06.03.1975
Sameinað þing: 47. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2158 í B-deild Alþingistíðinda. (1720)

317. mál, verkaskipting ríkis og sveitarfélaga

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Eins og hv. fyrirspyrjandi gat um var skipuð fyrir nokkru n. manna til endurskoðunar á sveitarstjórnarlögum og verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Þessi n. var skipuð 20. sept. 1973 af þáv. félmrh. Formaður þeirrar n. er Hjálmar Vilhjálmsson fyrrv. ráðuneytisstjóri. Í grg. frá n. í sambandi við fsp. hv. þm. segir svo m. a.:

„Á fundum n. hefur skýrsla um verkaskiptingu ríkis, sveitarfélaga og landshlutasamtaka sveitarfélaga, sem gerð var að tilhlutan Sambands ísl. sveitarfélaga, verið rædd nokkuð ítarlega. Einnig hafa nm. kynnt sér tilhögun þessara mála á hinum Norðurlöndunum. Í framhaldi af þessu setti n. fram í frv.- formi hugmyndir um fylkjaskipun, nafnbreytingu á landshlutasamtökum, þar sem fylkin eru lögbundin á þann hátt að heimilt var að fela fylkjum nánar tiltekin stjórnsýsluverkefni, sem nú eru í höndum ríkis, sveitarfélaga eða sýslunefnda, jafnframt því sem kosningafyrirkomulagi til fylkisþinga yrði breytt til lýðræðislegra hátta. Hugmyndir þessar voru kynntar á síðasta landsþingi Sambands ísl. sveitarfélaga.“

Í þessum drögum að frv. er rætt um og gert ráð fyrir því, að hvert kjördæmi fyrir sig verði fylki, um hlutverk fylkjanna, um fylkisþing, kosningar til þeirra, um fylkisstjórn o. s. frv.

Verkaskipting sveitarfélaganna hefur verið ofarlega á dagskrá með þjóðinni nú um margra ára skeið. Árið 1970 gaf Samband ísl. sveitarfélaga út bækling sem hafði að geyma till. og grg, um verkefnaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, en um það mál hafði áður verið fjallað á tveimur fulltrúaráðsfundum sambandsins árið 1969. Samband ísl. sveitarfélaga hélt svo áfram þessari athugun mála og í nóv. 1973 gaf sambandið síðan út mjög ítarlega og vel unna grg. um þetta málefni. Í þeirri prentuðu grg. eru í lokin dregnar saman till., 100 að tölu, sem sýna viðhorf Sambands ísl. sveitarfélaga til þessara mála. Sú vinna, sem Samband ísl. sveitarfélaga hefur lagt í þetta verk, er ákaflega mikilvæg og verður grundvöllur að því starfi, sem nú er verið að vinna, og þeim úrlausnum, sem væntanlega verða fundnar í þessu máli.

Þegar núv. ríkisstj. var mynduð var m. a. tekið svo hljóðandi ákvæði inn í stefnuyfirlýsingu ríkisstj. eða stjórnarsáttmála:

„Sveitarfélögum séu falin aukin verkefni og fjárhagslegur grundvöllur þeirra endurskoðaður til þess að tryggja sjálfstæði þeirra og framkvæmdagetu.“

Ég tek undir þau orð hv. fyrirspyrjanda, að hér er um eitt af mikilvægustu málefnum þjóðfélagsins að ræða. Það þarf að dreifa valdinu í þjóðfélaginu, og enginn vafi er á því að því marki, sem þar er að stefnt, verður m. a. náð og það að mörgu leyti á hyggilegan og markvissan hátt með því að fela sveitarfélögunum fleiri verkefni en nú er. Málum er þannig háttað nú, að sum verkefni annast ríkið eitt og önnur verkefni annast sveitarfélögin eingöngu. En ríkið og sveitarfélögin hafa einnig með höndum fjölmörg verkefni sameiginlega, og þróunin virðist hafa verið sú, að samaðild ríkis og sveitarfélaga að verkefnum hefur farið vaxandi. Samaðild ríkis og sveitarfélaga hefur vissa kosti eða að mínu áliti hefur hún fleiri ókosti. Ókostir samaðildar virðast einkum þeir, svo að ég vitni m. a. í álit sambands sveitarfélaganna, að hætt er við að hvorugur aðill finni til fullrar ábyrgðar á ákvörðun um framkvæmd verkefnis. Kostnaðaruppgjör verða oft flókin og fyrirhafnarmikil, framkvæmdaaðilinn þarf að innheimta hjá gagnaðilanum hlut hans í kostnaðinum, gagnaðilinn hefur erfiða aðstöðu til eftirlits með framkvæmd. Samaðild felur í sér að ekki fer saman fjármálaábyrgð og framkvæmdaábyrgð, eins og komist er að orði í þessu nál. Sambands ísl. sveitarfélaga.

Hér er ekki tími til þess að fara ítarlega út í það, hvaða verkefni það eru sem æskilegast er að flytja frá ríkinu til sveitarfélaganna. En meginsjónarmið í þessari endurskoðun hljóta að verða þau, að verkaskiptingin verði gerð einfaldari og gleggri en nú er, að sameiginlegum verkefnum ríkis og sveitarfélaganna yrði fækkað, að stefnt verði að því að fleiri verkefni en nú er séu falin sveitarfélögunum eða samtökum þeirra. Í þessu sambandi er það ákaflega mikilvægt að stefnt sé að því að frumkvæði, framkvæmd og fjármálaábyrgð sé á einni og sömu hendi. Því miður er svo háttað nú um fjölda mikilvægra mála, að í rauninni er óljóst hvort ríkisvaldið eða sveitarfélögin eiga að hafa þar frumkvæði að. Oft truflar það og tefur framkvæmdir, að slík samaðild á sér stað og ábyrgðin dreifist um of. Fyrir því er þetta atriði, að hafa hreinni línur en nú er og að ábyrgðin sé fyrst og fremst á einum aðila, en ekki tveimur, eitt það mikilvægasta í sambandi við þessa endurskoðun alla. Það er fjöldi verkefna, sem hér kemur til skoðunar, eins og rakið er í hinum 100 till. Sambands ísl. sveitarfélaga.

Að því er meðferð þessara mála nú viðvíkur, þá vil ég taka fram að þessi mál hafa verið í vandlegri athugun og skoðun í félmrn. og að því er stefnt, að unnt verði að leggja fyrir næsta reglulegt þing frv. um nýja verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og um tekjustofna sveitarfélaganna, því að það er atriði sem ekki má gleymast, að um leið og verkefni eru færð yfir til sveitarfélaganna þarf að tryggja sveitarfélögunum næga tekjustofna. Í því sambandi kemur einnig annað atriði til, og það er þetta, að stefna verður að því að sveitarstjórnir verði óháðari ríkisvaldinu en nú er varðandi fjáröflun og að þær fái meira svigrúm til tekjuöflunar en nú er.