05.03.1975
Neðri deild: 53. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2137 í B-deild Alþingistíðinda. (1713)

33. mál, samræmd vinnsla sjávarafla

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að taka þátt í umr. um þetta mál við 2. umr. þess. Ég hafði fyrir nokkru skýrt hæstv. sjútvrh. frá afstöðu minni til þessa máls, skýrt frá þeirri afstöðu að ég gæti ekki stutt málið eins og það lægi fyrir og ætlaði satt að segja að láta við það sitja. Mér er kunnugt um að ráðh. hefur borist slíkar ábendingar frá fleiri samþm. sínum. En þrátt fyrir þær skoðanir sem hann hefur heyrt og þrátt fyrir þessar ábendingar hefur hann að því er virðist ákveðið að halda frv. til streitu í óbreyttu formi eins og það kemur úr nefnd.

Það, sem veldur því, að ég stend nú upp, er sú dæmalausa ræða sem hæstv. ráðh. flutti hér s. l. mánudag. Hann flutti hér langa ræðu og það verður að segja eins og er, að hann ögraði mönnum upp í þennan ræðustól, hann ögraði þeim mönnum upp í ræðustól sem hafa sagt honum frá því að þeir væru andvígir málinu, en af tillitssemi við hann og tillitssemi við einingu í þingsölum höfðu ekki hugsað sér að láta þessa skoðun í ljós í löngu máli eða öðruvísi en þá við atkvgr. Mér er hlýtt til hæstv. sjútvrh., og ég er þeirrar skoðunar að það hafi ekki verið völ á betri manni í þetta embætti, það segi ég af heilum hug og fullri einlægni. (Gripið fram í.) Það er nú þannig að þó að ég sé á öndverðum meiði við einhverja menn og mér sé hlýtt til þeirra, þá fer ég ekkert í felur með mínar skoðanir, og ég geri ráð fyrir því að hann eins og vonandi fleiri þm. séu menn til þess að taka gagnrýni og skoðanaskiptum hér í þingsölum, hvort sem menn kalla það skammir eða ekki. Það dregur ekki úr áliti mínu á ráðh., enda þótt ég sé ekki samþykkur þessu frv. eða þeim málatilbúnaði sem hér er hafður uppi.

Það frv., sem á dagskrá er og hefur valdið dellum, heitir frv. til l. um samræmda vinnslu sjávarafla og veiðar sem háðar eru sérstökum leyfum. Frv. þetta er ekki langt, eitthvað 5 gr., en deilt er fyrst og fremst um fyrstu tvær gr. og ég ætla að leyfa mér að lesa þær til upprifjunar — með leyfi forseta.

1. gr. hljóðar svo:

Sjútvrn. getur samkv. lögum þessum sett almennar og svæðisbundnar reglur er stuðli að samræmingu milli veiðiheimilda samkv. sérstökum leyfum rn. til rækju- og skelfiskveiða og vinnslugetu þessara greina fiskiðnaðarins, m. a. með skiptingu afla milli vinnslustöðva og/eða þeirra báta sem veiðileyfi hljóta.“

2. gr. hljóðar svo:

„Í þeim greinum veiða sem háðar eru sérstökum leyfum samkv. 1. gr., skal leita leyfis sjútvrn. til að koma á fót vinnslustöðvum eða til aukningar á afkastagetu þeirra sem fyrir eru. Rn. getur synjað um slík leyfi ef ekki er fyrirsjáanleg varanleg aflaaukning á viðkomandi svæði né samdráttur í starfsemi annarra vinnslustöðva á svæðinu. Opinberum fjárfestingarlánasjóðum skal tilkynnt um synjun slíkra leyfa.“

Þannig hljóða fyrstu tvær greinar þessa frv. Það er ekki tilviljun að frv. var lagt fram nokkru eftir að upp kom deila um veiðar og vinnslu slíks sjávarafla norður í Húnaflóa. Það er ekki tilviljun að hæstv. ráðh. blandaði saman mjög í ræðu sinni þessum tveim málum, þ. e. a. s. deilunni við Húnaflóann og frv. sem hér er á dagskrá, þegar hann talaði hér s. l. mánudag. Deilan varðandi veiðarnar í Húnaflóa stafar af því að ráðh. setti ákvæði inn í reglugerð, sem kveður á um að hann geti leyft eða synjað bátum að veiða eða stöðvum að vinna sjávarafla. Menn hafa dregið í efa að þetta ákvæði, sem ráðh. setur í reglugerð, hafi lagastoð. Í framhaldi af þessum ágreiningi er frv. flutt.

En þá hlýtur auðvitað sú spurning að vakna: Til hvers er slíkt lagafrv. flutt, ef ráðh. hefur heimild til þess að setja slíkar reglugerðir? Til hvers þarf að búa til nýja löggjöf, ef löggjöfin, sem nú þegar er í gildi, heimilar ráðh. slík reglugerðarákvæði? Það er tvennt sem blasir við, sem er mjög einfalt: Annaðhvort hefur ráðh. ekki heimildina, hefur ekki lagastoðina og frv. þetta er nauðsynlegt eða að ráðh. hefur heimildina og frv. er óþarft. Eftir því sem ráðh. hefur hagað sér í málinn og með því að setja ákvæðið inn í reglugerðina, hlýtur hann að telja sig að hafa lagastoð, m. ö. o. þá hlýtur þetta lagafrv. að vera óþarft.

Þetta frv. felur það eitt í sér að ráðh. fái vald til þess að synja eða leyfa veiðar eða vinnslu undir þessum kringumstæðum sem frv. fjallar um. Það felur ekkert annað í sér. Og mér hefur skilist á málflutningi hæstv. ráðh. að hann telji sig þurfa á þessu frv. að halda til þess að geta skipt slíkum veiðum og slíkri vinnslu þannig að það komi sér best fyrir viðkomandi aðila. En þá auðvitað dregur maður þá ályktun að ákvarðanir hans varðandi reglugerðina styðjist ekki við lög. Hvorugur kosturinn er góður.

Frv. felur í sér, eins og ég hef lesið upp, ótvírætt og algert vald rn. til þess að synja um leyfi til þess að setja upp vinnslustöðvar. Nú skal að vísu viðurkennt að hér er um sérstætt mál að ræða vegna þess að það fjallar um samræmingu á veiðiheimildum og vinnslu, þegar um er að ræða sjávarafla sem þarf að takmarka veiðar á (Sjútvrh.: Aðeins tvær tegundir af sjávarafla.) Aðeins tvær tegundir sjávarafla, það skal fyllilega viðurkennt að hér er um sérstakt og afmarkað mál að ræða. Og út frá þessu sjónarmiði má vel réttlæta að einhverjar takmarkanir séu settar um veiðar eða vinnslu. Ég er ekki svo þröngsýnn að geta ekki fallist á þetta. Slíkar takmarkanir geta átt rétt á sér. En þá kemur upp þessi spurning: Hvað eiga þær að ná langt og með hverjum hætti eiga þessar takmarkanir að vera? Ég held að um þetta snúist ágreiningurinn. Eigum við að leyfa rn. að hafa alfarið allan rétt til þess að takmarka veiðarnar og vinnsluna eða eigum við að beita einhverjum öðrum aðferðum? Sjálfstfl., sem hæstv. ráðh. er fulltrúi fyrir hér á þingi, hefur ávallt verið tregur til að fallast á of mikil ríkisafskipti. Hann hefur verið í grundvallaratriðum andvígur of miklum ríkisafskiptum og telur varhugavert að heimila eða setja inn í lög ákvæði þar sem rn. eða ráðh. fái óskipt vald. Þess vegna þarf engum að koma á óvart og allra síst hæstv. ráðh. þótt ýmsir sjálfstæðismenn og að sjálfsögðu ýmsir fleiri hafi við það að athuga að slíkt frv. sé gert að lögum sem felur í sér alræðisvald rn. hvað þetta snertir. Það væri miklu frekar óeðlilegt ef slíkar aths. kæmu ekki fram. Ég get ekki ímyndað mér annað en hæstv. sjútvrh., Matthías Bjarnason, geri sér þetta fullkomlega ljóst, vegna þess að hann er vaxinn upp úr þeim jarðvegi. Hann hefur tilheyrt þeim mönnum sem hafa barist fyrir þessari stefnu og er í hjarta sínu og hvað stjórnmálaskoðun snertir sammála þessum grundvallarskoðunum.

Það má vel vera að það hafi verið ómaklega vegið að hæstv. ráðh. í ræðu og riti í umr. um deilumálið við Húnaflóa. Og hann hefur að sjálfsögðu fullan rétt til þess að svara fyrir sig. Hann hefur meira að segja tekið fram að hann hafi rétt á því að reiðast eins og aðrir, og mér er ljóst að honum getur orðið það á eins og mörgum fleiri. En ég held þó að ráðh. verði að hafa þrek og þroska til þess að taka því að menn séu honum ósammála. Og ég held að skap og tilfinningar ráðh. afsaki ekki þá ræðu sem hann flutti hér á mánudaginn. Hún var lítilsvirðing gagnvart þeim sjónarmiðum og rökum sem hafa komið fram gagnvart þessu máli og hún var að miklum hluta til háðsglósur um þá aðila sem fengu þetta mál til umsagnar frá n. í þinginu.

Hér hefur verið gerð grein fyrir afstöðu Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna og skal ég ekki víkja frekar að því. Mér fannst vera ómakleg ummæli hæstv. ráðh. í garð Landssambands ísl. útvegsmanna, þar sem hann gerir þeim upp annarlegar hvatir þegar um er að ræða þeirra umsögn. Það, sem ég vildi þó sérstaklega víkja að, eru ummæli ráðh. varðandi ályktun sem Samband ungra sjálfstæðismanna sendi frá sér í tilefni af þessu frv., ekki þannig að það skipti neinu meginmáli, heldur hitt, að það er ekki skynsamlegt, það er ekki drengilegt af ráðh. Sjálfstfl. að ráðast þannig að samtökum í sínum eigin flokki sem hafa stutt hann og þennan flokk til áhrifa og til aukins fylgis í þjóðfélaginu. Það er auðvitað bæði ómaklegt og rangt að kalla ályktun frá Sambandi ungra sjálfstæðismanna um þetta mál 19. aldar kenningar, og ráðh. var svo mikið niðri fyrir að hann meira að segja kallaði hana 18. aldar kenningar. Það þurfti að leita svo langt. En af þessu tilefni ætla ég að leyfa mér að lesa upp þessa ályktun sem kölluð er 19. aldar kenning, svo að það fari ekki á milli mála hvað standi í þessari ályktun og hver fyrir sig geti áttað sig á því hvað það er sem ráðh. kallar slíkum nöfnum. Með leyfi forseta, hljóðar þessi ályktun svo:

„Stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna mótmælir harðlega frv. til l. um samræmda vinnslu sjávarafla og veiðar, sem háðar eru sérstökum leyfum, er nú liggur fyrir Alþ. Stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna telur að sjútvrn. hafi alla möguleika á því í dag samkv. núgildandi l. að takmarka bæði afla og sókn og vernda þannig stofna rækju og skelfisks eins og rétt þykir hverju sinni.“

Varla geta þetta talist 19. aldar kenningar. Síðan heldur áfram og segir:

„Þau ákvæði frv., sem stjórn SUS mótmælir sérstaklega og telur afar varhugaverð, eru ákvæði 1. gr. frv., þar sem sjútvrh. og embættismönnum hans er veitt heimild til að setja reglur um skiptingu afla milli vinnslustöðva, og enn fremur ákvæði 2. gr. frv., þar sem gert er ráð fyrir því að sömu aðilar, geti upp á sitt eindæmi ákveðið hverjir byggi vinnslustöðvar eða auka afkastagetu þeirra sem fyrir eru í þeim greinum veiða sem háðar eru sérstökum leyfum samkv. 1. gr.

Varla geta þetta kallast 19. aldar kenningar, því að þetta er eingöngu frásögn af því sem stendur í frv., staðreyndir. Í 3. mgr. þessarar ályktunar segir:

„Ljóst er að frv. stóreflir ríkisafskipti og þjappar öllu valdi í því máli, sem frv. ræðir um, í hendur ráðh. sjávarútvegsmála hverju sinni, sem auðveldlega getur leitt til misnotkunar og hlutdrægni.“

Ég lít svo á að þarna sé um að ræða staðreyndir, líka að því leyti að frv. þjappar valdi saman á hendur ráðh. Það fer ekkert á milli mála. Ég geri fastlega ráð fyrir því, að enginn mótmæli því að það getur auðveldlega leitt til misnotkunar og hlutdrægni. — Það er enginn að segja að það verði svo. En þetta er skoðun sem sett er fram, að það geti leitt til misnotkunar og hlutdrægni ef valdi er þjappað saman á hendur eins aðila. Og þetta er engin 19. aldar kenning.

Þessi kenning á jafnvel mest og best við í dag, þegar hætta er á því að valdi sé þjappað saman á einn stað, þegar ákveðnar tilhneigingar stjórnmálaflokka og hreyfinga eru uppi um það að sölsa undir sig öll völd. Það er staðreynd, það er söguleg staðreynd að slíkt vald á einni hendi getur leitt til misnotkunar og hlutdrægni. Að lokum segir í þessari ályktun:

„Stjórn SUS minnir þm. á, sérstaklega þm. Sjálfstfl., að of mikilli ríkisíhlutun um atvinnurekstur hefur alltaf fyrr eða síðar fylgt stöðnun, spilling og versnandi lífskjör.“

Þá er þessari ályktun lokið. Það, sem segir í síðustu mgr., er þetta, að of mikil ríkisíhlutun hefur alltaf fyrr eða siðar leitt til stöðnunar, spillingar o. s. frv. Ætlar hæstv. sjútvrh. að mótmæla þessu? Ætla þm. Sjálfstfl. að mótmæla þessu? Nei. auðvitað mótmæla þeir því ekki, vegna þess að þetta hefur verið grundvallarskoðun Sjálfstfl. um áraraðir og flokkurinn hefur raunverulega byggst upp á þessu sjónarmiði. Og ég er sannfærður um það, ég leyfi mér að fullyrða það að einmitt þessi lífsskoðun, þessi skoðun stjórnmálanna hefur aflað flokknum fylgis með þeim afleiðingum að hann er stærsti flokkur þjóðarinnar. Ég held ekki að frjálshyggja sé andfélagsleg, og ég held að þó að menn spyrni við fótum gagnvart of miklu valdi til ráðh. eða rn., þá sé það ekki andfélagsleg stefna. Ég vil taka undir það sem segir í þessari ályktun og ég vil vara við því að frv. sé samþykkt í þeirri mynd sem það liggur fyrir.

Ráðh. sagði í ræðu sinni um daginn að hann væri félagshyggjumaður, — hann væri ekki sósíalisti, hann væri félagshyggjumaður, og af því að hann væri félagshyggjumaður, að mér skildist, þá legði hann þetta frv. fram með góðri samvisku. En það, sem menn eru að benda á, er að þetta gefi fordæmi, gefi möguleika til misnotkunar. Við skulum taka dæmi úr versluninni. Nú eru þrengingar í versluninni og efnahagsmálum almennt á Íslandi og sumir ráðamenn komast að þeirri niðurstöðu að það þurfi að takmarka verslun, innflutning eða smásölu eða hvað það nú er vegna aðsteðjandi vanda. Þá væri ekkert eðlilegra en menn hugsuðu eins og hæstv. ráðh. hefur gert í þessu máli, legðu fram frv. sem fæli það í sér að viðkomandi rn. hefði óskorað vald til þess að ákveða hvort menn mættu reka verslun eða stunda verslunarstörf, hvort það mætti setja upp fyrirtæki eða ekki, hvaða vörumagn mætti flytja inn eða selja og hvað ekki. Þetta er í sjálfu sér í eðli sínu sambærilegt, þó að á því sé kannske einhver stigsmunur.

Ég er þess fullviss að ég og ráðh. erum algerlega sammála um að það sé varhugavert að fara út á þessa braut og það sé skiljanlegt að menn spyrni við fótum og hreyfi aths. við þessu frv. Þess vegna er óþarfi að vera að kasta hnútum og ónotum í garð þeirra sem gera aths. Ég tel að það sé hægt að ræða þetta mál af fullri rósemi og sanngirni. Ef hæstv. ráðh. telur eðlilegt að takmarkanir á vinnslustöðvum varðandi þennan afla þurfi að koma til, þá eru margar aðrar leiðir fyrir hendi heldur en sú sem frv. felur í sér. Slíkar ábendingar hafa komið fram, m. a. í tillöguformi hér í þinginu. Og af hverju má ekki skoða þær? Af hverju má ekki taka tillit til ábendinga og aths. sem koma frá þm., hvað þá samflokksþm.? Það hefur stundum verið sagt að ef menn hefðu ekki til að bera sveigjanleika í pólitík, þá hefðu þeir ekkert að gera í pólitík. Og það er alkunna og vitað mál að frv. hér á þingi taka alloft breytingum í meðförum þingsins, jafnt stjfrv. sem önnur frv. Í þingflokki sjálfstæðismanna ber þetta þannig að, að ráðh. tilkynna um að þeir hyggist leggja fram eitthvert ákveðið mál. Stundum koma fram aths., stundum ekki, en það er alltaf skilið svo, að menn hafi rétt til þess að gera aths. við einstaka þætti þessara frv. og það hefur verið svo í reynd.

Um þessar mundir eru mörg frv. í meðförum þingsins sem vitað er að muni breytast og þm. Sjálfstfl. hafa gert aths. við sem mun verða tekið tillit til. Þm. hljóta að hafa rétt til þess að gera aths. og breyta frv., enda þótt þeir hafi léð máls á því að frv. séu lögð fram. Nú er farið fram á það að þetta mál sé skoðað af rósemi og sanngirni og reynt að taka tillit til þeirra sjónarmiða, þeirra aths. sem fram hafa komið. Ég hef sagt ráðh. frá því fyrir allnokkru að ég geti ekki stutt málið eins og það liggur fyrir, og eins og ég sagði áðan, þá veit ég að margir hafa sett fram sama sjónarmið gagnvart ráðh. Í fyrsta lagi tel ég að hann þurfi ekki að leita þessarar heimildar ef hann heldur fast við það að hann geti breytt reglugerðum samkv. núgildandi lögum. En ef hann telur sig þurfa þess og ef menn fallast á að einhverjar takmarkanir þurfi að vera fyrir hendi, sem ég vil alls ekki útiloka, þá held ég að það sé hægt að nálgast það vandamál og setja þær takmarkanir með öðrum hætti en þeim að veita rn. svo algert vald sem þetta frv. felur í sér.