06.03.1975
Sameinað þing: 47. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2167 í B-deild Alþingistíðinda. (1727)

322. mál, vetrarsamgöngur á Austurlandi

Fyrirspyrjandi (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. samgrh. ágæt svör. Ég fagna yfirlýsingum hans um stóraukið framlag til snjómoksturs og nýrra reglna þar að lútandi. Ég lýsi því yfir, að ég er reiðubúinn til þess að standa að því að gera vel við Vegagerð ríkisins til þess að hún geti sem best gegnt hlutverki sínu og átt sjálf sem hagkvæmastan tækjakost.

Varðandi svör við einstökum atriðum fsp. minnar, þá er það í fyrsta lagi, að hæstv. ráðh. nefndi í sínu svari að Vegagerðin hefði sent tvö verkfæri austur á land í snjóunum. Sannleikurinn var sá um verkfæri þessi bæði, veghefilinn og jarðýtuna, að hvorugt þeirra nýttist að nokkru, og sannaði það einmitt að nýrra vinnubragða og nýrra tækja var þörf. Sem sagt, þessi sending var til einskis að mínu viti.

Varðandi annan liðinn og rekstur snjóbílanna, þá álít ég að þótt Vegagerðinni sé ekki skylt að taka að sér þennan rekstur eða annast hann eða kaupa slíka snjóbíla, þá sé þarna beinlínis spurning um sparnað hjá Vegagerðinni með því að hafa samvinnu við þá aðila, því að snjóbílar, sem nú eru fullkomnastir, geta hreinlega lagað til fyrir sér á þann hátt að Vegagerðin þarf þar ekki nærri að koma, jafnvel þó að yfir erfiða fjallvegi sé að fara. Ég veit dæmi þess að Vegagerð ríkisins greiðir þegar ákveðið gjald til snjóbíla af þessu tagi, vegna þess að hún þarf ekki að leggja í neinn kostnað yfir hæsta fjallveg landsins, yfir Oddsskarðið, vegna þess að hún þarf ekki á því að halda að laga til fyrir þennan fullkomna snjóbíl sem þangað er kominn, en er vissulega dýr og erfiður í rekstri fyrir þann aðila, sem stendur að rekstri hans og gerir það mjög myndarlega. Þess vegna tel ég enga goðgá að Vegagerð ríkisins athugi mjög rækilega hvort hún eigi ekki einmitt að fara inn á þessa braut að einhverju leyti og það muni verða um stóran sparnað að ræða hjá Vegagerðinni einmitt, en ekki kostnað, ef hún færi inn á þessa braut.

Ég fagna viðbrögðum ráðh. varðandi síðasta liðinn í sambandi við athugun á sjóleiðinni, að stjórn Ríkisskips hafi verið falið þar ákveðið verkefni og einnig sé n. í málinu sem vonandi gerir þá eitthvað, því að vissulega þarf að hafa þá leið í huga og sýna henni fullan sóma.

Að lokum ítreka ég það aðeins, að ég er sannfærður um að þau snjóruðningstæki, sem duga okkur eitthvað, eru snjóblásarar, og ég er viss um það að það er rétt, sem Einar Þorvarðsson segir um þetta mál, að ef austfirðingar eiga að vera nokkuð öruggir hvað þetta snertir og ekki verður farið neitt út í það að styrkja frekar rekstur snjóbílanna þarna austur frá, þá þurfi a. m. k. tvo snjóblásara í viðbót, og þá góða á Austurland, svo við getum búið við sæmilegt öryggi í þessum efnum.