05.03.1975
Neðri deild: 53. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2152 í B-deild Alþingistíðinda. (1716)

33. mál, samræmd vinnsla sjávarafla

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Ég vil gjarnan byrja á því að þakka hæstv. ráðh. sjávarútvegsmála fyrir að hann hefur skipt um tón í sínum málflutningi. Hann hefur flutt þá ræðu, sem hann var að ljúka við, af hógværð og án verulegrar áreitni, sem er mikill munur frá því er hann tók næst áður til máls í þessum ræðustól.

Það hefur borið hér á góma að frv. þetta hafi verið lagt fram í þingflokki Sjálfstfl, í þingbyrjun í haust. Frá þessu greindi ég í ræðu minni á mánudag. Það er alveg rétt sem fram hefur komið, að aðeins einn þm. flokksins gerði á þeirri stundu aths. og hafði fyrirvara um afstöðu sina til málsins. Þetta frv. var kynnt í mínum þingflokki með þeim hætti að það tók, að ég hygg, um það bil 5–10 mínútur í mesta lagi. Og þó að einstakir þm. séu ekki við því búnir á slíkum tíma að grípa efni þess eða skilja tilgang þess og þau stefnumið sem það felur í sér, þá er afstaða mín sú og ég vil láta það koma fram sem mína skoðun, að hver og einn þm. verður að hafa frjálsræði til þess að taka afstöðu í samræmi við þá skoðun sem hann mótar sér við betri athugun málsins. Ég held, að enda þótt svo fari að ýmsir af þm. Sjálfstfl. greiði þessu frv. atkv. ef til atkvgr. kemur, þá verði ekki allir sem geri það með glöðu geði, þeir verði sumir hverjir haldnir þeirri meinloku að þeir séu bundnir af þögn sinni á þingflokksfundi frá í haust og séu ekki frjálsir að því að framfylgja skoðun sinni. Þetta er algerleg!a misskilin afstaða og það er skýrt fram tekið í stjórnarskrá lýðveldisins að hver og einn alþm. skuli framfylgja og fara eftir sannfæringu sinni og engu öðru. Þetta tel ég að sé nauðsynlegt að menn hafi í huga. Og þó að hv. þm. Sverrir Hermannsson telji að minn bakfiskur sé laus í roði í sambandi við afstöðu til þessa máls, þá vil ég segja honum það, að ég tel það meiri staðfestu að fylgja eftir þeirri skoðun, sem maður hefur mótað sér við vandlega yfirsýn, og þora að láta reyna á það og sýna að maður stendur við afstöðu sina eftir að hafa skoðað mál af gaumgæfni, heldur en að greiða atkv. með máli sem maður hefur ekki sagt orð um, aðeins þagað yfir á þingflokksfundi í 5–10 eða 15 mínútur, og fylgja því svo hvað sem skoðun manns segir, bara af því að það er flutt af tilteknum ráðh. úr eigin flokki. Ég held að það sé meiri staðfesta og meiri bakfiskur í þeim manni sem þannig heldur á máli og það sé meiri drengskapur því samfara að fylgja þannig sinni sannfæringu, heldur en að draga sig inn í skelina og fylgja eftir forustumönnum síns flokks, ef maður sjálfur er sannfærður um að þeir vaði í villu.

Hv. þm. Sverrir Hermannsson hafði hér uppi nokkrar tilvitnanir, fyrst og fremst í formann flokksins fyrrv., Ólaf Thors, frá 1933. Út í það mál ætla ég mér ekki að fara hér. En ljóst er og það skal ég viðurkenna að Sjálfstfl. undir forustu Ólafs Thors og sumra annarra forustumanna hefur í einstökum tilvikum brotið í bága við frjálsræðishugsjónir flokksins í grundvallaratriðum, kannske í þessu einstaka dæmi og kannske á hinu svokallaða haftatímabili sem flokkurinn er því miður ekki algerlega hvítþveginn af, á dögum Fjárhagsráðs. En frá því að það ráð leið undir lok hefur flokkurinn að mínum dómi og eftir minni þekkingu ekki gengið út í það viðsjárverða fen að brjóta þessi grundvallaratriði í stefnu sinni. En allt annað sem hv. þm. Sverrir Hermannsson nefndi, það var algerlega á öðrum grundvelli en það frv. sem hér liggur fyrir. Allar þær skorður, sem reistar hafa verið við athafnafrelsi manna, svo að tekið sé t. d. afmarkað dæmi um bannið við veiðum á Selvogsbanka, sem hann varð fyrir barðinu á, — allar þær reglur, sem gilda í lögum um veiðar með botnvörpu og flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelginni, eru almennar. Þær ganga jafnt yfir. Þær eru sumar bundnar við ákveðnar stærðir skipa, þær eru bundnar við viss tímamörk, þær eru bundnar við ákveðna punkta frá grunnlínum eða ákveðnar breiddar- og lengdargráður, en allt er það almennt, en ekki til þess gert að gera upp á milli einstaklinga, útgerðaraðila eða fyrirtækja með ýmsum hætti, eins og þetta frv. bíður upp á. Alveg það sama gildir í sambandi við það sem hæstv. sjútvrh. rakti úr þeim almennu takmörkunum sem fólgnar eru í þessum lögum.

Ég skal ekki lengja mál mitt með því að fara að rekja þau dæmi sem hann tiltók, enda eru hér ýmsir hv. þm. inni sem eru þessum lögum kunnugri en ég og hafa staðið að því að semja þau. En t. d. skv. 10. gr. laganna, sem hæstv. ráðh. vitnaði í, er ráðh. heimilt að fenginni umsögn Hafrannsóknastofnunarinnar að veita nokkrar veiðiheimildir í fiskveiðilandhelginni auk annars sem nefnt er í lögunum. Allar þessar heimildir til veiða, sem hæstv. ráðh. hefur þar í sinni hendi, eru með þeim hætti að þær skulu lúta umsögn Hafrannsóknastofnunarinnar og raunar einnig, eins og segir í lok greinarinnar, Fiskifélags Íslands, og skulu miðaðar við það að fiskstofnum sé ekki ofboðið. Þær skulu miðaðar við að veiðar séu leyfðar að ákveðnu marki og með vissum takmörkunum, en þó ævinlega haft að leiðarljósi að fiskstofnum sé ekki stofnað í hættu, að þær gangi ekki það langt að hætta sé á ofveiði. Það er hvergi að finna í þessum lögum neitt um það að hæstv. sjútvrh. fái heimildir til þess að ráðstafa aflanum eftir að hann er veiddur, að hæstv. ráðh. fái í sínar hendur ráðstöfunarrétt á dauðum fiski og honum sé heimilað að skipa svo fyrir, að afla, sem veiddur er, sé ráðstafað til þessa fyrirtækis eða hins, hann sé seldur þessum fiskkaupanda, en ekki hinum, eins og boðið er með því frv. sem hér er á dagskrá. Það er þetta sem skilur á milli, og ég furða mig á því að svo skýrir menn sem hæstv, sjútvrh. og hv. þm. Sverrir Hermannsson, skuli bera sér í munn röksemdir af því tagi sem þeir hafa flutt í þessu máli og alls ekki geta staðist miðað við þær forsendur sem frv. um samræmda vinnslu sjávarafla og veiðar byggir á.

Þessum kafla í ræðum beggja þessara hv. ræðumanna er því fullsvarað með þessum orðum mínum, enda voru röksemdir þeirra algerlega út í hött.

Hæstv. sjútvrh. spurði, hvort ekki væri takmörkun á frelsi að það skuli þurfa að takmarka leyfi fyrir leigubifreiðar t. d. í Reykjavík. Víst er það takmörkun á frelsi, og það er eðlilegt að frelsinu séu settar skorður eins og ég hef rætt um. En ef það ætti að vera með svipuðum hætti og frv. um samræmda vinnslu sjávarafla býður, þá ætti samgrh. að fá heimild til þess að veita leyfi til aksturs leigubifreiða t. d. eftir borgarhlutum hér í Reykjavík eða hann fengi leyfi til þess að segja, að t. d. BSR mætti hafa á sínum vegum 50 leigubifreiðar, en Hreyfill 100 og Bæjarleiðir kannske ekki nema 10. Svo gæti næsti samgrh. snúið þessu öllu við. Menn verða að átta sig á að röksemdir af þessu tagi duga ekki. Og menn verða að átta sig á því að almennar skorður við frelsinu eru sjálfsagðar og réttlætanlegar, svo lengi sem þær ganga jafnt yfir og mismuna ekki þegnunum. En þegar stefnt er að því að setja löggjöf eins og þá sem hér er til umr., sem felur það í sér að tiltekinn ráðh., í þessu tilviki hæstv. sjútvrh., hver sem hann er á hverjum tíma, fær heimild til þess að mismuna þegnunum, mismuna atvinnufyrirtækjum, mismuna byggðarlögum, þá er stefnt í aðra átt. Það er þetta sem ég vil mótmæla, það er þetta sem ég er andvigur og það er þetta sem ég mun ekki samþ.

Hæstv. sjútvrh. sagðist vera orðinn ærið leiður á því hvað það frv., sem hér liggur fyrir, hafi dregist, þar sem enn stendur yfir 2. umr. þessa máls sem er nr. 33 í málaskrá þingsins. Ég skal gjarnan gangast við því að ég á kannske einhvern þátt í því að mál þetta hefur dregist. Ég hef í mínum flokki — og ég skal ekkert vera að rekja það sem þar fer fram — ég hef farið fram á að þetta frv. væri látið daga uppi. Ég hef farið fram á að það verði tekið til ítarlegrar athugunar ef það yrði ekki saltað. Og ég hef farið fram á það hvað eftir annað á meðan tilraunir hafa staðið yfir til að leysa þá rækjudeilu sem staðið hefur við Húnaflóa, að þetta mál yrði ekki tekið til umr. Það er kannske af þeim rótum sem orðið hefur verið við því að frv. hefur verið frestað fund eftir fund, enda þótt það hafi verið á dagskrá. Ég hef sem sé talið óheppilegt að hefja deilur um slíkt mál meðan verið væri að leitast við að ná sáttum í því viðkvæma deilumáli sem staðið hefur norður við Húnaflóa. Og ég held að það hafi verið skynsamlega gert af hæstv. forseta að fresta þessu máli meðan þær samningaumleitanir hafa staðið yfir. Ég skal sannarlega taka á mig minn þátt í því og hefði viljað að ég gæti tekið það á mig að þessu frv. yrði frestað til eilífðarnóns.

Hv. þm. Sverrir Hermannsson var næsta stórorður í sínu máli hér áðan og er það kannske ekki nýtt. Hann taldi ekki aldeilis að það væri verið að hverfa frá stefnu Sjálfstfl. Og hann taldi að það væri ekki mjög alvarlegt fyrir málefnalega stöðu einstakra þm. Sjálfstfl. þótt þeir styddu slíkt frv. Þetta er ofurskiljanlegt miðað við þau orð sem hv. þm. lét falla síðar í sinni ræðu. Hann sagði að með þessu frv. væri verið að forða mönnum frá óþægindum. Það væri verið að forða mönnum frá því að rífa augun hver úr öðrum, það væri verið að forða mönnum frá samkeppninni. Samkv. orðum og væntanlega skoðunum þessa hv. þm. er samkeppni og samkeppnisaðstaða orðin slíkur bölvaldur í íslensku þjóðfélagi að það þarf að hefta hana, það þarf að koma í veg fyrir hana til þess að menn stefni ekki út í ófæru, til þess að menn rífi ekki augun hver úr öðrum. Ég veit ekki hvort hv. þm. hefur orðið fyrir einhverri opinberun eða hvenær hann hefur fengið í sig þessar skoðanir. E. t. v. hefur haft áhrif á hann hin nýskipaða staða hans í vissri stofnun, en ég læt það liggja á milli hluta. En þessar skoðanir hafði ég ekki vænst að heyra af munni þessa hv. þm. (Grípið fram í: Er ekki rétt að reka hann úr flokknum?) Viljið þið taka við honum?

Ég ætla ekki hér að svara fyrir Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna eða Landssamband ísl. útvegsmanna. Það eru aðrir sem munu sjálfsagt gera það og stendur það nær, en mér sýnist að ýmislegt hafi verið ómaklega mælt í garð þessara samtaka.

Ég get ósköp vel skilið það að hæstv. sjútvrh. vilji gjarnan hafa náðugri daga en hann hefur haft að undanförnu. Það fylgir nú einu sinni ráðherradómi á Íslandi að hafa mikið að gera. Og ég held að við verðum að ætlast til þess af ráðh. okkar að þeir taki við því embætti, sem þeir gangast undir, með þeim erli og öllu því amstri sem því fylgir, en láti ekki verða eitt af sínum fyrstu verkum í ráðherrastóli að flytja frv. sem eiga að hafa það að markmiði að koma á skipulagi sem geti gert þeim þessi verk þægilegri á þann hátt að þeir verði ekki fyrir kvabbi einstaklinga eða forsvarsmanna fyrirtækja utan af landi, heldur geti þeir ráðið þessu allir upp á eindæmi og mælt fyrir um það sjálfir hvernig þessir einstaklingar og hvernig þessi fyrirtæki geti hagað sér í þjóðfélaginu. Ég held að við verðum að ætlast til þess að hæstv. ráðh. taki við sínu embætti á þennan hátt og reyni að standa undir þeim erli sem því fylgir. Það efast ég heldur ekkert um að hæstv. sjútvrh. mun gera.

Ég ætla ekkert að fara út í það sem sagt var hér um atvinnuástand á Blönduósi, annað en að það mætti vissulega vera blómlegra. Þar voru t. d. á síðasta ári greiddar um það bil tvöfalt hærri atvinnuleysisbætur en á Skagaströnd, og ég held að það sé ekki innlegg í þetta mál að þar sé svo gott og blómlegt atvinnulíf að þar sé ekki þörf nýrra fyrirtækja. Ég vísa því algerlega heim aftur til föðurhúsa hv. þm. Sverris Hermannssonar, að það séu ekki blöndósingar sem hafi haft áhuga á að koma upp þessu tiltekna fyrirtæki. Ég vil vísa því algerlega frá, en kannske lítur hann svo á að hann sé þar kunnugri en ég og verður hann þá sjálfsagt að hafa þá skoðun í friði mín vegna.

Ég skal ekki lengja þetta mál mitt. Ég þarf ekki að ítreka þau sjónarmið, sem fram komu í ræðu minni á mánudaginn var um það, hvers vegna ég greiði atkv. gegn þessu frv., aðeins segja að það býður upp á slíka mismunun af opinberri hálfu að ég get ekki samþ. að ganga þessa braut. Til viðbótar, sem ekki hefur nú verið minnst á í þessari lotu umr., þá er í seinni málsgr. 2. gr. frv. rætt um það að opinberum fjárfestingarlánasjóðum skuli tilkynnt um synjun á leyfisveitingum til stofnsetningar rækjuvinnslu og skelfiskvinnslustöðva. Þetta er auðvitað nýtt í þessu frv., að ráðh., hver sem hann er, skuli segja lánasjóðum fyrir um það hvort þeir skuli lána eða lána ekkí. Þetta er auðvitað einn þátturinn í þessu máli. Og ef um það væri að ræða að hafa af opinberri hálfu hömlur á stofnun slíkra fyrirtækja, þá væri þó nær að gera tilraun til stjórnunar á því gengum lánakerfi opinberra sjóða heldur en með boði og banni rn.

Ég skal svo ekki lengja þetta. Ég vænti þess að frv. þetta nái ekki fram að ganga á hv. Alþ. Ég held að með því væri opnuð slóð sem við vitum ekki hvert liggur, það væri opnað fyrir lagasetningu af slíkri gerð sem hér er á ferðinni, lagasetningu, sem mætti beita af meiri óprúttni en þó er gert hér, og þar með lagasetningu sem væntanlega gæti haft í för með sér stórlega lamandi áhrif á allt atvinnulíf íslenskrar þjóðar.