06.03.1975
Sameinað þing: 47. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2160 í B-deild Alþingistíðinda. (1722)

321. mál, bættar vetrarsamgöngur

Fyrirspyrjandi (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Á þskj. 261 hef ég leyft mér að bera fram svofellda fsp. til hæstv. samgrh.:

„Hvað líður framkvæmd þál. frá 26. mars 1374 um bættar vetrarsamgöngur í snjóþungum byggðarlögum og könnun á hagkvæmri og stórvirkri snjóruðningstækni?“

Ályktunin, sem þessi fsp. er út af, hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að endurskoða reglur, sem gilda um snjóruðning af vegum, með það í huga að bæta vetrarsamgöngur í snjóþungum byggðarlögum og auka öryggi sjúkraflutninga, auðvelda flutninga barna í skóla auk mann- og vöruflutninga í þessum byggðarlögum. Ríkisstj. er falið að kanna hagkvæmni þess að afla nýtískulegra og öflugra tækja, sem tíðkast í öðrum löndum, til þess að koma þessari stefnu í framkvæmd.“

Það fer ekki á milli mála, að reynslan á þessum vetri sannar að þessi þál. var í fyllsta máta tímabær. Mönnum er í fersku minni að miklar truflanir urðu á samgöngum langtímum saman í ýmsum landshlutum s.l. mánuði vegna snjóa, og kom þá greinilega í ljós að við erum mjög vanbúnir að mæta slíkum vandamálum. Þrátt fyrir það að öll tæki, sem voru tiltæk, voru látin vinna allan sólarhringinn, var það sums staðar svo að verulegt tjón má telja af, t. d. í sveitum landsins, að ekki var hægt að komast leiðar sinnar á landi.

Nú er það svo, að flestir eru þeirrar skoðunar að það beri að reyna að bæta um á þessu sviði með því að byggja upp vegina, eins og kallað er, gera þá þannig úr garði að þeir verji sig sjálfir fyrir snjó. Á hinn bóginn er það, að hér er um gífurlega mikið vandamál að ræða, og eins hitt, að við búum á þeim stað á hnettinum að það verður áreiðanlega seint sem við getum ekki vænst þess að það verði miklar truflanir í samgöngum á landi vegna snjóa.

Það er áreiðanlegt að það er dýrast í þessu sambandi að vera vanbúinn að tækjum og verða að sæta því að verulegar truflanir verði á framleiðslustörfum í ýmsum landshlutum vegna samgönguleysis. Ég vil í þessu sambandi benda t. d. á það, að í umdæmi Vegagerðar ríkisins á Akureyri, sem sér um 500 km. vegalengd, kostaði snjóruðningur um 1.7 millj. kr. á sólarhring þegar snjórinn var mestur í vetur og þar voru tæki að verki, vegheflar, stórir vegheflar og önnur tæki, sem voru þó ekki betri en það að þau réðu sáralítið við þennan mikla snjó. Aftur á móti hafði þessi deild Vegagerðarinnar yfir að ráða einum snjóblásara sem afkastaði meira en fimmföldu magni af snjóruðningi miðað við þessi önnur tæki, sem Vegagerðin hafði, en kostnaður við snjóblásarann er ekki miklu meiri en við önnur tæki. Þetta sýnir að það, sem kemur hér fram í þessari þál., er fyllilega tímabært, að ríkisstj. kanni hvort ekki sé rétt að afla fleiri slíkra tækja, sem eru ekki nærri eins kostnaðarsöm miðað við afköst, og þau tæki sem víðast eru notuð nú.