20.11.1974
Neðri deild: 9. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 261 í B-deild Alþingistíðinda. (171)

4. mál, ráðstafanir í sjávarútvegi

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja öllu lengur umr. um þetta mál enda sjálfsagt mál til komið að það komist til nefndar, en ég vil þó gera örfáar athugasemdir við það sem fram kom hjá hæstv. sjútvrh, í umr. áður.

Hæstv. ráðh. taldi, eins og hann orðaði það, að sjómenn væru ekki eins ósanngjarnir að því er þetta mál varðaði og núv. stjórnarandstaða og tilgreindi þar ákveðin nöfn. Það er sem sagt orðin ósanngirni af hálfu sjómanna hjá hæstv. sjútvrh. ef þeir taka ekki þegjandi og hljóðalaust við slíkri kjaraskerðingu eins og hér er framkvæmd í reynd á kjörum sjómannastéttarinnar í landinu. Og þegar hann er að tala um, að sjómenn séu ekki eins ósanngjarnir og stjórnarandstæðingar, þá er engu líkara en hann hafi ekki fengið um það vitneskju hvaða ályktanir þing Sjómannasambandsins og ýmsir hagsmunahópar innan sjómannasamtakanna hafa samþ. og hver ummæli ýmissa forustumanna innan sjómannasamtakanna hafa verið á undanförnum víkum, frá því að þessi lög voru sett.

Þing Sjómannasambands Íslands hefur mótmælt þessum brbl. harðlega og talið þau freklega árás á kjör sjómannastéttarinnar í landinu.

Eigi að síður segir hæstv. ráðh., að sjómenn séu ekki jafnósanngjarnir og núv. stjórnarandstæðingar, og þá er hann þar með að segja að það væri ósanngirni af hálfu sjómannasamtakanna ef þau mótmæltu slíkum ráðstöfunum eins og hér er verið að ræða um.

Það er ekki lengra síðan en nokkrir dagar að sambandsstjórn Alþýðusambands Vestfjarða gerði ályktun í þessu máli, þar sem þessum brbl. er harðlega mótmælt sem árás á kjör sjómannastéttarinnar. Eftir sem áður er haldið áfram bæði af hæstv. sjútvrh. svo og endurtekið að sjálfsögðu í aðalmálgagni stjórnarflokkanna, Morgunblaðinu, í morgun að hér sé ekki um að ræða breyt. á skiptakjörum sjómanna.

Þá spurði hæstv. sjútvrh.: Telja þessir þm. að útgerðin geti ein tekið á sig alla hækkunina? Það er fjarri því, að hér sé um neitt slíkt að ræða. Það hefði verið miklu nær að snúa þessari spurningu við og spyrja hæstv. sjútvrh. hvort hann telji að sjómenn einir geti tekið á sig þetta, en það er í reynd það sem verið er að gera með þessum brbl.

Þá spurði hæstv. sjútvrh. einnig: Af hverju afnámu þessir menn, meðan þeir voru í stjórnaraðstöðu, ekki þetta ranglæti sem hér er um að ræða? Staðreyndin er sú að það var stigið verulegt skref í þá átt að afnema það óréttlæti sem viðreisnarstjórnin kom á laggir í þessum efnum á sínum valdaferli. En það hefði sennilega þurft lengri tíma en 3 ár til þess að afnema allt það óréttlæti sem sú ríkisstj. stóð fyrir, ekki bara í garð sjómannastéttarinnar, heldur og almennt í garð launþega í landinu á þeim árum, sem hún fór með völd hér á landi.

Ég held að það fari ekkert á milli mála, hversu oft sem hæstv. sjútvrh. segir það hér á Alþ., eða málgögn hæstv. ríkisstj. halda því fram, að hér er í raun og veru um að ræða stórkostlega skerðingu á kjörum sjómannastéttarinnar í landinu, — skerðingu sem sjómannastéttin hefur ekki látið ómótmælt og mun að sjálfsögðu ekki láta líðast að svo harkalega sé troðið á rétti þessarar stéttar eins og þessi brbl. gera ráð fyrir.

Þá vék hæstv. ráðh. að því að viðskilnaður fyrrv. ríkisstj. hefði verið á þann veg í þessum efnum að sendinefnd eftir sendinefnd hefði komið í kvörtunarleiðöngrum í hans ráðuneyti vegna þess hversu slæm fjárhagsaðstaða væri hjá útgerðarfyrirtækjum almennt í landinu. Ég held að það sé ekkert nýtt að sendinefndir, ekki bara af hálfu útgerðarmanna heldur og ýmissa annarra hópa atvinnurekenda í landinu, komi á fund stjórnvalda og kvarti og kveini og telji sig hafa orðið fyrir skertum hlut í þessum efnum.

Hæstv. ráðh. vék einnig að því í þessu sambandi að hann hefði nú vegna þessa slæma ástands í útgerðarmálum þjóðarinnar lagt drög að því að bankarnir könnuðu fjárhagsstöðu þessara fyrirtækja. Nú er það út af fyrir sig kannske ekki ástæða til þess að vera að gagnrýna. Ég vil þó vekja athygli á því að ég tel ekki nægjanlegt þegar verið er að gera ráðstafanir sem flytja hundruð millj. eða jafnvel þús. millj. frá launafólki yfir til atvinnufyrirtækja, þá tel ég ekki nóg í slíkum tilvíkum að ríkisbankarnir, þ.e.a.s. þeir aðilar sem mestra hagsmuna eiga að gæta í þessum efnum, — að það sé lagt á þeirra herðar einna að gera slíka könnun, þar eigi að koma til fulltrúar þeirra aðila sem verið er að flytja fjármagnið frá, þ.e.a.s. fulltrúar launþegahópa sem verið er að flytja fjármagnið frá yfir til atvinnufyrirtækja. Það verður því að mínu áliti að teljast nánast sýndarmennska ein þegar verið er að tala um að láta ríkisbanka fara ofan í kjölinn í sambandi við fjármál þessara fyrirtækja. Það á að gerast á miklu breiðari grundvelli. Og það verður ekki gert þannig að mark verði á takandi eða fólk fái trú á því að hér sé um réttlætismál að ræða með slíkum gífurlegum fjármagnsflutningum frá launþegum yfir til atvinnufyrirtækja, nema því aðeins að það verði gert á breiðari grundvelli og fulltrúar þeirra hópa, sem verið er að taka fjármagnið af, fái að segja sitt álit um þá stöðu sem á að fara að rannsaka í sambandi við fjárhagsstöðu fyrirtækjanna.

M.a. vegna þessa hefur komið hér fram á þingi þáltill. sem stefnir í þessa átt, að það verði í reynd gerð könnun á fjárhagsstöðu fyrirtækjanna og þá með þátttöku launþegahópanna eða þeirra aðila, sem verið er að flytja fjármagnið frá. Það er ekki verjandi að mínu áliti að ráðstafanir sem þessar séu gerðar, sem koma svo harkalega við eina ákveðna stétt, stétt sem ég tel að hafi í mörgum tilvikum átt í vök að verjast að því er varðar launakjör og aðstöðu, þá er ekki verjandi að slíkar ráðstafanir séu gerðar án þess að fyrir liggi á borðinu í reynd sú fjárhagsstaða eða þeir erfiðleikar sem þessi fyrirtæki búa við.

Það er ekkert nýtt að heyra það á Íslandi að atvinnufyrirtæki í þessari og þessari greininni standi það illa að stjórnvöld þurfi að grípa þar inn í með ráðstöfunum eins og hér er um að ræða, og vissulega hafa sennilega öll stjórnvöld gert slíkt. En það er lágmarkskrafa, að því er mér finnst, að slík könnun eigi sér stað á það breiðum grundvelli að almenningur í landinu og þá ekki síst þeir, sem þetta fé er tekið af, sannfærist um að það sé í reynd þörf eða nauðsyn á slíkum fjármagnsflutningum til atvinnufyrirtækja.

Að sjálfsögðu gerði hæstv. sjútvrh. ýmsar athugasemdir við það sem fram hefur komið hér af hálfu stjórnarandstæðinga í þessu máli. Ég ætla ekki að fara að rekja það öllu frekar, en mér fannst nokkuð athyglisvert að það var engu líkara en hæstv. sjútvrh. kæmi það mjög spánskt fyrir sjónir að fulltrúar Alþfl. skyldu vera að gagnrýna þessar ráðstafanir og mátti skilja svo að það hefðu verið þeir tímar sem sá flokkur hefði staðið að álíka ráðstöfunum. Það er að vísu rétt, það var um allt of langt árabil, sem Sjálfstfl. tókst að fá Alþfl. til að styðja slíkar aðgerðir eins og hér er um að ræða. En vonandi — vonandi segi ég — er því tímabili lokið og Alþfl. tekur upp harðari verkalýðsstefnu, enda boðað á flokksþingi hinu síðasta, að svo muni verða, og að sjálfsögðu er því fagnað.

Þá spurði hæstv. sjútvrh.: Vilja þessir menn, þ.e.a.s. stjórnarandstæðingar, halda því fram, að hér sé um blekkingar og lygi að ræða af hálfu Þjóðhagsstofnunar sem gerði úttekt á þessum málum á s.l. sumri? Ég held að engum hafi dottið í hug að hér væri um slíkt að ræða.

Það kemur beinlínis fram í þeirri skýrslu, sem Þjóðhagsstofnunin gerði á úttekt, að það er um mismunandi vanda atvinnufyrirtækja í landinu að ræða. Það er ekki almennur vandi hjá þessum fyrirtækjum, hann er bundinn við ákveðnar atvinnugreinar. En ég vil a.m.k. láta það koma fram af minni hálfu að hjá þessum sérfræðingum sem og öðrum er fyllsta ástæða til þess að gera athugasemdir og jafnvel vera gagnrýninn á þær spár og þá úttekt sem þeir sérfræðingar gera hverju sinni að því er þetta varðar. Það hefur sýnt sig að það er full þörf á slíku og það á ábyggilega við í þessu tilfelli eins og fjölmörgum öðrum.

Ég skal svo ekki fjölyrða öllu frekar um þetta, en ég vil ítreka það að hversu oft sem hæstv. sjútvrh. heldur því fram hér á Alþ. að hér sé ekki um að ræða breyt, á skiptakjörum sjómanna, þá er það rangt. Hér er í reynd verið að breyta gildandi skiptakjörum gagnvart sjómannastéttinni, fjármagnsflutning, sem getur sennilega numið allt að 2000 millj., frá sjómönnum yfir til útgerðarfyrirtækja. Og hvað sem stjórnarliðið segir um þetta hér eftir sem hingað til, þá verður þessari staðreynd ekki breytt.