04.03.1975
Sameinað þing: 46. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2128 í B-deild Alþingistíðinda. (1704)

110. mál, nefndarskipan um áfengismál

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þessa till. Ég kem hér upp til þess eins að lýsa yfir eindregnum stuðningi mínum við hana eins og hún liggur fyrir, og ég get sagt í leiðinni að ég hefði getað tekið undir hvert orð hv. flm., Helga F. Seljans, í grg. hans og framsögu fyrir henni.

Við höfum oft orð á því að ástandið í þessum málum fari æ versnandi og það líði að því að það geti varla orðið verra. Og ég vil eindregið taka undir það með hv. 1. flm., að okkur virðist Alþ. hingað til hafa verið furðu tómlátt um að sinna þessum málum, það er varla að nokkur telji það þess virði að taka til máls um það. Það hefur verið leitt hjá sér. Jafnvel brennandi spurning eins og það, hvort afnema eigi vínveitingar í opinberum veislum, hefur ekki verið virt viðlits af hv. alþm.till. var hér til umr. áður og ég lýsti afstöðu minni þar og mun ekki endurtaka það hér.

En eitt af því, sem hefur fengið okkur til að hrökkva við alveg núna nýlega vegna þessara áfengismála allra, eru fréttir um það að nú fyrir skömmu var hækkað verulega verð á áfengi og næstu 3 daga var selt í áfengisverslunum Reykjavíkur áfengi fyrir — ég held ég muni það rétt — 6 millj. kr. og var vitnað í þetta sem hrikalega aukningu. Þetta kemur dálítið illa heim og saman við það sem maður hefur ímyndað sér, að fjárhagur fólks væri heldur að þrengjast um þessar mundir, heldur en hitt, en færir okkur í rauninni heim sanninn um það sem við vissum áður að fæðis- og fatakaup fjölskyldunnar eru látin sitja á hakanum ef brennivínsdropinn er annars vegar. Síðasti aurinn er látinn renna til áfengiskaupa frekar en til brýnustu lífsnauðsynja.

Hv. 7. landsk. lýsti á mjög greinargóðan hátt, að ég tel, almennum viðhorfum fólks til þessara mála, þó að við höfum of lengi gert okkur sek um að taka undir, en aðhafast lítið eitt. Hvað getum við gert? Ég tel að skipun slíkrar n., eins og lagt er til í þessari till., geti alla vega aldrei skaðað, og ég er nokkurn veginn sannfærð um að hún mundi gera töluvert gagn, sé hún skipuð samviskusömum mönnum sem þekkja sitt ætlunarverk. Þess vegna tel ég þetta jákvætt spor í rétta átt sem við verðum að fylgja eftir að verði annað en orðin tóm. Ég vil eindregið taka undir þau orð að almennt ábyrgðarleysi í þessum efnum er það sem háir okkur hvað mest í að ástandið sé bætt að nokkru marki. Þetta ábyrgðarleysi virðist því miður fara fremur vaxandi en hitt.

Ég tel mjög athyglisverðar niðurstöður þessarar sænsku n. sem flm. vitnaði í. Hann gat þar um eina 8 liði sem meginniðurstöður. Ég staðnæmist í rauninni við þá alla, en ekki hvað síst við þá skyldu okkar að sporna gegn hinni síauknu áfengisneyslu barna og unglinga, og það kemur þá beint inn á 2. lið niðurstaðnanna, sem var aukin fræðsla í skólunum. Þetta er eitt af þeim atriðum sem búið er að nauða um árum saman, en lítið hefur fengist gert raunhæft í því.

Annað atriði, sem hv. frsm. benti líka á og er að mínu mati hvað alvarlegast í þessu, það er aðgerðaleysi og máttleysi dómsmrn. sem á að fara með úrskurðar og refsivald í þessum efnum. Áfengislögin, sem í gildi eru, eru hreint ekki slæm ef þeim væri framfylgt. Það sem þyrfti að gera væri m. a. að hækka sekt fyrir leynivínsölu til unglinga úr þeim vesæla þúsundkalli, sem ég hygg að hún sé enn í, upp í þungar fjársektir og að því verði ekki borið við að það sé fyrir mannfæð og annir hjá Sakadómi og þeim aðilum, sem eiga að fjalla um þessi mál, sem þessi lög eru lítið annað en orðin tóm. Hér hefur margoft verið knúið á, en með furðulitlum árangri, og í rauninni væri það verkefni út af fyrir síg að breyta þótt ekki væri öðru en þessum tölum í úreltum lögum að þessu leyti með hinni vaxandi verðbólgu í landinu.

Að lokum við ég svo nefna atriði sem hv. 7. landsk. benti á og er hvað allra þyngst á metunum og það er almenningsálitið. Við vitum að svo erfitt sem það er að afla fjár til þarfa mála, þá er enn þá erfiðara að breyta hugarfari og hefðbundnum viðhorfum fólks og þarna er ákaflega veikur hlekkur í þessu öllu saman. Ég held að við verðum þarna eins og annars staðar, ef við ætlum að hafa áhrif, að byrja á sjálfum okkur, gera kröfur til sjálfra okkar og líða ekki það viðhorf sem tíðkast nú að hvaðeina sé afsakað og réttlætt undir því yfirskini að mannveslingurinn hafi verið undir áhrifum. Meðan þetta viðhorf almennings viðgengst og meðan er hlegið að drykkjuóðum manni í staðinn fyrir að aumkast yfir hann, þá er ekki mikilla bóta að vænta. Sterkt almenningsálit gefur það eina fordæmi sem að gagni kemur í þessu, að við leggjumst öll á eitt með að skapa okkur raunsætt og jákvætt viðhorf til þessara mála og vísa á bug því gamla axlaypptingasjónarmiði sem ekki leiðir til neins nema stöðnunar og neikvæðrar þróunar í þessum málum.