05.03.1975
Efri deild: 54. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2130 í B-deild Alþingistíðinda. (1707)

21. mál, trúfélög

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Frv. þetta til l. um trúfélög hefur verið afgr. í hv. Nd. shlj. og að öllu óbreytt eins og það var lagt fyrir d., að því fráskildu sem liggur að hlutarins eðli þar sem nokkur dráttur varð á afgreiðslu málsins, að breytt var ákvæðinu um gildistöku laganna.

Þetta frv. var lagt fram í Nd. á fyrra þingi, en fékk þá ekki afgreiðslu og var reyndar svo seint á ferð að ekki var gert ráð fyrir því að það yrði afgr. þá, enda eðlilegt að mál sem þetta geti legið fyrir tveimur þingum.

Ástæðan til þess, að þetta lagafrv. er flutt, er sú að reglur um utanþjóðkirkjusöfnuði eru gamlar orðnar og ófullkomnar. Það eru ekki ákvæði um það nema í lögum frá 1886 sem lítillega var svo breytt 1904 og þau lög eru naumast miðuð við nútímaaðstæður og veita enn fremur ekki svör við ýmsum spurningum sem á reynir í framkvæmd. Þess vegna hefur þótt rétt að tala saman lagabálk um þetta efni.

Þetta frv. skiptist í 3 kafla. Í I. kafla frv. er fjallað um almennar reglur um aðild manna að trúfélögum en þau ákvæði eru í rauninni staðfesting á þeim reglum sem farið er eftir í framkvæmd nú þegar eins og t. d. 5. gr. En önnur ákvæði eru nýmæli, svo sem aldursmörk til ákvörðunar um aðild að trúfélagi sem eru í 3. og 6. gr. frv.

Í 1. gr. frv. má segja að endurtekin sé og undirstrikuð sú stefnumótun sem felst í 63 gr. stjórnarskrárinnar þar sem mörkuð er reglan um trúfrelsi, en ákvæði 63. gr. stjórnarskrárinnar eru raunar tekin upp í 1. gr. frv. Ákvæði 2. og 4. gr. frv. eru til þess ætluð að leggja áherslu á að skuldbinding til aðildar að trúfélagi nær ekki lengra en vilji manna stendur til hvað sem yfirlýsingum líður og bannað er að taka við ákveðnum heitstrengingum manna innan 20 ára aldurs. Þá eru og markaðar almennar reglur um það hvernig fjalla skuli um inngöngu í og úrsögn úr trúfélagi og um réttarverkanir skráningar í þjóðskrá. Um efni þessa kafla frv. má að öðru leyti, að ég held, vísa til frekari skýringa í aths. sem frv. fylgja.

II. kafli frv. er svo um trúfélög utan þjóðkirkjunnar og eins og ég áðan sagði, þá má segja að í þeim kafla sé að finna aðaltilefnið til þess að ástæða þykir til nú að setja um þetta fastar reglur í lögum. Í fyrstu gr. kaflans, þ. e. a. s. 11. gr. frv., er mælt fyrir um það að heimild sé til stofnunar trúfélaga án þess að nokkuð þurfi að tilkynna um það til stjórnvalda. Félög, sem þannig væri farið um, mundu engu að síður þurfa að gæta þess að taka ekki upp nöfn sem um of líktust nöfnum annars trúfélags þannig að misskilningi gæti valdið. Einnig mundu slík félög sem önnur að sjálfsögðu vera bundin af þeirri skyldu sem 63. gr. stjórnarskrárinnar segir, að ekki megi kenna neitt né fremja sem gagnstætt sé góðu siðferði og allsherjarreglu. Slík félög geta og skv. ákvæðum gr. tryggt sér einkarétt á nafninu þannig að það sé varið fyrir upptöku annarra á því.

Að öðru leyti eru í kaflanum mjög svo ítarleg ákvæði sem gera grein fyrir því m. a. hvaða upplýsingar skuli fylgja umsögn trúfélaga sem sækja um viðurkenningu þá sem þar er um fjallað. Er sú viðurkenning nefnd í frv. skráning. Þetta var að fyrirmynd norskra laga. Verður að ætla að þessar umfangsmiklu reglur, sem gerðar eru til upplýsinga um starfsemi félaga sem skráningar leitar, geti gert hvort tveggja, gefið bendingar um hvernig móta þurfi skipulag og starfshætti slíkra félaga og jafnframt veitt ríkisvaldinu nokkra tryggingu fyrir því að félög, sem fengin yrði framkvæmd ábyrgðarmikilla embættisverka í hendur, væru í raun og veru svo mótuð í skipulagi og starfsháttum að ástæða væri til þess að fela þeim slík störf eða a. m. k. að óhætt væri að fela þeim slík störf sem löggjafinn felur annars óneitanlega fyrst og fremst starfsmanni ríkisins sjálfs.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara að rekja þessi ákvæði hér eða lesa þau upp, en vísa til aths. sem með frv. fylgja, t. d. um skýrslugerð skráðra trúfélaga, eftirlit með embættisstörfum á þeirra vegum, skilyrði til að gegna forstöðumanns- eða prestsstarfi, skyldur þeirra og embættisábyrgð. Um þetta leyfi ég mér að vísa til aths. frv., en sé ekki ástæðu til að orðlengja frekar um það.

Það kom til athugunar hvort ekki væri rétt að marka í frv. einhverja lágmarkstölu safnaðarmeðlima sem skilyrði fyrir skráningu, en frá því var horfið. Það er líka í samræmi við fyrirmynd frá norðmönnum, en í upphaflega frv. þeirra um þetta efni var sett lágmarkstala 50 félagsmanna, en frá henni var horfið í endanlegu frv.-gerðinni sem varð að lögum er sett voru 1969. Vitaskuld má segja að slík lágmarkstala geti komið til greina, þó að hún út af fyrir sig þurfi ekki að segja mikið til um styrk eða innihald samtaka og gæti, ef hún væri sett, e. t. v. leitt til þess að hún yrði höfuðviðmiðunin þegar um það væri að ræða hvort skráning fengist eða ekki. Ég bendi aðeins á þetta til athugunar.

Þetta frv. er tekið saman á vegum dómsmrn. og ef hv. n. skyldi óska eftir upplýsingum, sem ekki er að finna í aths. þeim sem frv. fylgja, þá er sjálfsagt að þeir, sem tekið hafa þetta frv. saman, komi til viðtals við n. ef hún skyldi óska þess. Ég leyfi mér því, herra forseti, að mælast til þess að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.