosti að bætur eru greiddar mjög fljótt. En sá er munurinn að í þessum kanadísku fylkjum hafa bifreiðatryggingar verið sameinaðar á eina hönd í opinberu fyrirtæki. Í Manitoba gengur þetta kerfi t. d. undir nafninu „Autopak“ og er í höndum opinbers félags. Það kerfi tók til starfa 1971 og hefur þótt gefast mjög vel.

Ég mun ekki fara nánar út í að lýsa þessum kerfum, enda vil ég taka skýrt fram að við flm. ætlum okkur ekki þá dul að við séum sérfræðingar í bifreiðatryggingum. Hins vegar flytjum við þetta mál sem neytendur og okkar sjónarmið er mótað út frá hagsmunum neytandans og þá um leið almennum þjóðarhagsmunum. Ég vil minna á að efni till. er einmitt að fá sérfræðilega rannsókn á því hvort þessi kerfi, sem breiðast út í tveimur af mestu bílalöndum veraldarinnar, fela í sér einhverjar nýjungar sem gætu átt við íslenskar aðstæður og komið okkur

að einhverju leyti að sama gagni og þau virðast hafa gert þar sem þau hafa verið reynd.

Herra forseti. Ég hef ekki fleiri orð til að fylgja þessari till. úr hlaði, en vil leggja til að þegar umr. þessari lýkur verði till. vísað til allshn.